2010–2019
Kapphlaup lífsins
Apríl 2012


Kapphlaup lífsins

Hvaðan komum við? Hvers vegna erum við hér? Hvert förum við að þessu lífi loknu? Svörin við þessum altæku spurningum eru ekki lengur hulin ráðgáta.

Kæru bræður og systur, í dag ætla ég að ræða við ykkur um eilífan sannleika ‒ sem mun auðga líf ykkar og leiða ykkur örugg heim.

Hvarvetna er fólk á hlaupum. Flugþotur þeytast yfir höfin og löndin breið með dýrmætan mannfarm, sem hyggst sækja viðskiptafundi, sinna skylduverkum, njóta orlofs eða heimsækja fjölskyldur. Eftir vegum og hraðbrautum hvarvetna þjóta, af ýmsum ástæðum, milljónir bíla, óendanlegar raðir, með enn fleiri milljónum manna, er við sinnum verkefnum hvers dags.

Stöldrum við einhvern tíma við í þessari hröðu ringulreið, til að gefa okkur tíma til að ígrunda ‒ já, hinn eilífa sannleika?

Flest áhyggjuefni og argaþras hins daglega lífs eru í raun smávægileg í samanburði við eilífan sannleika. Hvað eigum við að hafa í kvöldmatinn? Í hvaða lit eigum við að mála stofuna? Eigum við að skrá Jón í fótbolta? Spurningar sem þessar, og ótal aðrar, virðast ekki mikilvægar þegar kreppa skellur á, ástvinur slasast eða særist, óvæntur sjúkdómur herjar á fjölskylduna, þegar ljós lífskertisins dofnar og myrkrið ógnar. Hugsanir okkar skerpast og við eigum auðvelt með að ákveða hvað raunverulega skiptir máli og hvað er ómerkilegt.

Nýverið heimsótti ég konu, sem um tveggja ára skeið hafði háð baráttu við lífshættulegan sjúkdóm. Hún sagði að dagar hennar hefðu verið fullir af alls kyns verkefnum áður en hún veiktist, til að mynda að þrífa húsið hátt og lágt og skreyta það fallegum húsgögnum. Hún fór í hárgreiðslu tvisvar í viku og eyddi peningum og tíma í hverjum mánuði til að kaupa nýjan fatnað. Barnabörnum hennar var sjaldan boðið í heimsókn, því hún hafði stöðugar áhyggjur af því að litlar ónærgætnar hendur gætu brotið eða skemmt það sem hún taldið dýrmætar eigur sínar.

Og þá bárust henni hin sláandi tíðindi, að lífi hennar væri ógnað og að hún ætti líklega ekki langt eftir ólifað. Um leið og hún heyrði sjúkdómsgreiningu læknisins varð henni þegar í stað ljóst, að hún vildi eyða því sem hún ætti eftir ólifað í faðmi fjölskyldu og vina og hafa fagnaðarerindið að þungamiðju í lífi sínu, því allt þetta væri henni dýrmætast.

Slíka skarpa sýn upplifum við öll í einn eða annan tíma, þótt aðstæður séu ekki alltaf svona dramatískar. Við sjáum greinilega hvað skiptir mestu í lífi okkar og hvernig við viljum lifa.

Frelsarinn sagði:

„Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.

Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.

Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“1

Á stundum ígrundunar eða mikillar neyðar, leitar sál mannsins til himins, eftir guðlegri leiðsögn varðandi mikilvægustu spurningar lífsins: Hvaðan komum við? Hvers vegna erum við hér? Hvert förum við að þessu lífi loknu?

Svör við þessum spurningum finnum við ekki í fræðibókum eða með því að leita á Alnetinu. Þessi svör eru handan hins dauðlega lífs. Þau ná inn í eilífðina.

Hvaðan komum við? Þessi spurning kemur óhjákvæmilega upp í huga allra manna, þótt hún sé ekki borin fram.

Páll postuli sagði Aþenubúum á Aresarhæð að „vér [værum] Guðs ættar.“2 Þar sem við vitum að efnislíkami okkar er afsprengi dauðlegra foreldra okkar, verðum við að ígrunda vel merkingu þessarar staðhæfingar Páls. Drottinn hefur lýst yfir að „andinn og líkaminn [séu] sál mannsins.“3 Það er því andinn sem er afsprengi Guðs. Höfundur Hebreabréfsins vísar til hans sem „föður andanna.”4 Andar allra manna eru bókstaflega „getnir synir og dætur“5hans.

Við vitum að innblásin skáld hafa við ígrundun þessa efnis ritað hjartnæman boðskap og háleitar hugsanir. William Wordsworth lýsti sannleikanum.

Vor fæðing hún er svefn og gleymska:

Sálin sem með oss rís, vort leiðarljós um heim,

Hún átti eiktarmörkin

á óraleið um geim.

En ekki er gleymskan algjör þó

né andans nekt,

því Guð oss bjó

að heiman, svo að dýrð hans birtu ber

oss börnunum hans hér.6

Foreldrar ígrunda ábyrgð sína að kenna, og veita börnum sínum innblástur, leiðsögn og fordæmi. Og meðan foreldrar ígrunda, spyrja börnin ‒ og einkum unglingar ‒ þessarar beinskeyttu spurningar: „Hvers vegna erum við hér?“ Yfirleitt vaknar hún hljóðlega í sálinni og segir: „Hvers vegna er ég hér?“

Hve þakklát við ættum að vera fyrir að vitur skapari hefur búið okkur jörð og sett okkur hér, og sveipað okkur gleymskuhulu varðandi fyrri tilveru, svo við gætum upplifað tíma prófrauna, til að sannreyna okkur, svo við mættum verða hæf fyrir allt það sem Guð hefur fyrirbúið okkur.

Augljóslega er einn megintilgangur tilveru okkar á jörðunni að hljóta líkama af holdi og beinum. Okkur hefur líka verið gefin gjöf sjálfræðis. Við njótum þeirra forréttinda að geta valið fyrir okkur sjálf. Hér lærum við af harðri reynslunni. Við greinum á milli góðs og ills. Við upplifum hið beiska og hið ljúfa. Við uppgötvum að afleiðingar fylgja breytni okkar.

Með því að hlýða boðorðum Guðs getum við gert okkur hæf fyrir það „hús“ sem Jesús ræddi um er hann sagði: „Í húsi föður míns eru margar vistarverur. ... Ég er farinn burt og hef búið yður stað, ... svo að þér séuð einnig þar sem ég er.“7

Þótt við komum í jarðlífið „svo að dýrð hans birtu ber,“ þá heldur lífið linnulaust áfram. Æskan fylgir á eftir bernskunni, og þroskinn kemur vart greinanlegur. Af reynslu lærum við nauðsyn þess að leita til himins eftir aðstoð á ferð okkar um lífsins veg.

Guð, faðir okkar, og Jesús Kristur, Drottinn okkar, hafa markað leiðina til fullkomnunar. Þeir benda okkur á að fylgja eilífum sannleika og verða fullkomin, eins og þeir eru fullkomnir.8

Páll postuli líkti lífinu við keppni. Við Hebrea sagði hann: „Léttum ... af oss allri ... viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.“9

Í okkar keppni ættum við að muna eftir hinni vitru leiðsögn í Prédikaranum: „Hinir fljótu ráða ekki yfir hlaupinu, né kapparnir yfir stríðinu.“10 Verðlaunin hlýtur í raun sá sem stendst allt til enda.

Þegar ég ígrunda kapphlaup lífsins, kemur annarskonar kapphlaup í hugann, já, frá bernskudögum. Ég og vinir mínir tókum okkur vasahnífa í hönd og tálguðum litla báta úr mjúkum pílviði. Þríhyrnt segl úr baðmull var sett á grófsmíðaða bátana og hver ýtti sínum báti úr vör út í fremur stríða Provo-ána í Utah. Við hlupum niður eftir árbakkanum og fylgdumst með litlu bátunum skoppa harkalega í hörðum straumnum og fljóta síðan kyrrlátlega þar sem dýpra var.

Í keppninni tókum við eftir því að einn bátanna var á undan hinum að lokamarkinu. Allt í einu bar straumurinn hann of nálægt stórri straumiðu og báturinn lagðist á hliðina og fór á hvolf. Hann lenti í hringiðu og barst ekki aftur út í megin strauminn. Að lokum barst hann yfir í lygnan poll meðal annars rekalds og festist í grænu mosaslýi.

Trébátar bernskuáranna höfðu ekki kjölfestu til jafnvægis, eða stýri til að setja stefnuna og engan vélbúnað til að knýja þá áfram. Örlög þeirra voru óhjákvæmilega að berast með straumnum ‒ án mótspyrnu.

Ólíkt trébátunum er okkur sér fyrir guðlegum eiginleikum til að stjórna ferð okkar. Við komum ekki í jarðlífið til að fljóta með lífsstraumnum, heldur höfum við getu til að hugsa, til að álykta og framkvæma.

Himneskur faðir fól okkur ekki að takast á við þessa eilífu ferð án þess að gera okkur kleift að taka á móti guðlegri leiðsögn hans, til að tryggja að við kæmumst örugg til baka. Ég á hér við bænina. Ég á hér líka við hina lágu og hljóðlátu rödd; og ég gleymi ekki hinum helgu ritningum, sem geyma orð Drottins og orð spámannanna ‒ sem okkur er veitt til hjálpar við að ná örugglega lokamarkinu.

Einhvern tíma í jarðlífi okkar kemur að óstyrka sporinu, áreynslubrosinu, sjúkdómsverkjunum ‒ já, sumarlokum, haustkomu og köldum vetri, og reynslunni sem við nefnum dauða.

Allir hugsandi menn hafa spurt sig spurningarinnar sem orð Jobs til forna lýsa best: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“11 Þótt við reynum að útiloka þessa spurningu úr huga okkar, vaknar hún alltaf aftur. Dauðinn bíður allra manna. Hann mætir hinum öldruðu á óstyrkri göngu þeirra. Kall hans berst þeim sem varla hafa náð miðri leið á lífsins ferð. Stundum þaggar hann niður í hlátri litlu barnanna.

En hvað með tilveru eftir dauðann? Er dauðinn endir alls? Í bók sinni, God and My Neighbor, réðst Robert Blatchford harkalega á viðtekna kristna trú, svo sem Guð, Krist, bænina og einkum ódauðleikann. Hann hélt því ótrauður fram að dauðinn sé endir tilveru okkar og að enginn geti sannað hið gagnstæða. Þá gerðist hið undarlega. Vantrúarmúr hans hrundi skyndilega til grunna. Hann stóð eftir berskjaldaður og varnarlaus. Hægt og sígandi tók hann að tileinka sér aftur þá trú sem hann hafði áður hætt og smáð. Hvað olli þessari miklu breytingu á viðhorfi hans? Eiginkona hans lést. Með brostið hjarta fór hann inn í herbergið þar sem jarðneskar leifar hennar lágu. Honum varð aftur litið á andlitið sem hann elskaði svo heitt. Þegar hann kom þaðan út, sagði hann við vin sinn: „Þetta er hún, en þó ekki hún. Allt er breytt. Eitthvað sem þar var áður er nú horfið. Hún er ekki sú sama. Hvað er horfið ef það er ekki sálin?“

Síðar skrifaði hann: „Dauðinn er ekki það sem sumir ímynda sér. Hann er líkt og að fara inn í annað herbergi. Í því herbergi finnum við ... þær kæru konur og karla og ljúfu börn sem við höfum elskað og misst.“12

Kæru bræður og systur, við vitum að öllu lýkur ekki við dauðann. Sá sannleikur hefur um aldir verið kenndur af lifandi spámönnum. Hann er líka að finna í hinum helgu ritningum. Í Mormónsbók lesum við tiltekin og huggunarrík orð:

„En varðandi ástand sálarinnar frá dauða og fram að upprisu ‒ sjá! Engill hefur kunngjört mér, að um leið og andar allra manna yfirgefa þennan dauðlega líkama, séu þeir, já, andar allra manna, hvort sem þeir eru góðir eða illir, fluttir heim til þess Guðs, sem gaf þeim líf.

Og þá ber svo við, að tekið er við öndum þeirra, sem réttlátir eru, inn í sæluríki, sem nefnist paradís, ríki hvíldar og friðar, þar sem þeir hvílast frá öllu erfiði, áhyggjum og sorgum.“13

Eftir að frelsarinn hafði verið krossfestur og líkami hans legið í gröfinni í þrjá daga, fór andinn í líkamann að nýju. Steininum var ýtt frá munnanum og upprisinn lausnarinn gekk fram íklæddur ódauðlegum líkama af holdi og beinum.

Svarið við spurningu Jobs, „þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ var gefið þegar María og fleiri komu að gröfinni og sáu tvo menn í skínandi klæðum mæla til þeirra: „Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? Hann er ekki hér, hann er upp risinn.“14

Sigur Krists yfir gröfinni hefur í för með sér að við munum öll rísa upp. Það er endurlausn sálarinnar. Páll ritaði: „Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað.“15

Við keppum að eilífri dýrð. Við þráum að dvelja í návist Guðs. Við viljum eiga hlutdeild í ævarandi fjölskyldu. Slíkar blessanir þarf að verðskulda með ævilangri baráttu, leit, iðrun og loks árangri.

Hvaðan komum við? Hvers vegna erum við hér? Hvert förum við að þessu lífi loknu? Svörin við þessum altæku spurningum eru ekki lengur hulin ráðgáta. Af allri minni sálu og auðmýkt, ber ég vitni um að það sem ég hef mælt er sannleikur.

Faðir okkar á himnum gleðst yfir þeim sem halda boðorð hans. Hann ber líka umhyggju fyrir hinu týnda barni, hinum ófúsa unglingi, hinum einþykka æskumanni, hinu seka foreldri. Ljúflega mælir meistarinn til þeirra, og reyndar allra: „Komið aftur. Komið upp. Komið inn. Komið heim. Komið til mín.“

Að viku liðinni höldum við páska hátíðlega. Við hugsum þá um líf frelsarans, dauða hans og upprisu. Sem hans sérstaka vitni ber ég ykkur vitni um að hann lifir og hann væntir sigurkomu okkar. Ég bið þess auðmjúklega að slík heimkoma bíði okkar, í hans heilaga nafni ‒ já, Jesú Krists, frelsara okkar og lausnara, amen.