Kenning og sáttmálar 2021
24.–30. maí Kenning og sáttmálar 58–59: „Starfa af kappi fyrir góðan málstað“


„24.–30. maí. Kenning og sáttmálar 58–59: ,Starfa af kappi fyrir góðan málstað,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)

„24.–30. maí. Kenning og sáttmálar 58–59,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021

Ljósmynd
Gata í Independence, Missouri

Independence, Missouri, eftir Al Rounds

24.–30. maí

Kenning og sáttmálar 58–59

„Starfa af kappi fyrir góðan málstað“

Dallin H. Oaks forseti kenndi: „Ritningarnar munu hjálpa okkur að fá svör við öllum spurningum okkar, því með því að lesa þær samstillum við okkur innblæstri heilags anda, sem mun leiða okkur í allan sannleika“ (í David A. Edwards, “Are My Answers in There?New Era, maí 2016, 42).

Skráið hughrif ykkar

Þegar öldungar kirkjunnar sáu fyrst borgarstæði Síonar – Independence, Missouri – var það ekki eins og þeir höfðu vænst. Sumir héldu að þeir finndu blómlegt og stöndugt samfélag, með sterkum hópi heilagra. Þess í stað fundu þeir strjálbýla útvarðarstöð, þar sem vantaði þá siðmenningu sem þeir voru vanir, byggða hrjúfum landnemum, fremur en heilögum. Í ljós kom að Drottinn var ekki bara að biðja þá að koma til Síonar – hann vildi líka að þeir byggðu hana.

Þegar raunveruleikinn fellur ekki að væntingum okkar, getum við minnst þess sem Drottinn sagði við hina heilögu árið 1831: „Með náttúrlegum augum yðar getið þér eigi að svo stöddu séð áform Guðs um það, sem síðar skal koma … eða þá dýrð, sem fylgja mun eftir mikið mótlæti“ (Kenning og sáttmálar 58:3). Já, í lífinu eru ótal þrengingar, jafnvel ranglæti, en við getum „[komið] miklu réttlæti til leiðar – því að krafturinn býr í [okkur]“ (vers 27–28).

Sjá einnig Saints [Heilagir], 1:127–33.

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Kenning og sáttmálar 58:1–5, 26–33, 44; 59:23

Blessanir hljótast samkvæmt tíma Guðs og kostgæfni okkar sjálfra.

Hinir heilögu lögðu grunn að Síon í Jackson-sýslu, Missouri, þar sem þeir upplifðu ótal þrengingar. Vonir þeirra stóðu vissulega til þess að svæðið blómstraði á æviskeiði þeirra og yrði að stað samansöfnunar allra heilagra. Hinir heilögu voru þó hraktir frá Jackson-sýslu innan fárra ára og Drottinn opinberaði að fólk hans yrði að „[bíða] um stund lausnar Síonar“ (Kenning og sáttmálar 105:9).

Þegar þið lærið eftirfarandi vers, leitið þá ástæðna þess að blessunum sé haldið frá um tíma. Spurningarnar hér á eftir geta hjálpað ykkur að hugleiða.

Kenning og sáttmálar 58:1–5; 59:23. Hvaða boðskapur í þessum versum styrkir ykkur til að takast á við þrengingar af meiri þolinmæði? Hvaða blessanir hafið þið hlotið eftir þrengingar? Afhverju haldið þið að sumar blessanir hljótist aðeins eftir þrengingar?

Kenning og sáttmálar 58:26–33. Hver er tilgangur þess að „starfa af kappi fyrir góðan málstað“ til uppfyllingar loforðum Guðs? Hvaða hlutverki gegnir hlýðni ykkar?

Kenning og sáttmálar 58:44. Hvert er samband „[trúarbænar]“ og vilja Drottins fyrir okkur?

Kenning og sáttmálar 59, kaflafyrirsögn

Hver var Polly Knight?

Polly Knight og eiginmaður hennar, Joseph Knight eldri, voru meðal þeirra sem fyrst trúðu á spámannlega köllun Josephs Smith. Polly og Joseph veittu spámanninum mikinn stuðning við þýðingarstarf Mormónsbókar. Knight-fjölskyldan fór frá Colesville, New York, til að sameinast hinum heilögu í Ohio og var síðar boðið að flytja til Jackson-sýslu, Missouri. Heilsu Polly tók að hraka á ferð þeirra, en hún var staðráðin í því að sjá Síon áður en hún dæi. Hún hafði einungis verið í Missouri fáeina daga þegar hún andaðist (sjá Heilagir, 1:127–28, 132–33). Tekið var á móti Kenningu og sáttmála 59 á andlátsdegi hennar og vers 1 og 2 virðast sérstaklega henni ætluð.

Kenning og sáttmálar 59:9–19

Að halda hvíldardaginn heilagan, færir stundlegar og andlegar blessanir.

Eftir að hafa lofað að blessa hina heilögu í Síon, með „fyrirmælum ófáum,“ lagði Drottinn einkum áherslu á eitt boðorð, um að virða „[helgan dag hans]“ (Kenning og sáttmálar 59:4, 9). Þegar þið lærið Kenningu og sáttmála 59:9–19, hugleiðið þá ástæðu þess að svo mikilvægt var að þessir heilögu héldu hvíldardaginn heilagan, er þeir kappkostuðu að byggja upp Síon.

Þið gætuð líka íhugað spurningar eins og þessar: Er ég að halda hvíldardaginn eins og Drottinn ætlaði? Hvernig hjálpar það mér að vera [óflekkuð/aður frá heiminum] að halda hvíldardaginn heilagan?“ (vers 9). Hvað get ég gert til að votta „hinum æðsta hollustu“ mína (vers 10).

Hvað eruð þið hvött til að gera, eftir lestur eftirfarandi versa, til að halda hvíldardaginn af auknum heilagleika? 1. Mósebók 2:2–3; 2. Mósebók 20:8–11; 31:13, 16; 5. Mósebók 5:12–15; Jesaja 58:13–14; Markús 2:27; Jóhannes 20:1–19; Postulasagan 20:7.

Þið gætuð líka haft gagn af einu af hinum mörgu myndböndum eða öðru efni um hvíldardaginn sem finna má á sabbath.ChurchofJesusChrist.org.

Sjá einnig Russell M. Nelson, „Hvíldardagurinn er feginsdagur,“ aðalráðstefna, apríl 2015; Leiðarvísi að ritningunum, „Hvíldardagur.“

Ljósmynd
Brauð og sakramentisbollar

Að meðtaka sakramentið, er hluti af því að halda hvíldardaginn heilagan.

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Kenning og sáttmálar 58:26–29.Fjölskyldumeðlimir ykkar gætu ef til vill búið til lista með einhverju því sem þau „starfa af kappi fyrir.“ Eru þetta allt „[góðir málstaðir]“? Afhverju vill Drottinn að við gerum „margt af frjálsum vilja [okkar]? Biðjið fjölskyldumeðlimi að hugleiða hvað þau geta gert þessa viku til að „koma miklu réttlæti til leiðar.“ Þau geta svo síðar miðlað því sem þau gerðu.

Kenning og sáttmálar 58:42–43.Hvað finnst fjölskyldumeðlimum þegar þeir lesa þessi vers? Hvernig gætu þessi vers hjálpað einhverjum sem þarf að iðrast?

Kenning og sáttmálar 59:3–19.Hver gæti verið merking þess að vera „[krýnd] … fyrirmælum“? (vers 4). Þegar þið lesið boðorðin í versum 5–19, ræðið þá þær blessanir sem þið hafið hlotið af því að hlýða hverju þessara boðorða.

Þið gætuð líka gætt að því hvernig orð og orðtök eins og „gleði,“ „létt hjarta“ og „glöðu hjarta“ eru notuð til að lýsa því boðorði að heiðra hvíldardaginn. Hvernig getið þið gert hvíldardaginn gleðilegri? Fjölskylda ykkar gæti ef til vill farið í samstæðuleik með spjöldum, sem sýna hvernig þið getið haldið hvíldardaginn heilagan.

Kenning og sáttmálar 59:18–21.Hvað getum við gert til að „játa … hönd [Guðs] í öllu“? (vers 21). Hugleiðið að fara í göngu eða skoða myndir og gæta að því sem „þóknast auganu og [gleður] hjartað“ vers 18). Þið gætuð tekið eða teiknað mynd af því sem þið finnið og síðan rætt hvernig þið gætuð sýnd þakklæti fyrir það. Hvernig höfum við séð hönd Guðs í okkar lífi?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Veldu rétt,“ Sálmar, nr. 98.

Bæta kennslu okkar

Miðlið ritningarversum. Gefið fjölskyldumeðlimum tíma til að miðla ritningarversum sem þau hafa fundið í einkanámi sínu og þeim finnst mikilvæg.

Ljósmynd
Stúlka á bæn í sakramentinu

Teikning eftir Marti Major