2010–2019
Koma til sjálfs sín: Sakramentið, musterið og fórn í þjónustu
Apríl 2012


Koma til sjálfs sín: Sakramentið, musterið og fórn í þjónustu

Við umbreytumst og verðum andlega sjálfbjarga þegar við lifum bænheit eftir sáttmálum okkar.

Frelsarinn sagði lærisveinum sínum frá syni sem yfirgaf auðugan föður sinn, fór til fjarlægs land og sóaði öllum arfi sínum. Þegar mikil hungursneyð varð tók ungi maðurinn að sér að annast svínin. Hann var svo hungraður að hann vildi eta úrganginn sem ætlaður var dýrunum.

Fjarri heimili sínu, bjargarlaus og í aðstöðu sem var langt frá væntingum hans, gerðist nokkuð sem hafði eilíft gildi í lífi þessa unga manns. Með orðum frelsarans: „Nú kom hann til sjálfs sín.”1 Það rann upp fyrir honum hver hann var og hvers hann hafði farið á mis við og hann tók að þrá blessanirnar sem hann naut svo ríkulega í húsi föður síns.

Alla okkar ævi, hvort heldur á tímum myrkurs, áskorana, sorgar eða syndar, getum við fundið heilagan anda minna okkur á að við erum sannlega synir og dætur umhyggjusams himnesks föður, sem elskar okkur, og að við þráum þær helgu blessanir sem aðeins hann megnar að veita. Á þeim tímum ættum við að reyna að koma til sjálfs okkar og koma aftur í kærleiksljós frelsarans.

Þær blessanir tilheyra réttilega öllum börnum himnesks föður. Að þrá þær blessanir, ásamt gleðiríku og hamingjusömu lífi, er nauðsynlegur hluti áætlunar himnesks föður fyrir hvert okkar. Spámaðurinn Alma kenndi: „Jafnvel þótt ekki sé nema löngun til að trúa, látið þá undan þessari löngun.”2

Þegar andleg þrá okkar eykst, verðum við andlega sjálfbjarga. Hvernig hjálpum við þá öðrum, sjálfum okkur og fjölskyldu okkar að þrá heitar að fylgja frelsaranum og lifa eftir fagnaðarerindi hans? Hvernig aukum við þrá okkar eftir að iðrast, verða verðug og standast allt til enda? Hvernig hjálpum við æskufólkinu og unga fólkinu okkar að láta undan þessari löngun, þar til þau láta snúast til trúar og verða „[heilög] fyrir friðþægingu Krists”?3

Við umbreytumst og verðum andlega sjálfbjarga þegar við lifum bænheit eftir sáttmálum okkar ‒ með því að taka verðug sakramentið, vera verðug musterismeðmæla og fórna til að þjóna öðrum.

Þegar við meðtökum sakramentið verðug, þá minnumst við þess að við erum að endurnýja sáttmálann sem við gerðum við skírnina. Til að sakramentið geti verið okkur andlega heinsandi upplifun í viku hverri, þá þurfum við að undirbúa okkur sjálf áður en við komum á sakramentissamkomu. Það gerum við með því að gera fúslega hlé á daglegum störfum og afþreyingu og láta af veraldlegum hugsunum og áhyggjum. Þegar við gerum það, hliðrum við til í huga okkar og hjarta fyrir heilögum anda.

Þá verðum við undir það búin að ígrunda friðþæginguna. Við hugsum þá ekki aðeins um staðreyndir þjáninga og dauða frelsarans, heldur gerir sú ígrundun okkur kleift að skilja, að fyrir fórn frelsarans gefst okkur von, tækifæri og styrkur til að gera raunverulegar og hjartnæmar breytingar á lífi okkar.

Þegar við syngjum sakramentissálm, hlustum á sakramentisbænirnar og meðtökum af táknunum um hold hans og blóð, leitum við með bæn í hjarta fyrirgefningar á syndum okkar og misgjörðum. Við hugsum um loforðin sem við gáfum og héldum í liðinni viku og ákveðnar persónulegar skuldbindingar um að fylgja frelsaranum í komandi viku.

Foreldrar og leiðtogar, þið getið hjálpað æskufólkinu að upplifa hinar óviðjafnanlegu blessanir sakramentisins, með því að sjá þeim fyrir tækifærum til að læra, ræða um og uppgötva mikilvægi friðþægingarinnar í lífi þess. Látið þau sökkva sér niður í ritningarnar og kenna hvert öðru út frá eigin reynslu.

Feður, prestdæmisleiðtogar og sveitarforsætisráð bera sérstaka ábyrgð á að hjálpa Aronsprestdæmishöfum að búa sig einlæglega undir að framfylgja helgum sakramentisskyldum sínum. Sá undirbúningur á sér stað alla vikuna með því að lifa eftir stöðlum fagnaðarerindisins. Þegar ungir menn undirbúa, blessa og útdeila sakramentinu af verðugleika og lotningu, eru þeir bókstaflega að fylgja fordæmi frelsarans við síðustu kvöldmáltíðina4 og verða honum líkir.

Ég ber vitni um að sakramentið gerir okkur kleift að koma til sjálfs okkar og upplifa „gjörbreytingu” í hjarta5 ‒ að muna hver við erum og hver þrá okkar þarf að vera. Þegar við endurnýjum sáttmálann um að halda boðorðin, hljótum við samfélag heilags anda til að leiða okkur aftur í návist himnesks föður. Engin furða að okkur sé boðið að „koma oft saman til að neyta brauðs og [vatns]“6 og meðtaka sakramentið fyrir sálir okkar.7

Auk sakramentisins, þá eflir það þrá okkar líka til að snúa að nýju til himnesks föður að vera verðug þess að hljóta musterismeðmæli. Við verðum verðug með því að halda boðorðin stöðugt og trúfastlega. Slík hlýðni hefst í barnæsku og styrkist með reynslu okkar í Aronsprestdæminu og Stúlknafélaginu á árum undirbúnings. Þá munu prestar og lárviðarmeyjar setja sér markmið og búa sig sérstaklega undir musterisgjöf og innsiglun.

Hverjir eru staðlarnir fyrir meðmælahafa? Sálmahöfundurinn áminnir okkur:

„Hver fær að stíga upp á fjall Drottins, hver fær að dveljast á hans helga stað?

Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta.”8

Verðugleiki til að hafa musterismeðmæli veitir okkur styrk til að halda musterissáttmála okkar. Hvernig hljótum við sjálf þann styrk? Við keppum að því að hljóta vitnisburð um himneskan föður, Jesú Krist, heilagan anda, raunveruleika friðþægingarinnar og sannleiksgildi spámannsins Josephs Smith og endurreisnarinnar. Við styðjum leiðtoga okkar, sýnum fjölskyldum okkar góðvild, stöndum sem vitni hinnar sönnu kirkju Drottins, sækjum kirkjusamkomur, heiðrum sáttmála okkar, framfylgjum foreldraábyrgð okkar og lifum dyggðugu lífi. Þið kunnið að segja að þetta hljómi bara líkt og trúfastur Síðari daga heilagur gerir! Þið hafið rétt fyrir ykkur. Staðlar musterismeðmæla eru ekki of erfiðir fyrir okkur að lifa eftir. Það er einfaldlega að lifa trúfastlega eftir fagnaðarerindinu og fylgja spámönnunum.

Síðan, sem musterismeðmælishafar með musterisgjöf, tileinkum við okkur kristilegt líferni. Í því felst hlýðni, að fórna til að halda boðorðin, elska hver annan, vera hrein í hugsun og breytni og gefa af okkur sjálfum til að efla ríki Guðs. Fyrir friðþægingu frelsarans og með því að fylgja þessum grunnatriðum trúfestunnar, hljótum við „kraft frá upphæðum”9 til að takast á við erfiðleika lífsins. Við þörfnumst þess guðlega krafts meira en nokkru sinni fyrr . Þann kraft hljótum við aðeins fyrir helgiathafnir musterisins. Ég ber vitni um að þær fórnir sem við færum til að hljóta helgiathafnir musterisins eru alls erfiðis virði.

Eftir því sem þrá okkar eflist til að lifa eftir fagnaðarerindinu, leitumst við eðlilega eftir að þjóna hvert öðru. Frelsarinn sagði við Pétur: „Styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.”10 Ég hrífst af því að æskufólkið nú búi yfir sterkri þrá til að þjóna og blessa aðra ‒ að láta til sín taka í þessum heimi. Það þarfnast líka gleðinnar sem þjónusta þess veitir.

Það reynist æskufólki þó erfitt að skilja hvernig núverandi breytni getur búið það undir verðandi þjónustu eða gert það vanhæft fyrir hana. „Óhjákvæmileg skylda”11 okkar allra er að hjálpa æskufólkinu að búa sig undir ævilanga þjónustu með því að stuðla að sjálfsbjörg þess. Auk andlegrar sjálfsbjargar, sem við höfum rætt um, er líka stundleg sjálfsbjörg, sem felst í menntun eða starfsþjálfun, að læra að vinna og lifa innan tekjumarka. Með því að forðast skuldir og leggja fyrir, búum við okkur undir fulla kirkjuþjónustu á komandi árum. Tilgangur bæði stundlegrar og andlegrar sjálfbjargar er að komast á hærri jörð svo við getum lyft öðrum í neyð.

Hvort sem við erum ung eða aldin, ákvarðast sú þjónusta sem við innum af hendi og njótum af því hvað við gerum nú. Skáldið áminnir okkur: „Af öllum döprum orðum tungu eða penna, eru þessi dapurlegust: ‚Það hefði getað orðið.‘“12 Við skulum ekki lifa þannig að við sjáum eftir því sem við gerðum eða gerðum ekki!

Kæru bræður og systur, ungi maðurinn sem frelsarinn talaði um, sá sem við vísum til sem glataða sonarins, sneri heim. Faðir hans hafði ekki gleymt honum; faðir hans beið hans. Faðir hans hafði ekki gleymt honum; faðir hans beið hans. Og „er [sonurinn] var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og ... kyssti hann.“13 Til að halda upp á heimkomu sonar síns, bað hann um skikkju, hring og lét slátra kálfi14 ‒ sem er áminning fyrir okkur um að engri blessun verði haldið eftir, ef við stöndumst trúfastlega á endurkomuleið okkar til himnesks föður.

Með elsku hans og elsku sonar hans í hjarta mínu, hvet ég sérhvert ykkar til að hlíta andlegum þrám ykkar og koma til sjálfs ykkar. Ræðum við okkur sjálf í speglinum og spyrjum: „Hvernig stend ég mig í því að lifa eftir sáttmálum mínum?“ Við erum á réttri leið, ef við getum sagt: „Ég tek sakramentið verðuglega í hverri viku, ég er verðugur þess að hafa musterismeðmæli og fara í musterið og ég fórna til að þjóna og blessa aðra.“

Ég gef ykkur sérstakan vitnisburð minn um að Guð elskar svo heitt „að hann gaf son sinn eingetinn“15 til að friðþægja fyrir syndir okkar. Hann þekkir okkur og bíður okkar, jafnvel þótt við séum afar fjarri. Þegar við breytum samkvæmt þrám okkar og komum til sjálfra okkar, munu „elskandi armar hans umlykja [okkur]“16 og bjóða okkur velkomin heim. Um það vitna ég í hinu helga nafni frelsara okkar Jesú Krists, amen.