Jólasamkomur
Dýrð sé Guði


Dýrð sé Guði

Gleðileg jól, kæru bræður mínir og systur. Ég þakka Æðsta forsætisráðinu fyrir að fá þetta einstaka tækifæri til að miðla tilfinningum mínum um hin helgu jól og fæðingu Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists.

Ég þreytist aldrei á boðskap jólanna, sem hefst með fæðingu barnsins Jesú í Betlehem, Júda.

Jesaja ræddi um þann atburð fyrir yfir 700 árum: „Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.“1

Benjamín konungur spáði: „Og hann skal kallast Jesús Kristur, sonur Guðs, faðir himins og jarðar, skapari alls frá öndverðu, og móðir hans mun kölluð verða María.“2

Spámaðurinn Nefí heyrði rödd segja: „Á degi komanda kem ég í heiminn.“3

Daginn eftir, hinum megin við hafið, fæddist barnið Kristur. María hefur án efa horft með aðdáun á hið nýfædda barn sitt, hinn eingetna föðurins í holdinu.

Lúkas segir okkur að Í Júdeuhæðum umhverfis Betlehem, hafi hirðar verið úti í haga.4 Það voru ekki venjulegir hirðar, heldur „réttvísir og heilagir menn,“ sem bera áttu vitni um barnið Krist.5

„Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir,

en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum:

„Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. …

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“6

Ímyndið ykkur umhverfi Júdeu — himininn tær og heiður, í stjörnuljóma, og söngsveitir himins í forgrunni þessa einstæða atburðar. Hirðarnir „fóru með skyndi“7 til að sjá barnið hvíla í jötu. Síðar „skýrðu þeir frá því“8 sem þeir höfðu séð.

Á hverjum jólum gefum við vitnisburð okkar og staðfestum vitnisburð hirðanna um að Jesús Kristur, hinn bókstaflegi sonur lifanda Guðs, hafi komið til heimshluta sem við nefnum Landið helga.

Hirðarnir komu lotningarfullir að jötunni, til að vegsama konung konunganna. Hvernig vegsömum við hann þessi jól? Með stöðugum jólainnkaupum? Með kapphlaupi og hússkreytingum? Verður það lofgjörð okkar til frelsarans? Munum við kannski heldur færa hinu hrjáða hjarta frið og sýna þeim góðvild sem hafa þörf fyrir æðri tilgang og vegsama Guð með því að vera fús til að fara að boði hans. Jesús sagði einfaldlega: „Kom, fylg mér.“9

Fagnaðaerindi Jesú Krists, sem endurreist var með spámanninum Joseph Smith, hefur hljómað um heiminn með hinum trúuðu. Sjálfur hef ég verið vitni að eldmóði þeirra sem hafa tekið á móti hans helga orði, allt frá eyjum úthafs til hins víðáttumikla Rússlands.

Sumir áar mínir voru meðal hinna fyrstu heilögu sem héldu til Síonar. Kona nokkur, Hannah Last Cornaby að nafni, settist að í Spanish Fork, Utah. Á þessum erfiðu tímum taldist gott að fá safaríka appelsínu eða útskorið leikfang eða kannski tuskudúkku — en þó ekki í öllum tilvikum. Hannah skrifaði 25. desember 1856:

„Aðfangadagskvöldið kom og elskurnar mínar hengdu upp sokkana sína í sinni barnslegu trú, til að komast að því hvort eitthvað yrði í þá sett. Af döpru hjarta, sem mér tókst að leyna þeim, fullvissaði ég þau um að eftir þeim yrði munað og þau sofnuðu því glöð og hlökkuðu til þess að vakna að morgni.

Ég átti ekki til ögn af sætindum og vissi ekki hvað til bragðs átti að taka. Þau máttu samt ekki verða vonsvikin. Ég mundi þá eftir graskeri sem til var á heimilinu, sem ég sauð og lét malla í vökvanum í nokkrar klukkustundir, þar til úr varð sætt síróp. Ég notaði það og örlítið af kryddi og bjó til engiferdeig, flatti það út og mótaði á alla hugsanlega vegu, bakaði það síðan á pönnu (ég hafði ekki ofn), fyllti sokkana, og þetta gladdi þau jafn mikið og hefðu þau fengið dýrindis sælgæti.“10

Þessi frásögn lýsir móður sem vann langt fram á nótt, án þess að eiga ofn til að auðvelda sér starfið. Samt var hún staðráðin í því að gleðja börnin sín, að efla trú þeirra, að staðfesta á heimili þeirra orðin: „Þá glaðnar hjarta og ... allt fer vel.“11 Er þetta ekki boðskapur jólanna?

Monson forseti kenndi: „Tækifærin, sem við fáum til að gefa af okkur sjálfum, eru vissulega ótakmörkuð, en þau eru einnig hverful. Til eru hjörtu sem gleðja má. Góð orð sem segja má. Gjafir sem gefa má.“12

Ætíð þegar við störfum í samhljóm við Drottin — hlítum boði hans, lyftum samferðafólki okkar — berum við vitni um að hann lifir og elskar okkur, hverjar sem okkar stundlegu áskoranir eru.

Önnur mikilhæf sál í sögu kirkjunnar er skoski trúskiptingurinn, John Menzies Macfarlane. Hann gekki í kirkjuna ásamt bróður sínum og móður sinni, sem var ekkja, og þau þrjú fóru til Salt Lake City árið 1852: Hann var 18 ára gamall. Með árunum varð hann landmælingamaður, byggingameistari og jafnvel héraðsdómari, en það var tónlistin sem hann varð frægur fyrir.

Hann stofnaði fyrsta kórinn sinn í Cedar City og fór með hann í hljómleikaferð um suðurhluta Utah. Eftir að hafa komið fram í St. George, hvatti öldungur Erastus Snow, postuli og nýlenduleiðtogi, hann til að flytja til suðurhluta Utah, með fjölskylduna og tónlistina.

Fólkið hafi átt afar erfiða tíma árið 1869 og því bað öldungur Snow bróður Macfarlane að sjá um jóladagskrá, til að veita því andlega upplyftingu. Bróðir Macfarlane vildi kynna nýja og upplyftandi tónlistarsmíð á viðburðinum. En ekkert kom, hversu mikið sem hann reyndi að semja. Hann bað stöðugt um innblástur. Nótt eina gerðist það svo að hann vakti eiginkonu sína og sagði: „Ég hef texta við lag og ég held að ég hafi lagið líka.“ Hann hraðaði sér að orgelinu í stofunni, spilaði lagið og skrifaði nótur þess samhliða, meðan eiginkona hans hélt á flöktandi ljóslampa með eldþræði ofan í olíukrús. Textinn og lagið flæddu óhindrað:

Betlehemsvöllunum var hann á,

voldugi söngurinn langt hér frá.

Guði sé dýrð

Guði sé dýrð

Guði sé dýrð á himnum hátt.

Frið á jörð hér flytjum vér,

farsæld öllum mönnum ber.13

Bróðir Macfarlane hafði aldrei komið til Júdeu til að sjá að hagarnir þar væru líkari grýttum hlíðum, en hinn innblásni boðskapur tónlistar hans streymdi frá sál hans, sem vitni um um fæðingu frelsarans í Betlehem í Júdeu, upphafi sem breyta myndi heiminum.14

Ég ber vitni um að eilífur faðir okkar lifir. Sæluáætlun hans blessar innilega sérhvert barn hans, allra kynslóða. Ég veit að hans ástkæri sonur, Jesús Kristur, barnið sem fæddist í Betlehem, er frelsari og lausnari heimsins og að okkar ástkæri Thomas S. Monson forseti er spámaður hans á jörðunni í dag. Þessi lofgjörðarorð hljóma fyrir mér sem sannleikur: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“15

Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Jes 7:14.

  2. Mosía 3:8.

  3. 3 Ne 1:13.

  4. Sjá Lúk 2:8.

  5. Sjá Al 13:26.

  6. Lúk 2:9–11.

  7. Lúk 2:16.

  8. Lúk 2:17.

  9. Lúk 18:22.

  10. Hannah Last Cornaby, 25. desember 1856, Spanish Fork, Utah.

  11. „Ó, kom þú örugg Herrans heilög sveit,“ Sálmar, nr. 13.

  12. Thomas S. Monson, “The Gifts of Christmas,” Ensign, des. 2003, 2.

  13. „Betlehemsvöllunum var hann á,“ Sálmar, nr. 78.

  14. Sjá Karen Lynn Davidson, Our Latter-Day Hymns: The Stories and the Messages (1988), 224.

  15. Sálmar, nr. 91.