2010–2019
„Komið allir synir Guðs“
Apríl 2013


„Komið allir synir Guðs“

Megi hver og einn okkar leita dyggilega í ritningunum, áforma líf sitt með tilgang í huga, kenna sannleikann með vitnisburði og þjóna Drottni af kærleika.

Tvisvar á ári virðist þessi stórkostlega Ráðstefnuhöll segja við okkur sannfærandi röddu, „komið allir synir Guðs sem prestdæmið hafið.“1 Það er sérstakur andi sem fyllir prestdæmisfund aðalráðstefnu kirkjunnar.

Í kvöld eru margar þúsundir okkar úti um allan heim að þjóna Drottni sem trúboðar. Eins og ég nefndi í boðskap mínum í morgun, þá eru yfir 65.000 trúboðar á akrinum, og þúsundir annarra sem bíða eftir að fara í trúboðsskólann, eða eftir því að umsóknir þeirra séu afgreiddar. Okkur er annt um þá og við hrósum þeim sem eru fúsir og ákafir að þjóna.

Hinar heilögu ritningar innihalda enga mikilvægari yfirlýsingu, enga ábyrgð eins bindandi eða leiðbeiningar eins afdráttarlausar, og þau fyrirmæli sem hinn upprisni Drottinn gaf, er hann birtist hinum ellefu postulum sínum í Galíleu. Hann sagði:

„Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda.

og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður, Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“2

Þessi guðdómlegu fyrirmæli, ásamt þeim dýrðlegu loforðum sem þeim fylgja, eru lykilorð okkar í dag á sama hátt og þau voru á hádegisbaugi tímans,. Trúboðsverk er einkennandi þáttur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hefur alltaf verið svo og mun alltaf verða svo. Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Að öllu sögðu er mikilvægasta skylda okkar að boða fagnaðarerindið.“3

Innan tveggja stuttra ára munu allir fastatrúboðar, sem nú þjóna í konunglegum her Guðs, hafa lokið störfum sínum og vera komnir heim og til ástvina sinna. Öldungana sem taka við af þeim má í kvöld finna í fylkingu Aronspresdæmis kirkjunnar. Ungu menn, eruð þið tilbúnir að bregðast við? Eruð þið fúsir til starfa? Eruð þið undir það búnir að þjóna?

Í besta lagi þá krefst trúboðsstarf afgerandi aðlögunar á lífsmynstri einstaklingsins. Það krefst langra vinnudaga og mikillar hollustu, ósérhlífinna fórna og heitra bæna. Niðurstaðan er að sú, að arður dyggrar trúboðsþjónustu verður eilíf gleði sem nær út yfir allt jarðlíf og inn í eilífðina.

Áskorun okkar er sú að verða gagnlegri þjónar í víngarði Drottins. Þetta á við okkur alla, sama hver aldur okkar er, og ekki einungis þá sem eru að búa sig undir að þjóna í fastatrúboði, heldur fáum við hver og einn þá tilskipun að deila fagnaðarerindi Krists.

Má ég leggja til uppskrift sem mun tryggja okkur farsæld: Í fyrsta lagi, leitið dyggilega í ritningunum; í öðru lagi, áformið líf ykkar með tilgang í huga (má ég bæta við, gerið áætlun um líf ykkar, sama hver aldurinn er); í þriðja lagi, kennið sannleikann með vitnisburði; og í fjórða lagi, þjónið Drottni af kærleika.

Við skulum íhuga hvern þessara þátta formúlunnar.

Í fyrsta lagi, leitið dyggilega í ritningunum.

Ritningarnar bera vitni um Guð og innihalda orð eilífs lífs. Þær verða grunnurinn að boðskap okkar.

Áherslan í námsefni kirkjunnar eru hinar heilögu ritningar, skipulögð og samræmd í gegnum samhæfingarstarf. Við erum einnig hvattir til að læra ritningarnar daglega, bæði einslega og með fjölskyldum okkar.

Leyfið mér að vísa ykkur á eina tilvitnun sem á strax við í lífi okkar. Hana er að finna í Mormónsbók, 17. kapítula Alma, við lesum um gleði Alma er hann sá syni Mósía aftur og fann staðfestu þeirra við málstað sannleikans. Heimildirnar segja okkur: „Þeir höfðu styrkst í þekkingu sinni á sannleikanum, því að þeir voru menn gæddir heilbrigðum skilningi og höfðu kynnt sér ritningarnar af kostgæfni til þess að öðlast þekkingu á orði Guðs.

En þetta var ekki allt, þeir höfðu beðið mikið og fastað, og höfðu þar af leiðandi anda spádóms og anda opinberunar, og þegar þeir kenndu, þá kenndu þeir með krafti og valdi Guðs.”4

Bræður, leitið dyggilega í ritningunum.

Númer tvö í formúlunni okkar: Áformið líf ykkar með tilgang í huga.

Kannski hefur engin kynslóð æskunnar staðið frammi fyrir jafn víðtækum ákvörðunum og æskan í dag. Gera verður ráðstafanir varðandi skóla, trúboð og hjónaband. Í sumum tilfellum er herþjónusta einnig meðtalin.

Undirbúningurinn fyrir trúboð hefst snemma. Auk andlegs undirbúnings mun skynsamt foreldri sjá til þess að ungur sonur fari snemma að safna í sinn eigin trúboðssjóð. Kannski er hann hvattur til þess að læra annað tungumál á unga aldri, svo að hægt verði að nota tungumálakunnáttu hans ef þörf krefst. Að lokum kemur að þeim dýrðardegi, þegar biskup hans og stikuforseti bjóða þessum unga manni í viðtal. Verðugleiki er staðfestur; gengið er frá meðmælum fyrir trúboðsþjónustu.

Á engum öðrum tíma bíður fjölskyldan jafn spennt eftir póstinum og bréfinu sem sýnir sendandann 47 East South Temple,Salt Lake City,Utah. Bréfið kemur; spennan er yfirþyrmandi; köllunin er lesin. Oft er úthlutað starfssvæði víðs fjarri heimaslóðum. Sama hver staðsetningin er, þá er svar þessa undirbúna og hlýðna trúboða það sama: „Ég mun þjóna.“

Þá hefst undirbúningurinn fyrir brottförina. Ungu menn, ég vona að þið kunnið að meta þá fórn sem foreldrar ykkar færa svo fúslega svo að þið getið þjónað. Störf þeirra munu styðja ykkur, trú þeirra hvetja ykkur áfram og bænir þeirra halda ykkur uppi. Trúboð er fjölskylduverkefni. Þó að víðáttur heimsálfa eða úthafa skilji þau að, þá eru þau eitt í huga og hjarta.

Bræður, er þið áformið líf ykkar með tilgang í huga, munið þá að tækifæri ykkar til trúboðsstarfa einskorðast ekki við hefðbundna köllun. Þið sem gegnið herþjónustu hafið í huga að sá tími getur og ætti að vera árangursríkur. Á hverju ári færa ungu hermennirnir okkar margar sálir inn í ríki Guðs með því að heiðra prestdæmi sitt, lifa eftir boðorðum Guðs og kenna öðrum hið guðdómlega orð Drottins.

Horfið ekki framhjá þeim forréttindum sem þið hafið, að vera trúboðar á sama tíma og þið sinnið framhaldsnámi ykkar. Tekið verður eftir fordæmi ykkar sem Síðari daga heilagir, það metið og oft líkt eftir því.

Bræður, sama hvað gamlir þið eruð, sama í hvaða stöðu þið eruð, þá áminni ég ykkur um að áforma líf ykkar með tilgang í huga.

Nú komum við að þriðja hluta formúlunnar okkar: Kennið sannleikann með vitnisburði.

Fylgið ráði Péturs postula sem hvatti okkur áfram: „Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er.“5 Lyftið upp röddu ykkar og vitnið um hið sanna eðli Guðdómsins. Berið vitni um Mormónsbók. Flytjið hinn dýrðlega og fagra sannleika sem má finna í sáluhjálparáætluninni.

Þegar ég þjónaði sem trúboðsforseti í Kanada, fyrir meira en 50 árum síðan, var einn ungur trúboði sem kom frá litlu dreifbýlissamfélagi, og dásamaði stærð Torontóborgar. Hann var lágvaxinn en mikill í trú. Nokkru eftir að hann kom til þjónustu heimsóttu hann og félagi hans, Elmer Pollard í Oshawa, Ontario í Kanada. Hr. Polllard bauð trúboðunum inn, því hann vorkenndi þessum ungu mönnum sem gengu hús úr húsi í snjóbyl. Þeir fluttu honum boðskap sinn. Hann fann ekki fyrir andanum. Eftir smástund bað hann þá að fara og koma ekki aftur. Er þeir fóru frá dyrum hans, voru síðustu orð hans til öldunganna sögð í háði: „Þið getið ekki sagt mér að þið trúið því raunverulega að Joseph Smith hafi verið spámaður Guðs!“

Síðan skellti hann hurðinni. Öldunarnir gengu niður göngustíginn. Sveitadrengurinn okkar sagði þá við félaga sinn: „Öldungur, við svöruðum ekki spurningu Hr. Pollard. Hann sagði að við tryðum því ekki að Joseph Smith væri sannur spámaður. Snúum til baka og berum honum vitnisburð okkar.“ Reyndari trúboðinn hikaði fyrst, en samþykkti loks að fylgja félaga sínum. Er þeir nálguðust dyrnar, sem þeim hafði nýlega verið vísað út um, báru þeir ugg í hjarta. Þeir bönkuðu, stóðu andspænis Hr. Pollard og eftir augnabliks angist sagði óreyndari trúboðinn, með krafti andans: „Hr. Pollard, þegar við fórum sagðir þú að við tryðum því í raun ekki að Joseph Smith væri spámaður Guðs. Ég ber þér vitni um að Joseph Smith var spámaður. Hann þýddi vissulega Mormónsbók. Hann sá Guð föðurinn og son hans Jesú. Ég veit það.“

Tíminn leið, og dag einn stóð Hr. Pollard, nú bróðir Pollard, á prestdæmisfundi og sagði: „Ég náði ekki að sofa um nóttina. Í huga mínum heyrði ég orðin bergmála, ‘Joseph Smith var spámaður Guðs. Ég veit það. Ég veit það. Ég veit það.‘ Næsta dag hringdi ég í trúboðana og bað þá að koma aftur. Boðskapur þeirra, ásamt vitnisburði þeirra, breytti lífi mínu og lífi fjölskyldu minnar.“ Bræður, kennið sannleikann með vitnisburði.

Síðasti hluti formúlu okkar er að þjóna Drottni af kærleika. Ekkert kemur í stað kærleikans. Farsælir trúboðar bera kærleik til félaga síns, trúboðsleiðtoga síns og dýrmætra trúarnema sinna. Í fjórða kapítula Kenningar og sáttmála setur Drottinn fram þær kröfur sem gerðar eru til trúboðsþjónustu. Hugleiðum aðeins nokkur versanna:

„Ó þér, sem gangið í þjónustu Guðs, gætið þess því að þjóna honum af öllu hjarta yðar, mætti, huga og styrk, svo að þér megið standa saklausir frammi fyrir Guði á efsta degi. …

Og trú, von, kærleikur og ást, með einbeittu augliti á dýrð Guðs, gjörir hann hæfan til verksins.

Hafið í huga trú, dyggð, þekkingu, hófsemi, þolinmæði, bróðurlega góðvild, guðrækni, kærleik, auðmýkt, kostgæfni.“6

Hver og einn ykkar sem heyrir rödd mína ætti að spyrja sjálfan sig þessari spurningar: „Hef ég í dag aukist að trú, dyggð, þekkingu, guðrækni, kærleik?“

Fyrir einlæga trúrækni ykkar heima eða að heiman, munu þær sálir sem þið hjálpið til að bjarga ef til vill verða þær sem þið elskið mest.

Fyrir mörgum árum síðan komu góðvinir mínir, Craig Sudbury og móðir hans, Pearl, á skrifstofu mína rétt áður en Craig fór í trúboð til Melbourn trúboðsins í Ástralíu. Það var augljóst að faðir Craigs, Fred Sudbury, var fjarverandi. Fyrir tuttugu og fimm árum síðan hafði móðir Craigs gifst Fred, sem deildi ekki kærleika hennar til kirkjunnar, og var í raun ekki þegn kirkjunnar.

Craig trúði mér fyrir þeim djúpa kærleika sem hann bæri til foreldra sinna og þeirri von, að einhvern tíma, á einhvern hátt, myndi faðir hans verða fyrir áhrifum andans og opna hjarta sitt fyrir fagnaðarerindi Jesú Krists. Ég bað fyrir innblæstri um hvernig slík þrá gæti uppfyllst. Innblásturinn kom og ég sagði við Craig, „Þjónaðu Drottni af öllu hjarta þínu. Vertu hlýðinn heilagri köllun þinni. Skrifaðu foreldrum þínum bréf vikulega og skrifaðu pabba þínum stundum sérstaklega og láttu hann vita hve heitt þú elskar hann, og segðu honum af hverju þú ert þakklátur fyrir að vera sonur hans.“ Hann þakkaði mér og yfirgaf síðan skrifstofuna ásamt móður sinni.

Ég sá móður Craigs ekki aftur fyrr en 18 mánuðum síðar, þegar hún kom á skrifstofu mína og sagði mér, hálfgrátandi, „það eru nærri tvö ár síðan Craig fór í trúboðið sitt. Hann hefur aldrei sleppt því að skrifa okkur bréf vikulega. Nýlega stóð eiginmaður minn, Fred, upp á vitnisburðarsamkomu í fyrsta sinn og kom mér og öllum viðstöddum á óvart með því að tilkynna, að hann hefði tekið þá ákvörðun að gerast þegn kirkjunnar. Hann gaf í skyn að við tvö myndum fara til Ástralíu til að hitta Craig, við lok trúboðs hans, svo að Fred gæti verið síðasta skírn hans sem fastatrúboða.

Enginn trúboði stóð eins teinréttur og Craig Sudbury, þegar hann hjálpaði föður sínum niður í mittisdjúpt vatnið, langt í burtu í Ástralíu, rétti upp hægri arm sinn í vinkil og endurtók þessi heilögu orð: „Frederick Charles Sudbury, með umboði frá Jesú Kristi, skíri ég þig í nafni föðurins, og sonarins, og hins heilaga anda.“

Kærleikurinn hafði unnið sinn sigur. Þjónið Drottni af kærleika.

Bræður, megi hver og einn okkar leita dyggilega í ritningunum, áforma líf sitt með tilgang í huga, kenna sannleikann með vitnisburði og þjóna Drottni af kærleika.

Hinn fullkomni hirðir sálna okkar, trúboðinn sem endurleysti mannkynið, gaf okkur guðdómlega fullvissu sína:

„Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga við að boða þessu fólki iðrun og leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!

Og verði nú gleði yðar mikil með einni sál, sem þér hafið leitt til mín inn í ríki föður míns, hversu mikil yrði þá gleði yðar, ef þér leidduð margar sálir til mín!“7

Ég ber vinisburð minn um hann sem sagði þessi orð: Hann er sonur Guðs, lausnari okkar og frelsari.

Ég bið þess að við megum ætíð bregðast við ljúfu boði hans: „Fylg þú mér.“8 Í hans heilaga nafni ‒ já, nafni Drottins Jesús Krists, amen.