Kenningar forseta
30. Kafli: Hugdjörf í málstað Krists


30. Kafli

Hugdjörf í málstað Krists

„Ég er unnandi málstaðar Krists.“

Úr lífi Josephs Smith

Í október árið 1838 urðu átök múgsins og varnarliðsins á svæðinu við hina heilögu, sem bjuggu í norðurhluta Missouri, alvarlegri. Hinn 27. dags þess sama mánaðar gaf Lilburn W. Boggs ríkisstjóri út þessa illræmdu tilskipun til yfirmanns varnarliðs fylkisins: „Meðhöndla þarf mormónana sem óvini, og ef nauðsynlegt er almennings vegna, verður að útrýma þeim eða hrekja þá burt úr fylkinu. Óhæfuverk þeirra eru ólýsanleg.“1 Þremur dögum síðar tjaldaði fjölmennt varnarlið á stað nærri Far West í Missouri, þar sem kirkjan hafði höfuðstöðvar sínar, og bjó sig undir að ráðast á borgina.

Joseph Smith og fleiri leiðtogar kirkjunnar féllust á að hitta varnarliðið 31. október til að semja um frið, því þeir höfðu miklar áhyggjur af öryggi Síðari daga heilagra. Hins vegar var spámaðurinn og þeir sem fóru með honum handteknir er þeir nálguðust tjaldbúðir varnarliðsins. Þessu næst var farið með þá í tjaldbúðirnar, þar sem þeir neyddust til að liggja alla nóttina á kaldri jörð í ísköldum regnstormi, meðan verðirnir öskruðu á þá og bölvuðu þeim. Þegar ákveðið var að fara með þá sem fanga til Independence í Missouri, sárbáðu Joseph og þeir sem með honum voru liðsforingjana um að leyfa sér að sjá fjölskyldur sínar.

Spámaðurinn skrifaði: „Ég kom að eiginkonu minni og börnum með tárvot augu, þar sem þau óttuðust að við hefðum verið skotnir af þeim sem svarið höfðu að taka líf okkar, og að þau mundu ekki sjá mig framar. … Hver getur gert sér í hugarlund þær tilfinningar sem ég upplifði þarna, er ég var tekinn frá eiginkonu minni, og hún og börnin skilin ein eftir hjá skrímslum í mannsmynd, án þess að ég vissi hvernig séð yrði fyrir þörfum þeirra, en með mig yrði farið langar leiðir frá þeim og óvinir mínir gátu drepið mig hvenær sem þeim sjálfum hentaði. Eiginkona mín grét og börnin héldu í mig, þar til verðirnir hrifsuðu þau af mér með sverð sín á lofti.“2

Eftir stutta vistun í Independence var farið með spámanninn og nokkra aðra til Richmond, Missouri, þar sem þeir voru hlekkjaðir saman í gömlu bjálkahúsi og hafðir undir ströngu eftirliti. Í Richmond var spámanninum haldið föngnum í um þrjár vikur áður en hann var fluttur í fangelsið í Liberty, Missouri. Þótt aðstæðurnar hefðu verið harðneskjulegar, skrifaði spámaðurinn eftirfarandi til Emmu nokkru eftir komu hans til Richmond: „Sökum málstaðar Krists, en ekki sökum neins annars málstaðar, erum við hlekkjaðir með keðjum og hafðir undir ströngu eftirliti. … Bróðir [George W.] Robinson er hlekkjaður við hlið mér; hjarta hans er hreint og hugur hans staðfastur. Bróðir [Lyman] Wight er næstur í röðinni, þar næst bróðir [Sidney] Rigdon, svo Hyrum [Smith], síðan Parley [P. Pratt] og loks Amasa [Lyman]. Þannig erum við hlekkjaðir saman með keðjum, svo og ævarandi elsku. Góður andi er meðal okkar og við gleðjumst yfir að vera taldir verðugir ofsókna sökum Krists.“3

Eina kalda og langa nótt lágu mennirnir á gólfinu og þótt komið væri fram yfir miðnætti gátu þeir ekki sofið, því verðirnir höfðu stært sig af nýlegri árás á hina heilögu, þar sem þjófnaður, nauðgun og morð áttu sér stað. Öldungur Parley P. Pratt sagði: „Ég hlustaði þar til ég fylltist slíkum viðbjóði, hneykslun og hryllingi, að mér tókst vart að halda aftur af mér, að standa upp til að ávíta verðina, en ég sagði ekkert við Joseph eða neinn hinna, þótt ég lægi við hlið hans og vissi að hann væri vakandi. Skyndilega spratt hann á fætur og mælti þrumuröddu, eða líkt og öskrandi ljón, og sagði eftirfarandi eftir mínu besta minni:

‚ÞÖGN. … Í nafni Jesú Krists býð ég ykkur að hafa hljótt. Ég líð ekki slíkt málfar eina einustu mínútu í viðbót. Hættið þegar slíku tali, ella munuð þið eða ég láta lífið ÞEGAR Í STAÐ!‘

Hann þagnaði. Stóð teinréttur og tignarlegur, hlekkjaður og vopnlaus og rólegur, og líkt og virðulegur engill horfði hann á skjálfandi verðina láta vopn sína síga eða falla á gólfið. Hné þeirra skulfu og þeir fóru út í horn eða hnipruðu sig saman við fætur hans, báðust afsökunnar og voru hljóðir þar til skipt var um verði.“4

Kenningar Josephs Smith

Hinir hugdjörfu gera af gleði allt sem þeir megna, jafnvel á erfiðum tímum.

Í september 1839, þegar hinir heilögu hófu hið erfiða verk að byggja upp borgina Nauvoo, Illinois, skrifaði spámaðurinn til meðlima kirkjunnar í Kirtland, Ohio: ,Varðandi aðstæður kirkjunnar hér er málum eins vel háttað og við var að búast. … Nú þegar hefur fjöldi fjölskyldna safnast hér saman og ætlun okkar er að halda þeirri stefnu áfram, einkum vegna þess að við höfum séð að veikindi hér eru ekki almennari en venjulega, þrátt fyrir allar raunir okkar og þá erfiðleika sem við okkur blasa. Við reiðum okkur á miskunn og mátt Guðs í okkar þágu, og vonumst til þess að geta haldið áfram að vinna öll góð og nytsöm verk, jafnvel allt til enda, svo við verðum ekki fundin léttvæg er við verðum mæld á vogarskálum.5

Í september 1842 skrifaði spámaðurinn eftirfarandi í bréfi til meðlima kirkjunnar, sem síðar var skráð í Kenningu og sáttmála 128:19, 22: „Hvað heyrum við nú í því fagnaðarerindi sem við höfum meðtekið? Gleðiraust! Náðarraust frá himni, og sannleiksraust úr jörðu, gleðitíðindi fyrir hina dánu, gleðiraust fyrir hina lifandi og hina dánu, gleðitíðindi um mikinn fögnuð … bræður, eigum við ekki að halda áfram í þágu svo mikils málstaðar? Halda áfram en ekki aftur á bak. Hugrekki, bræður, og áfram, áfram til sigurs! Hjörtu ykkar fagni og gleðjist ákaft.“6

Spámaðurinn sagði varðandi framvindu kirkjunnar árið 1831: „Það var augljóst að Drottinn veitti okkur kraft í samræmi við það verk sem vinna þurfti, styrk samkvæmt því erfiði sem lagt var á herðar okkar, og náð og hjálp eftir því sem þörf var á.“7

Hinir staðföstu unna málstað Krists og keppa að því að þroska kristilega eiginleika.

„Ég er unnandi málstaðar Krists, dyggðar, skírlífis, heiðarleika, staðfastrar breytni og heilagrar göngu.“8

„Ég hef trú á því að lifa dyggðugu, heiðarlegu og heilögu lífi frammi fyrir Guði og tel það skyldu mína að sannfæra alla menn, af öllum mínum mætti, um að gera slíkt hið sama; að þeir láti af illum verkum og læri að gera gott og láta af syndum sínum í réttlæti.“9

„Styrkjum trú okkar með því að þroska alla góða eiginleika, sem prýða eiga börn hins blessaða Jesú. Við getum beðið á bænarstundum, elskað náunga okkar líkt og okkur sjálf og verið staðföst í mótlæti, í þeirri vissu að laun slíkra verða mikil í himnaríki. Hvílík hughreysting! Hvílík gleði! Ég vil lifa réttlátu lífi og ég vil að laun mín verði lík og hans!

… Hinir heilögu verða að stefna að réttlæti í öllu og þegar ritið [Kenning og sáttmálar] verður gefið út, mun þeim lærast að af þeim er mikils krafist. Gerið gott og vinnið verk réttlætis með einbeittu augliti á dýrð Guðs, og þið munuð uppskera laun ykkar þegar Drottinn umbunar hverjum og einum samkvæmt verkum hans. … Í nafni Jesú Krists hvetjum við ykkur til að lifa verðug blessananna sem koma munu í kjölfar mótlætis, og seðja munu sálir þeirra er standa stöðugir allt til enda.“10

„Látið sannleika og réttlæti ríkja í ykkur héðan í frá. Verið hófsöm í öllu og haldið ykkur frá drykkju, formælingum og öllu óguðlegu tali, frá öllu því sem óréttlátt og vanheilagt er; frá óvild, hatri, ágirnd og öllum vanhelgum þrám. Verið heiðarleg hvert við annað, því svo virðist sem suma skorti þar á, þeir hafi verið harðbrjósta og sýnt ágirnd. … Guð hatar slíkt í mönnum – og þeir munu upplifa sína sorg í hinni miklu áætlun, og enginn fær hindrað það. Engu að síður mun Síon lifa, þó svo hún virðist sem dauð vera.“11

„Sem sá er þráir heitt sáluhjálp manna minni ég ykkur öll á að keppa af brennandi áhuga að dyggð, heilagleika og hlýðni við boðorð Drottins. Verið góð, vitur, réttlát, örlát, og umfram allt, kærleiksrík og óbifanleg og rík af góðum verkum. Einlæg bæn ykkar trúfasta bróður og vinar í hinu ævarandi fagnaðarerindi er sú, að ykkur heilsist ávallt vel og þið njótið friðar og elsku Guðs föður okkar og náðar Drottins Jesú Krists.“12

„Verið bljúg og lítillát, heiðarleg og sönn, og gjaldið gott fyrir illt. … Verið auðmjúk og þolinmóð hverjar sem aðstæðurnar eru, því þá munum við fagna í meiri dásemd.“13

„Við viljum hvetja bræður okkar af dirfsku, að þeir séu auðmjúkir og í bænarhug, að þeir séu vissulega sem börn ljóssins og dagsins, svo að þeir megi njóta náðar, standast hverja freistingu og sigrast á öllu illu, í hinu verðuga nafni Drottins vors Jesú Krists.“14

Hinir staðföstu kappkosti að bæta sig í þessu lífi.

„Sú tilhugsun, að allir uppskeri samkvæmt sinni eigin kostgæfni og þolgæði í víngarðinum, ætti að hvetja hvern þann sem kallaður er sem boðberi þessara gleðitíðinda til að leggja þá rækt við hæfileika sína að hann hljóti aukna hæfileika, svo að meistarinn muni segja, er hann sest niður til að hlýða á reikningsskil þjóna sinna: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns [Matt 25:21]. …

“… Samkvæmt hinni himnesku kröfu Guðs ætti ekkert að aftra okkur frá því að sanna okkur frammi fyrir honum. Menn gleyma oft á tíðum að þeir eru háðir himnum hvað varðar sérhverja blessun sem þeim leyfist að njóta og því þurfa þeir að gera reikningsskil á öllum tækifærum sem þeim bjóðast. Bræður, þið þekkið dæmisögu Jesú um ráðsmennina, þar sem meistarinn kallaði þjóna sína til að gefa þeim nokkra talentur til að ávaxta meðan hann yrði fjarverandi um tíma og óskaði síðan eftir reikningsskilum [sjá Matt 25:14–30]. Þannig er það nú. Meistari okkar er fjarri um tíma, og er hann snýr aftur mun hann kalla eftir reikningsskilum allra. Og af þeim sem fékk fimm talentur, verður krafist tíu; og sýni einhver engan árangur, mun honum vísað burt sem óhæfum þjóni, en hinir trúföstu munu hljóta ævarandi heiður. Því sárbiðjum við þess af einlægni, að miskunn föður okkar muni á ykkur hvíla, fyrir tilstilli Jesú Krists, sonar hans, svo þið hvorki örmagnist á tímum freistinga, né látið yfirbugast á tímum ofsókna.“15

„Að lokinni þessari fræðslu munuð þið bera ábyrgð á ykkar eigin syndum. Það er eftirsóknarverður heiður að ganga þannig frammi fyrir okkar himneska föður að við björgum okkur sjálfum. Við berum öll ábyrgð á því gagnvart Guði hvernig við aukum við ljósið og viskuna sem Drottinn hefur gefið okkur, okkur sjálfum til bjargar.“16

Hinir hugdjörfu standa trúfastir allt til enda og munu hljóta kórónu himneskrar dýrðar.

„Við reiðum okkur á Guð, og erum staðráðnir í því, með náð hans, að varðveita málstaðinn og standast staðfastir allt til enda, svo við verðum krýndir kórónu himneskrar dýrðar og göngum inn til þeirrar hvíldar sem fyrirbúin er börnum Guðs.“17

„Berjist hinni góðu baráttu trúarinnar, svo að þið hljótið kórónuna sem bíður þeirra sem standast trúfastlega til loka reynslutíma þeirra [sjá 2 Tím 4:7–8]. Haldið þess vegna fast í það sem þið hafið hlotið svo ríkulega af hendi Guðs, svo að verk ykkar verði ekki til einskis, er hinn endurlífgandi tími rennur upp, og að þið megið hvílast frá öllu ykkar erfiði og hljóta fylling gleðinnar í ríki Guðs.“18

„Þið getið ekki verið of góð. Þolinmæði er himnesk, hlýðni er göfug, fyrirgefning er miskunnsöm og upphafning guðleg; og sá sem stendur staðfastur allt til enda mun á engan hátt glata launum sínum. Góður maður mun standast allt til að heiðra Krist, og jafnvel segja skilið við allt og alla í heiminum til að bjarga sálu sinni.“19

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið frásögnina um það þegar Joseph Smith ávítaði verðina á bls. 350. Hvaða áhrif hefur þessi frásögn á tilfinningar ykkar til Josephs Smith?

  • Joseph Smith sagði að fagnaðarerindið væri ,gleðiraust‘ og sagði: ,Hjörtu ykkar fagni og gleðjist ákaft‘ (bls. 351). Á hvaða hátt getur þekking okkar á fagnaðarerindinu gert okkur mögulegt að ,gleðjast ákaft,‘ jafnvel á erfiðum tímum?

  • Lesið þriðju málsgreinina á bls. 351. Hvað teljið þið að felist í því að hljóta „kraft í samræmi við það verk sem vinna [þarf]“? Hvaða dæmum munið þið eftir sem sýna þennan sannleika?

  • Lesið fjórðu málsgrein á bls. 351. Hvaða eiginleikum teljið þið að maðurinn þurfi að búa yfir til að geta sagst vera, unnandi málstaðar Krists‘? (Sjá dæmi á bls. 351–53.)

  • Hugleiðið hvað þið þurfið að bæta í lífi ykkar, er þið lærið leiðsögn spámannsins Josephs á bls. 353. Akveðið hvað þið hyggist gera til að bæta ykkur.

  • Lesið síðustu tvær málsgreinar kaflans (bls. 354–55). Hver eru laun þeirra sem ,[berjast] hinni góðu baráttu trúarinnar‘? A hvaða hátt reynir fólk að sannfæra okkur um að vera ekki „of góð“? Hvernig getum við brugðist við slíkum þrýstingi?

Ritningargreinar tengdar efninu: 5 Mós 31:6; 2 Tím 1:7–8; 2 Ne 31:19–20; Mósía 5:15; K&S 59:23

Heimildir

  1. Lilburn W. Boggs, vitnað í History of the Church, 3:175; úr tilskipun veitt John B. Clark, 27. okt. 1838, Jefferson, City, Missouri.

  2. History of the Church, 3:193; úr “Extract, from the Private Journal of Joseph Smith Jr., “ Times and Seasons, nóv. 1839, bls. 6.

  3. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 12. nóv. 1838, Richmond, Missouri; Skjalasafn Samfélags Krists, Independence, Missouri.

  4. Parley P. Pratt, Autobiography of Parley P. Pratt, ritst. af Parley P. Pratt yngri (1938), bls. 210–11; skáletri eytt.

  5. History of the Church, 4:8–9; orð í sviga upprunaleg; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith til Isaacs Galland, 11. sept. 1839, Commerce, Illinois.

  6. Kenning og sáttmálar 128:19, 22; bréf frá Joseph Smith til hinna heilögu, 6. sept. 1842, Nauvoo, Illinois.

  7. History of the Church, 1:176; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 118, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  8. Bréf frá Joseph Smith til Williams W. Phelps, 31. júlí 1832, Hiram, Ohio; Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar.

  9. Bréf frá Joseph Smith til ritstjóra Chester County Register and Examiner, 22. jan. 1840, Brandywine, Pennsylvanía; uprunalega bréfið er í persónulegri vörslu; bréfið birtist í dagblaðinu 11. febr. 1840.

  10. History of the Church, 2:229–30, neðanmálsgrein; úr “To the Saints Scattered Abroad, “ Messenger and Advocate, júní 1835, bls. 137–38.

  11. History of the Church, 3:233; úr bréfi frá Joseph Smith til meðlima kirkjunnar í Caldwell-sýslu, Missouri, 16. des. 1838, Liberty-fangelsið, Liberty, Missouri.

  12. History of the Church, 5:417; úr meðmælabréfi útgefið af Joseph Smith til Brighams Young, 1. júní 1843, Nauvoo, Illinois.

  13. History of the Church, 6:411; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 26. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  14. Bréf frá Joseph Smith og háprestum til bræðranna í Geneseo, New York, 23. nóv. 1833, Kirtland, Ohio, Skjalasafn kirkjunnar.

  15. History of the Church, 2:6, 23–24; úr “The Elders of the Church in Kirtland, to Their Brethren Abroad,“ 22. jan. 1834, birt í Evening and Morning Star, febr. 1834, bls. 135; apríl 1834, bls. 152.

  16. History of the Church, 4:606; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow; sjá einnig viðauka í þessari bók, bls. 562, atriði 3.

  17. History of the Church, 1:450; úr bréfi frá Joseph Smith til Edwards Partridge og fleiri, 5. des. 1833, Kirtland, Ohio.

  18. Bréf frá Joseph Smith og John Whitmer til hinna heilögu í Colesville, New York, 20. ágúst 1830, Harmony, Pennsylvanía; í Newel Knight, Autobiography and Journal, um 1846–47, bls. 129–30, Skjalasafn kirkjunnar.

  19. History of the Church, 6:427; úr bréfi frá Joseph Smith og Hyrum Smith til Abijah Tewksbury, 4. júní 1844, Nauvoo, Illinois; eftirnafn Abijahs Tewksbury er ranglega stafsett “Tewkesbury” í History of the Church.

Ljósmynd
Joseph rebuking guards

Nokkrir leiðtogar kirkjunnar, sem voru í varðhaldi í Richmond, Missouri, hlýddu á verðina klukkutímum saman stæra sig af árás á hina heilögu. Joseph Smith reis skyndilega á fætur og sagði: „Í nafni Jesú Krists býð ég ykkur að hafa hljótt.“

Ljósmynd
servant burying talent

„Sýni einhverykkar engan árangur, mun honum vísað burt sem óhæfum þjóni, en hinir trúföstu munu hljóta ævarandi heiður. “