2010–2019
Trú, þolgæði, lífsfylling: Boðskapur fyrir einstæða foreldra
Apríl 2012


Trú, þolgæði, lífsfylling: Boðskapur fyrir einstæða foreldra

Þið reynið að ala upp börn ykkar í réttlæti og sannleika, meðvitaðuð um að þótt þið fáið ekki breytt fortíðinni getið þið mótað framtíðina.

Boðskapur minn er fyrir einstæða foreldra í kirkjunni, en meirihluti þess hóps er einstæðar mæður ‒ hugdjarfar konur, sem við hinar ýmsu aðstæður lífsins ala upp börn og reka heimili á eigin spýtur. Verið getur að þið séuð ekkjur eða fráskildar. Verið getur að þið takist nú á við áskoranir einstæðs foreldris vegna þess að þið hafið leiðst afvega utan hjónabands, en hafið nú snúið við blaðinu og lifið innan ramma fagnaðarerindisins. Blessuð séuð þið fyrir að forðast allan félagsskap sem gæti komið í veg fyrir dyggðugt líf lærisveinsins. Það væri of dýru verði goldið.

Þið gætuð stundum hafa spurt ykkur sjálf: „Af hverju ég?” En það er fyrir þrautir lífsins sem við þroskumst til guðdóms, þegar persónuleiki okkar mótast af þolraunum og sorgum lífsins, en Guð virðir valfrelsi mannsins. En líkt og öldungur Neal A. Maxwell benti á, þá fáum við ekki skilið allt sem yfir okkur kann að koma, því „við höfum ekki allar staðreyndirnar.”1

Hverjar sem aðstæður ykkar kunna að vera eða ástæður fyrir þeim, þá eruð þið dásamleg. Dag eftir dag takist þið á við erfiðleika lífsins og glímið að mestu ein við þau verkefni sem ávallt voru ætluð tveimur. Þið þurfið jafnt að vera feður sem mæður. Þið sjáið um heimilið, sinnið börnunum, ströglið oft við að láta enda ná saman og hafið jafnvel á einhvern undursamlegan hátt þrótt til að inna af hendi mikilvæga kirkjuþjónustu. Þið alið upp börn ykkar. Þið grátið og biðjið með þeim og fyrir þeim. Þið þráið allt það besta fyrir þau og kvíðið því hvert kvöld að ykkar besta sé hugsanlega ekki nóg.

Ég ólst upp á slíku heimili, en hyggst þó ekki persónugera mig of mikið. Flest bernsku- og æskuár mín ól móðir mín mig upp einsömul við fábrotnar aðstæður. Horft var í hverja krónu. Einmanaleiki náði oft tökum á henni og þráin eftir stuðningi og félagsskap. En þrátt fyrir þetta allt var ákveðinn virðuleiki yfir móður minni, hún sýndi gríðarlega einurð og skoska þrautseigju.

Til allrar hamingju naut hún meiri blessana á síðari árum en þeim fyrri. Hún giftist nýskírðum ekkli. Þau voru innsigluð í London-musterinu í Englandi og þjónuðu þar stuttu eftir við helgiathafnir musterisins. Þau voru saman í næstum aldarfjórðung ‒ hamingjusöm og glöð allt til æviloka.

Margar ykkar góðu kvenna í kirkjunni víða um heim takast á við álíka aðstæður og sýna sömu þrautseigju ár eftir ár.

Þetta var ekki það sem þið væntuð eða ráðgerðuð eða báðust fyrir um við upphaf lífsferðar ykkar fyrir mörgum árum. Ferð ykkar um lífsins dal hefur verið hlykkjótt og rysjótt, að mestu vegna tilveru í föllnum heimi sem ætlaður er til reynslu og prófrauna.

Og á sama tíma reynið þið að ala upp börn ykkar í réttlæti og sannleika, meðvituð um að þótt þið fáið ekki breytt fortíðinni getið þið mótað framtíðina. Á lífsins leið er ykkur svo umbunað með blessunum, jafnvel þótt þær verði ekki greindar þegar í stað.

Þið þurfið ekki að óttast framtíðina með Guð ykkur við hlið. Börn ykkar munu vaxa úr grasi og vegsama ykkur og hvert afreksverk þeirra verður ykkur til virðingar.

Lítið aldrei á ykkur sem annars flokks kirkjuþegna, sem eiga minni rétt á blessunum Drottins en aðrir. Í ríki Guðs eru engir annars flokks þegnar.

Við vonum, að þegar þið komið á samkomur og sjáið fjölskyldur sem virðast samstilltar og hamingjusamar eða hlustið á einhverja tala um fyrirmyndar fjölskyldu, þá finnið þið gleði yfir að tilheyra kirkju, sem leggur áherslu á fjölskyldur og kennir mikilvægt hlutverk þeirra í sæluáætlun himnesks föður varðandi börn hans. Að mitt í hörmungum og siðferðishnignun heimsins, höfum við kenninguna, valdsumboðið, helgiathafnirnar og sáttmálana sem færa heiminum mestu vonina um hamingju, þar með talið framtíðarhamingju barna ykkar og tilvonandi fjölskyldna þeirra.

Á aðalfundi Líknarfélagsins í september 2006 vitnaði Gordon B. Hinckley forseti í frásögn einstæðrar fráskilinnar móður sjö barna sem þá voru á aldrinum 7 til 16 ára. Hún hafði farið yfir götuna til að færa nágrannakonu eitthvað. Hún sagði:

„Þegar ég sneri við og hélt heim á leið, sá ég húsið mitt uppljómað. Orð barnanna minna þegar ég gekk út um dyrnar nokkrum mínútum áður, ómuðu í huga mínum. Þau sögðu: ‚Mamma, hvað er í kvöldmatinn? Geturðu skutlað mér í bókasafnið? Ég verð að fá efni í veggspjald í kvöld.‘ Ég horfði þreytt og úrvinda á húsið og hvert herbergi var upplýst. Mér varð hugsað um öll börnin sem heima biðu þess að ég kæmi til að uppfylla þarfir þeirra. Byrðar mínar urðu þyngri en ég fékk borið.

Ég man að mér varð litið til himins í gegnum tárin og ég sagði: ‚Kæri faðir, ég bara get þetta ekki í kvöld. Ég er of þreytt. Ég get ekki tekist á við þetta. Ég get ekki farið heim og annast öll þessi börn ein. Get ég ekki bara komið til þín og fengið að dvelja hjá þér eina nótt? …‘

Ég heyrði í raun ekki svarið, en heyrði það þó í huga mínum. Svarið var: ‚Nei, elsku barn, þú getur ekki komið núna. … En ég get komið til þín.‘“2

Þakka ykkur, systur, fyrir allt sem þið gerið til að ala upp börn ykkar og viðhalda kærleiksríku heimili, þar sem góðvild og friður ríkja, og tækifæri.

Þótt einmanaleiki gagntaki ykkur stundum, eruð þið í raun aldrei algjörlega einar. Þegar þið haldið áfram að sýna þolinmæði og trú, munuð þið njóta guðlegrar forsjónar og nauðsynlegra himneskra blessana.

Viðhorf ykkar og lífssýn munu breytast þegar þið lítið upp, fremur en að láta bugast.

Margar hafið þið þegar uppgötvað þann mikla umbreytandi sannleika, að byrði okkar verður léttari þegar við reynum að létta öðrum byrðina. Þótt aðstæðurnar hafi ekki breyst, hefur lífssýn ykkar gert það. Þið getið þá tekist á við raunir ykkar af auknum hjartans skilningi og innilegra þakklæti fyrir það sem þið eigið, fremur en að einblína stöðugt á það sem á vantar.

Þið uppgötvið þá, að þegar við glæðum von þeirra sem enga virðast eiga, munum við sjálf hljóta huggun og bikar okkar verður sannlega „barmafullur” (Sálm 23:5).

Með því að lifa réttlátlega gætuð þið og börn ykkar dag einn notið þeirrar blessunar að tilheyra heilli og eilífri fjölskyldu.

Meðlimir og leiðtogar, er eitthvað meira sem þið getið gert til að styðja fjölskyldur einstæðra foreldra, án þess að fella dóma eða kasta rýrð á? Getið þið leiðbeint ungu fólki slíkra fjölskyldna, einkum sýnt ungum mönnum fordæmi um hvað góðir menn gera og hvernig góðir menn lifa? Sýnið þið gott fordæmi sem verðugt er eftirbreytni þar sem feður eru ekki til staðar?

En að sjálfsögðu eru líka fjölskyldur einstæðra þar sem faðirinn er einstætt foreldri. Bræður, við biðjum líka fyrir ykkur og vottum ykkur virðingu. Þessi boðskapur er líka ætlaður ykkur.

Einstæðu foreldrar, ég ber vitni um, að ef þið gerið ykkar allra besta í hinum erfiðustu mannlegu áskorunum, mun himinninn brosa við ykkur. Þið eruð sannlega ekki einsömul. Lát hinn endurleysandi kærleiksríka kraft Krists lýsa upp líf ykkar nú og fylla ykkur von eilífra fyrirheita. Verið hugdjörf. Hafið trú og von. Takist á við líðandi stund af æðruleysi og lítið með tiltrú til framtíðar. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Neal A. Maxwell, Notwithstanding My Weakness (1981), 68.

  2. Í Gordon B. Hinckley, „In the Arms of His Love,” Líahóna og Ensign, nóv. 2006, 117.