2010–2019
Ykkar heilögu staðir
Apríl 2013


Ykkar heilögu staðir

Hvort sem [ykkar heilögu staðir] eru staðbundnir eða líðandi stund, eru þeir jafn heilagir og búa yfir óumræðanlegu styrkingarafli.

Sameiginlegt þema okkar í Ungmennasamtökunum árið 2013 er tekið úr 87. kafla Kenningar og sáttmála. Boð þetta er að finna í þremur köflum Kenningar og sáttmála. Þessi aðvörun er augljóslega mikilvæg. Hún tilgreinir hvernig við getum notið verndar og hlotið styrk og frið á örðugum tíðum. Hið innblásna boð er: „Standið ... á heilögum stöðum og haggist ekki.“1

Þegar ég hef hugleitt þetta þema, finn ég mig knúna til að ígrunda: „Hverjir eru þessir ‚heilögu staðir‘ sem himneskur faðir vísar til?“ Ezra Taft Benson sagði: „Heilagir staðir eru musterin okkar, kirkjubyggingar, heimili okkar, og stikur í Síon, sem eru, ... ‚vörn og athvarf.‘ “2 Ég held að við getum öll fundið mun fleiri heilaga staði, auk þessara tilgreindu staða. Í fyrstu gætum við litið á hugtakið staður sem efnislega umgjörð eða landfræðilega staðsetningu. En staður getur þó verið „ákveðið ástand, staða eða hugarástand.“3 Það merkir að heilagir staðir geta líka verið líðandi stundir ‒ þær stundir er heilagur andi vitnar fyrir okkur, þær stundir er við finnum elsku himnesks föður eða þær stundir er við hljótum bænasvör. Ég trúi jafnvel líka, að í hvert sinn sem þið hafið hugrekki til að taka afstöðu til þess sem rétt er, einkum við aðstæður þar sem enginn annar gerir það fúslega, séuð þið að skapa heilagan stað.

Alla sína stuttu en stórbrotnu ævi, stóð Joseph Smith sannlega „á heilögum stöðum“ og lét ekki haggast. Þegar hann var unglingur átti hann í innra stríði út af trúartogsteitu í samfélagi sínu og þráði að vita hvaða kirkja af öllum væri sönn. Skógarlundur nærri heimili hans varð að heilögum stað, er hann kraup þar og flutti bæn til himnesks föður. Hann var bænheyrður og nú líta Síðari daga heilagir á þann skógarlund sem heilagan.

Stúlkur víða um heim standa á heilögum stöðum í náttúrunni í Stúlknafélagsbúðum. Leiðtogi sagði frá reynslu einnar stúlkunnar. Stúlka þessi var lítt virk, og hafði ekki mikla trú á að hún hlyti andlega reynslu í skóginum. Að loknum fyrsta deginum, sagði hún við leiðtoga sinn: „Mér finnst mjög gaman, en það væri í lagi að sleppa allri umræðu um andann? Ég er hér til að njóta búðanna, náttúrunnar, vinkvenna minna og skemmta mér!“ En í lok vitnisburðarsamkomu, sagði þessi sama stúlka með tár í augum: „Ég vil ekki fara heim. Hvernig get ég fundið það sem ég finn einmitt nú, þennan anda, stöðugt í hjarta mínu?“ Hún hafði uppgötvað heilagan stað.

Annar heilagur staður í lífi Josephs Smith var svefnherbergið hans. Því kann að vera erfitt að trúa, því hann deildi svefnherbergi með systkinum sínum, líkt og margar ykkar gera. Það varð að heilögum stað þegar hann flutti bæn í mikilli trú, auðmýkt og neyð. Hann útskýrði: „Þegar ég var genginn til hvílu, [hóf ég] að ákalla almáttugan Guð og biðja um fyrirgefningu á öllum syndum mínum og heimsku.“4 Árin þrjú sem liðið höfðu frá því að Joseph Smith hafði séð sýnina í Lundinum helga, höfðu ekki verið honum auðveld.Sautján ára gamall þurfti Joseph að takast á við endalaust háð og spott og aðkast. En nótt þessa birtist engillinn Moróní í svefnherbergi Josephs, sem svar við bænum hans. Joseph hlaut þekkingu og huggun. Svefnherbergi hans varð að heilögum stað þessa nótt.

Ég sá annað svefnherbergi verða að heilögum stað, er ég horfði á boðskap mormóna fyrir æskufólkið. Vídeóið sýnir Ingrid Delgado, stúlku frá El Salvador, lýsa tilfinningum sínum til musterisins. Hún sagði: „Gott er að vita að við eigum stað til að fara á, til að komast frá því sem heimsins er og taka á móti helgiathöfnum og hjálpa þeim sem ekki gátu tekið á móti þeim í þessu lífi.“ Meðan Ingrid talar er hún sýnd lesa ritningarnar, umlukt myndum af Mormón, tilvitnunum, ritinu Eigin framþróun, myndum af fjölskyldu hennar og musterinu, og líka tuskudýrum sem hún hefur dálæti á.5 Hún hefur skapað sinn heilaga stað, hugsanlega án þess að gera sér það ljóst, þar sem hún getur verið í næði frá því sem heimsins er. Ég velti fyrir mér hve oft Ingrid hefur lesið í ritningunum, fundið andann, og hlotið bænheyrslu á þessum heilaga stað.

Enn annar óvæntur heilagur staður í lífi Josephs Smith var Liberty-fangelsið. Öldungur Jeffrey R. Holland sagði: „Enginn tími í lífi Josephs var honum erfiðari en þessi grimmilega, ólögmæta og óréttláta varðhaldsvistun.“6 Öldungur Holland sagði líka að nú væri litið á Liberty-fangelsið sem „fangelsismusteri,“ sökum hinnar andlegu reynslu sem spámaðurinn Joseph Smith hlaut þar.6

Sumar ykkar ungu kvenna kunna að upplifa ykkar eigið Liberty-fangelsi, stað þar sem þið upplifið niðurlægingu, stað þar sem þið finnið enga ástúð, stað þar sem þið eru hæddar, þjakaðar eða jafnvel líkamlega skaðaðar. Ykkur, ungu konum, færi ég orð öldungs Hollands: „Þið getið hlotið helga, upplýsandi og innilega reynslu með Drottni á ömurlegustu reynslustundum lífs ykkar, ... er þið þolið sársaukafullt óréttlæti, og upplifið mesta mótlæti ykkar og andstreymi.“7Þið getið með öðrum orðum, líkt og spámaðurinn Joseph Smith, skapað og staðið á „heilögum stöðum,“ jafnvel á erfiðustu stundum lífsins.

Ung kona að nafni Kirsten sagði mér frá sársaukafullri reynslu sinni. Skólinn hafði verið hennar Liberty-fangelsi. Sem betur fer varð hljómsveitarherbergið hennar skjól. Hún sagði: „Þegar ég gekk inn í það herbergi, var líkt og ég væri komin á öruggan stað. Þar voru engar niðulægjandi eða smánandi aðfinnslur, ekkert guðlast. Þess í stað voru þar hvatningar og kærleiksorð. Við sýndum góðvild. Þetta var gleðiríkur staður. Andinn fyllti hljómsveitarherbergið þegar við æfðum og spiluðum. Herbergið var að mestu þannig vegna áhrifa hljómsveitarstjórnandans. Hann var góður kristinn maður. Þegar hugsa til baka, sé ég skólann sem þroskandi stað. Hann var erfiður, en ég lærði þolgæði. Ég verð ætíð þakklát fyrir athvarfið mitt, minn heilaga stað, hljómsveitarherbergið.“8

Hafið þið íhugað ykkar heilögu staði í kvöld? Ég hef beðið hundruð ungra kvenna að segja mér frá sínum heilögu stöðum. Hvort sem þeir staðir eru staðbundnir eða líðandi stundir, eru þeir jafn heilagir og búa yfir óumræðanlegu styrkingarafli. Hér eru níu þeirra ljúfu svara:

  • Fyrsta: „Ég var á sjúkrahúsinu með nýfæddan bróður minn í fanginu.“

  • Annað: „Í hvert sinn er ég les patríarkablessun mína, finnst mér ég þekkja og elska himneskan föður minn.“

  • Þriðja: „Þegar ég varð tólf ára skreyttu stúlkurnar í deildinni hurðina mína með pappírshjörtum.9 Mér fannst ég elskuð, velkomin og hamingjusöm!“

  • Fjórða: „Þegar ég dag einn las ritningarnar, ‚hrópaði‘ ritningargrein á mig. Ég hafði hlotið bænheyrslu.“

  • Fimmta: „Ég fór í partý, þar sem fólk var við drykkju og tók þátt í öðrum óviðeigandi athöfnum. Andinn bauð mér að fara út og heim. Ég gerði það, jafnvel þótt það hefði félagslegar afleiðingar. Sú stund veitti mér hins vegar nauðsynlegt sjálfstraust til að vita að ég gæti lifað eftir fagnaðarerindinu.“

  • Sjötta: „Við meðtöku sakramentis, er ég hugsaði um friðþæginguna, varð mér ljóst að ég þyrfti að fyrirgefa manneskju sem ég var reið út í. Ákvörðun mín um að fyrirgefa var jákvæð breytni sem færði friðþæginguna í mitt daglega líf.“

  • Sjöunda: „Eftir að hafa sótt atburðinn Nýtt upphaf með móður minni, kyssti hún mig á kinnina og sagðist elska mig. Þetta var í fyrsta sinn svo langt sem ég man sem hún gerði það.“

  • Áttunda: „Ég vissi, með fullvissu biskups míns, að loforðið í ritningunum væri sannleikur: „Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll.“10 Ég fann von og vissi að ég gæti hafið erfitt ferli iðrunar.“

  • Níunda: „Kvöld eitt taldi ég í mig kjark til að segja bestu vinkonu minni frá tilfinningum mínum um fagnaðarerindið og Mormónsbók. Síðar naut ég þeirra forréttinda að vera við skírn hennar. Nú förum við saman í kirkju.“

Ég ætla að segja ykkur frá einum af mínum heilögu stöðum. Eitt sinn var ég úrvinda, óttaslegin og afar einmana. Ég flutti bæn í hljóði: „Himneskur faðir, ég veit ekki hvernig ég á að gera þetta. Ég bið þig að hjálpa mér?“ Stuttu síðar kom einstaklingur óvænt til mín, lagði hönd á herðar mínar og veitti mér einlæg hvatningarorð. Á þeirri stundu fann ég frið. Mér fannst ég virt viðlits. Allt hafði breyst. Orð Spencers W. Kimball forseta komu í huga minn: „Guð gefur okkur gaum, og hann vakir yfir okkur, En það er venjulega fyrir tilverknað annarra sem hann uppfyllir þarfir okkar.“11 Á þeirri stundu fannst mér heilagur staður hafa myndast.

Kæru ungu systur, það eru óteljandi aðrir heilagir staðir, sem ég vildi að við gætum miðlað hver annarri. Þegar þið snúið heim kvöld, hvet ég ykkur til að skrá í dagbók ykkar þá staði sem þið munið eftir og álítið heilaga. Mér er ljóst að þúsundir ykkar standa þegar á heilögum stöðum. Þessir staðir veita ykkur vernd, styrk og frið á erfiðum tímum. Vitnisburðir ykkar eru að styrkjast, því þið standið fyrir sannleika og réttlæti á stórbrotinn hátt.

Þið, hið göfuga æskufólk kirkjunnar, eruð hetjurnar mínar. Ég elska ykkur. Ég skynja óumræðanlega elsku himnesks föður til ykkar og ég ber ykkur vitni um að fagnaðarerindi Jesú Krists er sannleikur. Hann bíður þess óðfús að hvetja ykkur, er þið „standið ... á heilögum stöðum og haggist ekki.“ Ég elska og styð Thomas S. Monson forseta, okkar sanna og hvetjandi spámann. Ég segi það í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Kenning og sáttmálar 87:8; Sjá einnig: K&S 45:32; 101:22.

  2. Ezra Taft Benson, „Prepare Yourself for the Great Day of the Lord,” New Era, maí 1982, 50; sjá einnig K&S 115:6.

  3. Merriam-Webster Online, „place,“ merriam-webster.com/dictionary/place.

  4. Joseph Smith‒Saga 1:29.

  5. Sjá „Practice, Celebration, Dedication: Temple Blessings in El Salvador,” lds.org/youth/video.

  6. Jeffrey R. Holland, „Lessons from Liberty Jail,“ Ensign, sept. 2009, 26, 28.

  7. Jeffrey R. Holland, „Lessons from Liberty Jail,“ 28.

  8. Persónulegt samtal við höfundinn.

  9. Stundum nefnt í Bandaríkjunum sem „heart attack.“

  10. Jesaja 1:18.

  11. Spencer W. Kimball, „The Abundant Life,” Ensign, júlí 1978, 4;Tambuli, júní 1979, 3.