2010–2019
Ekki skaltu blekkja mig
Aðalráðstefna október 2019


Ekki skaltu blekkja mig

Ef við höldum boðorð Guð, munum við ætíð leidd á réttan stað og ekki láta blekkjast.

Í dag færi ég ykkur öllum leiðsögn, en einkum þó ykkur, sem eruð hin upprennandi kynslóð – börnunum, piltunum og stúlkunum. Þið eruð innilega elskuð af spámanni Drottins á þessum tíma, Russell M. Nelson forseta – svo heitt að hann talaði til margra ykkar á síðasta ári á sérstakri heimslægri trúarsamkomu fyrir ungmenni, sem bar yfirskriftina „Vonin Ísraels.“1 Við heyrum oft Nelson forseta kalla ykkur einmitt það – „von Ísraels,“ hina upprennandi kynslóð og framtíð hinnar endurreistu kirkju Jesú Krists á jörðu.

Kæru ungu vinir, ég ætla að byrja á því að segja tvær fjölskyldusögur.

102. dalmatíuhundurinn

Fyrir mörgum árum kom ég heim úr vinnunni og brá við að sjá hvíta málningu á víð og dreif – á jörðunni, bílskúrshurðinni og rauðmúrsteinshúsinu okkar. Ég athugaði svæðið nánar og uppgötvaði að málningin var enn blaut. Málningarslóð lá í átt að bakgarðinum og því fylgdi ég henni eftir. Þar fann ég fimm ára gamlan son minn eltast við hundinn okkar með málningarpensil í hendi. Fallegi svarti Labradorinn okkar var málaður næstum hálfhvítur!

„Hvað ertu að gera?“ spurði ég glaðbeittur.

Sonur minn horfði á mig, síðan á hundinn og loks á blautan pensilinn og sagði: „Ég vildi bara að hann liti út eins og svartdoppóttu hundarnir í bíómyndinni – þú veist, með dalmatíuhvolpunum 101.

Ljósmynd
Svartur labrador
Ljósmynd
Dalmatíuhundur

Ég unni hundinum okkar. Mér fannst hann fullkominn, en dag þennan var sonur minn á öðru máli.

Kisan röndótta

Önnur sagan fjallar um Grover föðurfrænda eiginkonu minnar, sem bjó fjarri borginni, í húsi uppi í sveit. Grover frændi var orðin mjög aldraður. Okkur fannst rétt að synir okkar hittu hann meðan hann enn lifði. Við fórum því í langan bíltúr síðdegi eitt, til hans fábrotna heimilis. Við sátum saman og kynntum honum syni okkar. Stuttu eftir að samræðurnar hófust, vildu tveir yngri drengirnir, um það bil fimm og sex ára, fara út að leika sér.

Grover frændi, sem heyrði bón þeirra, snéri sér við og horfði beint á þá. Andlit hans var svo veðrað og ókunnugt drengjunum að þeir voru svolítið smeykir við hann. Hann sagði við þá sinni alvarlegu röddu: „Farið varlega – það er fullt af skúnkum þarna úti.“ Mér og Lesu varð heldur bilt við þessum orðum og höfðum áhyggjur af því að skúnkur spreyjaði yfir drengina! Drengirnir fóru þó brátt út að leika sér og við héldum samræðunum áfram.

Ljósmynd
Skúnkur

Síðar, þegar við fórum í bílinn til að fara heim, spurði ég drengina: „Sáuð þið skúnk?“ Einn þeirra svaraði: „Nei, við sáum engan skúnk, en við sáum svarta kisu með hvíta rönd á bakinu!“

Hinn mikli afvegaleiðari

Þessar sögur um sakleysi barna sem uppgötva eitthvað um lífið og tilveruna, gætu fengið okkur til að brosa, en af þeim má líka læra djúpan sannleika.

Í fyrri sögunni átti ungur sonur okkar fallegan hund sem gæludýr, hann greip málningarfötu og með pensil í hendi ákvað hann að skapa sinn eigin ímyndaða raunveruleika.

Í síðari sögunni voru drengirnir algjörlega ómeðvitaðir um hina andstyggilegu hættu sem stafaði af skúnki. Þar sem þeim var ekki mögulegt að átta sig á því sem þeir höfðu í raun séð, var þeim hætt við að kalla yfir sig óheppilegar afleiðingar. Þessar sögur seru um auðkennisvillu – að ætla að raunveruleikinn sé annar er hann er. Í báðum tilvikum voru afleiðingarnar smávægilegar.

Margir eru þó haldnir þessari sömu villu á mun stærri mælikvarða. Annaðhvort sjá þeir ekki hlutina í sönnu ljósi eða eru ósáttir við sannleikann og reyna að breyta honum. Það eru virk öfl á okkar tímum sem leika lausum hala og vinna markvisst að því að leiða okkur frá hinum algilda sannleika. Þess konar blekkingar eru langtum alvarlegri en sakleysisleg auðkennisvilla og oft fela þær í sér miklar, en ekki litlar, afleiðingar.

Satan, faðir lyginnar og hinn mikli afvegaleiðari, vill að við efumst um hið raunverulega og annaðhvort leiðum hjá okkur eilífan sannleika eða breytum honum í eitthvað sem fellur okkur betur í geð. „Hann [á] í stríði við Guðs heilögu“2 og hefur varið þúsundum ára í að finna út og æfa aðferðir til að sannfæra öll börn Guðs um að trúa því að gott sé illt og illt sé gott.

Hann hefur gert sér að leik að sannfæra menn um að skúnkar séu kisur eða að mögulegt sé að breyta labrador í dalmatíuhund með því að mál hann!

Ljósmynd
Móses sá Guð, augliti til auglitis

Við skulum nú lesa dæmi í ritningunum einmitt um þennan veruleika, þar sem Móse, spámaður Drottins, stendur andspænis þessu sama. „Móse var hrifinn upp á fjall eitt, afar hátt … og hann sá Guð augliti til auglitis og talaði við hann.“3 Guð fræddi Móse um hans eilífa auðkenni. Þótt Móse væri dauðlegur og ófullkominn, þá kenndi Guð að hann væri „í líkingu [síns] eingetna. Og [hans] eingetni … verður frelsarinn.“4

Móse sá Guð í þessari dásamlegu sýn og lærði nokkuð mikilvægt um sig sjálfan: Þótt dauðlegur væri, þá var hann vissulega sonur Guðs.

Hlustið vandlega á það sem gerðist eftir að þessari dásamlegu sýn lauk. „Og svo bar við, að … Satan [kom] og freistaði hans og sagði: ,Móse, mannsonur, tigna þú mig.“5 Móse sagði hugdjarfur: „Hver ert þú? Því að sjá, ég er sonur Guðs, í líkingu hans eingetna, og hvar er dýrð þín, að mér beri að tigna þig?“6

Móse sagði með öðrum orðum: „Þú getur ekki blekkt mig, því ég veit hver ég er. Ég var skapaður í mynd Guðs. Þú hefur ekki ljós og dýrð hans. Því ætti ég þá að tilbiðja þig eða láta blekkjast af þér?“

Gætið nú að því hvernig Móse bregst frekar við. Hann sagði: „Vík burt héðan Satan, ekki skalt þú blekkja mig.7

Við getum lært ótal margt af máttugum viðbrögðum Móse við freistingum frá andstæðingnum. Ég hvet ykkur til að bregðast við á sama hátt þegar þið verðið fyrir áhrifum freistingar. Skipið óvini sálar ykkar með því að segja: „Vík burt! Þú hefur enga dýrð. Reyndu ekki að freista mín eða ljúga að mér! Því ég veit að ég er barn Guðs. Ég mun alltaf ákalla Guð minn eftir liðsinni hans.“

Andstæðingurinn lætur þó ekki auðveldlega af eyðileggjandi ásetningi sínum um að blekkja og vanvirða okkur. Það gerði hann vissulega ekki við Móse, þess í stað þráði hann að Móse myndi gleyma sínu eilífa auðkenni.

Líkt og hann væri í barnalegu bræðiskasti, „hrópaði Satan hárri röddu og æddi um jörðina og bauð og sagði: Ég er hinn eingetni, tigna þú mig.“8

Við skulum fara aftur yfir þetta. Heyrðuð þið hvað hann sagði nú? „Ég er hinn eingetni. Tigna þú mig!”

Hinn mikli afvegaleiðari sagði í raun: „Engar áhyggjur, ég mun ekki skaða þig – ég er ekki skúnkur; ég er bara harmlaus svört-hvít kisa.“

Ljósmynd
Móses vísar Satan burt

Móse ákallaði þessu næst Guð og meðtók guðlegan styrk hans. Móse gaf ekki eftir, þótt andstæðingurinn hafi nötrað og jörðin skolfið. Rödd hans var ákveðin og skýr. „Vík burt frá mér Satan,“ lýsti hann yfir, „því að aðeins þann eina Guð vil ég tigna, sem er Guð dýrðarinnar.“9

„Hann … fór [loks] burtu … úr návist Móse.“10

Eftir að Drottinn birtist og blessaði Móse fyrir hlýðni hans, sagði Drottinn:

„Blessaður ert þú Móse, … því styrkur þinn skal verða meiri en margra vatna. …

„Og tak eftir, ég er með þér, já, allt til hinsta dags þíns.“11

Viðnám Móse gegn andstæðingnum er lifandi og upplýsandi dæmi fyrir okkur öll, sama hvar við erum stödd í lífinu. Það er máttugur boðskapur fyrir ykkur persónulega – að vita hvað ber að gera þegar andstæðingurinn reynir að blekkja ykkur. Því þið, líkt og Móse, hafið verið blessuð með gjöf himneskrar hjálpar.

Boðorð og blessanir

Hvernig gætuð þið hlotið slíka himneska hjálp, á sama hátt og Móse, og ekki látið blekkjast eða fallið í freistni? Örugg rás guðlegrar hjálpar var endurstaðfest af Drottni sjálfum á þessari ráðstöfun, er hann sagði: „Þess vegna kallaði ég, Drottinn, sem þekki þær hörmungar er koma munu yfir íbúa jarðar, þjón minn Joseph Smith yngri og talaði til hans frá himni og gaf honum fyrirmæli.“12 Með einfaldara orðalagi mætti segja að Drottinn, sem þekkir „endalokin frá upphafinu,“13 sé kunnugur erfiðleikum okkar tíma. Þess vegna hefur hann fyrirbúið okkur leið til að standast áskoranir og freistingar, sem margar eru bein afleiðing villandi áhrifa og árása andstæðingsins.

Leiðin er einföld. Guð talar til okkar, barna sinna, fyrir munn þjóna sinna og gefur okkur boðorð. Við gætum umorðað þessi vers sem ég vitnaði í hér áður og sagt: „Ég, Drottinn … [hef kallað] þjón minn [Russell M. Nelson forseta og talað] til hans frá himni og [gefið] honum fyrirmæli.“ Er það ekki dýrðlegur sannleikur?

Ég ber hátíðlegt vitni um að Drottinn talaði í raun við Joseph Smith frá himni, sem hófst með hinni undursamlegu Fyrstu sýn. Hann talar einnig við Nelson forseta á okkar tíma. Ég ber vitni um að Guð átti í samskiptum við spámenn fyrr á öldum og gaf þeim boðorð í þeim tilgangi að leiða börn sín til hamingju í þessu lífi og dýrðar í því næsta.

Guð heldur áfram í dag að gefa lifandi spámanni okkar boð. Um það eru ótal dæmi – heimilismiðuð kirkjustyrkt trúarfræðsla; hirðisþjónusta í stað heimilis- og heimsóknarkennslu; breytingar á framvindu helgiathafna musterisins; og hin nýja námáætlun barna og unglinga sem hefst 2020. Ég furða mig á gæsku og hluttekningu kærleiksríks himnesks föður og sonar hans, Jesú Krists, sem enn á ný hafa endurreist kirkju frelsarans á jörðu og kallað spámann á okkar tíma. Endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists bætir upp örðugar tíðir með fyllingu tímanna.

Aldrei hefur hamingjan falist í ranglæti

Hlýðni við boðorð sem gefin eru spámanni okkar, er lykilatriði, ekki einungis hvað varðar að forðast áhrif óvinarins, heldur líka til að upplifa varanlega gleði og hamingju. Hin guðlega forskrift er fremur einföld: Réttlæti eða hlýðni við boðorðin veitir blessanir og blessanir vekja hamingju eða gleði í lífi okkar.

Á sama hátt og andstæðingurinn reyndi að blekkja Móse, sækist hann eftir að blekkja ykkur líka. Hann hefur alltaf látist vera eitthvað annað en hann er. Hann reynir alltaf að fela sitt raunverulega auðkenni. Hann fullyrðir að hlýðni muni gera ykkur vansæl og ræna ykkur hamingjunni.

Getið þið hugsað um einhverja blekkingarleiki hans? Hann dulbýr t.d. skaðlegar afleiðingar eiturlyfja og drykkju og gefur í skyn að þetta veki ánægju. Hann heldur okkur föstum við ýmislegt neikvætt sem gæti verið að finna á samfélagsmiðlum, svo sem lamandi samanburð og sýndarveruleika. Að auki dulbýr hann annað skaðlegt efni á netinu sem er ætlað að valda okkur skaða eða sársauka, svo sem klám, vægðarlausar árásir á aðra í gegnum neteinelti og framsetningu villandi upplýsinga til að sá efa og ótta í hjarta okkar og huga. Hann hvíslar lævíslega: „Fylgdu mér bara og þú munt vissulega njóta hamingju.“

Orðin sem rituð voru fyrir svo mörgum öldum af spámanni Mormónsbókar, eiga einkum við um okkar tíma: „Aldrei hefur hamingjan falist í ranglæti.“14 Megum við þekkja blekkingar Satans af raun. Megum við standast og sjá í gegnum lygar og áhrif þess sem reynir að tortíma sálum okkar og ræna okkur núverandi gleði okkar og komandi dýrð.

Kæru bræður og systur, við verðum stöðugt að sýna trúfesti og árvekni, því það er eina leiðin til að þekkja sannleika og heyra rödd Drottins fyrir munn þjóna hans. „Því að andinn segir sannleikann, en lýgur ekki. … Þess vegna eru oss sýndir þessir hlutir greinilega, að það verði sálum vorum til hjálpræðis. … Því að Guð talaði einnig um það við hina fornu spámenn.“15 Við erum hin heilögu almáttugs Guðs, vonin Ísraels! Munum við bregðast? „Ættum vér að hopa þá? Nei! … Við boð Guðs blíð trú alla tíð, trúföst í hjarta ár og síð.“16

Ég ber mitt vitni um hinn heilaga Ísraels – já, nafn Jesú Krist. Ég ber vitni um varanlega elsku hans, sannleika og gleði, sem hin óendanlega og eilífa fórn gera möguleg. Þegar við höldum boðorðin, munum við ætíð leidd á réttan stað og ekki láta blekkjast. Í hinu helga nafni frelsara okkar, Jesú Krists, amen.