Jólasamkomur
Jesús Kristur — friðarhöfðingi okkar


Jesús Kristur — friðarhöfðingi okkar

Kæru bræður og systur, hve þetta hefur verið dásamleg stund. Tónlistin hefur verið yndisleg og boðskapurinn hlýjað okkur um hjartarætur. Andi jólanna lífgar sálir okkar!

Jólaminningar endurvakna um fjölskylduna, gjafir og þjónustu við aðra. Þær eiga rætur í raunverulegri ástæðu jólanna, hinni óviðjafnanlegu gjöf himnesks föður. „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“1

Að einblína á Drottin og eilíft líf hjálpar okkur ekki aðeins á jólunum, heldur líka að sigrast á öllum áskorunum okkar. Ófullkomnir menn búa saman á þessari jörðu. Heimur okkar er fallinn, hlaðinn gríðarlegum skuldum, stríðum, náttúruhamförum, sjúkdómum og dauða.

Persónulegar áskoranir koma. Faðir kann að hafa misst atvinnu sína. Ung móðir kann að hafa komist að alvarlegum veikindum. Sonur eða dóttir kann að hafa farið afvega. Hverjar sem áhyggjur okkar eru, þá þráum við öll innri frið.

Boðskapur minn í kvöld er um hina einu uppsprettu sannleika og ævarandi friðar, Jesú Krist - friðarhöfðingja okkar.2 Þetta var titillinn hans ásamt öðrum til hvers hann var forvígður.

Hann var smurður af föður sínum til að verða frelsari heimsins. Tvö nöfn sem hann hafði - Messías og Kristur - vísuðu til ábyrgðar hans sem hinssmurða .3

Jesús var skapari þessa heims og annarra, undir leiðsögn föður síns.4 Jesús er meðalgöngumaður okkar við föðurinn.5 Jesús var hinn fyrirheitni Immanúel,6 hinn mikli ÉG ER og Jehóva Gamla testamentisins.7

Hann var sendur af föður sínum til að framkvæma friðþæginguna,mikilvægasta verk allrar mannkynssögunnar. Ódauðleiki fyrir alla varð að veruleika, vegna friðþægingar hans, og eilíft líf varð mögulegt fyrir þá sem kjósa að fylgja honum.8 Þessi tilgangur er verk og dýrð almáttugs Guðs.9

Jesús, sem okkar mikla fyrirmynd, kenndi hvernig við eigum að haga lífi okkar, elska og læra. Hann kenndi okkur að biðja, fyrirgefa og að standast allt til enda.10

Hann kenndi okkur hvernig við eigum að hugsa meira um aðra en okkur sjálf. Hann kenndi okkur um miskunn og góðvild — að gera raunverulegar breytingar á lífi okkar fyrir mátt sinn. Hann kenndi okkur hvernig við finnum frið í huga og hjarta. Dag einn munum við standa frammi fyrir honum sem okkar réttláta dómara og milda meistara.11

Þessi helgu hlutverk Drottins fá okkur til að vegsama hann, sem okkar persónulega og ævarandi friðarhöfðingja. Við lofum hann fyrir þau forréttindi að vera foreldrar, afar og ömmur og kennarar barna.

Jólin eru kær tími fjölskyldunnar. Stundir fjölskyldunnar eru helgar. Við getum hjálpað börnum okkar að koma til frelsarans. Tónlistin getur hjálpað. Börnum okkar finnst gaman að syngja: „Mig langar að líkjast Jesú.“12

Jesús sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki.“13

Hann getur fært þeim frið sem illa eru leiknir eftir stríð. Laskaðar fjölskyldur vegna herþjónustu eiga minningar um stríð, sem hefur greypst í huga minn frá Kóreustríðinu.

Stríð okkar tíma eru margbrotnari, en fjölskyldum jafn erfið. Þeir sem þjást geta komið til Drottins. Hughreystandi boðskapur hans er um frið á jörðu og gæsku á meðal manna.14

Þeir sem eru illa haldnir geta hlotið frið. Sumir eru sárir á líkama. Aðrir þjást andlega vegna ástvinamissi eða annarra tilfinningalegra áfalla. Bræður og systur, þið getið fundið sálarfrið með því að iðka trú á friðarhöfðingjann.

„Eru nokkrir sjúkir yðar á meðal? Færið þá hingað. Eru einhverjir lamaðir, blindir, haltir, særðir, ... eða þjáðir á einhvern hátt? Færið þá hingað, og ég mun gjöra þá heila.“15

„Ég sé, að trú yðar er nægjanleg til að ég lækni yður.“16

Sá sem þjáist og syrgir getur hlotið frið. Hvort sem sorgin er vegna mistaka eða syndar, þá krefst Drottinn aðeins einlægrar iðrunar. Ritningin býður okkur: „Flý þú æskunnar girndir,  … og … ákalla Drottin af hreinu hjarta.“17 Þá geta „smyrsl [hans] í Gíleað“ jafnvel læknað hina bersyndugu sál.18

Hugsið ykkur breytinguna á John Newton, sem fæddist árið 1725 í London. Hann iðraðist synda sinna sem þrælasali og varð prestur í biskupakirkjunni. Eftir þá máttugu breytingu hjartans, orti John texta sálmsins „Undursamleg náð.“

Undursamleg náð! Hve dásamlegur hljómur,

er mig auman frelsað fékk.

Því eitt sinn týndur, en fundinn nú,

blindur var, nú sjáandi er.19

„Fögnuður [verður] á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun.“20

Þeir sem erfiða og strita geta hlotið frið:

„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

„Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“21

Þeir sem syrgja geta hlotið frið. Drottinn sagði: „Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.“22 Þegar við upplifum missi ástvinar, getum við fyllst friði Drottins, fyrir hina kyrrlátu rödd andans.

„Þeir sem deyja í mér skulu eigi smakka dauðann, því að hann verður þeim ljúfur.“23

„Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“24

„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.

Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“25

Allir þeir sem einlæglega leita friðarhöfðingjans geta hlotið frið. Hann er hinn ljúfi og endurleysandi boðskapur sem trúboðar okkar færa heiminum. Þeir boða að fagnaðarerindi Jesú Krists hafi verið endurreist með spámanninum Joseph Smith.26 Trúboðar kenna þessi lífsmótandi orð Drottins: „Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín.“27

Allir þeir sem kjósa að fylgja í fótspor meistarans geta hlotið frið. Boð hans er sett fram með þremur kærleiksríkum orðum: „Kom, fylg mér.“28

Vér heiðrum friðarhöfðingjans heilagt nafn,29 því hann mun koma að nýju. þá „mun dýrð Drottins birtast, og allt hold mun sjá það.“30 Sem Messías þúsund ára ríkisins, mun hann ríkja sem konungur konunga og Drottinn drottna.31

Ef við fylgjum Jesú Kristi, mun hann leiða okkur til dvalar hjá sér og föður okkar á himnum, með fjölskyldu okkar. Ef við erum trúföst sáttmálum okkar, í hinum mörgu áskorunum jarðlífsins, ef við stöndumst allt til enda, munum við geta tekið á móti æðstu gjöf Guðs, eilífu lífi.32 Fjölskylda okkar getur átt eilífð saman í návist hans.

Guð blessi ykkur, kæru bræður mínir og systur. Megi þið öll eiga afar gleðileg jól! Ég bið þess að öll megið þið ætíð njóta allra blessana Drottins okkar — friðarhöfðingja okkar — í nafni Jesú Krists, amen.