2010–2019
Heilagleiki og sæluáætlunin
Aðalráðstefna október 2019


Heilagleiki og sæluáætlunin

Meiri hamingja fæst með auknum heilagleika.

Kæru bræður og systur, ég hef beðið þess að geta hjálpað ykkur í persónulegri leit ykkar að hamingju. Sumir gætu talið sig þegar vera nægilega hamingjusama, þótt enginn slái hendi á móti meiri hamingju. Allir myndu óðfúslega taka á móti boði um örugga og varanlega hamingju.

Það er boð himnesks föður, hans ástkæra sonar, Jesú Krists og heilags anda til allra andabarna himnesks föður, sem nú lifa eða hafa lifað í þessum heimi. Það boð er stundum kallað sæluáætlunin. Svo var það kallað af spámanninum Alma, er hann kenndi syni sínum, sem var saurgaður af vansæld syndar. Alma var ljóst að hamingjan gæti aldrei falist í ranglæti hvað son hans varðaði – eða fyrir nokkurt barn himnesks föður.1

Hann kenndi syni sínum að aukinn heilagleiki væri eina leiðin til hamingju. Hann gerði ljóst að aukinn heilagleiki væri gerður mögulegur með hreinsun og fullkomnun friðþægingar Jesú Krists.2 Einungis með því að trúa á Jesú Krist, iðrast stöðugt og halda sáttmála, getum við gert kröfu um þá varanlegu hamingju sem við þráum svo innilega að hljóta og upplifa.

Bæn mín í dag er sú að ég megi hjálpa ykkur að skilja að aukinn hamingja eigi rætur í auknum persónulegum heilagleika, svo þið bregðist við því í trú. Ég mun síðan miðla því sem ég sjálfur veit um það sem við getum gert til að verða hæf fyrir þá gjöf að verða stöðugt heilagri.

Ritningarnar kenna okkur að við getum meðal annars helgast eða orðið heilagri með því að iðka trú á Krist,3 verða hlýðin,4 iðrast,5 fórna fyrir hann,6 taka á móti helgiathöfnum og halda sáttmála okkar við hann.7 Að verða hæf fyrir gjöf heilagleika, krefst auðmýktar,8 lítillætis9 og þolinmæði.10

Eina upplifun af því að þrá aukinn heilagleika, hlaut ég í Salt Lake musterinu. Ég fór í musterið í fyrsta sinn og hafði verið sagt heldur lítið um hvers vænta mætti. Ég hafði séð letrað á bygginguna: „Heilagleiki til Drottins“ og „Hús Drottins.“ Ég hlakkaði mikið til. Ég velti þó fyrir mér hvort ég væri undirbúinn fyrir inngöngu.

Móðir mín og faðir gengu á undan mér inn í musterið. Við vorum beðin að sýna musterismeðmæli okkar, sem vottuðu verðugleika okkar.

Foreldrar mínir þekktu manninn við meðmælaborðið. Þau stöldruðu því andartak við til að ræða við hann. Ég fór einsamall inn í stærra rými, þar sem allt var ljómandi hvítt. Ég leit upp í loftið, sem var svo hátt að mér fannst það himininn sjálfur. Á því andartaki fékk ég sterka tilfinningu um að ég hefði verið þarna áður.

Síðan heyrði ég afar ljúfa rödd – ekki mína eigin. Hin ljúfmæltu orð voru þessi: „Þú hefur aldrei verið hér áður. Þú minnist stundar fyrir fæðingu þína. Þú varst á álíka helgum stað. Þú skynjaðir að frelsarinn var í þann mund að koma á þann stað sem þú varst á. Þú fylltist gleði, því þú vildir óðfús sjá hann.“

Upplifunin í Salt Lake musterinu varði aðeins stutta stund. Minningin um hann vekur þó enn frið, gleði og hljóða hamingju.

Ég lærði margar lexíur þennan dag. Ein var sú að heilagur andi talar með lágri, hljóðlátri rödd. Ég get heyrt í honum þegar andlegur friður er í hjarta mínu. Hann vekur tilfinningu hamingju og fullvissu um að ég er að verða heilagri. Það vekur svo alltaf hamingjuna sem ég fann á þessum fyrstu andartökum í musteri Guðs.

Þið hafið séð, í eigin lífi og annarra, kraftaverk hamingju sem á rætur í auknum heilagleika, að verða líkari frelsaranum. Á liðnum vikum hef ég verið við rúmstæði fólks sem tókst á við dauðann með sterkri trú á frelsarann og gleðilegri ásýnd.

Einn slíkur var maður með fjölskyldu sína umhverfis. Hann og eiginkona hans töluðu hljóðlega saman er ég og sonur minn komu inn fyrir. Ég hafði þekkt þau í mörg ár. Ég hafði séð friðþægingu Jesú Krists hafa áhrif á líf þeirra og fjölskyldumeðlimi þeirra.

Saman höfðu þau ákveðið að hætta lyfjagjöf sem átti að lengja líf hans. Rósemd var ríkjandi þegar hann talaði við okkur. Hann brosti er hann færði þakkir fyrir fagnaðarerindið og hreinsandi áhrif þess á hann og ástvini sína. Hann ræddi um gleðileg ár þjónustu sinnar í musterinu. Að beiðni mannsins, smurði sonur minn höfuð hans með helgaðri olíu. Ég innsiglaði smurninguna. Þegar ég gerði það, hlaut ég skýran innblástur um að hann myndi brátt sjá frelsara sinn, augliti til auglitis.

Ég lofaði honum að hann myndi finna hamingju, elsku og velþóknun frelsarans. Hann brosti hlýtt þegar við fórum. Síðustu orð hans til mín voru: „Segðu Kathy að ég elski hana.“ Eiginkona mín, Kathleen, hafði í mörg ár hvatt unga sem aldna í fjölskyldu hans til að taka á móti boði frelsarans um að koma til hans, gera og halda sáttmála og vera þannig hæf fyrir hamingjuna sem af því hlýst.

Hann andaðist klukkustundum síðar. Nokkrum vikum eftir dauða hans, kom ekkjan hans með gjöf til mín og eiginkonu minnar. Hún brosti meðan hún talaði. Hún sagði ánægjulega: „Ég hélt að ég yrði sorgmædd og einmana. Ég er svo hamingjusöm. Er það allt í lagi?“

Ég vissi hve heitt hún elskaði eiginmann sinn og hvernig bæði höfðu þekkt, elskað og þjónað Drottni og sagði henni því að hamingja hennar væri gjöf fyrirheits, þar sem hún hafði verið gjörð heilagri fyrir trúfasta þjónustu sína. Heilagleiki hennar hafði gert hana hæfa fyrir þessa hamingju.

Sumir sem á hlýða í dag, gætu hugsað: „Afhverju finn ég ekki friðinn og hamingjuna sem þeim er lofað sem hafa verið trúfastir? Ég hef sýnt trúfesti í hræðilegu andstreymi, en finn ekki hamingju.“

Jafnvel spámaðurinn Joseph Smith stóð frammi fyrir slíkri prófraun: Hann bað um líkn þegar hann var lokaður í fangelsi í Liberty, Missouri. Hann hafði verið trúfastur Drottni. Hann hafði vaxið að heilagleika. Samt fannst honum sér neitað um hamingju.

Drottinn kenndi honum lexíu um þolinmæði, sem við öll þörfnumst fyrr eða síðar, og kannski um langa hríð, í jarðneskri prófraun okkar. Hér eru orð Drottins til síns trúfasta og þjáða spámanns:

„Og verði þér varpað í gryfju eða í hendur morðingja og dauðadómur felldur yfir þér, verði þér kastað í djúpið, gjöri beljandi öldurnar samsæri gegn þér, verði ólmandi stormar óvinir þínir, myrkvist himnarnir og sameinist allar höfuðskepnurnar um að loka leiðinni, og umfram allt, opni skoltar heljar gin sitt upp á gátt fyrir þér, vita skaltu þá, sonur minn, að allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs.

Mannssonurinn hefur beygt sig undir allt þetta. Ert þú meiri en hann?

Hald þess vegna stefnu þinni, og prestdæmið mun vera með þér, því að takmörk þeirra eru sett, þeir komast ei lengra. Dagar þínir eru ákveðnir og ár þín skulu ekki verða færri. Óttast þess vegna ekki hvað maðurinn kann að gjöra, því að Guð verður með þér alltaf og að eilífu.“11

Þetta var sama fræðandi lexían og Drottinn veitti Job, sem galt mikið gjald til þess að friðþægingin gæti gert hann heilagri. Við vitum að Job var heilagur af frásögninni um hann í upphafi: „Einu sinni var maður í Ús-landi. Hann hét Job. Hann var maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.“12

Job missti síðan auð sinn, fjölskyldu og jafnvel heilsuna. Þið gætuð minnst þess að Job efaðist um að aukinn heilagleiki hans, sem hlaust af auknu andstreymi, hefði gert hann hæfan til að njóta meiri hamingju. Job virtist vansæld fylgja heilagleika.

Drottinn veitti þó Job sömu leiðréttandi lexíuna og hann veitti Joseph Smith. Hann lét Job sjá hörmulegar aðstæður sínar með hinu andlega auga. Hann sagði:

„Gyrð lendar þínar eins og maður, þá mun ég spyrja þig, og þú skalt fræða mig.

Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? Seg fram, ef þú hefir þekkingu til.

Hver ákvað mál hennar þú veist það! eða hver þandi mælivaðinn yfir hana?

Á hvað var stólpum hennar hleypt niður, eða hver lagði hornstein hennar,

þá er morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu?“13

Eftir að Job hafði svo iðrast af því að segja Guð ósanngjarnan, var honum leyft að sjá raunir sínar á æðri og helgari hátt. Hann hafði iðrast.

„Þá svaraði Job Drottni og sagði:

Ég veit, að þú megnar allt, og engu ráði þínu verður varnað fram að ganga.

Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs í hyggjuleysi? Fyrir því hefi ég talað án þess að skilja, um hluti, sem mér voru of undursamlegir og ég þekkti eigi.

Hlusta þú, ég ætla að tala. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig.

Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!

Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.“14

Eftir að Job hafði iðrast og þannig orðið heilagri, blessaði Drottinn hann meira en sem nam öllu sem hann hafði misst. Hugsanlega var þó mesta blessun Jobs sú að hafa hlotið aukinn heilagleika fyrir andstreymi og iðrun. Hann varð hæfur til að njóta meiri hamingju á þeim tíma sem hann átti eftir af lífi sínu.

Aukinn heilagleiki hlýst ekki einfaldlega með því að biðja um hann. Hann hlýst af því að gera það sem nauðsynlegt er til að Guð fái breytt okkur.

Russell M. Nelson forseti hefur líklega veitt bestu leiðsögnina um hvernig sækja á fram á sáttmálsveginum að auknum heilagleika. Hann sýndi leiðina er hann brýndi fyrir okkur:

„Upplifið styrkjandi mátt daglegrar iðrunar – með því að gera örlítið betur og verða örlítið betri dag hvern.

Þegar við veljum að iðrast, veljum við að breytast! Við leyfum frelsaranum að breyta okkur í bestu útgáfu okkar sjálfra. Við veljum að vaxa andlega og meðtaka gleði – gleði endurlausnar í honum. Þegar við veljum að iðrast, veljum við að líkjast Jesú Kristi meira!“

Nelson forseti hélt áfram að hvetja okkur í þeirri viðleitni að verða heilagri: „Drottinn væntir ekki fullkomnunar af okkur að þessu stigi. … Hann væntir þess þó að við verðum stöðugt hreinni. Dagleg iðrun er vegur hreinleikans.“15

Ræða Dallins H. Oaks forseta á fyrri ráðstefnu hjálpaði mér líka að skilja betur hvernig við vöxum að heilagleika og hvernig við fáum vitað að við séum að tileinka okkur hann. Hann sagði: „Hvernig verðum við andlegri? Hvernig öðlumst við þann heilagleika að við getum stöðugt notið samfélags heilags anda? Hvernig sjáum við og metum það sem þessa heims er út frá yfirsýn eilífðar?“16

Oaks forseti bendir fyrst á sterkari trú á Jesú Krist sem kærleiksríks frelsara okkar. Það fær okkur til að leita fyrirgefningar dag hvern og hafa hann í huga dag hvern með því að halda boðorð hans. Sú aukna trú á Jesú Krist hlýst með því að endurnærast daglega á orði hans.

Sálmurinn „Auk heilaga helgun,“ sýnir hvernig við getum beðist fyrir um hjálp til að verða heilagri. Höfundur lætur réttilega í veðri vaka að sá heilagleiki sem við sækjumst eftir sé gjöf frá kærleiksríkum Guði, sem veitist smám saman, að afloknu öllu sem við getum gert. Þið munið eftir þessu versi:

Auk hreinleika andans,

auk sigrandi mátt,

auk frelsi frá saurgun,

auk heimlöngun þrátt,

auk himneska hæfni,

auk afköst um mig,

auk heilaga helgun,

auk eining við þig.17

Megi bænum okkar um aukinn heilagleika verða svarað, hverjar sem persónulegar aðstæður okkar eru, hvar sem við kunnum að vera á sáttmálsveginum á heimleið. Ég veit að hamingja okkar verður meiri, er við verðum þannig bænheyrð. Hún kann að hljótast smám saman, en það mun gerast. Þá fullvissu hef ég frá kærleiksríkum himneskum föður og ástkærum syni hans Jesú Kristi.

Ég ber vitni um að Joseph Smith var spámaður Guðs og að Russell M. Nelson forseti er lifandi spámaður okkar tíma. Guð faðirinn lifir og elskar okkur. Hann vill að við komum heim til hans. Okkar gæskuríki frelsari býður okkur að fylgja sér í ferð okkar hér. Þeir hafa fyrirbúið leiðina. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.