Kenningar forseta
43. Kafli: „Hann var spámaður Guðs‘: Samtíðarfólk Josephs Smith vitnaði um hann sem spámann


43. Kafli

„Hann var spámaður Guðs“: Samtíðarfólk Josephs Smith vitnaði um hann sem spámann

„Mig langar að hrópa hallelúja, í hvert sinn er ég hugsa til þess að hafa þekkt Joseph Smith.“ (Brigham Young)

Úr lífi Josephs Smith

Hinir heilögu í Nauvoo komu oft saman til að hlýða á spámanninn Joseph Smith tala til þeirra. Spámaðurinn talaði oft utandyra því engin bygging í Nauvoo var nægilega stór til að hýsa alla hina heilögu. Hann talaði oft í lundi sem var rétt vestan við musterið, þar sem þúsundir gátu komið saman. Flytjanlegur ræðustóll hafði verið smíðaður fyrir kirkjuleiðtoga og ræðuflytjendur, og söfnuðurinn sat á grasinu eða á trjábolum eða steinum. Spámaðurinn talaði einnig á öðrum stöðum í Nauvoo, þar með talið í hinu ófullgerða musteri og á heimilum fólks. Gestur nokkur í Nauvoo greindi frá því snemma árs 1843 að hann hefði séð samkomur haldnar „á hinum óslétta grunni musterisins, og var það þá oftast spámaðurinn sem prédikaði.“1

Þegar spámaðurinn hóf mál sitt utandyra, byrjaði hann oft á því að fara fram á það við hina heilögu að þeir bæðu um að vind myndi lægja eða rigningu slota, þar til hann hefði lokið máli sínu. Á ráðstefnu sem haldin var í Nauvoo 8. apríl 1843 hóf spámaðurinn ræðu sína á því segja: „Ég hef þrjár óskir sem ég æski af söfnuðinum: Í fyrsta lagi, að allir þeir sem eiga trú sýni hana með því að biðja Drottin um að lægja vindinn, því það mundi skaða heilsu mína, líkt og hann blæs nú, ef ég hygðist lengja mál mitt; í öðru lagi vil ég að þið biðjið Drottin um að styrkja lungu mín, svo mér takist að ná eyrum ykkar allra; og í þriðja lagi, að þið biðjið þess að heilagur andi hvíli yfir mér og geri mér kleift að útskýra það sem sannleikur er.“2

Ræðuefni spámannsins voru meðlimum kirkjunnar afar mikilvæg, og stundum var fjöldinn sem hann talaði til nokkur þúsund manns. „Enginn varð þreyttur á því að hlusta á hann flytja ræðu,“ sagði Parley P. Pratt. „Ég hef jafnvel séð hann hafa ofan af fyrir söfnuði fúsra og áhugasamra hlustenda í margar klukkustundir, hvort heldur í kulda eða sólskini, regni eða vindi, þar sem menn hlógu og grétu á víxl.“3 Alvah J. Alexander, sem var á barnsaldri á Nauvoo árunum, sagði: „Engin skemmtun eða leikur hefur vakið mér jafn mikinn áhuga og að hlýða á hann tala.“4

Amasa Potter minntist þess að hafa verið viðstödd þegar spámaðurinn Joseph Smith flutti kröftuga ræðu yfir fjölmennum hópi heilagra í Nauvoo:

„Þegar [spámaðurinn] hafði talað í um hálftíma, skall á sterkur vindur og stormur. Svo mikið ryk þyrlaðist upp að við fengum vart séð hvert annað, og sumir hugðust fara, en þá kallaði Joseph til fólksins og bað það að staldra við og biðja Guð almáttugan um að lægja vind og regn, og að það mundi gerast. Innan nokkurra mínútna lægði vind og regn og kyrrð og ró færðist yfir, líkt og á björtum sumarmorgni. Vindurinn skipti sér og fór norðan og sunnan megin borgarinnar, því í fjarlægð sáum við þar tré og runna sveiflast til og frá, en þar sem við vorum ríkti logn í eina klukkustund, og meðan það varði féll af vörum spámannsins ein kröftugasta ræða hans, um hið mikilvæga efni er varðar hina dánu.“5

Hinir heilögu sem hlýddu á spámanninn Joseph Smith mæla gáfu kröftuga og lifandi vitnisburði um hlutverk hans sem spámanns. Margir þeirra skráðu hjá sér minningar sínar um ræðuhöld hans og reynslu sína af honum, því þeir vildu að komandi kynslóðir fengju að vita, líkt og þeir vissu, að Joseph Smith var sannlega spámaður Guðs.

Vitnisburðir um Joseph Smith

Við getum, líkt og hinir heilögu áður fyrr, vitað að Joseph Smith er sá spámaður sem endurreisti fyllingu fagnaðarerindisins fyrir Drottins hönd.

Brigham Young, annar forseti kirkjunnar: „Mig langar að hrópa hallelúja, í hvert sinn er ég hugsa til þess að hafa þekkt Joseph Smith, spámanninn sem Drottinn vakti upp og vígði og afhenti lykla og kraft til að byggja upp og varðveita ríki Guðs á jörðu. Lyklar þessir eru í fórum fólks hans, og við höfum kraft til að halda verkinu áfram sem Joseph ýtti úr vör.“6

Eliza R. Snow, aðalforseti Líknarfélagsins frá 1866 til 1887: „Í málstað sannleika og réttlætis – í öllu því sem verða mundi samferðafólki hans til farsældar, var ráðvendni hans traust sem stoðir himins. Honum var ljóst að Guð hafði kallað hann til verksins, og öllum kröftum jarðar og helju mistókst að hindra hann eða leiða hann frá því verki. Með hjálp Guðs og bræðra sinna lagði hann grunn að stórkostlegasta verki sem nokkur maður hefur unnið – verki sem hafði ekki aðeins áhrif á alla lifendur, og allar komandi kynslóðir, heldur einnig á hina dánu.

Hann stóð keikur frammi fyrir erfikenningum, hjátrú, trúarbrögðum, hleypidómum og fáfræði heimsins – og var trúr öllum opinberuðum reglum himins – trúr bræðrum sínum og Guði, og innsiglaði loks vitnisburð sinn með eigin blóði.“7

Bathsheba W. Smith, aðalforseti Líknarfélagsins frá 1901 til 1910: „Ég þekki hann að því að vera það sem hann sagðist vera – sannan spámann, og fyrir hans tilstilli endurreisti Drottinn hið ævarandi fagnaðarerindi og allar helgiathafnir og gjafir sem munu leiða okkur í himneska ríkið.“8

Wilford Woodruff, fjórði forseti kirkjunnar: „Ég hef fagnað innilega yfir því sem ég þekkti til bróður Josephs, því opinberlega og í einkalífi bjó hann yfir anda almættisins, og sýndi mikilleika, sem ég hef ekki séð í öðrum mönnum.“9

Daniel D. McArthur, meðlimur kirkjunnar, er síðar var leiðtogi eins fyrsta handvagnahópsins sem fór til Salt Lake City: „Vitnisburður minn er sá, að hann hafi verið sannur spámaður hins lifandi Guðs; og því meira sem ég hlustaði á orð hans og fylgdist með verkum hans, því sannfærðari var ég um að hann hefði sannlega séð Guð föðurinn og son hans Jesú Krist, svo og hina heilögu engla Guðs. … Mér fannst ætíð, að ef ég væri viss um eitthvað á þessari jörðu, þá vissi ég fyrir víst að hann væri spámaður.“10

Alexander McRae, einn þeirra sem vistaður var í Liberty-fangelsinu með Joseph Smith: „Við höfðum slíka trú á [Joseph Smith] sem spámanni, að þegar hann sagði: ,Svo segir Drottinn,‘ vorum við vissir um að svo yrði sem hann sagði. Og því oftar sem við fengum það sannreynt, því sannfærðari urðum við um það, því orð hans brugðust aldrei.“11

Lyman O. Littlefield, meðlimur í Síonarfylkingunni: „Hann helgaði sig af öllum mætti hinu dýrðlega síðari daga verki, sem hinn guðlegi meistari hans hafði kallað hann til að vinna.“12

Mary Alice Cannon Lambert, enskur trúskiptingur, sem flutti til Nauvoo árið 1843: „Ég sá Joseph Smith fyrst vorið 1843. Þegar báturinn sem við sigldum með upp Mississippi-fljótið kom að landi í Nauvoo, voru nokkrir bræðranna sem í forystu voru komnir þar til að taka á móti hinum heilögu sem á honum voru. Meðal þeirra var spámaðurinn Joseph Smith. Um leið og ég leit hann augum vissi ég að það var hann, og á því andartaki hlaut ég vitnisburð um að hann væri spámaður Guðs. … Enginn benti mér á hann. Ég þekkti hann innan um alla mennina, og þarna sem bam (ég var aðeins fjórtán ára) vissi ég að ég hafði litið spámann Guðs augum.“13

Angus M. Cannon, meðlimur kirkjunnar, sem bjó í Nauvoo á unglingsaldri og varð síðar stikuforseti í Salt Lake City: „Ég minnist einkum eins atviks þar sem bróðir Joseph ávarpaði söfnuð heilagra, vorið 1844. Það var undir stóru eikartré, í gróf einni sunnan megin musterisins, nærri Parley-stræti. Hann ræddi um þá staðreynd, hvað stofnun kirkjunnar varðar, að Guð hefði gert ljóst að einungis einn maður væri útnefndur af Guði til að hljóta opinberanir sem bindandi yrðu fyrir kirkjuna. … Af þessu sama tilefni heyrði ég spámanninn lýsa því yfir að hann hefði hlotið Melkísedeksprestdæmið af hendi Péturs, Jakobs og Jóhannesar.

Þau áhrif sem minn ungi hugur varð fyrir af máli og látbragði Josephs Smith hafa fylgt mér alla mína ævi síðan. Og þegar myrkur af einhverjum ástæðum grúfði yfir huga mínum, hefur vitnisburður hans komið ljóslifandi upp í hugann og staðfest fyrir mér, að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur verið stofnsett og henni er greinilega stjórnað með krafti og valdi Guðs.“14

Hyrum Smith, bróðir spámannsins og patríarki kirkjunnar: „Það hafa áður verið spámenn, en Joseph hefur anda og kraft þeirra allra.“15

Joseph Smith var fyrirmynd sem við getum tileinkað okkur við rækta með okkur kristilega eiginleika.

Parley P. Pratt, meðlimur í Tólfpostulasveitinni frá 1835 til 1857: „Joseph Smith forseti var í útliti hár og sterklegur, þróttmikill og vinnuglaður; ljós yfirlitum, ljóshærður, bláeygður, afar lítið skeggjaður, og einstakur maður. … Hann var ljúfur, alúðlegur, af honum skein viska og góðvild; áhugasemi og brosmildi einkenndu hann, eða glaðværð, og hann var algjörlega laus við alvarlegt látbragð. Úr augnarráði hans skein friðsæld og göfgi, líkt og hann fengi séð hyldýpi mannshjartans, eilífðina, himnana og alla heima. Hann bjó yfir göfgi, myndugleika og sjálfstæði. Hann var og þægilegur og viðfeldinn; ávítur hans voru hræðilegar sem ljónið; góðvild hans ótakmörkuð sem hafið; viska hans altæk.“16

John Needham, enskur trúskiptingur: „Joseph Smith var mikilmenni, maður grundvallarreglna, blátt áfram og heiðvirður; ekki yfirgengilega alvarlegur, heldur algjör andstæða þess. Vissulega áttu sumir erfitt með að meðtaka það að hann væri blátt áfram, hreinskilinn og glaðvær, en ég unni honum aðeins meira fyrir vikið.“17

Emmeline B. Wells, aðalforseti Líknarfélagsins frá 1910 til 1921: „Ég … ber vitni um að hann var stórbrotnasti maður, spámaður og persónuleiki þessarar kynslóðar, hinn undursamlegasti, get ég með sanni sagt, allt frá tíma frelsarans. Göfugt yfirbragð hans var dásamlegt. Manni fannst hann jafnvel vera mun hærri og stærri en hann var. Mörg ykkar hafið kannski veitt athygli mönnum með slíkt yfirbragð þegar þeir rísa á fætur. Þannig var það með spámanninn Joseph Smith. Engin mynd, sem ég veit að er til af honum, sýnir þá fegurð og göfgi sem skín af nærveru hans.“18

Mary Alice Cannon Lambert: „Hinir heilögu báru ólýsanlega elsku til hans. Þeir hefðu fusir látið lífið fyrir hann. Þegar hann talaði, var öllum verkefnum frestað, svo hægt væri að hlýða á orð hans. Hann var enginn venjulegur maður. Hinir heilögu, jafnt sem hinir syndugu, skynjuðu og þekktu kraftinn og áhrifin sem hann bjó yfir. Það var ómögulegt að kynnast honum og vera ósnortin af persónustyrk hans og áhrifum.“19

John M. Bernhisel læknir, sem dvaldi á heimili Josephs og Emmu í Nauvoo í nokkra mánuði á árunum 1843 og 1844: „Joseph Smith er að eðlisfari andlega sterkur maður, og býr yfir mikilli lífsorku og staðfestu, og miklu innsæi og djúpum skilningi á mannlegu eðli. Hann er yfirvegaður, víðsýnn og auðkennist af elsku og réttsýni. Hann er ljúfur og skyldurækinn, gjafmildur og góðgjarn, félagslyndur og glaðvær, og íhugull og hugsandi. Hann er heiðarlegur, hreinskilinn og sjálfstæður og laus við alla uppgerð [látbragð]. … Hann er afar elskaður af fólki sínu, sem trúarfræðandi og sem maður.“20

Jesse N. Smith, frændi Josephs Smith: „[Spámaðurinn] var óviðjafnanlegur hvað guðlega eiginleika varðar. … Af eigin reynslu veit ég að hann gat hvorki logið né blekkt, og hann var afar ljúfur og göfugur. Mér fannst hann geta séð algjörlega í gegnum mig þegar ég var í návist hans. Ég veit að hann var allt það sem hann sagðist vera.“21

William Clayton, enskur trúskiptingur er þjónaði sem ritari Josephs Smith: „Ég elska hann heitar eftir því sem ég er oftar með honum. Traust mitt á honum vex eftir því sem ég kynnist honum betur.“22

Joseph F. Smith, sjötti forseti kirkjunnar: „Hann var fullur af göfuglyndi og tæru mannlegu eðli, sem oft kom í ljós í saklausum skemmtunum – í boltaleikjum, glímuátökum og áflogum við bræður sína og er hann skemmti sér. Hann var ekki stífur eða svo alvarlegur í bragði að hann ætti erfitt með bros eða væri gleðisnauður. Ó, hann var fullur gleði, hann var fullur kátínu, hann var fullur elsku og öllum öðrum kostum sem gera menn mikla og góða, en þó látlaus og saklaus, svo hann átti auðvelt með að beygja sig í duftið. Hann bjó yfir krafti, fyrir náð Guðs, til að skilja einnig tilgang almættisins. Þannig var persónuleiki spámannsins Josephs Smith.“23

Sem spámaður sá er endurreist hafði fagnaðarerindið kenndi Joseph Smith sáluhjálparáætlun Guðs skýrt og kröftuglega.

Brigham Young: „Göfugleiki hins dýrðlega persónuleika bróður Josephs Smith fólst í því að honum tókst að sníða hinu himneska þann stakk að hinn takmarkaði fékk skilið það. Þegar hann prédikaði fyrir fólkinu – opinberaði það sem Guðs er, vilja Guðs, sáluhjálparáætlunina, tilgang Jehóva, samband okkar við hann og allt hið himneska – færði hann kennslu sína í þann búning að allir fengu skilið, sérhver karl, kona og barn, því hún var augljós, líkt og vel upplýstur vegur. Það hefði átt að sannfæra alla menn, sem einhvern tíma höfðu hlustað á hann, um guðlegt vald hans og kraft, því enginn annar megnaði að kenna líkt og hann, og enginn fær opinberað það sem Guðs er, nema með opinberun frá Jesú Kristi.“24

Howard Coray, ritari Josephs Smith: „Ég hef numið fagnaðarerindið, líkt og Joseph Smith opinberaði það, og velt fyrir mér hvort einhver gæti, án hjálpar anda Guðs, mögulega opinberað slíka áætlun sáluhjálpar og upphafningar fyrir manninn. Mín niðurstaða er neikvæð. Er ég sat og hlýddi á prédikun hans á pallinum í Nauvoo hreifst ég oft algjörlega með af ólýsanlegum glæsileika hans – tjáningarkraftinum – er hann talaði líkt og enginn annar sem ég hafði hlýtt á.“25

Joseph L. Robinson, ráðgjafi í biskupsráði í Nauvoo: „Við höfðum lengi trúað og sannlega vitað að Joseph Smith væri sannur og auðmjúkur spámaður Guðs, en nú sjá augu okkar hann greinilega, og eyru okkar hlýða á rödd hans, sem er lík máttugum þrumugný himins, en þó er mál hans ljúft og afar fræðandi. En það er kraftur og hágöfgi sem einkenna orð hans og prédikun, sem við höfum ekki fengið séð í öðrum mönnum, því hann er máttugur spámaður, heilagur maður Guðs. Hann hafði sannlega hlotið fræðslu um það sem varðar ríki Guðs og var undir sterkum áhrifum heilags anda, sem hann átti stöðugt samfélag við.“26

Orson Spencer, baptistaprestur sem gekk í kirkjuna 1841: „Herra Smith er einkar vel að sér í ritningunum. Ég hef ekki vitað til þess að hann hafi afneitað nokkrum sannleika Gamla testamentisins eða dregið úr gildi hans; en ég hef ætíð þekkt hann af því að útskýra hann og verja meistaralega. Þar sem hann var smurður af Guði til að fræða og fullkomna kirkjuna, var nauðsynlegt fyrir hann að vita hvernig koma á skikkan á það sem á skortir til að leiða fram hið nýja og gamla, líkt og vel fræddur ritari. Hann virtist efla þannig embætti sitt og postuladóm, hinir fornu spámenn lifnuðu við af máli hans, og fegurð og kraftur opinberana þeirra kom í ljós, svo allir hlýddu á af miklum áhuga.“27

Jonah R. Ball, meðlimur kirkjunnar sem bjó í Nauvoo: „Fór á samkomu. Hlýddi á spámanninn prédika í musterisgrunninum. Nokkur þúsund hlýddu þar á hann. Það er ekki um að villast. Hvernig hann lýkur upp ritningunum er óútreiknanlegt og óumdeilanlegt. Texti hans var 1. kapítuli, 2. Pétursbréfs. Hann varpaði slíku ljósi á hann að það var líkt og björt hádegissól.“28

William Clayton: „Við höfum notið þeirra forréttinda að ræða við Joseph Smith yngri, og erum ánægð með félagsskap hans. … Hann býr yfir … traustri dómgreind og viska hans er mikil, og þegar hlýtt er á mál hans, lýkst upp viska sem útvíkkar hugann og gleður hjartað. Hann er afar óformlegur og hefur dálæti á að fræða hina snauðu heilögu. Ég get rætt við hann jafn auðveldlega og ykkur, og hann miðlar fræðslu fúslega þessum orðum: ,Ég hef meðtekið að vild og ég mun miðla því að vild.‘ Hann hefur fuslega svarað öllum spurningum mínum og er ánægður þegar við spyrjum hann. Hann virðist afar vel að sér í ritningunum, og þegar hann ræðir um eitthvað málefni, varpar hann slíku ljósi og fegurð á það, að ég hef aldrei sé neitt slíkt áður. Ef ég hefði komið frá Englandi í þeim eina tilgangi að ræða við hann, hefði ómakið verið vel þess virði.“29

Mercy Fielding Thompson, breskur trúskiptingur, sem gift var Robert B. Thompson, er þjónaði sem ritari Josephs Smith: „Ég hef … hlýtt á skýrar og meistaralegar útskýringar hans á djúpum og erfiðum fyrirspurnum. Honum virðist allt einfalt og auðvelt að skilja, og því tekst honum að útskýra það fyrir öðrum, líkt og enginn annar hefur gert sem ég hef þekkt.“30

Við getum, líkt og hinir hinir heilögu áður fyrr, varðveitt orð Josephs Smith og tileinkað okkur reglurnar sem hann kenndi.

Emmeline B. Wells: „í spámanninum Joseph Smith skynjaði ég hinn andlega kraft sem færði hinum heilögu huggun og gleði. … Kraftur Guðs hvíldi yfir honum, svo sterklega að oft virtist hann umbreytast. Orðalag hans varð ljúft og næstum barnslegt þegar hann var hvíldur. Og þegar hann ávarpaði fólkið, sem elskaði hann og dáði, lýsti ásýnd hans ólýsanlegri dýrð. Öðrum stundum virtist sem hinir kröftugu tilburðir hans, er vógu upp raust hans (mér fannst hann þó frábærlega mælskur), fengju staðinn er við stóðum á til að nötra og orð hans smugu inn í sál hlustenda hans, og ég þykist viss um að á þeirri stundu hefði fólkið gefið líf sitt honum til varnar. Ég hlýddi ætíð hugfangin á öll hans orð – hans sem var hinn útvaldi Guðs í þessari ráðstöfun.“31

Lorenzo Snow, fimmti forseti kirkjunnar: „í fyrsta sinn er ég sá spámanninn Joseph var ég [um 17 ára] piltur. Hann var að tala til fámenns safnaðar. Hann greindi fólkinu frá því er engillinn vitjaði hans. … Fólkið hafði unun af því að hlýða á hann, því hann var þrunginn af opinberunum. … Þeir sem meðtóku reglurnar sem hann kenndi hlutu, að fyrirheiti Drottins, vitnisburð um sannleika þeirra.“32

Edward Stevenson, meðlimur hinna Sjötíu frá 1844 til 1897: „Ég sá hann fyrst árið 1834 í Pontiac [Michigan] og vegna þeirra áhrifa sem hann hafði á mig á þeirri stundu, veitir það mér mikla ánægju að greina hinum mörgu vinum hans frá því. Sú elska sem fólkið bar til hans, sem sanns spámanns Guðs, festist varanlega í huga mínum, og hefur verið þar alveg síðan, þótt nær sextíu ár séu liðin frá þeim tíma. Á þessu sama ári, 1834, vitnaði spámaðurinn af miklum krafti fyrir mörgum fjölmennum söfnuðum um vitjun föðurins og sonarins, og samræðum sínum við þá. Aldrei áður hafði ég fundið slíkan kraft, líkan þeim sem ég þá skynjaði.“33

Mary Ann Stearns Winters, stjúpdóttir öldungs Parleys P. Pratt: „Ég stóð nærri spámanninum þegar hann prédikaði fyrir indíánum í lautinnni við musterið. Heilagur andi lýsti upp ásýnd hans, þar til hún ljómaði líkt og geislabaugur umlukti hann, og orð hans smugu inn í hjörtu allra sem á hlýddu. …

Ég sá látna líkama bræðranna Josephs og Hyrums, þar sem þeir lágu í Mansion-húsinu, eftir að komið hafði verið með þá frá Charthage-fangelsinu, og ég sá einnig eitthvað af fatnaðinum sem þeir höfðu klæðst, sem útataður var blóði. Ég vissi að þeir voru Guðs menn, spámaður og patríarki, sannir og trúfastir. Megum við verða verðug þess að hitta þá í komandi heimi!“34

Wilford Woodruff, greindi frá ræðuflutningi 6. apríl 1837: „Joseph Smith yngri forseti stóð upp og talaði til safnaðarins í um þrjár klukkustundir, íklæddur krafti, anda og ímynd Guðs. Hann opinberaði hug sinn og tilfinningar í húsi vina sinna. Hann greindi frá mörgu afar mikilvægu fyrir öldunga Ísraels. Ó, að það mætti verða ritað í hjörtu okkar, með járnstíl og blýi, og verða þar að eilífu, svo að við tökum að lifa eftir því [sjá Job 19:23–24]. Ég segi að það ljós, sú regla og dyggð, sem streymdi úr hjarta og af munni spámannsins Joesphs, er hjarta hans þandist út sem eilífðin, líkt og hjarta Enoks, – að slík sönnun, sem fram kemur með slíkum krafti, ætti að kveða niður sérhverja ögn vantrúar og efasemdar í huga þess sem á hlýðir, því slík orð, hugmyndir, reglur og andi, geta ekki úr myrkrinu komið. Joseph Smith yngri er spámaður Guðs, reistur upp til endurlausnar Ísraels, og það er jafn satt og hjarta mitt brennur nú hið innra.“35

Brigham Young: „Ég hef aldrei, frá því að ég sá spámanninn Joseph fyrst, misst af nokkru orði sem frá honum hefur komið um ríkið. Og það er sá lykill þekkingar sem ég nú bý að, að ég hef hlýtt á orð Josephs og varðveitt þau í hjarta mínu, geymt mér þau og beðið föður minn, í nafni sonar hans Jesú, að leiða þau fram í huga minn þegar þörf væri á. Ég varðveitti það sem Guðs er, og það er sá lykill sem ég nú bý að. Ég þráði innilega að læra af Joseph og anda Guðs.“36

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið vitnisburðina um spámanninn Joseph Smith á bls. 492–94. Hvað vekur áhuga ykkar varðandi þessa vitnisburði? Hvað leggur grunn að ykkar eigin vitnisburði um Joseph Smith? Hvernig hlutuð þið þann vitnisburð? Þið getið skráð vitnisburð ykkar í dagbók eða deilt honum með fjölskyldu ykkar.

  • Á síðum 494–96 er texti sem lýsir ásýnd, eiginleikum og kostum Josephs Smith. Hvaða áhrif hafa þessar lýsingar á tilfinningar ykkar til Josephs Smith? Hugleiðið hvernig þið getið þroskað með ykkur einhverja þessara persónukosta.

  • Lesið vitnisburðina sem greina frá því á hvaða hátt spámaðurinn Joseph kenndi fagnaðarerindið og úrskýrði ritningarnar (bls. 496–98). Hvernig geta þessir vitnisburðir komið okkur að gagni við að læra og kenna fagnaðarerindið?

  • Lesið lokahluta þessa kafla (bls. 499–500). Hvernig getið þið fylgt fordæmi Wilfords Woodruff og Brighams Young er þið lærið þessa bók? Hvernig getið þið fylgt fordæmi þeirra er þið lærið kenningar lifandi spámanna? Hvað teljið þið felast í því að láta það sem sannleikans er „verða ritað í hjörtu okkar, með járnstíl og blýi“?

Ritningargreinar tengdar efninu: 2 Ne 3:6–19; K&S 24:1–9; 124:1

Heimildir

  1. History of the Church, 5:408; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá ónefndum fréttaritara Boston Bee, 24. mars 1843, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. mars 1843, bls. 200.

  2. History of the Church, 5:339; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 8. apríl 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards og William Clayton.

  3. Parley P. Pratt, Autobiography of Parley P. Pratt ritst. af Parley P. Pratt yngri (1938), bls. 46.

  4. Alvah J. Alexander, í “Joseph Smith, the Prophet,“ Young Woman’s Journal, des. 1906, bls. 541.

  5. Amasa Potter, “A Reminiscence of the Prophet Joseph Smith,“ Juvenile Instructor, 15. febr. 1894, bls. 132.

  6. Brigham Young, Deseret News, 31. okt. 1855, bls. 268.

  7. Eliza R. Snow, “Anniversary Tribute to the Memory of President Joseph Smith,“ Woman’s Exponent, 1. jan. 1874, bls. 117; stafsetning færð í nútímahorf.

  8. Bathsheba W. Smith, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,“ Juvenile Instructor, 1. júní 1892, bls. 344.

  9. Wilford Woodruff, Deseret News, 20. jan. 1858, bls. 363; stafsetning færð í nútímahorf.

  10. Daniel D. McArthur, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,“ Juvenile Instructor, 15. febr. 1892, bls. 129.

  11. Alexander McRae, vitnaði í History of the Church, 3:258; úr bréfi frá Alexander McRae til ritstjóra Deseret News, 1. nóv 1854, Salt Lake City, Utah, birt í Deseret News, 9. nóv. 1854, bls. 1; stafsetning færð í nútímahorf.

  12. Lyman O. Littlefield, Reminiscences of Latter-day Saints (1888), bls. 35.

  13. Mary Alice Cannon Lambert, í “Joseph Smith, the Prophet,“ Young Woman’s Journal, des. 1905, bls. 554.

  14. Angus M. Cannon, í “Joseph Smith, the Prophet,” Young Woman’s Journal, des. 1906, bls. 546; stafsetning færð í nútímahorf.

  15. Hyrum Smith, tilvitnun í History of the Church, 6:346; úr fyrirlestri sem Hyrum Smith hélt 28. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois.

  16. Parley P. Pratt, Autobiography of Parley P. Pratt, ritst. af Parley P. Pratt yngri (1938), bls. 45–46; greinaskilum bætt við.

  17. Bréf frá John Needham til foreldra hans, 7. júlí 1843 Nauvoo, Illinois, birt í Millennial Star, okt. 1843, bls. 89.

  18. Emmeline B. Wells, “The Prophet Joseph,“ Young Woman’s Journal, ágúst, 1912, bls. 437–38; greinaskilum bætt við.

  19. Mary Alice Cannon Lambert, í “Joseph Smith, the Prophet,“ Young Woman’s Journal, des. 1905, bls. 554.

  20. John M. Bernhisel, tilvitnun í History of the Church, 6:468; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá John M. Bernhisel til Thomas Ford, 14. júní 1844, Nauvoo, Illinois.

  21. Jesse N. Smith, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,“ Juvenile Instructor, 1. jan. 1892, bls. 23–24; greinaskilum bætt við.

  22. Bréf frá William Clayton til Williams Hardman, 30. mars 1842, Nauvoo, Illinois, birt í Millennial Star, 1. ágúst 1842, bls. 76.

  23. Joseph F. Smith, í “Joseph, the Prophet,“ Salt Lake Herald Church and Farm Supplement, 12. jan. 1895, bls. 211; stafsetning færð í nútímahorf.

  24. Brigham Young, Deseret News, 28. nóv 1860, bls. 305; stafsetning færð í nútímahorf.

  25. Bréf frá Howard Coray til Martha Jane Lewis, 2. ágúst 1889, Sanford, Colorado, bls. 3–4, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  26. Joseph Lee Robinson, ævisaga og dagbækur, 1883–92, mappa 1, bls. 22, Skjalasafn kirkjunnar.

  27. Bréf frá Orson Spencer til óþekkts einstaklings, 7. nóv. 1842, Nauvoo, Illinois, birtist í Times and Seasons, 2. jan. 1843, bls. 56–57; stafsetning færð í nútímahorf.

  28. Bréf frá Jonah R. Ball til Harveys Howard, 19. maí 1843, Nauvoo, Illinois; Jonah Randolph Ball, bréf, 1842–43, til Harveys Howard, Shutesbury, Massachusetts, Skjalasafn kirkjunnar.

  29. Bréf frá William Clayton til kirkjumeðlima í Manchester, Englandi, 10. des. 1840, Nauvoo, Illinois, Skjalasafn kirkjunnar.

  30. Mercy Fielding Thompson, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,“ Juvenile Instructor, 1. jan. 1892, bls. 399; greinaskilum bætt við.

  31. Emmeline B. Wells, í “Joseph Smith, the Prophet,“ Young Woman’s Journal, des. 1905, bls. 556; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við.

  32. Lorenzo Snow, Deseret Weekly, 13. apríl 1889, bls. 487.

  33. Edward Stevenson, Reminiscences of Joseph, the Prophet, and the Coming Forth of the Book of Mormon (1893), bls. 4; greinaskilum bætt við.

  34. Mary Ann Stearns Winters, í “Joseph Smith, the Prophet,“ Young Woman’s Journal, des. 1905, bls. 558; greinaskilum bætt við.

  35. Wilford Woodruff, greinargerð um fyrirlestur sem Joseph Smith hélt 6. apríl 1837, í Kirtland, Ohio; Wilford Woodruff, dagbókarfærsla, 1833–98, Skjalasafn kirkjunnar.

  36. Brigham Young, Deseret News, 6. júní 1877, bls. 274; stafsetning færð í nútímahorf.

Ljósmynd
Joseph Smith teaching

„Fólkið hafði unun af því að hlýða á [spámanninn Joseph Smith], því hann var þrunginn af opinberunum,“ sagði Lorenzo Snow. „Þeir sem meðtóku reglurnar sem hann kenndi hlutu, að fyrirheiti Drottins, vitnisburð um sannleika þeirra.“

Ljósmynd
Bathsheba W. Smith

Bathsheba W. Smith

Ljósmynd
Mary Alice Cannon Lambert

Mary Alice Cannon Lambert

Ljósmynd
Parley P. Pratt

Parley P. Pratt

Ljósmynd
John M. Bernhisel

John M. Bernhisel

Ljósmynd
William Clayton

William Clayton

Ljósmynd
Joseph L. Robinson

Joseph L. Robinson

Ljósmynd
Mercy Fielding Thompson

Mercy Fielding Thompson

Ljósmynd
Emmeline B. Wells

Emmeline B. Wells

Ljósmynd
Lorenzo Snow

Lorenzo Snow