Gamla testamentið 2022
4.–10. apríl. 2. Mósebók 14–17: „Standið kyrr og horfið á þegar Drottinn bjargar ykkur“


„4.–10. apríl. 2. Mósebók 14–17: ‚Standið kyrr og horfið á þegar Drottinn bjargar ykkur,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)

„4.–10. apríl. 2. Mósebók 14–17,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022

Ljósmynd
Rauðahafið

Rauðahafið

4.–10. apríl

2. Mósebók 14–17

„Standið kyrr og horfið á þegar Drottinn bjargar ykkur“

Guð bauð Móse að skrifa um upplifanir hans „í bók til minningar og [láta] Jósúa leggja [þær] á minnið“ (2. Mósebók 17:14). Skrásetning andlegrar upplifunar getur á líkan hátt hjálpað ykkur og ástvinum ykkar að minnast gæsku Guðs.

Skráið hughrif ykkar

Ísraelsmenn voru í sjálfheldu. Rauðahafið blasti við þeim og her faraós nálgaðist hratt á hæla þeirra. Flótti þeirra frá Egyptalandi virtist ætla að verða skammlífur. Guð var þó með boð til Ísraelsmanna sem hann vildi að yrðu þeim minnisstæð í margar kynslóðir: „Óttist ekki. … Drottinn mun sjálfur berjast fyrir ykkur“ (2. Mósebók 14:13–14).

Þegar þjóð Guðs hefur þurft að efla sér trú og hugrekki eftir þennan tíma, þá hefur hún oft minnst þessarar frásagnar um hina undursamlegu björgun Ísraels. Þegar Nefí vildi uppörva bræður sína, sagði hann: „Verum sterkir sem Móse, því að hann talaði vissulega til vatna Rauðahafsins, og þau skiptust í báðar áttir, og feður okkar komust á þurru yfir það og úr ánauð“ (1. Nefí 4:2). Limí konungur minnti fólk sitt á þessa sömu frásögn þegar fólk hans var í ánauð, og sagði: „Lyftið því höfði, fagnið“ (Mósía 7:19). Þegar Alma vildi vitna fyrir um vald sonar Guðs, vísaði hann líka til þessarar frásagnar (sjá Alma 36:28). Þegar við þörfnumst björgunar – þegar við þörfnumst aukinnar trúar, þegar við þurfum að „[standa] kyrr og [horfa] á þegar Drottinn bjargar [okkur] – getum við minnst þess að „[Drottinn bjargaði] Ísrael úr greipum Egypta á þessum degi“ (2. Mósebók 14:13, 30).

Ljósmynd
táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

2. Mósebók 14

Guð hefur vald til að frelsa mig.

Við lestur 2. Mósebókar 14:1–10, skuluð þið ímynda ykkur hvernig Ísraelsmönnum gæti hafa liðið þegar þeir sáu her faraós þokast nær. Ykkur finnst kannski eins og þið þarfnist kraftaverks til að komast yfir erfiða áskorun sem þið standið andspænis. Hvað lærið þið af 2. Mósebók 14:13–31 sem getur hjálpað ykkur að leita eftir björgun Guðs í lífi ykkar? Hvað hafið þið lært um þær leiðir sem Guð fer, til frelsunar frá mótlæti? Íhugið á hvaða hátt þið hafið séð frelsandi mátt hans í lífi ykkar.

Sjá einnig Kenningu og sáttmála 8:2–3; L. Tom Perry, „Kraftur björgunar,“ aðalráðstefna, apríl 2012; Biblíukort, nr. 2, „Brottför Ísraels frá Egyptalandi og sóknin inn í Kanaanland.“

2. Mósebók 15:22–27

Drottinn getur breytt hinu ramma í sætt.

Þegar þið lesið um ferðalag Ísraels til fyrirheitna landsins í 2. Mósebók 15:22–27, gætið þá að því í lífi ykkar sem virðist „[rammt],“ eins og vatnið í Mara. Hugsið um eftirfarandi spurningar er þið ígrundið þessi vers: Hvernig getur Drottinn breytt hinu ramma í sætt? Hvaða gildi hafa slíkar upplifanir haft í lífi ykkar? Hvernig blessar Drottinn okkur þegar við hlýðum á rödd hans, samkvæmt versum 26 og 27?

2. Mósebók 15:23–27; 16:1–15; 17:1–7

Ég get treyst Drottni, jafnvel á erfiðleikastundum.

Það er freistandi að vera gagnrýninn á Ísraelsmenn, vegna þess að þeir mögluðu og kvörtuðu þegar aðstæður þeirra urðu erfiðar, jafnvel eftir allt sem Guð hafði gert fyrir þá. Þegar þið lesið 2. Mósebók 15:23–27; 16:1–15; 17:1–7, íhugið þá hvort þið hafið einhvern tíma gert það sama. Hvað lærið þið af upplifunum Ísraelsmanna, sem getur hjálpað ykkur að mögla minna og treysta Guði algjörlega? Dæmi: Hvaða mun sjáið þið á því hvernig Ísraelsmenn brugðust við erfiðleikum og hvernig Móse brást við þeim? Hvað kenna þessi vers ykkur um Guð?

Sjá einnig 1. Nefí 2:11–12; „Sin of Murmuring [Synd möglunar]“ (myndband), ChurchofJesusChrist.org.

Ljósmynd
kona safnar saman manna

Manna frá Guði nærði Ísrael líkamlega; við þörfnumst líka andlegrar næringar daglega. Kalkmálverk eftir Leopold Bruckner

2. Mósebók 16

Við ættum að leitast eftir andlegri næringu daglega.

Margar andlegar lexíur er hægt að læra af kraftaverkinu um manna í 2. Mósebók 16. Takið eftir þeim nákvæmu leiðbeiningum sem voru gefnar Ísraelsmönnum um hvernig skyldi safna saman, nota og varðveita manna (sjá 2. Mósebók 16:16, 19, 22–26). Hvað finnið þið í þessum versum sem á við ykkur, er þið leitist eftir andlegri næringu daglega?

Sjá einnig Jóhannes 6:31–35, 48–58 og myndböndin „Daily Bread: Pattern [Daglegt brauð: Forskrift],“ „Daily Bread: Experience [Daglegt brauð: Upplifun]“ og Daily Bread: Change [Daglegt Brauð: Breyting]“ (ChurchofJesusChrist.org).

2. Mósebók 17:1–7

Jesús Kristur er okkar andlegi klettur og lifandi vatn.

Hugsið til frelsarans við lestur 2. Mósebókar 17:1–7. Hvernig er Jesús Kristur eins og klettur í ykkar huga? (sjá Sálmana 62:6–7; Helaman 5:12). Á hvaða hátt er hann eins og vatn? (sjá Jóhannes 4:10–14; 1. Korintubréf 10:1–4; 1. Nefí 11:25).

Ljósmynd
táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

2. Mósebók 14:13–22.Fjölskyldumeðlimir gætu haft gaman af því að reyna að „kljúfa“ vatn í skál eða baðkari, eins og Móse klauf Rauðahafið. Hjálpið þeim að skilja að ekki var mögulegt að kljúfa Rauðahafið án máttar Guðs. Hvernig höfum við séð mátt Guðs í eigin lífi og í lífi áa okkar?

2. Mósebók 15:1–21.Eftir að hafa farið yfir Rauðahafið, sungu Ísraelsmenn lofsöng, sem er þekktur sem sigursöngur Ísraels og hann má finna í 2. Mósebók 15:1–21. Leitið sem fjölskylda að orðtökum í þessum versum sem vitna um það sem Guð gerði fyrir Ísraelsmenn og einnig að öðrum þýðingarmiklum orðtökum. Þið gætuð því næst sungið sálm sem minnir fjölskyldu ykkar á það sem Guð hefur gert fyrir ykkur.

2. Mósebók 16:1–5; 17:1–7.Lestur 2. Mósebókar 16:1–5 og 17:1–7 gæti leitt til umræðna um frelsarann sem brauð lífsins, sem hið lifandi vatn og sem klettsins okkar. Hvernig minna þessar sögur okkur á það sem Jesús Kristur gerir fyrir okkur? Sem hluta af umræðum ykkar, væri hægt að lesa Jóhannes 4:10–14; 6:29–35, 48–51; Helaman 5:12; Kenningu og sáttmála 20:77, 79.

2. Mósebók 17:8–16.Þið gætuð leikið söguna af Aroni og Húr styðja við hendur Móse og rætt á hvaða hátt hún sé táknræn fyrir stuðning okkar við þá sem Guð hefur kallað sem leiðtoga. Þið gætuð líka borið saman dæmið um Aron og Húr við mögl Ísraelsmanna gegn Móse (því er lýst í kapítulum 15–17). Á hvaða vegu getum við hjálpað og stutt leiðtoga okkar? Hvaða blessanir hljótum við og leiðtogar okkar þegar við gerum það?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Nú Ísraels lausnari,“ Sálmar, nr. 26.

Bæta persónulegt nám

Leitið eigin andlegs skilnings. Einskorðið ykkur ekki eingöngu við ritningarvers þessara lexíudraga þegar þið lærið sjálf eða með fjölskyldu ykkar. Drottinn hefur líklega boðskap fyrir ykkur í þessum kapítulum, sem hér er ekki lögð áhersla á. Leitist eftir innblæstri í bæn.

Ljósmynd
Móse klýfur Rauðahafið

Teikning af Móse kljúfa Rauðahafið, eftir Robert T. Barrett