2010–2019
Aðferð Drottins
Apríl 2013


Leið Drottins

Leið Drottins er sú, að við hlustum á kennslu leiðtoga okkar, skiljum réttar reglur og stjórnum okkur sjálf.

Hinir Sjötíu

Ég þjóna sem einn hinna Sjötíu. Hinir Sjötíu eru kallaðir til að vera boðberar — til að deila orði Drottins eins og við meðtökum það frá postulum, spámönnum og með andanum og vera sérstök vitni um nafn Krists við boðun fagnaðarerindisins um allan heim, byggja upp kirkjuna og stjórna málum hennar (sjá K&S 107:25, 34).

Sveitastrákur

Ég ólst upp á sveitarbæ nálægt Burley, Idaho — sannkallaður og raunverulegur „Idaho sveitastrákur!“ Sem slíkur lærði ég:

  1. Að vinna — ef ekki er sáð, þá er engin uppskera.

  2. Að vinna af skynsemi — ef vökvað er og áburður notaður, þá er uppskeran meiri.

  3. Mikilvægi tímasetningar — sé ekki sáð á réttum tíma og haustið kemur snemma er hætta á að uppskeran skemmist.

  4. Að gera það sem þarf að gera eða ætti að gera, sama hvort það er gaman, æskilegt eða þægilegt — maður mjólkar kúna þegar hún þarfnast þess, ekki þegar manni sjálfum hentar.

  5. Að vera hreinskilinn — þegar kemur að búfénaði eða vélakosti er ekki tími til að „tala undir rós– eða hafa áhyggjur af stjórnsemi. (Hvaða þetta varðar hef ég oft spurt þegar ég hef þjónað í kirkjunni: „Viltu að ég tali hreint út eða viltu það sykurhúðað?“ Oftar en ekki vilja hinir heilögu „hreinskilni!“ Ég verð hreinskilinn í dag.)

  6. Að lokum, sem sveitastrákur í Idaho lærði ég að halda mig við grundvallaratriðin.

Ekkert er meira grundvallaratriði fyrir okkur og kenningar okkar en fyrsta Trúaratriðið: „Vér trúum á Guð, hinn eilífa föður, og á son hans, Jesú Krist, og á heilagan anda“ (Trúaratriðin 1:1).

Ennfremur, hann er faðir okkar á himnum, sem þekkir okkur, elskar okkur og þráir að við fáum að nýju dvalið hjá honum. Jesús er frelsari okkar og lausnari, sem með friðþægingu sinni tryggði að við gætum yfirstigið dauðann og lifað á ný og gerði okkur mögulegt að verða upphafin og hljóta eilíft líf. Heilagur andi er huggari okkar, opinberari, kennari, vottur og leiðbeinandi.

Hugsið ykkur, bræður og systur — við erum ekki andlega munaðarlaus! Við erum ekki einsömul.

Hverjir eru kostirnir við að eiga foreldra — að vera ekki munaðarleysingjar? Við getum lært af þeim, reynsla þeirra er okkar hagur, komist hjá gryfjunum sem þau vara okkur við og öðlast betri skilning vegna yfirsýnar þeirra. Við þurfum ekki að vera ráðvillt, ringluð, blekkt eða áhrifalítil. Þetta er sérstaklega rétt þegar kemur að okkar himneska föður, sem hefur kennt okkur og sýnt, ekki bara einhverja leið, heldur sjálfa leiðina.

Guð þekkir leiðina

Guð veit í raun hvernig á að lifa,1 að elska,2 að hjálpa,3 að biðja,4 að tala,5 að eiga gagnkvæm samskipti,6 að stjórna,7 að giftast,8 að ala upp börn,9 að læra,10 að bera kennsl á sannleikann,11 að miðla fagnaðarerindinu,12 að velja af skynsemi hvers við neytum,13 o.s.frv.

Upplýsingar um leið Drottins er að finna í ritningunum og í ritunum Sannir í trúnni, Til styrktar æskunni og annarri kennslu lifandi postula og spámanna.

  1. Til dæmis kennir Drottinn okkur í ritningunum: „Já mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir. Og yðar vegir eru ekki mínir vegir ‒ segir Drottinn.“ „Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum“ (Jes 55:8–9).

  2. Ein illska nútímans er, að „hver maður [gangi] sína eigin leið“ (K&S 1:16). Í Orðskviðunum erum við vöruð við: „Reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit“ og „þú skalt ekki þykjast vitur“ (sjá Okv 3:5–7).

  3. Okkur er kennt, að ef við fylgjum leið Drottins, þá er hann bundinn því að blessa okkur og við eigum rétt á loforðum hans, en ef við fylgjum ekki leið hans, þá eigum við ekkert loforð (sjá K&S:10).

  4. Þegar Drottinn var að þjálfa spámanninn Samúel, sem sendur var til að finna nýjan konung, bar hann saman sína leið og okkar aðferð: „En Drottinn sagði við Samúel:, Lít þú ekki á skapnað hans og háan vöxt, því að ég hefi hafnað honum. Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað“ (1 Sam 16:7).

  5. Jafnvel í tengslum við þá þrá sem viðurkennd er um allan heim, að hjálpa hinum fátæku og þurfandi, varar Drottinn okkur við, þótt hann sé sammála markmiði okkar: „En það verður að gjörast á minn hátt“ (K&S 104:16). Annars gætum við í raun skaðað þá með framlagi okkar. Drottinn hefur kennt okkur þörfina á að vera sjálfbjarga. Jafnvel þótt við getum aðstoðað ættum við ekki að gefa eða bjóða það sem þau geta og ættu að gera sjálf. Heimurinn upplifir galla þess að gefa án þess að vænta nokkurs á móti, alls staðar þar sem það er reynt. Vissulega veit Guð best.

Við skulum skoða önnur dæmi. Leið Drottins til að vinna trúboðsstarf. Þá leið er að finna í ritningunum og í Boða fagnaðarerindi mitt og henni er fylgt eins og andinn býður.

Drottinn hefur sína leið eða leiðina til að elska. Þeir sem eru af heiminum segja að allt sem skipti máli sé að tveir einstaklingar elski hvor annan. Faðir okkar á himnum kennir okkur að þetta er mikilvægt, en hann kennir okkur meira: Að það er heimiluð leið og tími til að tjá þessa ást.

Stjórna okkur sjálfum

Joseph Smith voru kenndar leiðir Drottins í æsku. Þegar hann var spurður að því hvernig hann leiddi kirkjuna, sagðist hann kenna meðlimum réttar reglur og þeir stjórnuðu sér sjálfir.14Bræður og systur, lifandi postular okkar og spámenn kenna enn réttar reglur. Spurningin er: „Notum við reglurnar til að stjórna lífi okkar?“

Eitt af því sem okkur hefur oft verið kennt, er að blómstra þar sem við erum gróðursett . Samt freistumst við stundum til að flytja á nýjan stað, höldum að börnin okkar eignist fleiri vini og þar af leiðandi betri Ungmennasamtök.

Bræður og systur, höldum við virkilega að úrslitaþátturinn í sáluhjálp barna okkar sé nágrennið þar sem við búum? Postular og spámenn hafa oft kennt, að það sem gerist inni á heimilinu sé miklu mikilvægara en það sem börnin upplifa utan þess. Hvernig við ölum upp börn okkar er miklu mikilvægara en hvar við ölum þau upp.

Auðvitað eru aðrir þættir sem taka þarf til greina þegar ákveða á búsetu, og sem betur fer mun Drottinn leiðbeina okkur, ef við leitum staðfestingar hans.

Önnur spurning er: „Hvar er okkar þörf?“ Í 16 ár þjónaði ég í forsætisráði norður stikunnar í Houston, Texas. Margir fluttust á svæðið á þessum árum. Við fengum oft símhringingu þar sem tilkynnt var að einhver væri að flytja á svæðið, og spurt hver væri besta deildin. Einungis einu sinni á þessum 16 árum fékk ég símhringingu þar sem spurt var: „Hvaða deild þarf á góðri fjölskyldu að halda? Hvar getum við best aðstoðað?“

Á fyrri árum kirkjunnar kallaði Brigham Young forseti og aðrir, meðlimi til að fara á ákveðinn stað og byggja upp kirkjuna þar. En jafnvel í dag höfum við trúfasta meðlimi kirkjunnar um allan heim sem myndu fara hvert sem er, ef spámaðurinn bæði þau þess. Gerum við virkilega ráð fyrir því að Monson forseti segi sérhverju okkar, rúmlega 14 milljónum talsins, hvar þörf er á fjölskyldu okkar? Leið Drottins er sú, að við hlustum á kennslu leiðtoga okkar, skiljum réttar reglur og stjórnum okkur sjálf.

Sérstaklega mikilvægt

Í tengslum við allt sem er að gerast í kirkjunni í dag, og nú er Drottinn hraðar verki sínu á alla vegu, þá er jafnvel enn mikilvægara og skiptir öllu máli, að við gerum allt sem við gerum samkvæmt hans leið!

Í starfi sáluhjálpar lærum við sérstaklega, að „með því að gefa son sinn hefur Guð fyrirbúið enn betri leið“ (Eter 12:11). Kenning Krists „er vegurinn, og enginn annar vegur er til og ekkert annað nafn gefið undir himninum, sem frelsað getur manninn í Guðs ríki“ (2 Ne 31:21).

Lokaorð

Þegar ég sé hina mörgu ráðvilltu í heiminum í dag, eða það sem verra er, þá sem ráfa á forboðnar slóðir og þjást að óþörfu vegna afleiðinganna af slæmu vali sínu, þá langar mig að hrópa eins og Alma:

„Ó, að ég væri engill og sú ósk hjarta míns mætti uppfyllast, að mér leyfðist að stíga fram og tala með gjallarhorni Guðs, með röddu, sem kæmi jörðinni til að nötra og vekti alla menn til iðrunar!

Já, með þrumuraust mundi ég boða sérhverri sál … endurlausnaráætlunina – boða, að þær skuli iðrast og koma til Guðs [og hans leiðar], þannig að engin sorg yrði framar til á yfirborði jarðar“ (Alma 29:1–2).

Ég ber því aftur vitni að Drottinn þekkir leiðina! Himneskur faðir þekkir okkur, elskar okkur og þráir að hjálpa. Hann veit best hvernig hjálp skal. Við erum ekki andlega munaðarlaus!

Frelsari okkar, Jesús Kristur, er „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóh 14:6; sjá einnig Alma 38:9). Leið hans er grundvölluð á eilífum sannleika og leiðir okkur til „[friðar] í þessum heimi og [eilífs lífs] í komanda heimi“ (K&S 59:23). Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.