2012
Einn lykill að hamingjusamri fjölskyldu
október 2012


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, október 2012

Einn lykill að hamingjusamri fjölskyldu

Ljósmynd
Dieter F. Uchtdorf forseti

Hið mikla rúsnesska skáld, Leo Tolstoy, hóf sögu sína um Anna Karenina á þessum orðum: „Hamingjusamar fjölskyldur eru allar eins; óhamingjusamar fjölskyldur eru óhamingjusamar hver á sinn hátt.“1 Þótt ég sé ekki jafn viss og Tolstoy um að allar hamingjusamar fjölskyldur séu eins, hef ég komist að einu sem þær flestar eiga sameiginlegt: Þær eru fúsar til að fyrirgefa og gleyma ófullkomleika annarra og einblína á hið góða.

Þeir sem eru í óhamingjusömum fjölskyldum leita hins vegar oft að göllum í fari annarra, ala á óvild og geta ekki gleymt gömlum erjum.

„Já, en …“ segja hinir óhamingjusömu. „Já, en þú veist ekki hve djúpt hún særði mig,“ kann einhver að segja. „Já, en þú veist ekki hve hræðilegur hann er,“ kann annar að segja.

Kannski báðir hafi rétt fyrir sér; kannski hvorugir.

Móðganir eru af margs konar tagi. Særindi eru af margs konar tagi. En ég hef veitt athygli að oft réttlætum við reiði okkar og samvisku með því að telja okkur trú um ásetning annarra, sem fordæmir gjörðir þeirra sem ófyrirgefanlegar og sjálfselskar, samtímis því að líta á ásetning okkar sem saklausan og eðlilegan.

Hundur prinsins

Gömul velsk saga frá þrettándu öld segir frá prins nokkrum sem kom að heimili sínu og sá blóð drjúpa niður af höfði hundsins síns. Maðurinn þaut inn fyrir og sá sér til hryllings að litli drengurinn hans var horfinn og vaggan hans var á hvolfi. Í bræði sinni dró prinsinn sverð sitt úr slíðri og drap hundinn. Nokkru síðar heyrði hann grát sonar síns — barnið var lifandi! Við hlið barnsins lá dauður úlfur. Hundurinn hafði í raun varið barn prinsins frá grimmum úlfinum.

Þótt saga þessi sé dramatísk, sýnir hún ákveðinn hlut. Hún opnar fyrir þann möguleika að álit okkar á hegðun annarra sé ekki alltaf í samræmi við staðreyndir málsins — stundum viljum við jafnvel ekki kynna okkur staðreyndirnar. Við einsetjum okkur fremur að réttlæta sjálf okkur í reiðinni með því að halda fast í biturleika okkar og gremju. Stundum getur slík óvild staðið yfir mánuðum eða árum saman. Stundum alla ævi.

Fjölskylduerjur

Faðir nokkur gat ekki fyrirgefið syni sínum fyrir að hverfa af þeim vegi sem honum hafði verið innrættur. Pilturinn átti vini sem faðirinn hafði ekki mætur á og hann gerði margt sem var andstætt því sem faðir hans hafði kennt honum. Það myndaði gjá milli föður og sonar og um leið og pilturinn hafði aldur til flutti hann að heiman og kom aldrei aftur. Þeir töluðust vart við eftir það.

Fannst föðurnum hann hafa rétt fyrir sér? Kannski.

Fannst syninum hann hafa rétt fyrir sér? Kannski.

Allt sem ég veit er að fjölskylda þessi sundraðist og varð óhamingjusöm, því hvorki faðir, né sonur gátu fyrirgefið hvor öðrum. Þeir gátu ekki leitt hjá sér beiskjufullar minningar sem þeir áttu um hvor annar. Þeir fylltu hjörtu sín af reiði í stað elsku og fyrirgefningu. Báðir gáfu þeir upp á bátinn tækifærið til að hafa góð áhrif á líf hvors annars. Gjáin milli þeirra virtist svo djúp og víð að báðir urðu andlegir fangar á eigin tilfinninga-eyju.

Til allrar hamingju hefur kærleiksríkur og alvitur eilífur faðir á himnum séð okkur fyrir leið til að sigrast á slíkri gjá drambsemi. Hin dásamlega og óendanlega friðþæging er æðsta gjörð fyrirgefningar og sáttar. Umfang hennar er utan míns skilnings, en af öllu hjarta og allri sálu ber ég vitni um raunveruleika hennar og óendanlegan kraft. Frelsarinn bauð sig sjálfan sem lausnargjald fyrir syndir okkar. Fyrir hann hljótum við fyrirgefningu.

Engin fjölskylda er fullkomin

Ekkert okkar er án syndar. Öll gerum við mistök, líka þið og ég. Öll höfum við verið særð. Öll höfum við sært aðra.

Það er fyrir fórn frelsarans sem við getum hlotið upphafningu og eilíft líf. Þegar við tileinkum okkur hans hætti og sigrumst á drambi okkar, með því að milda hjarta okkar, megnum við að færa fjölskyldu okkar og okkur sjálfum sátt og fyrirgefningu. Guð mun hjálpa okkur að vera fúsari til að fyrirgefa, að vera fúsari til að fara auka míluna, að vera fyrri til að biðjast afsökunar, jafnvel þótt eitthvað hafi ekki verið okkar sök, að láta af allri óvild og ala ekki á henni lengur. Guði séu þakkir, sem gaf son sinn eingetinn, og syninum, sem gaf okkur líf sitt.

Við getum alla daga skynjað kærleika Guðs til okkar. Ættum við ekki að geta gefið náunga okkar örlítið meira af sjálfum okkur, líkt og kennt er í hinum kæra sálmi: „Til endurgjalds á öllu því sem á ég til.“2 Drottinn hefur lokið upp dyrunum að fyrirgefningu okkar. Væri því ekki réttmætt að við létum af eigin sjálfselsku og drambi og færum að ljúka upp þessum dásamlegu dyrum og fyrirgæfum þeim sem við eigum í erfiðleikum með — einkum öllum í fjölskyldu okkar?

Þegar allt kemur til alls þá á hamingja ekki rætur í fullkomnun, heldur í hagnýtingu guðlegra reglna, jafnvel í smáum skrefum. Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin hafa lýst yfir: „Hamingju í fjölskyldulífi er helst að finna þegar byggt er á kenningum Drottins Jesú Krists. Farsælt hjónaband og fjölskyldulíf byggist og varðveitist á reglum trúar, bænar, iðrunar, fyrirgefningar, virðingar, kærleika, umhyggju, vinnu og heilbrigðrar dægrastyttingar.“3

Fyrirgefning á rætur mitt í þessum einfalda sannleika, grundvölluð í hamingjuáætlun himnesks föður. Þar sem fyrirgefning tengir reglur, tengir hún líka fólk. Hún er lykill, hún lýkur upp dyrum, hún er upphaf einlægs vegar, og er ein besta vonin um hamingjusama fjölskyldu.

Megi Guð hjálpa okkur að vera örlítið fúsari til að fyrirgefa í fjölskyldum okkar, fúsari til að fyrirgefa hvert öðru og hugsanlega fúsari til að fyrirgefa okkur sjálfum. Ég bið þess að við megum upplifa fyrirgefningu sem eitt af því sem er sameiginlegt með flestum hamingjusömum fjölskyldum.

Heimildir

  1. Leo Tolstoy, Anna Karenina, þýðing. Constance Garnett (2008), 2.

  2. „Til endurgjalds“ Sálmar, nr. 90.

  3. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Liahona, nóv. 2010, 129; skáletrað hér.

Hvernig kenna á boðskapinn

„Spyrjið ykkur sjálf, þegar þið undirbúið hverja lexíu, að því hvernig reglan tengist einhverju því sem fjölskyldan hefur upplifað í eigin lífi“ (Teaching, No Greater Call [1999], 171). Íhugið að bjóða fjölskyldunni að miðla jákvæðri reynslu sem hún hefur átt eða séð í tengslum við fyrirgefningu. Ræðið þær upplifanir og leggið áherslu á blessanir fyrirgefningar. Ljúkið með því að gefa vitnisburð um mikilvægi þess að fyrirgefa hvert öðru.