Gamla testamentið 2022
9.–15. maí. 4. Mósebók 11–14; 20–24: „Gerið ekki uppreisn gegn Drottni. Óttist ekki“


„9.–15. maí. 4. Mósebók 11–14; 20–24: ‚Gerið ekki uppreisn gegn Drottni. Óttist ekki,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)

„9.–15. maí. 4. Mósebók 11–14; 20–24,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022

Ljósmynd
eyðimerkurdalur

9.–15. maí

4. Mósebók 11–14; 20–24

„Gerið ekki uppreisn gegn Drottni. Óttist ekki“

Í þessum lexíudrögum er áhersla lögð á sumar hinna mörgu dýrmætu reglna í 4. Mósebók. Verið opin fyrir fleiri reglum sem andinn gæti hjálpað ykkur að skilja.

Skráið hughrif ykkar

Að öllu jöfnu tæki það ekki 40 ár að ferðast yfir eyðimörkina í Sínaí til fyrirheitna landsins í Kanaanslandi, jafnvel fótgangandi. Ísraelsmenn þurftu þó svo langan tíma, ekki til að sigrast á hinni landfræðilegu fjarlægð, heldur hinni andlegu fjarlægð: fjarlægðinni sem skildi á milli þess sem þeir voru og þess sem Drottinn vildi að þeir yrðu, sem sáttmálsþjóð hans.

Í 4. Mósebók er greint frá nokkru því sem gerðist á þessum 40 árum, þar með talið lexíum sem Ísraelsmenn þurftu að læra fyrir inngöngu sína í fyrirheitna landið. Þeir lærðu að vera trúfastir hinum útvöldu þjónum Drottins (sjá 4. Mósebók 12). Þeir lærðu að treysta á mátt Drottins, jafnvel þegar framtíðin virtist vonlaus (sjá 4. Mósebók 13–14). Þeir lærðu líka að vantrú og vantraust leiddi til andlegra hörmunga og að þeir gætu iðrast og litið til frelsarans eftir lækningu (sjá 4. Mósebók 21:4–9).

Við erum öll að einhverju leyti eins og Ísraelsmenn. Við vitum öll hvernig er að vera í andlegri eyðimörk og sömu lexíurnar og þeir lærðu geta hjálpað okkur að komast til okkar eigin fyrirheitna lands: eilífs lífs með himneskum föður.

Til að fá yfirlit 4. Mósebókar, sjá þá „Genesis (Fyrsta Mósebók)“ í Leiðarvísi að ritningunum.

Ljósmynd
táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

4. Mósebók 11:11–17, 24–29; 12

Opinberun er öllum tiltæk, en Guð leiðir kirkju sína með spámanni sínum.

Gætið að vandanum sem Móse glímdi við í 4. Mósebók 11:11–17, 24–29 og lausninni sem Guð lagði til. Hvað haldið þið að Móse hafi átt við er hann óskaði þess „að öll þjóð Drottins væri spámenn“? (vers 29). Þegar þið íhugið þessi vers, hugleiðið þá þessi orð Russells M. Nelson forseta: „Vill Guð í raun tala til ykkar? Já! … Ó, það er svo ótal margt annað sem himneskur faðir vill að þið vitið“ („Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna, apríl 2018).

Að segja alla geta verið spámenn, merkir þó ekki að allir geti leitt fólk Guðs á þann hátt sem Móse gerði. Atvik sem skráð er í 4. Mósbók 12 varpar skæru ljósi á þetta. Hvaða aðvaranir finnið þið við lestur þessa kapítula? Hvað finnst ykkur að Drottinn vilji að þið skiljið um persónulega opinberun og að fylgja spámanninum?

Sjá einnig 1. Nefí 10:17; Kenning og sáttmálar 28:1–7; Dallin H. Oaks, „Samskiptarásirnar tvær,“ aðalráðstefna, október 2010.

4. Mósebók 13–14

Ég get átt von um framtíðina með trú á Drottin.

Þegar þið lesið 4. Mósebók 13–14, reynið þá að setja ykkur í spor Ísraelsmanna. Af hverju haldið þið að þeir hafi viljað „snúa aftur til Egyptalands“? (4. Mósebók 14:3). Eruð þið einhvern tíma eins og þeir sem voru svartsýnir á að komast til fyrirheitna landsins? Hvernig mynduð þið lýsa því sem kallað var „[annar andi]“ sem Kaleb bjó yfir? (4. Mósebók 14:24). Hvað hrífur ykkur varðandi trú Kalebs og Jósúa og hvernig gætuð þið tileinkað ykkur fordæmi þeirra í aðstæðum ykkar?

Sjá einnig Teachings of Presidents of the Church: Gordon B. Hinckley (2016), 75–76.

4. Mósebók 21:4–9

Ef ég lít til Jesú Krists í trú, getur hann læknað mig andlega.

Spámenn Mormónsbókar þekktu frásögnina sem skráð er í 4. Mósebók 21:4–9 og skildu andlegt mikilvægi hennar. Hvaða aukinn skilning hljótið þið af 1. Nefí 17:40–41; Alma 33:18–22 og Helaman 8:13–15 um þessa frásögn? Íhugið þá andlegu lækningu sem þið vonist eftir, er þið lærið þessa ritningahluta. Ísraelsmenn urðu að „[horfa] til eirormsins“ (4. Mósebók 21:9) til að læknast. Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera betur við að „líta … til Guðssonarins í trú? (Helaman 8:15).

Sjá einnig Jóhannes 3:14–15; Kenning og sáttmálar 6:36; Dale G. Renlund, „Ofgnótt blessana,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

Ljósmynd
eirormur

Ísraelsmenn læknuðust af því að líta á eirorminn.

4. Mósebók 22–24

Ég get farið að vilja Guðs, þótt aðrir reyni að sannfæra mig um að gera það ekki.

Þegar Balak, konungur í Móab, frétti að Ísraelsmenn nálguðust, kallaði hann á Bíleam, mann sem var þekktur fyrir að lýsa yfir blessunum og bölvunum. Balak vildi að hann drægi mátt úr Ísraelsmönnum með bölbænum. Gætið að því hvernig Balak reyndi að sannfæra Bíleam (sjá 4. Mósebók 22:5–7, 15–17) og íhugið freistingar ykkar til að breyta gegn vilja Guðs. Hvað hrífur ykkur varðandi viðbrögð Bíleams í 4. Mósebók 22:18, 38; 23:8, 12, 26; 24:13?

Því miður virtist Bíleam að endingu láta undan þrýstingi og svíkja Ísraelsmenn (sjá 4. Mósebók 31:16; Júdasarbréfið 1:11). Íhugið hvernig þið getið verið trúföst Drottni, þrátt fyrir þrýsting frá öðrum.

Ljósmynd
táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

4. Mósebók 11:4–6.Er viðhorf okkar einhvern tíma álíka og það sem Ísraelsmenn sýndu í 4. Mósebók 11:4–6? Hvernig gæti leiðsögnin í Kenningu og sáttmálum 59:15–21 hjálpað?

4. Mósebók 12:3.Hvernig sýndi Móse að hann var „[einkar] hógvær“ í 4. Mósebók 12 eða í öðrum ritningarversum sem þið hafið lesið? Þið gætuð lesið útskýringar öldungs Davids A. Bednar á hógværð, „Hógvær og af hjarta lítillátur“ (aðalráðstefna, apríl 2018) eða í „Hógvær, hógværð“ í Leiðarvísi að ritningunum (KirkjaJesuKrists.is, Ritningar/Námshjálp). Hvað lærum við um það hvernig við getum orðið hógværari? Hvaða blessanir geta hlotist þegar við gerum það?

4. Mósebók 13–14.Tveir (eða fleiri) fjölskyldumeðlimir ykkar gætu látist vera að „kanna“ (4. Mósebók 13:17) annan hluta heimilis ykkar, eins og það væri fyrirheitna landið. Þeir gætu síðan hver fyrir sig gert greinargerð, byggða á 4. Mósebók 13:27–33 eða 4. Mósebók 14:6–9. Hvað lærum við um trú af hinum tveimur ólíku frásögnum í þessum versum? Hvernig getum við verið líkari Kaleb og Jósúa?

4. Mósebók 21:4–9.Eftir að hafa lesið 4. Mósebók 21:4–9, ásamt 1. Nefí 17:40–41; Alma 33:18–22 og Helaman 8:13–15, þá gæti fjölskylda ykkar búið til orm úr pappír eða leir og skrifað á hann eða á blað eitthvað einfalt sem þið getið gert til að „líta … til Guðssonarins í trú“ (Helaman 8:15).

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Alsælu fyllist öndin mín,“ Sálmar, nr. 42.

Bæta kennslu okkar

Hjálpið fjölskyldu ykkar að þróa andlegt sjálfstæði. „Hjálpið [fjölskyldumeðlimum ykkar] að uppgötva sjálfa trúarsannleika í ritningunum og af orðum spámannanna, fremur en að setja aðeins fram upplýsingar“ (Teaching in the Savior’s Way [Kenna að hætti frelsarans], 28).

Ljósmynd
Móse og eirormurinn

Móse og eirormurinn, eftir Judith A. Mehr