Tónlist
Formáli Æðsta forsætisráðsins


Formáli Æðsta forsætisráðsins

Þremur mánuðum eftir að kirkjan var stofnuð bauð Drottinn, fyrir munn spámannsins Josephs Smith, Emmu, eiginkonu Josephs, að safna saman helgum sálmum fyrir kirkjuna: “Því að sál mín hefur unun af söng hjartans, já, söngur hinna réttlátu er bæn til mín, og henni mun svarað með blessun yfir höfuð þeirra” (K&S 25:12).

Nú, 150 árum eftir að fyrsta sálmabók kirkjunnar var gefin út, er það okkur ánægjuefni að kynna þessa endurnýjuðu útgáfu. Margir sálmar, sem voru í fyrstu sálmabókinni og í síðari útgáfum, er í þessari og einnig fjöldi nýrra sálma. Allir hafa þeir verið valdir til þess að mæta þörfum núverandi kirkjumeðlima um allan heim.

Tónlist á kirkjusamkomum okkar

Andrík tónlist er mikilvægur þáttur á kirkjusamkomum okkar. Sálmarnir kalla á anda Drottins, skapa lotningu, sameina kirkjumeðlimi og gera okkur mögulegt að syngja Drottni lof.

Sumar bestu prédikanirnar eru fluttar með sálmasöng. Sálmar hvetja okkur til iðrunar og góðra verka, styrkja vitnisburð og trú, hughreysta vondaufa og þreytta, hugga syrgjendur og hvetja okkur til að standast allt til enda.

Við vonumst eftir að sjá og heyra aukinn sálmasöng hjá söfnuðum okkar. Við hvetjum alla kirkjumeðlimi, hvort sem þeir eru músikalskir eða ekki, að sameinast okkur í sálmasöng. Við vonum að leiðtogar, kennarar og aðrir kirkjumeðlimir, sem kallaðir eru til að tala muni oft snúa sér að sálmabókinni og finna þar prédikun sem sýnd er í máttugu og fögru versi.

Síðari daga heilagir eiga sér langa hefð í kórsöng. Sérhver deild og grein kirkjunnar ætti að hafa kór sem syngur reglulega. Við hvetjum kórana til að nota sálmabókina sem megin efnisval sitt.

Tónlist á heimilum okkar

Í tónlististinni felst ótakmarkaður kraftur til að auka andlegan styrk fjölskyldna og hollustu þeirra við fagnaðarerindið. Tónar verðugrar tónlistar ættu að fylla heimili Síðari daga heilagra.

Sálmabókin okkar er jafnt fyrir heimili og samkomuhús. Við vonum að hún skipi sinn sess meðal helgirita og annarra trúarrita á heimilum okkar. Sálmarnir geta fært fjölskyldum fegurð og frið og örvað ást og einingu innan þeirra.

Vekið ást í brjóstum barna ykkar til sálmanna. Syngið þá á hvíldardaginn, á fjölskyldukvöldum, við ritningalestur og á bænarstundum. Syngið meðan þið vinnið, leikið eða ferðist saman. Syngið sálmana sem vögguljóð og kveikið trú og vitnisburð í brjóstum barna ykkar.

Tónlist í einkalífi okkar

Sálmarnir eru ekki aðeins kirkju og fjölskyldu til blessunar, þeir geta einnig orðið einstaklingum til mikils góðs. Sálmarnir geta lyft anda okkar, veitt okkur hugrekki og hvatt okkur til réttlátra verka. Þeir geta fyllt sálir okkar himneskum hugsunum og fært okkur friðaranda.

Sálmar geta hjálpað okkur að standast freistingar andstæðingsins. Við hvetjum ykkur til að leggja eftirlætissálma ykkar á minnið og lesa ritningarversin sem fylgja þeim. Ef óverðugar hugsanir sækja á huga ykkar skuluð þið raula sálminn og fylla þannig hugann af hinu góða um leið og þið ýtið hinu illa út.

Bræður og systur, notum sálmana til að kalla á anda Drottins inn í söfnuði okkar, á heimili okkar og inn í líf okkar sjálfra. Leggjum þá á minnið, íhugum þá, vitnum í þá og syngjum þá og neytum þannig hinnar andlegu næringar. Vitið að söngur hinna réttlátu er bæn til föðurins á himnum, og “henni mun svarað með blessun yfir höfuð þeirra”.

Æðsta forsætisráðið