2023
Bjartari dagar eru framundan
Janúar 2023


„Bjartari dagar eru framundan,“ Til styrktar ungmennum, jan. 2023.

Lífshjálp

Bjartari dagar eru framundan

Von, liðsinni og lækning standa þeim til boða sem hafa orðið fyrir einhvers konar ofbeldi.

Ljósmynd
kona með Jesú Kristi

Eitt sinn flaug ég burt frá svæði sem var reykfyllt vegna skógarelda í nágrenninu. Þegar flugvélin fór í loftið brutumst við í gegnum öskuþokuna og upp í heiðskýran, sólríkan himininn. Ég áttaði mig á því að glampandi sólin og hreint loftið hafði verið þarna allan tímann, en geta mín til að njóta þessa var ekki fyrir hendi út af einhverju sem ég hafði ekki stjórn á. Skógareldurinn var ekki mér að kenna, en hann hafði samt haft áhrif á líf mitt.

Þetta á við um ofbeldi. Þeir sem verða fyrir einhvers konar ofbeldi eiga aldrei sökina, en þeir verða samt að takast á við afleiðingarnar. Ofbeldi getur lokað á sjálfsvirðingartilfinningu okkar og gert okkur erfitt fyrir með að finna kærleika Guðs. Það getur tekið tíma fyrir þolendur að brjótast í gegnum lygaský Satans til að tengjast aftur eilífum sannleika. Von, liðsinni og lækning standa þó til boða í hverju skrefi leiðarinnar!

Ein saga

Pabbi Stacie1 var ofbeldishneigður. Hann sagði hana verða gagnslausa þegar hún yxi úr grasi. Hann lét henni finnast eins og hún væri einskis virði.

Þegar Stacie flutti í burtu til að fara í háskóla, gat hún hugsað skýrar. Hún byrjaði aftur að fara í kirkju og fann fyrir kærleika Guðs til sín og fjölskyldu sinnar. Með tímanum fann hún aukinn frið í fagnaðarerindinu og í sambandi sínu við frelsarann.

Áætlað er að um einn milljarður barna um allan heim verði fyrir einhvers konar ofbeldi á þessu ári.2 Kannski eruð þið eða aðrir sem þið þekkið að ganga í gegnum reynslu eins og Stacie. Eftirfarandi úrræði geta hjálpað.

Ef þið eruð að upplifa einhvers konar ofbeldi

Ef verið er að meiða ykkur, segið þá endilega einhverjum frá því sem er að gerast hjá ykkur. Vitið að Guð elskar ykkur! Það gera líka réttlátir fjölskyldumeðlimir, vinir og kirkjumeðlimir í lífi ykkar. Þeir munu standa með ykkur og hjálpa ykkur að komast í gegnum þetta.

Vitið líka endilega: „Ofbeldið var ekki, er ekki og mun aldrei verða ykkar að kenna. … Þið eruð ekki þau sem þurfa að iðrast; þið berið enga ábyrgð.“3

Dr. Sheldon Martin, meðferðaraðili hjá fjölskylduþjónustu kirkjunnar, segir að það geti verið gagnlegt fyrir þolendur að einbeita sér að eilífum sannleika um eigin fortíð, nútíð og framtíð.

  • Fortíð: „Fleirum þykir vænt um ykkur en þið gerið ykkur grein fyrir,“ segir Dr. Martin og bendir á að þið séuð fyrst og fremst barn himneskra foreldra. Eilíf fjölskylda ykkar nær langt út fyrir jarðnesk sambönd ykkar. Auk styrks og huggunar frá himneskum föður, Jesú Kristi og heilögum anda, eigið þið kærleiksríka áa hinum megin hulunnar, sem þykir vænt um ykkur og gætu þjónað ykkur.

  • Nútíð: „Það er í lagi að elska ykkur sjálf eins og þið eruð núna,“ segir Dr. Martin, sama hvar þið eruð í lækningaferlinu. Það er eðlilegt að vera reið, niðurbrotin eða ringluð. Verið þolinmóð við ykkur sjálf.

  • Framtíð: „Hlutirnir munu batna,“ segir Dr. Martin. „Ég veit það vegna þess að ég þekki frelsarann. Hann lætur sér annt um ykkur.“ Gerið það sem þið getið til að vera í nálægð hans. Þegar þið gerið það, munuð þið geta sagt skilið við eitruð sambönd og fundið frið hans og kærleika í auknum mæli.

Ef þið teljið vini verða fyrir einhvers konar ofbeldi

  • Spyrjið þá beint: „Er einhver að meiða þig?“

  • Hlustið vandlega á það sem þeir segja. Sýnið þeim góðvild og samúð.

  • Segið einhverjum frá sem getur hjálpað, eins og kennara, foreldri, skólaráðgjafa eða kirkjuleiðtoga.

  • Haldið áfram að vera vinur þeirra. Komið eðlilega fram við þá. Hjálpið þeim að mynda önnur heilbrigð vináttubönd.

Halda áfram að sækja fram

Í dag er Stacie farsæl í starfi með ástríka fjölskyldu. Sumir dagar eru enn erfiðir, en hún finnur fyrir mikilli hamingju og fyrirgefningu annarra.

„Ég veit að Jesús Kristur getur læknað öll sár okkar,“ segir Stacie. Ef það er eitthvað sem hún myndi segja við aðra þolendur, þá væri það að vera vongóð.

„Það er alltaf von í Kristi,“ segir hún, „jafnvel í miðjum raunum sem virðast aldrei taka enda.“

Sama hvaða áskoranir þið eruð að ganga í gegnum, haldið áfram að lifa. Fyllið líf ykkar af gæsku og trú á þann hátt sem þið getið. Bjartari dagar eru framundan!

Heimildir

  1. Nöfnum hefur verið breytt.

  2. Sjá staðreyndir í „Violence against Children,“ Alþjóða heilbrigðisstofnunin: https://www.who.int/health-topics/violence-against-children.

  3. Patrick Kearon, aðalráðstefna, apríl 2020.