Kenningar forseta
20. Kafli: Hjarta fullt af kærleika og trú: Bréf spámannsins til fjölskyldu sinnar


20. Kafli

Hjarta fullt af kærleika og trú: Bréf spámannsins til fjölskyldu sinnar

„Minnstu fless að ég er sannur og trúfastur vinur flinn og barnanna að eilífu. Hjarta mitt er fléttað flínu ætíð og að eilífu. Ó, megi Guð blessa ykkur öll.“

Úr lífi Josephs Smith

þess var krafist af Joseph Smith að hann ferðaðist mikið í sinni spámannlegu köllun, til að mæta þörfum hinnar sívaxandi kirkjustofnunar. Eftir að hann staðfesti að Independence, Missouri, væri staðurinn fyrir uppbyggingu Síonar, sumarið 1831, óx kirkjan þar hratt, eins og hún hélt áfram að gera í Kirtland, Ohio. Frá 1831 til 1838 voru aðalsetur kirkjunnar tvö, í Missouri og í Kirtland þar sem spámaðurinn bjó. Á þessum tíma fór spámaðurinn fimm sinnum hina erfiðu 1.400 kílómetra leið til Missouri, til að hafa yfirumsjón með uppbyggingu kirkjunnar þar.

Árið 1833 og aftur 1837 fór Joseph Smith til Upper Canada [í Ontario] til að prédika þar fagnaðarerindið og efla kirkjugreinar. Árið 1834 og 1835 ferðaðist hann til Michigan til að heimsækja meðlimi kirkjunnar. Á nokkurra ára tímabili prédikaði hann fagnaðarerindið og stjórnaði málefnum kirkjunnar í Springfield, Illinois; Boston og Salem, Massachusetts; Monmouth-sýslu, New Jersey; New York-borg og Albany, New York; Cincinnati, Ohio; Philadelphíu, Pennsylvaníu; Washington, D.C. og á ýmsum öðrum stöðum.

Ferðalög spámannsins, og einnig ofsóknirnar sem hann þurfti stöðugt að þola, ollu því að hann var oft fjarri heimili sínu og fjölskyldu. Hann var oft handtekinn og fangelsaður ranglega og var fórnalamb fjölda tilefnislausra málsókna. Sem dæmi, yfirgaf spámaðurinn og nokkrir aðrir leiðtogar kirkjunnar Kirtland hinn 27. júlí 1837, til að heimsækja hina heilögu í Kanada. Þegar þeir komu til Painesville, Ohio, „töfðust þeir allan daginn vegna illgjarnra og bagalegra málsókna.“ Þar eð þeir voru ekki fjarri Kirtland, héldu þeir heim á leið til að hvílast og hefja síðan ferðina að nýju næsta dag. Spámaðurinn skrifaði: „Um sólsetur fór ég í hestvagn minn til að halda heim á leið til Kirtland, á þeirri stundu stökk lögreglustjórinn upp í vagninn, þreif tauminn og birti mér aðra stefnu.“1

Þessi mikla fjarvera spámannsins frá heimilinu reyndist honum og fjölskyldu hans erfið raun. Bréf hans til Emmu báru vitni um einsemd hans og þrá til hennar og barna þeirra. Hann skrifaði sífellt um hina heitu ást sem hann bar til fjölskyldu sinnar og trú sína á Guð. Hann hughreysti einnig fjölskyldu sína og lét í ljós bjartsýni á framtíðina, þrátt fyrir allt mótlætið sem þau stóðu frammi fyrir.

1. apríl 1832 hélt spámaðurinn að heiman í aðra ferð sína til Missouri, aðeins viku eftir að hann hafði verið tjargaður og fiðraður af múgnum og aðeins tveimur dögum eftir að hinn ættleiddi sonur hans dó. Hjarta hans hefur án efa verið hlaðið sorg og áhyggjum vegna Emmu eiginkonu sinnar og Juliu, sem var eina eftirlifandi barn hans. Þegar hann var á heimleið aftur í næsta mánuði, óþreyjufullur að sameinast fjölskyldunni sinni, var hann kyrrsettur í nokkrar vikur í Greenville, Indiana. Einn af ferðafélögum spámannsins, Newel K. Whitney biskup, slasaðist alvarlega á fæti í póstvagnsslysi og þurfti að ná sér áður en hann gat ferðast. Á þeim tíma var spámanninum byrlað eitur, sem varð til þess að hann kastaði svo heiftarlega upp að kjálki hans fór úr liði. Hann fór til Whitneys biskups, sem enn var rúmfastur, en veitti þó Joseph prestdæmisblessun. Spámaðurinn læknaðist samstundis.

Stuttu eftir þessa reynslu skrifaði spámaðurinn til eiginkonu sinnar: „Bróðir Martin [Harris] er kominn og færði okkur þær ánægjulegu fréttir að fjölskyldur okkar hefðu verið við góða heilsu er hann fór þaðan, og gladdi það hjörtun og lífgaði anda okkar. Við þökkum himneskum föður fyrir gæsku hans til okkar allra. … Þótt aðstæður mínar séu mjög óþægilegar, mun ég reyna að vera ánægður, Drottinn liðsinnir mér. … Mig langar að sjá Juliu litlu einu sinni enn, setja hana á hné mér og spjalla við þig. … Ég heiti þér tryggð minni sem eiginmaður. Megi Drottinn blessa þig og friður sé með þér, vertu sæl uns ég kem aftur.“2

Kenningar Josephs Smith

Fjölskyldumeðlimir biðja hver fyrir öðrum og hugga og styrkja.

Til Emmu Smith, 13. október 1832, frá New York borg, New York: „Í dag gekk ég um einn stórkostlegasta hluta New York borgar. Byggingarnar eru svo sannlega stórar og fagrar, að hver sem lítur þær augum undrast. … Eftir að hafa séð allt sem ég óskaði, hélt ég til herbergis míns til að íhuga og róa huga minn. Og sjá, hugsanir að heiman, um Emmu og Juliu, streymdu um huga minn líkt og flóð, og ég óskaði þess að geta átt með þeim stund. Brjóst mitt er þrungið tilfinningum umhyggjusams foreldris og eiginmanns, og ef ég gæti verið með ykkur, hefði ég margt að segja ykkur. …

Ég myndi vilja segja eitthvað við þig til að hugga þig í þínum einstöku raunum og þrengingum [Emma var þá með barni]. Ég vona að Guð veiti þér styrk svo þú örmagnist ekki. Ég bið Guð um að milda hjörtu þeirra sem umhverfis þig eru, að þau sýni þér vinsemd og létti byrðar þínar, eins og kostur er á, en þjaki þig ekki. Ég finn til samúðar með þér, því ég þekki aðstæður þínar en aðrir ekki, en þú verður að láta hughreystast í þeirri fullvissu að Guð á himnum er vinur þinn og að þú átt einn sannan og lifandi vin á jörðinni, eiginmann þinn.“3

Til Emmu Smith, 12. nóvember 1838, frá Richmond, Missouri, þar sem honum var haldiö í fangelsi: „Ég fékk bréfið þitt og las það aftur og aftur, það var mér ljúft og dýrmætt. Ó Guð, veittu mér þau forréttindi og blessun að sjá yndislega fjölskyldu mína einu sinn enn í ljúfu frelsi og samfélagi. Að faðma þau að mér og kyssa ljúfa vanga þeirra, myndi fylla hjarta mitt ólýsanlegu þakklæti. Segðu börnunum að ég sé á lífi og treystið því að ég muni koma til að sjá þau eins fljótt og auðið er. Hughreystu hjörtu þeirra eins og þú framast getur og reyndu sjálf að vera hughraust. …

ES. Skrifaðu eins oft og þú getur, og komdu til mín, ef mögulegt er, með börnin. Breyttu samkvæmt eigin tilfinningum og bestu dómgreind, og ef unnt er, reyndu að vera hughraust, og ég treysti því að allt muni fara vel.“4

Til Emmu Smith, 4. apríl 1839, frá Liberty-fangelsinu, Missouri: „Elsku Emma mín, ég hugsa stöðugt um þig og börnin. … Mig langar að sjá Frederick litla, Juliu, Alexander, Jóhönnu [munaðarleysingja sem bjó hjá Smith-fjölskyldunni] og Major gamla [hund fjölskyldunnar]. Og hvað þig varðar, ef þú vilt vita hversu heitt ég þrái að sjá þig, hugsaðu þá um tilfinningar þínar, hversu heitt þú þráir að sjá mig, og gerðu þér það sjálfri í hugarlund. Ég myndi fúslega ganga héðan berfættur og hálf nakinn, til að fá að sjá þig, og liti á það sem sanna ánægju og aldrei telja það eftir mér. … Ég ber dapurleika minn með þolgæði, og einnig þeir sem með mér eru. Enginn okkar hefur enn misst kjarkinn.“5

Til Emmu Smith, 20. janúar 1840, frá Chester-sýslu, Pennsylvaníu: „Ég hlakka ósegjanlega til að fá að sjá ykkur öll enn einu sinni í þessum heimi. Mér finnst langt um liðið síðan ég var sviptur nærveru ykkar, en með hjálp Drottins mun ég ekki verða það mikið lengur. … Ég fyllist stöðugum kvíða og svo mun verða uns ég kem heim aftur. Ég bið Guð um að vernda ykkur öll þar til ég kem heim. Elsku Emma mín, hjarta mitt er fléttað þínu og barnanna. Ég vil að þú hugsir til mín. Segðu börnunum að ég elski þau og komi heim eins fljótt og auðið er. Þinn ástkæri eiginmaður.“6

Sú ábyrgð að kenna börnum okkar fylgir okkur ávallt.

Til Emmu Smith, 12. nóvember 1838, frá Richmond, Missouri, þar sem honum var haldið í fangelsi: „Segðu Joseph litla að vera góður drengur og að faðir hans elski hann fullkominni elsku. Hann er elstur og má ekki gera þeim mein sem minni eru, heldur hughreysta þau. Segðu Frederick litla að faðir hans elski hann af öllu hjarta og að hann sé indæll drengur. Julia er indæl lítil stúlka. Ég elska hana einnig. Hún er efnilegt barn. Segðu henni að faðir hennar vilji að hún hugsi um hann og sé góð stúlka. Segðu hinum að ég hugsi til þeirra og biðji fyrir þeim öllum. … Alexander litli er ávallt í huga mínum. Ó, mín ástríka Emma, ég vil að þú minnist þess að ég er sannur og trúfastur vinur þinn og barnanna að eilífu. Hjarta mitt er fléttað þínu ætíð og að eilífu. Ó, megi Guð blessa ykkur öll, amen. Ég er eiginmaður þinn, fjötraður og hrjáður.“7

Til Emmu Smith, 4. apríl 1839, frá Liberty fangelsinu, Missouri: „Ekki láta þessi litlu kríli gleyma mér. Segðu þeim að faðir þeirra elski þau fullkominni elsku og að hann geri allt hvað hann getur til að komast frá múgnum og til þeirra. Kenndu [börnunum] allt sem þú getur, svo þau hafi heilbrigða hugsun. Vertu þeim ljúf og góð, ekki reiðast þeim auðveldlega, hlustaðu heldur á þarfir þeirra. Segðu þeim að faðir þeirra vilji að þau séu góð börn og hlýði móður sinni. Elsku Emma mín, það hvílir á þér mikil ábyrgð, að varðveita sjálfa þig, heiður þinn og hófsemi gagnvart þeim og kenna þeim hið rétta, að móta þeirra unga og ljúfa huga, svo þau hefji lífsleið sína á réttri braut og spillist ekki þegar þau sjá syndsamlegt fordæmi.“8

Til Emmu Smith, 9. nóvember 1839, frá Springfield, Illinois: „Ég verð fullur af kvíða yfir þér og börnunum þar til ég heyri frá þér, einkum vegna Fredericks litla. Það var svo sárt að fara frá honum veikum. Ég vona að þú hugsir um þessi ljúfu afkvæmi á þann máta sem viðeigandi er móður og heilagri konu og reynir að rækta hugi þeirra og [kenna] þeim lestur og hófsemi. Láttu þau ekki vera óvarin gegn veðrinu, svo þau fái kvef, og reyndu að fá alla þá hvíld sem þú getur. Þessi tími verður langur og einmanalegur í fjarveru þinni. … Vertu þolgóð þar til ég kem og gerðu þitt besta. Ég get ekki skrifað það sem mig langar, en trúðu mér, tilfinningar mínar til ykkar allra eru þær bestu.“9

Guð er vinur okkar og við getum treyst honum í andstreymi okkar.

Til Emmu Smith, 6. júní 1832, frá Greenville, Indiana: „Ég hef farið að trjálundi næstum hvern dag, hinu megin bæjarins, en þar get ég verið í einrúmi og úthellt öllum mínum hjartans tifinningum í hugleiðslu og bæn. Ég hef rifjað upp allar fyrri stundir lífs míns og hef harmað og fellt sorgartár yfir heimsku minni, að hafa veitt andstæðingi sálar minnar of mikið vald yfir mér, líkt og hann hefur haft á liðnum stundum. En Guð er miskunnsamur og hefur fyrirgefið syndir mínar og ég gleðst yfir að hann sendir öllum huggarann sem trúa og auðmýkja sig frammi fyrir honum. …

Ég mun reyna að sætta mig við hlutskipti mitt, vitandi það að Guð er vinur minn. Í honum mun ég huggun hljóta. Ég hef falið honum líf mitt. Ég er reiðubúinn að fara héðan við kall hans. Ég þrái að vera með Kristi. Líf mitt er ekki mikils virði [nema] ég gjöri vilja hans.“10

Til Emmu Smith, 4. júní 1834, frá bökkum Mississippi-fljóts í vesturhluta Illinois; spámaðurinn Joseph var á ferð með Síonarfylkingunni: „Af og til dvelja hugsanir okkar við ólýsanlegar áhyggjur af eiginkonum okkar og börnum – afkvæmum okkar í holdinu, sem samtvinnuð eru hjörtum okkar – og einnig bræðrum okkar og vinum. … Segðu föður Smith, allri fjölskyldunni og Oliver [Cowdery] að láta hughreystast og líta fram til þess dags er raunir og þrengingar þessa lífs taka enda og við njótum öll ávaxta erfiðis okkar, séum við trúföst allt til enda, sem ég bið að verði hlutskipti okkar allra.“11

Til Emmu Smith, 4. nóvember 1838, frá Independence, Missouri, þar sem honum var haldið í fangelsi: „Minn kæri og ástsæli förunautur hjarta míns, í mótlæti og þrengingum, ég vil láta þig vita að allt er í lagi hjá mér og að hugarástand okkar allra er gott, miðað við aðstæður okkar… . Ég hef miklar áhyggjur af þér og mínum indælu börnum. Hjarta mitt syrgir og blæðir yfir bræðrum okkar og systrum, og yfir drápi á fólki Guðs. … Ég veit ekki hvað Guð kann að gera fyrir okkur, en ég vona það besta við allar aðstæður. Ég mun treysti Guði, jafnvel þótt dauði sé yfirvofandi. Ég veit ekki hvers kyns óhæfuverk múgurinn kann að fremja, en gerið ráð fyrir litlu sem engu taumhaldi af þeirra hendi. Ó, megi Guð sýna okkur miskunn. … Guð hefur þyrmt sumum okkar fram að þessu, kannski mun hann að einhverju marki miskunna sig yfir okkur. …

Ég get ekki vitað mikið með vissu, í þeirri stöðu sem ég er í, aðeins beðist fyrir um frelsi, þar til það veitist, og tekið öllu eins og það gerist með þolinmæði og hugrekki. Von mín er sú að þú verðir trúföst og verðug alls trausts. Ég get ekki skrifað margt við þessar aðstæður. Hagaðu öllum málum eftir því sem aðstæður leyfa og nauðsyn krefur. Megi Guð veita þér visku, skynsemi og rósemi, sem ég hef alla trú á að þú hafir.

Börnin litlu eru ávallt mér í huga. Segðu þeim að faðir þeirra sé enn á lífi. Megi Guð gefa að hann sjái þau að nýju. Ó, Emma, … yfirgefðu hvorki mig né sannleikann, en minnstu mín. Ef við hittumst ekki aftur í þessu lífi, megi Guð þá sjá til þess að við hittumst á ný á himnum. Ég fæ ekki lýst tilfinningum mínum, hjarta mitt er þrungið. Ó, mín ljúfa og ástkæra Emma, vertu sæl. Ég er þinn að eilífu, þinn eiginmaður og sannur vinur.“12

Til Emmu Smith, 21. mars 1839, frá Liberty-fangelsinu, Missouri: „Mín kæra Emma, ég skynja erfiði þitt og hef samúð með þér. Ef Guð mun þyrma lífi mínu og ég fæ notið þeirra forréttinda að annast þig, mun ég létta áhyggjur þínar og leitast við að hugga hjarta þitt. Ég vil að þú gerir þitt besta til að hugsa um fjölskylduna. Ég trúi að þú munir gera allt sem þú getur. Mér þótti leitt að heyra að Frederick væri veikur, en ég treysti því að hann hafi náð heilsu að nýju og sé hraustur líkt og þið öll. Ég vil að þú reynir að finna tíma til að skrifa mér langt bréf, til að segja mér allt, jafnvel hvort Major gamli sé enn á lífi og hvað litlu krílin sem halda um háls þinn segja. … Segðu þeim að ég sé í fangelsi svo lífi þeirra verði þyrmt. …

Guð ríkir yfir öllu í visku sinni og eigin vilja. Traust mitt er á honum. Hjálpræði sálar minnar er mér mikilvægast, þar sem ég þekki eilífðina með vissu. Það skiptir mig engu þótt himnarnir doki við. Ég verð að stýra [skipi] mínu í örugga höfn, sem ég og geri. Ég vil að þú gerir það sama. Þinn að eilífu.“13

Til Emmu Smith, 16. ágúst 1842, noerri Nauvoo, Illinois; spámaðurinn Joseph var í felum frá óvinum sínum: „Ég vil nýta mér frelsi mitt til að tjá þér einlægt þakklæti fyrir hinar tvær hughreystandi heimsóknir þínar í útlægu ástandi mínu. Orð fá ekki lýst þakklæti hjarta míns, fyrir þá hlýju og sönnu vináttu sem þú hefur sýnt mér með breytni þinni. Tíminn hefur liðið síðan þú fórst frá mér, ég sætti mig algjörlega við örlög mín, gerist það sem gerast má. …

Segðu börnunum að enn sé í lagi með föður þeirra og að hann haldi áfram að biðja heitt og innilega til almáttugs Guðs fyrir verlferð sinni, svo og þinni og þeirra. Segðu móður Smith að í lagi verði með son hennar, hvort heldur í lífi eða dauða, því svo segir Drottinn Guð. Segðu henni að ég hugsi ávallt til hennar, einnig til Lucy [systur Josephs] og allra hinna. Þau verða öll að vera hughraust og glöð. . Ég er þinn í flýti, þinn ástúðlegi eiginmaður til dauða, um alla eilífð, ævarandi.“14

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii-xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið kaflann stuttlega yfir og veitið athygli tilfinningum Josephs Smith til Emmu og barna þeirra. Hvað lærum við af fordæmi hans um það hvernig okkur ber að tala við fjölskyldu okkar og breyta gagnvart henni? Hvað getum við lært af þeirri viðleitni Joesphs og Emmu Smith að skrifa hvort öðru og sjá hvort annað? Hvað hafið þið gert til að sýna fjölskyldu ykkar að þið elskið hana?

  • Spámaðurinn Joseph Smith sagði við Emmu að hann væri „sannur og trúfastur vinur [hennar] og barnanna að eilífu,“ og hann þakkaði henni fyrir „hlýja og einlæga vináttu“ (bls. 239, 243).

  • Spámaðurinn sýndi að hann treysti Emmu í bréfaskrifum sínum, og lét í ljós þá trú sína á henni að hún myndi taka góðar ákvarðanir og gera allt sem hún gæti til að annast fjölskylduna (bls. 242). Hvernig getur slík traustsyfirlýsing haft áhrif á samband eiginmanns og eiginkonu?

  • Lesið orð spámannsins Josephs Smith til barna sinna í þriðju málsgrein á bls. 243. Hvernig gat það hjálpað börnum hans að fá þessar fréttir? Hvað geta foreldrar gert á reynslutímum til að sýna börnum sínum að þau eigi trú á Guð?

  • Lesið þar sem Joseph Smith lætur í ljós traust sitt á Guði á bls. 240–43. Bendið á það sem snertir ykkur sérstaklega. Hvernig getið þið nýtt þennan sannleika í lífi ykkar?

Ritningargreinar tengdar efninu: 1 Mós 2:24; 1 Kor 11:11; Ef 5:25; Mósía 4:14–15; K&S 25:5, 9, 14; 68:25–28

Heimildir

  1. History of the Church, 2:502; stafsetning færð í nútímahorf; úr “History of the Church” (handrit), bók B-1, bls. 767, og viðauki, bls. 6, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 6. júní 1832, Greenville, Indiana; Chicago Historical Society, Chicago, Illinois.

  3. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 13. okt. 1832, New York City, New York; Skjalasafn Community of Christ, Independence, Missouri.

  4. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 12. nóv. 1838, Richmond, Missouri; Skjalasafn Community of Christ, Independence, Missouri.

  5. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith 4. apríl 1839, Liberty-fangelsið, Missouri; Beinecke-bókasafnið, Yaleháskóla, New Haven, Connecticut; texti úr Skjalasafni kirkjunnar. Fullt nafn Jóhönnu var Johanna Carter; hún var munaðarlaus dóttir Johns S. og Elizabeth Kenyon Carter.

  6. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 20. jan. 1840, Chester-sýsla, Pennsylvaníu; Chicago Historical Society, Chicago, Illinois.

  7. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 12. nóv. 1838, Richmond, Missouri; Skjalasafn Community of Christ, Independence, Missouri.

  8. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith 4. apríl 1839, Liberty-fangelsið, Missouri; Beinecke-bókasafnið, Yaleháskóla, New Haven, Connecticut; afrit í Skjalasafni kirkjunnar.

  9. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 9. nóv. 1839, Springfield, Illinois; Skjalasafn Community of Christ, Independence, Missouri; afrit í Skjalasafni kirkjunnar.

  10. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 6. júní 1832, Greenville, Indiana; Chicago Historical Society, Chicago, Illinois.

  11. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 4. júní 1834, frá árbökkum Mississippifljóts í vesturhluta Illinois; Letter Book 2, 1837–43, bls. 58, Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar.

  12. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 4. nóv. 1838, Independence, Missouri; Skjalasafn Community of Christ, Independence, Missouri; afrit í Skjalasafni kirkjunnar.

  13. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 21. mars 1839, Liberty-fangelsið, Liberty, Missouri; Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar.

  14. History of the Church, 5:103, 105; greinaskilum bætti við; úr bréfi frá Joseph Smith til Emmu Smith, 16. ágúst 1842, nærri Nauvoo, Illinois.

Ljósmynd
Joseph’s family at Liberty Jail

Spámaðurinn var oft fjarri fjölskyldu sinni vegna ábyrgðar sinnar og ofsóknanna sem hann þurfti að horfast í augu við. Eiginkona spámannsins, Emma, og sonur þeirra, Joseph, heimsóttu hann og bróður hans, Hyrum, erþeir voru í haldi í Liberty-fangelsinu.

Ljósmynd
letter from Joseph to Emma

Hluti af bréfi sem spámaðurinn Joseph Smith skrifaði til Emmu Smith frá Liberty-fangelsinu 21. mars 1839.