Námshjálp
ÞJS, Lúkas 16


ÞJS, Lúkas 16:16–23. Samanber Lúkas 16:16–18

Lögmálið og spámennirnir vitna um Jesú. Farísearnir leitast við að eyða ríkinu. Jesús kynnir dæmisöguna um ríka manninn og Lasarus.

16 Og þeir sögðu við hann: Vér höfum lögmálið og spámennina, en hvað þennan mann varðar viljum við ekki að hann verði settur yfir okkur, því að hann gjörir sjálfan sig að dómara yfir okkur.

17 Þá sagði Jesús við þá: Lögmálið og spámennirnir vitna um mig, já, og allir spámennirnir sem ritað hafa, allt til Jóhannesar, hafa sagt fyrir um þessa daga.

18 Frá þeirri stundu er fagnaðarerindi Guðs ríkis prédikað, og hver maður, sem sannleika leitar, sækir þangað inn.

19 Og auðveldara er að himinn og jörð líði undir lok en einn stafkrókur lögmálsins falli úr gildi.

20 Og hví kennið þér lögmálið en afneitið því sem skráð er, og dæmið þann sem faðirinn hefur sent til að uppfylla lögmálið, svo að þér mættuð allir endurleystir verða?

21 Ó, heimskingjar! Því að þér hafið sagt í hjörtum yðar: Enginn Guð er til. Og þér rangsnúið því sem rétt er og ríki himna má þola ofbeldi yðar. Og þér ofsækið hina hógværu og með valdi reynið þér að tortíma ríkinu. Og með valdi takið þér börn ríkisins. Vei yður, þér hórkarlar!

22 Og þeir ásökuðu hann á ný, reiðir yfir því að vera sagðir hórkarlar.

23 Og hann hélt áfram og sagði: Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra drýgir hór. Og hver sem gengur að eiga þá, sem maðurinn hefur skilið við, drýgir hór. Sannlega segi ég yður, ég vil líkja yður við ríka manninn.