2010–2019
Og skjól mér veitir, Herra, dvel hjá mér!
Aðalráðstefna október 2019


Og skjól mér veitir, Herra, dvel hjá mér!

Ég ber vitni um að Drottin muni dvelja með okkur „og skjól [okkur veita]“ og að hann „gegnum skin og skúr [okkur] leiðir hér.“

Í einum af ástfólgnu sálmunum okkar er þessi beiðni lögð fram: „Og skjól mér veitir, Herra, dvel hjá mér!“1 Ég var eitt sinn í flugvél sem nálgaðist mikinn storm. Er ég horfði út um gluggann gat ég séð þéttriðið skýjateppi fyrir neðan okkur. Sólsetursgeislarnir endurspegluðust af skýjunum og ollu því að þau voru uppljómuð. Fljótlega lækkaði flugvélin flugið og flaug inn í þéttan skýjabakkann og skyndilega vorum við umvafin þykku myrkri sem blindaði okkur algerlega, svo við sáum ekki þessa miklu birtu sem við höfðum séð rétt áður.2

Ljósmynd
Sólsetursgeislar
Ljósmynd
Myrk ský

Svört ský geta einnig myndast í lífi okkar og blindað okkur fyrir ljósi Guðs og jafnvel valdið því að við efumst um að ljósið sé til staðar fyrir okkur lengur. Sum þessara skýja eru ský þunglyndis, kvíða og annars konar tilfinninga- og geðraskana. Þau geta afbakað sjálfsmynd okkar, sýn okkar á aðra og jafnvel Guð. Þau hafa áhrif á konur og karla á öllum aldri, um allan heim.

Að sama skapi geta deyfandi ský vantrúar haft áhrif á aðra sem hafa ekki upplifað þessar áskoranir. Eins og allir aðrir hlutar líkamans, er heilinn viðkvæmur fyrir veikindum, áföllum og efnafræðilegu ójafnvægi. Þegar hugur okkar þjáist, þá er viðeigandi að leita aðstoðar frá Guði, frá þeim sem í kringum okkur eru og frá fagfólki á geðheilsu- og heilbrigðissviði.

„Allar mannlegar verur ‒ karlar og konur ‒ eru skapaðar í mynd Guðs. Hver þeirra er ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra, og … sérhvert þeirra [á] sér guðlegt eðli og örlög.3 Eins og himneskir foreldrar okkar og frelsarinn, þá höfum við efnislíkama4 og upplifum tilfinningar.5

Kæru systur, það er eðlilegt að upplifa depurð og áhyggjur öðru hverju. Dapurleiki og kvíði eru eðlilegar, mannlegar tilfinningar.6 Ef við erum hins vegar alltaf döpur og ef sársauki okkar hindrar getu okkar til að skynja elsku himnesks föður og sonar hans og áhrif heilags anda, þá getur verið að við þjáumst af þunglyndi, kvíða eða öðru tilfinningalegu ástandi.

Dóttir mín skrifað eitt sinn: „Það var tímabil … [þegar] ég var alltaf mjög döpur. Mér fannst alltaf að dapurleiki væri eitthvað til að fyrirverða sig fyrir, að hún væri veikleikamerki. Því hélt ég dapurleikanum út af fyrir mig. … Mér fannst ég einskis virði.“7

Vinkona mín lýsti því þannig: „Frá því að ég var barn hef ég tekist á við stöðugar vonleysistilfinningar, myrkur, einmannaleika og ótta og fundist ég vera brotin og afbrigðileg. Ég gerði allt til að fela sársauka minn og passaði að fólk sæi aldrei annað en að ég væri sterk og stöndug.8

Kæru vinir, þetta getur hent okkur öll – sérstaklega þegar við, sem trúum á hamingjuáætlunina, leggjum óþarfa byrðar á okkur sjálf með því að hugsa að við þurfum að vera fullkomin núna. Slíkar hugsanir geta verið yfirþyrmandi. Að ná fullkomnun, er ferli sem á sér stað allt jarðneskt lif okkar og lengur – og næst einungis með náð Jesú Krists.9

Aftur á móti gefum við öðrum kost á að miðla eigin baráttu þegar við opnum okkur og tjáum þeim tilfinningalegar áskoranir okkar og viðurkennum að við séum ekki fullkomin. Saman gerum við okkur grein fyrir því að til er von og að við þurfum ekki að þjást ein.10

Ljósmynd
Von á Síðari komuna

Sem lærisveinar Jesú Krists, höfum við gert sáttmála við Guð um að vera „fús að bera hvers annars byrðar“ og „syrgja með syrgjendum.“11 Þetta kann að fela í sér að verða upplýst um geðsjúkdóma, finna úrræði sem geta hjálpað við að takast á við þessi vandamál og loks leiða okkur sjálf og aðra til Krists, sem er hinn mikli læknir.12 Jafnvel þótt við fáum ekki skilið það sem aðrir takast á við, þá getur það verið mikilvægt fyrsta skref til skilnings og lækningar að viðurkenna að sársauki þeirra sé raunverulegur.13

Í sumum tilfellum er hægt að bera kennsl á ástæðu þunglyndis eða kvíða, í öðrum tilfellum er erfiðara að greina það.14 Heili okkar gæti þjáðst vegna álags15 eða óheyrilegrar þreytu,16 sem er stundum hægt að bæta úr með því að breyta mataræði, svefnvenjum og auka hreyfingu. Á öðrum stundum getur verið þörf fyrir viðtals- eða lyfjameðferð undir eftirliti fagmanns.

Ómeðhöndlaðir geðsjúkdómar eða tilfinningaleg veikindi geta leitt til aukinnar einangrunar, misskilnings, sambandsslita, sjálfsskaða og jafnvel sjálfsvígs. Ég þekki það af eigin raun, þar sem faðir minn lést af sjálfsvígi fyrir mörgum árum. Dauði hans var áfall og mikill harmur fyrir mig og fjölskyldu mína. Það hefur tekið mig mörg ár að vinna í gegnum sorg mína og það var bara nýlega að ég lærði að það að tala um sjálfsvíg á viðeigandi hátt hjálpar meira við að forða því en að það hvetji til þess.17 Ég hef nú rætt opinskátt við börn mín um dauða föður míns og borið vitni um þá lækningu sem frelsarinn getur veitt, beggja vegna hulunnar.18

Sorglegt er að margir þeir sem þjást af alvarlegu þunglyndi forðast trúsystkini sín, því þeim finnst þeir ekki passa í eitthvað ímyndað mót. Við getum hjálpað þeim að þekkja og skynja að þau eigi sannarlega heima á meðal okkar. Það er mikilvægt að viðurkenna að þunglyndi er ekki afleiðing veikleika og sjaldnast afleiðing syndar.19 Það „þrífst í felum en rýrnar í samúð.“20 Saman getum við brotist í gegnum ský einangrunar og smánar svo að blygðunarbyrðinni sé lyft og kraftaverk lækningar geti átt sér stað.

Á meðan á jarðneskri þjónustu Jesú Krists stóð, læknaði hann hina sjúku og særðu, en hver og einn varð að sýna trú í verki til að hljóta lækningu hans. Sumir gengu langar leiðir, aðrir réttu fram hönd til að snerta klæði hans og enn aðra varð að bera til hans svo að þeir mættu fá lækningu.21 Þegar það kemur að lækningu, þörfnumst við hans ekki öll ákaflega? „Erum vér ekki öll beiningamenn?“22

Fylgjum vegi frelsarans og aukum umhyggju okkar, drögum úr tilhneigingu okkar til að dæma og hættum að vera eftirlitsmenn andlegrar heilsu annarra. Að hlusta af kærleika, er ein stærsta gjöfin sem við getum gefið og kannski getum við hjálpað við að halda uppi eða lyfta þungum skýjum sem kæfa ástvini okkar og vini23, svo að þeir geti aftur, í gegnum elsku okkar, skynjað heilagan anda og séð ljósið sem lýsir frá Jesú Kristi.

Ef þið eruð stanslaust umkringd „niðdimmri þoku,“24 leitið þá til himnesks föður. Ekkert sem þið hafið upplifað getur breytt hinum eilífa sannleik að þið eruð börn hans og að hann elskar ykkur.25 Minnist þess að Kristur er frelsari ykkar og lausnari og Guð er faðir ykkar. Þeir skilja. Sjáið þá fyrir ykkur standa nærri, hlusta og veita ykkur stuðning.26 „[Þeir munu] ljá yður huggun í þrengingum yðar.“27 Gerið allt sem þið getið og treystið á friðþægjandi náð Drottins.

Erfiðleikar ykkar skilgreina ykkur ekki, en þeir geta fágað ykkur.28 Vegna „[fleins í holdinu],“29 kunnið þið að geta fundið meiri samúð gagnvart öðrum Miðlið sögu ykkar eins og heilagur andi hvetur ykkur til, svo að þið getið „[stutt] þá óstyrku, lyft máttvana örmum og [styrkt] veikbyggð kné.“30

Þau okkar sem eru enn í baráttunni eða styðja einhvern sem á í erfiðleikum, verum fús að fylgja boðorðum Guðs svo að við megum ávallt hafa anda hans með okkur.31 Gerum „hið smá og einfalda“32 sem veitir okkur andlegan styrk. Eins og Russel M. Nelson forseti sagði: „Ekkert er áhrifaríkara við að ljúka upp gáttum himins eins og samspilandi þættir aukins hreinleika, algjörrar hlýðni, einlægrar leitar, daglegrar endurnæringar á orðum Krists í Mormónsbók og reglubundins tíma sem helgaður er musterisverki og ættarsögu.“33

Ljósmynd
Frelsarinn læknar

Minnumst þess að frelsari okkar, Jesú Kristur, „mun kynnast vanmætti [okkar], svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita … hvernig [okkur] verður best liðsinnt í vanmætti [okkar].“34 Hann kom til að „græða þá sem hafa sundurmarin hjörtu; … hugga þá sem hryggir eru … og setja höfuðdjásn í stað ösku á syrgjendur … fagnaðarolíu í stað sorgarklæða, skartklæði í stað hugleysis.“35

Ljósmynd
Síðari koman

Ég ber ykkur vitni um að „skjól [hann veitir]“ og að herrann mun vera með okkur svo að „allar þrengingar [fái horfið] í fögnuði Krists“36 og að „vér frelsumst fyrir náð, að afloknu öllu, sem vér getum gjört.“37 Ég ber vitni um að Jesús Kristur mun snúa aftur til jarðar með „lækningarmátt undir vængjum sínum.“38 Að lokum mun hann „þerra hvert tár af augum [okkar]; og … [harmur] mun ekki framar til vera.“39 Fyrir alla sem munu „[koma] til Krists, og [fullkomnast] í honum,“40 mun „[sólin] … aldrei til viðar [ganga], … því að Drottinn verður [okkur] eilíft ljós og sorgardagar [okkar eru] á enda.“41 Í nafni Jesú Krists, amen.