2010–2019
Kraftur himins
Apríl 2012


Kraftur himins

Prestdæmishafar, bæði ungir og aldnir, þurfa bæði valdsumboðið og kraftinn ‒ hina nauðsynlegu heimild og hina andlegu getu til að verða fulltrúar Guðs í sáluhjálparstarfinu.

Kæru bræður, ég er þakklátur fyrir að við getum tilbeðið saman sem fjölmennur hópur prestdæmishafa. Ég ann og dái ykkur fyrir verðugleika ykkar og góð áhrif um allan heim.

Ég býð ykkur öllum að íhuga hvernig þið mynduð svara eftirfarandi spurningu sem David O. McKay forseti lagði fyrir meðlimi kirkjunnar fyrir mörgum árum: „Ef sérhvert ykkar væri á þessari stundu beðið um að segja í einni setningu hver væri sérstæðasti eiginleiki Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, hvert yrði þá svar ykkar? („The Mission of the Church and Its Members,” Improvement Era, nóv. 1956, 781).

Svarið sem McKay forseti gaf við þessari spurningu sinni var, „hið guðlega valdsumboð” prestdæmisins. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sker sig frá öðrum kirkjum sem fullyrða að valdsumboð þeirra eigi sér sögulegar, ritningarlegar eða kenningarlegar rætur. Við setjum fram þá einstæðu fullyrðingu að valdsumboð prestdæmisins hafi milliliðalaust verið veitt Joseph Smith af himneskum sendiboðum með handayfirlagningu.

Boðskapur minn er um þetta guðlega prestdæmi og kraft himins. Ég bið einlæglega um hjálp anda Drottins er við lærum saman þennan mikilvæga sannleika.

Vald og kraftur prestdæmisins

Prestdæmið er valdsumboð frá Guði falið mönnum á jörðunni til þess að starfa að öllu sem viðkemur sáluhjálp mannkyns (sjá Spencer W. Kimball, „The Example of Abraham,” Ensign, júní 1975, 3). Prestdæmið er sá háttur sem Drottinn notar til að starfa með mönnum að því að frelsa sálir. Einn auðkennandi þáttur kirkju Jesú Krists, bæði nú og til forna, er valdsumboð hans. Sönn kirkja getur ekki verið til án guðlegs valds hans.

Venjulegum mönnum er falið valdsumboð prestdæmisins. Verðugleiki og vilji ‒ ekki reynsla, sérþekking eða menntun ‒ eru skilyrðin fyrir vígslu til prestdæmisins.

Fyrirmyndinni að því að hljóta prestdæmið er lýst í fimmta trúaratriðinu: „Vér trúum, að maður verði að vera kallaður af Guði með spádómi og með handayfirlagningu þeirra sem vald hafa, til að prédika fagnaðarerindið og framkvæma helgiathafnir þess.“ Því hlýtur piltur eða karlmaður valdsumboð prestdæmisins og er vígður ákveðnu embætti af þeim sem þegar hefur prestdæmið og hefur fengið heimild til þeirrar vígslu hjá réttmætum leiðtoga með nauðsynlega prestdæmislykla.

Þess er vænst að prestdæmishafi noti hið helga valdsumboð sitt í samræmi við helgan vilja og tilgang Guðs. Ekkert sem varðar prestdæmið er sjálfhverft. Prestdæmið er ætíð notað til að þjóna, blessa og styrkja fólk.

Æðra prestdæmið er meðtekið með helgum sáttmála sem felur í sér skyldu til að starfa samkvæmt því valdsumboði (sjá K&S 68:8) og embætti (sjá K&S 107:99) sem tekið er á móti. Við, sem handhafar þessa helga valdsumboðs, erum fulltrúar sem eiga að hafa áhrif en verða ekki aðeins fyrir áhrifum (sjá 2 Ne 2:26). Prestdæmið er virkt afl fremur en óvirkt.

Ezra Taft Benson forseti sagði:

„Ekki er fullnægjandi að taka á móti prestdæminu og sitja svo aðgerðalaus og bíða þess að einhver ýti okkur til starfa. Þegar við tökum á móti prestdæminu, ber okkur skylda til að verða virkir og áhugasamir í því að vinna að málstað réttlætis á jörðunni, því Drottinn hefur sagt:

‚... Sá sem ekkert gjörir, fyrr en honum er boðið það, og tekur á móti boði með efa í hjarta og hlýðir því með hyskni, sá hinn sami er fordæmdur‘ [K&S 58:29]” (So Shall Ye Reap [1960], 21).

Spencer W. Kimball forseti lagði skýra áherslu á eðlislæga virkni prestdæmisins. „Menn rjúfa sáttmála prestdæmisins með því að brjóta boðorðin — en einnig með því að sinna ekki skyldum sínum. Til að rjúfa þann sáttmála þarf maður þar af leiðandi aðeins að gera ekkert” (The Miracle of Forgiveness [1969], 96).

Þegar við gerum okkar besta við að sinna prestdæmisskyldum okkar, getum við notið blessana af krafti prestdæmisins. Kraftur prestdæmisins er sá kraftur Guðs sem er virkur með mönnum og piltum, líkt og okkur, og hlýst fyrir persónulegt réttlæti, trúfesti, hlýðni og kostgæfni. Piltur eða karlmaður getur hlotið valdsumboð prestdæmisins með handayfirlagningu, en hann hlýtur ekki kraft prestdæmisins, sé hann óhlýðinn, óverðugur eða ófús til þjónustu.

„Réttur prestdæmisins er óaðskiljanlega tengdur valdi himins, og … valdi himins verður aðeins stjórnað og beitt eftir reglum réttlætisins.

„Hægt er að fela okkur það, rétt er það, en þegar við reynum að hylja syndir okkar eða seðja hroka okkar og fánýta metorðagirnd, eða beita stjórn eða yfirráðum eða þvingun við sálir mannanna barna, hversu lítið sem óréttlætið er, sjá, þá draga himnarnir sig í hlé. Andi Drottins tregar, og þegar hann er vikinn á brott, er úr sögunni prestdæmi eða vald þess manns“ (K&S 121:36–37; skáletrað hér).

Bræður, það er ekki boðlegt Drottni að piltur eða karlmaður taki á móti valdsumboði prestdæmisins og vanræki svo að gera það sem nauðsynleg er til að verða hæfur þess að hljóta kraft prestdæmisins. Prestdæmishafar, bæði ungir og aldnir, þurfa bæði valdsumboðið og kraftinn ‒ hina nauðsynlegu heimild og hina andlegu getu til að verða fulltrúar Guðs í sáluhjálparstarfinu.

Lexía sem ég lærði af föður mínum

Ég ólst upp á heimili trúfastrar móður og dásamlegs föður. Móðir mín átti ættir að rekja til brautryðjendanna, sem fórnuðu öllu fyrir kirkju og ríki Guðs. Faðir minn var ekki meðlimur kirkju okkar og sem ungur maður þráði hann að verða kaþólskur prestur. Að lokum ákvað hann þó að sækja ekki guðfræðiskóla og verða þess í stað verkfærasmiður.

Mestan hluta hjónabands síns sótti faðir minn samkomur í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu með okkur hinum í fjölskyldunni. Í raun höfðu margir í deildinni okkar ekki hugmynd um að faðir minn væri ekki meðlimur kirkjunnar. Hann lék með og þjálfaði kýlóboltalið deildarinnar, hjálpaði til við skátaverkefni og studdi móður mína í hinum ýmsu köllunum og skyldum hennar. Ég ætla að segja ykkur frá einni af mikilvægustu lexíunum sem ég lærði af föður mínum um vald og kraft prestdæmisins.

Þegar ég var drengur spurði ég föður minn oft að því hvenær hann hygðist láta skírast. Hann svaraði ástúðlega en ákveðinn í hvert sinn er ég spurði: „David, ég geng ekki í kirkjuna fyrir móður þína, þig eða nokkurn annan. Ég geng í kirkjuna þegar ég veit að það er rétt að gera það.”

Ég held að það hafi verið snemma á unglingsárum mínum sem ég átti eftirfarandi samtal við föður minn. Rétt áður höfðum við komið heim af sunnudagssamkomum og ég spurði föður minn hvenær hann hygðist skírast. Hann brosti og sagði: „Þú ert sá sem alltaf spyr mig um skírn. Í dag hef ég spurningu fyrir þig.” Ég ályktaði strax spenntur að nú væru framfarir í aðsigi!

Faðir minn hélt áfram: „David, kirkjan þín kennir að prestdæmið hafi verið tekið af jörðunni til forna og að það hafi verið endurreist spámanninum Joseph Smith með himneskum sendiboðum. Ég svaraði að sú fullyrðing væri rétt. Þá sagði hann: „Spurning mín er þessi. Á prestdæmisfundi í hverri viku hlusta ég á biskupinn og aðra prestdæmisleiðtoga áminna og sárbiðja mennina um að þeir sinni heimiliskennslunni og prestdæmisskyldum sínum. Ef kirkjan þín hefur í raun hið endurreista prestdæmi Guðs, af hverju eru svo margir menn í kirkjunni þinni, þegar kemur að því að sinna trúarskyldum sínum, ekkert öðruvísi en þeir sem tilheyra kirkjunni minni?” Ungur hugur minn varð þegar í stað algjörlega tómur. Ég hafði ekkert svar á reiðum höndum fyrir föður minn.

Ég held að faðir minn hafi gert rangt með því að rengja réttmæti þeirrar fullyrðingar kirkjunnar að hún hefði guðlegt valdsumboð vegna ófullkomleika þeirra manna sem hann átti samneyti við í deildinni okkar. En mér fannst að í spurningu hans fælist sú rétta ályktun, að þeir menn sem hefðu hið guðlega prestdæmi Guðs ættu að vera frábrugðnir öðrum mönnum. Menn sem hafa prestdæmið eru ekki eðlislægt betri en aðrir menn, en þeir ættu að hegða sér öðruvísi. Þeir karlmenn sem hafa prestdæmið ættu ekki aðeins að taka á móti valdsumboðinu, heldur sýna einnig á trúfastan hátt að þeir séu verðugir þess að hljóta kraft Guðs. „Verið þér hreinir, sem berið ker Drottins“ (K&S 38:42).

Ég gleymi aldrei lexíunni sem ég lærði af föður mínum um vald og kraft prestdæmisins. Hann var ekki okkar trúar, en góður maður er bjóst við meiru af þeim mönnum Guðs sem fullyrtu að þeir hefðu prestdæmi Guðs. Samtalið sem ég átti við föður minn þetta sunnudagssíðdegi fyrir mörgum árum vakti með mér þrá eftir að verða „góður drengur.” Ég vildi ekki verða föður mínum slæmt fordæmi eða hrösunarhella er hann lærði um hið endurreista fagnaðarerindi. Ég vildi einfaldlega verða góður drengur. Drottinn þarfnast þess að við allir, sem handhafar valdsumboðs hans, séum heiðarlegir, dyggðugir og alltaf og allsstaðar góðir drengir.

Þið kunnið að hafa áhuga á því að vita að faðir minn lét skírast nokkrum árum síðar. Og þegar að því kom veittist mér tækifæri til að veita honum Aronsprestdæmið og síðan Melkísedeksprestdæmið. Ein dásamlegasta reynsla mín var sú, að sjá föður minn taka á móti valdsumboði og að lokum krafti prestdæmisins.

Ég miðla ykkur þessari beinskeyttu lexíu sem ég lærði af föður mínum, til að leggja áherslu á einfaldan sannleika. Að hljóta valdsumboð prestdæmisins með handayfirlagningu er mikilvægt upphaf, en er ekki fullnægjandi. Vígslan veitir valdsumboðið, en réttlætis er krafist til að starfa með krafti, er við leggjum kapp á að upphefja sálir, kenna og vitna, blessa og leiðbeina og efla sáluhjálparstarfið.

Þið og ég, sem prestdæmishafar á þýðingarmesta sögutímabili jarðar, verðum að vera réttlátir menn og öflugt verkfæri í höndum Guðs. Við þurfum að láta til okkar taka sem menn Guðs. Við gerðum vel ef við lærðum af og lifðum eftir fordæmi Nefís, sonarsyni Helamans og hins fyrsta sem frelsarinn kallaði af lærisveinunum tólf við upphaf þjónustu sinnar meðal Nefítanna. „Og hann þjónaði þeim margvíslega, … og Nefí þjónaði með krafti og í miklu veldi” (3 Ne 7:17).

„Viltu hjálpa eiginmanni mínum að skilja“

Við lok musterisviðtala, sem ég átti sem biskup og stikuforseti, spurði ég oft giftar systur að því hvernig ég gæti best þjónað þeim og fjölskyldu þeirra. Svörin sem ég fékk svo oft hjá þessum trúföstu konum voru bæði fræðandi og kvíðvænleg. Systurnar kvörtuðu eða gagnrýndu varla nokkurn tíma, en þær svöruðu oft svona: „Viltu hjálpa eiginmanni mínum að skilja ábyrgð sína sem prestdæmisleiðtoga á heimili okkar. Ég get með ánægju haldið áfram að vera leiðandi í ritningarnámi, fjölskyldubænum og á fjölskyldukvöldum, en ég vildi óska að eiginmaður minn stæði jafnfætis mér og veitti þá öflugu prestdæmishandleiðslu sem hann einn getur veitt. Geturðu hjálpað eiginmanni mínum að læra hvernig hann á að vera patríarki og prestdæmisleiðtogi á heimili okkar, höfuð þess og verndari.”

Ég íhuga oft einlægni þessara systra og bón þeirra. Prestdæmisleiðtogar heyra álíka áhyggjuefni í dag. Margar eiginkonur þrá innilega að eiginmenn þeirra hafi ekki aðeins valdsumboð prestdæmisins, heldur líka kraft prestdæmisins. Þær þrá að deila jafnt byrði sinni með trúföstum eiginmanni og prestdæmisfélaga í því verki að skapa kristilegt og trúarsinnað heimili.

Bræður, ég heiti því, að ef þið og ég munum íhuga bænþrungið ákall þessara systra, mun heilagur andi hjálpa okkur að sjá okkur sjálfa eins og við í raun erum (sjá K&S 93:24) og hjálpa okkur að sjá hverju við þurfum að breyta og hvað að bæta. Og stundin til að gera það er núna!

Verið fyrirmyndir réttlætis

Í kvöld ítreka ég kenningar Thomas S. Monson forseta, sem hefur boðið okkur að vera „fyrirmyndir réttlætis.” Hann hefur áminnt okkur endurtekið að við séum erindrekar Drottins og eigum rétt á hjálp hans í samræmi við verðugleika okkar (sjá „Examples of Righteousness,” Líahóna og Ensign, maí 2008, 65–68). Við, þið og ég, höfum valdsumboð prestdæmisins, sem hefur komið að nýju til jarðar í þessari ráðstöfun með himneskum sendiboðum, já, Jóhannesi skírara og Pétri, Jakobi og Jóhannesi. Og því getur hver maður sem hefur Melkísedeksprestdæmið rakið valdalínu sína beint til Drottins Jesú Krists. Ég vona að við séum þakklátir fyrir þá dásamlegu blessun. Ég bið þess að við verðum hreinir og verðugir fulltrúar Drottins, er við notum hans helga valdsumboð. Megi sérhver okkar verða hæfur þess að hljóta kraft prestdæmisins.

Ég ber sannlega vitni um að prestdæmið hafi verið endurreist á jörðu á þessum síðari dögum og að það er að finna í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég ber líka vitni um að Thomas S. Monson er ríkjandi háprestur hins háa prestdæmis kirkjunnar (sjá K&S 107:9, 22, 65–66, 91–92) og sá eini á jörðinni sem bæði hefur og er heimilt að nota alla lykla prestdæmisins. Um þann sannleika ber ég hátíðlega vitni í helgu nafni Drottins Jesú Krists, amen.