Ritningar
Helaman 12


12. Kapítuli

Menn eru ótraustir, hégómlegir og skjótir til illverka — Drottinn agar fólk sitt — Menn eru ekkert í samanburði við kraft og vald Guðs — Á degi dómsins munu menn öðlast ævarandi líf eða ævarandi fordæmingu. Um 6 f.Kr.

1 Og þannig getum við séð, hve breysk og óstöðug hjörtu mannanna barna eru. Já, við getum séð, að Drottinn, í takmarkalausri góðvild sinni, blessar þá og veitir þeim gengi, sem setja traust sitt á hann.

2 Já, og við getum séð, að á sama tíma og hann veitir fólki sínu gengi, já, með því að auka uppskeru þess, hjarðir þess og búpening, og gull og silfur og alls kyns dýrmæta hluti og listmuni, þyrmir lífi þess og bjargar því úr höndum óvina sinna, mildar hjörtu óvina þess, svo að þeir segi því ekki stríð á hendur, já, í stuttu máli sagt, gjörir allt fólki sínu til velfarnaðar og hamingju, já, á þeirri sömu stundu herðir það hjörtu sín og gleymir Drottni Guði sínum og treður hinn heilaga undir fótum sér — já, og það vegna meðlætis síns og afar mikillar farsældar.

3 Og á þennan hátt sjáum við, að ef Drottinn agar ekki fólk sitt með ýmsum þrengingum, já, ef hann vitjar þess ekki með dauða og skelfingu, með hungursneyð og alls kyns fári, þá gleymir það honum.

4 Ó, hversu heimsk, og hve hégómleg, og ill og djöfulleg, og hversu fljót til misgjörða og sein til góðverka mannanna börn eru! Já, hversu fljót þau eru að hlýða orðum hins illa og beina hjörtum sínum að hégóma heimsins!

5 Já, hversu fljót þau eru að hreykja sér hátt og miklast og til alls kyns misgjörða! Hversu treg þau eru til að minnast Drottins Guðs síns og ljá ráðum hans eyra! Já, hversu treg þau eru til að ganga á vegi viskunnar!

6 Sjá. Þau þrá ekki, að Drottinn Guð þeirra, sem skapaði þau, stjórni og ríki yfir þeim. Og þrátt fyrir mikla gæsku hans og miskunnsemi í þeirra garð hafa þau að engu ráð hans og þiggja ekki leiðsögn hans.

7 Ó, hversu einskisverð mannanna börn eru! Já, þau eru dufti jarðar síðri.

8 Því að sjá. Duft jarðar flyst hingað og þangað og greinist í sundur að boði okkar mikla og ævarandi Guðs.

9 Já, sjá. Hæðir og fjöll skjálfa og nötra við raust hans.

10 Við kraft raddar hans leysast þau upp og verða að jafnsléttu, já, jafnvel að dalverpi.

11 Já, við kraft raddar hans skelfur öll jörðin —

12 Já, við kraft raddar hans hristast undirstöðurnar inn að innstu rótum.

13 Já, og ef hann segir jörðinni að hreyfast, þá hreyfist hún.

14 Já, ef hann segir við jörðina: Far aftur á bak, svo að dagurinn lengist um margar stundir — þá verður svo —

15 Og þannig snýst jörðin öfugt að boði hans, og manninum virðist sem sólin standi kyrr. Já, og sjá, svo er það, því að vissulega er það jörðin sem snýst, en ekki sólin.

16 Og sjá einnig. Ef hann segir vötnum hins mikla dýpis: Þornið þið — þá verður svo.

17 Sjá. Ef hann segir við þetta fjall: Rís þú og kom þú og fall yfir þessa borg, svo að hún grafist niður — sjá, þá verður svo.

18 Og sjá. Feli einhver fjársjóð í jörðu og Drottinn segir: Bölvun hvíli yfir honum vegna misgjörða þess, sem fól hann — sjá, þá er hann bölvaður.

19 Og segi Drottinn: Bölvun hvíli yfir þér, svo að enginn maður finni þig héðan í frá og að eilífu — sjá, þá nær enginn maður honum héðan í frá og að eilífu.

20 Og sjá. Ef Drottinn segir við manninn: Vegna misgjörða þinna skalt þú bölvaður vera að eilífu — þá verður svo.

21 Og ef Drottinn segir: Vegna misgjörða þinna skalt þú útilokaður úr návist minni — þá mun hann láta svo verða.

22 Og vei sé þeim, sem hann segir slíkt við, því að það verður sá, sem misgjörðir drýgir, og hann getur ekki frelsast. Þess vegna og í þeim tilgangi, að maðurinn megi frelsast, hefur iðrun verið boðuð.

23 Blessaðir eru því þeir, sem vilja iðrast og gefa gaum að rödd Drottins Guðs síns, því að þetta eru þeir sem hólpnir verða.

24 Og megi Guð í sinni miklu fullkomnun gefa, að menn verði leiddir til iðrunar og góðra verka og að þeir verði með náð endurreistir til náðar, samkvæmt verkum sínum.

25 Og ég vildi, að allir menn mættu frelsast. En við lesum, að á hinum mikla og efsta degi, muni sumum verða vísað burt, já, vísað úr návist Drottins.

26 Já, sumir verða dæmdir til óendanlegrar vansældar, til uppfyllingar þeim orðum, er svo hljóða: Þeir, sem gott hafa gjört, skulu hljóta ævarandi líf, en þeir, sem illt hafa gjört, skulu hljóta ævarandi fordæmingu. Og þannig er það. Amen.