2010–2019
Frelsarinn vill veita fyrirgefningu
Apríl 2013


Frelsarinn vill veita fyrirgefningu

Drottinn elskar okkur og vill að við skiljum hve fús hann er til að fyrirgefa.

Þegar frelsarinn þjónaði hér á jörðu fylgdu honum margir, þar á meðal lærðir menn og farísear „úr hverju þorpi í Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem.“1 Komið var með rúmliggjandi, lamaðan mann sem óskaði eftir lækningu, á fjöldasamkomu, en af því að þeir gátu ekki nálgast frelsarann, fóru vinir mannsins með hann upp á þakið á húsinu sem frelsarinn var í og létu hann síga þar niður. Þegar frelsarinn sá þá miklu trú sem þeir sýndu, sagði hann þetta, af ástæðu sem hlustendur hans þekktu ekki enn: „Maður, syndir þínar eru þér fyrirgefnar.“2

Þetta hefur eflaust valdið manninum undrun, og jafnvel þó að ritningarnar greini ekki frá viðbrögðum hans, má vera að hann hafi velt því fyrir sér hvort frelsarinn hafi í raun skilið hvers vegna hann hafi komið.

Frelsarinn vissi að margir fylgdu honum vegna hinna miklu kraftaverka hans. Hann hafði þegar breytt vatni í vín,3 kastað burt óhreinum öndum4 og læknað son konungsmannsins,5 holdsveika manninn,6 tengdamóður Péturs7 og marga aðra.8

Í dæmi þessa lamaða manns kaus Drottinn að sýna bæði lærisveinunum og lösturunum fram á sitt einstæða hlutverk sem frelsari heimsins. Þegar hinir lærðu og farísearnir heyrðu orð frelsarans fóru þeir að rökræða sín á milli, töluðu í fávisku sinni um guðlast og komust að þeirri niðurstöðu að einungis Guð gæti fyrirgefið syndir. Frelsarinn skynjaði hugsanir þeirra, ávarpaði þá og sagði:

„Hvað hugsið þér í hjörtum yðar?

Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru þér fyrirgefnar, eða segja: Statt upp og gakk?“9

Án þess að bíða eftir svari þeirra hélt frelsarinn áfram, „En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér, [og talaði þar til lama mannsins]: Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín.“10 Og hann gerði það!

Með þessu kraftaverki líkamlegrar lækningar staðfesti frelsarinn fyrir okkur öllum enn stórkostlegri andlegan sannleik, Mannssonurinn fyrirgefur syndir!

Þó að flestir trúaðir meðtaki þennan sannleik auðveldlega, eru ekki allir eins tilbúnir að meðtaka meðfylgjandi sannleika: Frelsarinn fyrirgefur syndir „á jörðu,“ ekki bara við lokadóminn. Hann afsakar okkur ekki í syndum okkar.11 Hann horfir ekki framhjá því þegar við snúum aftur að gömlum syndum.12 Þegar við hinsvegar iðrumst og hlýðum fagnaðarerindi hans, þá fyrirgefur hann okkur.13

Í þessari fyrirgefningu sjáum við virkan og endurleysandi kraft friðþægingarinnar birtast á samstilltan og náðugan hátt. Með því að iðka trú á Drottin Jesú Krist styrkir þessi virkjandi kraftur friðþægingar hans okkur í neyð,14 og endurleysandi kraftur hans helgar okkur, þegar við „losum okkur úr viðjum hins náttúrulega manns.”15 Þetta færir okkur öllum von, sérstaklega þeim sem finnst að síendurteknir veikleikar mannsins séu utan vilja frelsarans til að hjálpa og frelsa.

Til að frelsarinn gæti upplýst skilning okkar,16 spurði Pétur hann eitt sinn hve oft hann ætti að fyrirgefa bróður sínum, og spurði svo, „Allt að sjö sinnum?“ Það hlyti að vera meira en nóg. Svar frelsarans opnaði dyrnar að hans miskunnsama hjarta upp á gátt: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“17

Drottinn elskar okkur og vill að við skiljum hve fús hann er til að fyrirgefa. Oftar en 20 sinnum í Kenningu og sáttmálum sagði Drottinn þeim sem hann var að tala við: „Syndir þínar eru þér fyrirgefnar,“ eða álíka orð.18 Í um helmingi þeirra tilfella var orðum Drottins beint sérstaklega að spámanninum Joseph Smith, stundum til hans eins, stundum í félagskap annarra.19 Fyrsta skráða tilfellið var árið 1830 og það síðasta árið 1843. Þannig sagði Drottinn ítrekað við Joseph: „Syndir þínar eru þér fyrirgefnar“ yfir nokkurra ára skeið.

Þó að Joseph hafi ekki verið „sekur um neinar stórar eða alvarlegar syndir,“20 þá er gott fyrir okkur að muna, að frá boði Drottins um „sjötíu sinnum sjö” eru einungis örfáar undantekningar og að það takmarkast ekki við alvarleika syndarinnar.

Drottinn sagði við öldunga sem höfðu safnast saman í Kirtland, „Ég vil að þér sigrist á heiminum. Fyrir því mun ég hafa samúð með yður.“21 Drottinn þekkir veikleika okkar og eilífar afleiðingar „heimsins“ á ófullkomna karla og konur.22 Orðin fyrir því í þessu versi eru staðfesting hans á því að það er einungis fyrir áhrif samúðar hans að við getum endanlega „sigrast á heiminum“. Hvernig birtist þessi samúð? Hann sagði við sömu öldungana í Kirtland, “Ég hef fyrirgefið yður syndir yðar.”23 Frelsarinn vill fyrirgefa.

Það þarf enginn að halda að sú fyrirgefning komi án iðrunar. Sannlega hefur Drottinn sagt, „Ég, Drottinn, fyrirgef syndir þeim, sem játa þær fyrir mér og biðjast fyrirgefningar,“síðan bætir hann við afmarkandi viðvörun, „þeim sem ekki hafa syndgað til dauða.“24 Á sama tíma og Drottinn „[getur] ekki litið á synd með minnsta votti af undanlátssemi,“25 þá greinir hann á milli alvarleika sumra synda. Hann setur sem skilyrði, að það verði engin fyrirgefning fyrir „guðníðslu gegn heilögum anda.“26 Hann lýsir yfir alvarleika morðs27 og leggur áherslu á alvarleika kynferðissynda, svo sem hórdóms. 28 Hann leggur áherslu á hve erfitt það er að fá fyrirgefningu hans fyrir ítrekuð kynferðisbrot.29 Hann hefur einnig sagt, að „sá sem syndgar gegn stærra ljósi, hlýtur þyngri dóm.“30 Samt sem áður gefur hann mönnum tækifæri til þess að bæta sig smátt og smátt frekar en að krefjast tafarlausrar fullkomnunar. Þrátt fyrir fjölda þeirra synda sem veikleiki mannsins gefur tilefni til þá fyrirgefur hann okkur jafnoft og við iðrumst.31

Vegna alls þessa getum við öll vitað að Drottinn mun taka á móti réttlátu framlagi okkar og af ástúð veita fyrirgefningu þegar iðrunin er fullkomnuð, jafnvel þeim okkar sem eru að berjast við fíknir, svo sem fíkniefnaneyslu eða ánetjan í klám, og aðstandendum þeirra, „sjötíu sinnum sjö.“ Þetta þýðir hins vegar ekki að maður geti snúið sjálfviljugur aftur að syndinni án refsingar.32

Drottinn er ávallt áhugasamur um hjörtu okkar,33 og rökstudd fölsk trú réttlætir ekki synd.34 Á þessum ráðstöfunartímum varaði Drottinn einn þjóna sinna við slíkum rökstuðningi með því að segja „Lát [hann] blygðast sín fyrir flokk Nikólaíta og alla þeirra leyndu viðurstyggð.“35 Nikólaítar voru forn trúarhópur sem tók sér þann rétt að fremja kynferðislegar syndir sökum náðar Drottins.36 Drottinn var ekki sáttur við þetta.37 Samúð hans og náð afsakar okkur ekki þegar „[við erum] ekki ánægðir í hjörtum [okkar]…[og hlýðum] ekki sannleikanum, heldur [höfum]ánægju af óréttlæti.“38 Eftir að hafa gert allt sem við getum gert,39 verða samúð hans og náð frekar leiðir fyrir okkur, „er tímar [líða],“40 til að sigrast á heiminum fyrir virkjandi kraft friðþægingarinnar. Með því að leita þessarar dýrmætu gjafar í auðmýkt mun, „hið veika verða [styrkur okkar],“41 og með styrk hans getum við gert það sem við hefðum aldrei getað gert ein.

Drottinn lítur á það ljós sem við höfum meðtekið,42 þrá hjarta okkar,43 og gjörðir okkar44 og þegar við iðrumst og leitum fyrirgefningar hans, þá mun hann veita hana. Er við hugleiðum líf okkar og líf ástvina okkar og kunningja, þá ættum við að vera álíka fús til að fyrirgefa okkur sjálfum og öðrum.45

Ritið Boða fagnaðarerindi mitt fjallar um erfiðleikana sem fylgja því að sigrast á fíknum og hvetur prestdæmisleiðtoga og kirkjuþegna til að vera ekki „hneyksluð eða láta hugfallast,“ þó að trúarnemar eða nýir meðlimir haldi áfram að eiga í erfiðleikum með slíkan vanda. Þess í stað er okkur ráðlagt að „sýna traust á einstaklingnum og dæma ekki … [líta á] það sem tímabundna og skiljanlega afturför.“46 Gætum við gert nokkuð minna fyrir okkar eigin börn eða fjölskyldumeðlimi sem eiga í svipaðri baráttu, og hafa villst tímabundið af vegi réttlætisins? Þau hljóta sannarlega að eiga skilið trúfestu okkar, þolinmæði og kærleika — og já, fyrirgefningu okkar.

Á síðustu aðalráðstefnu í október ráðlagði Monson forseti okkur:

„Við verðum að muna að fólk getur tekið breytingum. Það getur lagt á hilluna slæma siði. Það getur iðrast brota sinna….

…Við getum hjálpað þeim að sigrast á annmörkum sínum. Við verðum að þroska hæfileika okkar til að sjá menn, ekki eins og þeir eru nú, heldur eins og þeir geta orðið.“47

Á ráðstefnu á fyrstu árum kirkjunnar, líkri þessari ráðstefnu, sagði Drottinn við kirkjuþegnana:

„Sannlega segi ég yður, þér eruð hreinir, þó ekki allir….

„Því allt hold er spillt frammi fyrir mér. …

…því sannarlega eru nokkrir yðar sekir fyrir mér, en ég mun vera miskunnsamur gagnvart breyskleika yðar.48

Skilaboð hans eru þau sömu í dag.

Himneskur faðir veit hverju við stöndum frammi fyrir, að við syndgum öll og „skortir Guðs dýrð“49 aftur og aftur. Hann „þekkir veikleika mannsins og veit hvernig skal liðsinna þeim sem verða fyrir freistingum“50 Hann kennir okkur „biðjið án afláts svo þið fallið ekki í freistni.“51 Okkur er sagt, „ákallið hann og biðjið um miskunn, því hann hefur máttinn til að frelsa.“52 Hann býður okkur að iðrast53 og fyrirgefa.54 Þó að iðrunin sé ekki auðveld, þá lofar hann okkur þessu, ef við reynum af öllum krafti að hlýða: „Sannlega segi ég yður: Þrátt fyrir syndir [yðar] er brjóst mitt fullt samúðar með [yður]. Ég mun ekki algjörlega vísa [yður] burt, og á degi heilagrar reiði mun ég hafa miskunn í huga.55 Frelsarinn vill veita fyrirgefningu.

Í hverri viku hefur Laufskálakórinn hvetjandi útsendingu sína með upplífgandi orðum hins kunnuglega sálms William W. Phelps „Helgisöng vér hefjum senn.“ Ekki kannast allir eins vel við huggunarorð fjórða vers:

Helgur, helgur Herrann er.

Hvatning, orð hans jafnan mér …

að iðrun tjá;

Þá vér brjótum boðorð Guðs,

býðst oss fyrirgefning hans.56

Ég hvet ykkur til að muna eftir og trúa orðum Drottins og iðka trú á hann til iðrunar.57 Hann elskar ykkur. Hann vill veita okkur fyrirgefningu. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.