Jólasamkomur
Hvað gerðist næst?


Hvað gerðist næst?

Gleðileg jól!

Nú líður að jólum og börnin gera þau töfrum líkust í hjörtum okkar. Okkur finnst eitthvað vanta, ef við sjáum jólin ekki með augum barnsins, því einlæg eftirvænting vaknar hjá börnunum þegar þau sjá ljósin, heyra tónlistina og finna ilminn af jólatrjánum og jólasælgætinu. Við sjáum rauða vanga og lítil nef þrýstast upp að búðargluggunum, dreymandi um aðfangadagskvöld, og litla fingur telja dagana fram að 24. desember. Foreldrar telja líka dagana fram að 24. desember. Þá dreymir um að vera tilbúin með allt fyrir jólin og að gera margt óvænt fyrir börnin.

Þegar ég var barn, saumaði móðir mín oft eitthvað óvænt á mig og tvíburasystur mína. Hún tók upp saumavélina í svefnherbergi sínu og byrjaði á verkinu mánuði fyrir jólin og dyrnar voru vandlega lokaðar meðan á saumaskapnum stóð. Þegar aðfangadagur nálgaðist saumaði hún langt fram á nótt. Þegar saumaskapurinn var næstum búinn — og aðeins var eftir að máta og falda — ráðgerði hún hvað hún gæti gert til að hægt væri að koma okkur á óvart á jólunum. Það var þá sem bundið var fyrir augu okkar. Móðir okkar fór með aðra okkar í senn inn í herbergið sitt, renndi flíkinni yfir höfuð okkar og gætti þess að bundið væri vandlega fyrir augu okkar. Þetta gekk ljómandi ... allt þar til síminn hringdi í hinu herberginu.

Áður en hún svaraði í símann, sagði hún: „Ég verð fljót og ekki dirfast að kíkja.“ Þið getið spurt: „Hvað gerðist næst?“

Það skal ég segja ykkur: Þetta var rauð flauelspeysa.

Ég ætla að segja ykkur frá því hvernig spurningin „Hvað gerðist næst“ hefur sanna jólamerkingu.

Það var eitt sinn um miðjan desember að Amy Johnston, skátaforingi í Gilbert, Arisóna, gaf sér tíma til að kenna fjörugum átta ára gömlum drengjum um fæðingu Jesú. Hún ákvað að bíða með skátaverkefnið sem hún hafði ráðgert og ræða við skátana um fyrstu jólin. Hún fékk drengina til að sitja umhverfis sig á gólfinu í fjölskylduherberginu heima hjá sér og las nokkur vers í ritningunum, um leið og hún notaði myndir sér til hjálpar við að lýsa hinni helgu frásögn um Maríu og Jósef, hirðana, stjörnuna og fæðingu Jesú barnsins í jötunni.

Hún las:

„Þá fór og Jósef úr Galelíu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, ...

ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. …

„Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.

„Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir,

en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum:

„Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“1

Þegar hún sagði frá fæðingu Jesú, tók hún eftir að allir drengirnir hlustuðu með öðru eyranu, nema John, sem drakk í sig hvert orð. John var hávær drengur og var næstum aldrei kyrr, en hann hlustaði vandlega á söguna og spurði síðan: „Hvað gerðist næst?“

Hún hélt þá áfram að segja drengjunum frá æsku Jesú. Hún sagði: „Jesús var drengur, ekki ólíkur ykkur.“ Honum þótti gaman að hlaupa og leika sér. En hann ‚óx og styrktist‘ “2 Hún sagði þeim að þegar Jesús hafi aðeins verið 12 ára, fór hann með fjölskyldu sinni til Jerúsalem. Þegar María og Jósef voru á heimleið, varð þeim ljóst að sonur þeirra var ekki við hlið þeirra. Þau fóru því í snatri aftur til Jerúsalem og fundu Jesú í musterinu, á tali við kennara og fræðimenn, sem lögðu fyrir hann spurningar, og ritningin segir að allir sem til hans heyrðu hafi „[furðað sig] stórum á skilningi hans og andsvörum.“3

„Hvað gerðist næst?“ spurði John. Amy sagði drengjunum frá þjónustu Jesú Krists og hvernig hann var fylltur anda Drottins. Í Biblíunni lesum við að hann hafi kennt hinum fátæku fagnaðarerindið, gert kraftaverk, læknað blinda og sjúka og bókstaflega reist fólk upp frá dauðum. Hann kenni: „Elskið óvini yðar, [og] gjörið þeim gott sem, sem hata yður.“4

John var greinilega gagntekinn af frásögninni og vildi vita meira. Hann spurði aftur: „Hvað gerðist næst?“ Hún sagði drengjunum að sumir hefðu hafnað Jesú og ekki líkað hann. Þeir hugðust í raun ráða hann af dögum. Hún sagði þessum ungu skátum frá Síðustu kvöldmáltíðinni, Getsemanegarðinum, krossfestingu Jesú og upprisu hans. Hún sá að allt þetta var nýtt fyrir John, sem ólmur vildi læra meira.

Hún fann sig sterklega knúna til að láta staðar numið hér, nefna hvern dreng með nafni og segja: „Jesús Kristur dó fyrir þig.“ John hlustaði vandlega þegar hún talaði til hvers drengs sérstaklega. Hún horfði síðan á hann og sagði: „John, Jesús Kristur dó fyrir þig.“ Hann leit þá á hana og spurði undrandi: „Gerði hann það fyrir mig?“

Amy sagði: „Andinn var sterkur í fjölskylduherbergi okkar þennan dag, er ungur drengur fann áhrif heilags anda, hugsanlega í fyrsta sinn.“ Hún sagði: „Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir John, en fjölskylda hans hefur nú flutt í burtu.“ En ég bið þess að sáðkornið sem gróðursett var á skátafundinum tveimur vikum fyrir jól, muni fá skotið rótum og einhvern tíma verða til þess að hann hljóti ljós fagnaðarerindisins í fyllingu sinni.“

Að jólum loknum, þegar ljósin verða tekin niður, ilmur trjánna dofnar og hverfur og jólatónlistin í viðtækjunum linnir, getum við spurt, líkt og John: „Hvað gerist næst?“

Töfrar og undrun jólanna eru aðeins upphafið. Jólin minna okkur á að barnið sem fæddist í Betleham gaf okkur tilgang til að lifa og hvað gerist næst er að mestu undir því komið að við tökum á móti frelsara okkar, Jesú Kristi, og fylgjum honum. Dag hvern bjóðum við anda hans í líf okkar. Við sjáum ljósið í öðrum; við heyrum gleðiraddir barnanna, sem vekja vonir og væntingar um framtíðina. Við finnum ástæður til að koma saman, til að tilheyra, til að þjóna og lyfta, meðan við lærum raunverulega merkingu þess að þekkja frelsara okkar, Jesú Krist. Við stöndum okkur að því að telja dagana fram að þeim atburðum lífs okkar, er við skynjum áhrif hans — til að mynda þegar barn fæðist eða skírist, þegar einhver fer í trúboð eða giftir sig í musterinu, þegar við meðtökum sakramentið í hverri viku. Við leitum hans af kristilegri trú og trú barnsins og skynjum áhrif hans.

„Nema þér ... verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.“5

Sú áætlun er dásamleg sem faðir okkar hefur gert, sem gerir okkur kleift, fyrir son hans, og frelsara okkar, Jesú Krist, að snúa að nýju til dvalar hjá honum og njóta alls þess sem faðirinn á, því það er hið endanlega svar við spurningunni: „Hvað gerist næst?“ Frelsarinn sagði: „Sá, sem tekur á móti mér, tekur á móti föður mínum— Og sá, sem tekur á móti föður mínum, tekur á móti ríki föður míns. Fyrir því mun allt, sem faðir minn á, verða honum gefið.“6

Að vera fús til að taka á móti honum, gefur því nýja merkingu að vera tilbúin fyrir 24. desember.

John, hvar sem þú ert, lifandi postular hafa sagt: „Við berum hátíðlega vitni um að tilvera [frelsara [okkar], sem er þungamiðja mannkynssögunnar, hafi ekki hafist í Betlehem eða henni lokið á Golgata. Hann er frumburður föðurins, hinn eingetni sonur í holdinu, lausnari heimsins.“7

John, gjöf hans til okkar er það sem gerist næst.

Það er sannleikur og hann gerði það fyrir ykkur. Um þennan undursamlega sannleika ber ég vitni, í nafni Jesú Krists, amen.