Ritningar
Mósía 16


16. Kapítuli

Guð endurleysir menn frá glötuðu og föllnu ástandi þeirra — Þeir sem eru holdlegir verða áfram líkt og engin endurlausn hafi átt sér stað — Kristur gjörir að veruleika upprisu til óendanlegs lífs eða óendanlegrar fordæmingar. Um 148 f.Kr.

1 Og nú bar svo við, að þegar Abinadí hafði mælt þessi orð, rétti hann fram hönd sína og sagði: Sá tími kemur, að allir munu sjá hjálpræði Drottins; að sérhver þjóð, kynkvísl, tunga og lýður munu sjá með eigin augum og viðurkenna fyrir Guði, að dómar hans eru réttvísir.

2 Þá mun hinum ranglátu vísað burtu og þeim gefast tilefni til að kvarta, gráta, kveina og gnísta tönnum. Og það er vegna þess, að þeir vildu ekki hlýða rödd Drottins, þess vegna endurleysir Drottinn þá ekki.

3 Því að þeir eru holdlegir og djöfullegir, og djöfullinn hefur vald yfir þeim. Já, hinn sami gamli höggormur, er tældi fyrstu foreldra okkar og olli þannig falli þeirra. Og af því leiddi, að allt mannkyn varð holdlegt, munúðarfullt og djöfullegt, lærði að þekkja gott frá illu og gaf sig djöflinum á vald.

4 Þannig var allt mannkyn glatað. Og sjá, það hefði verið ævinlega glatað, hefði Guð ekki endurleyst lýð sinn frá hinu glataða og fallna ástandi.

5 En munið, að sá, sem heldur fast í holdlegt eðli sitt, og gengur áfram veg syndar og uppreisnar gegn Guði, helst í sínu fallna ástandi, og djöfullinn hefur yfir honum allt vald. Þess vegna er hann líkt staddur og engin endurlausn væri til, þar sem hann er óvinur Guðs, og djöfullinn er einnig óvinur Guðs.

6 Og hefði Kristur ekki komið í heiminn, og hér tala ég um það, sem í vændum er, eins og það hefði þegar átt sér stað, væri engin endurlausn til.

7 Og hefði Kristur hvorki risið upp frá dauðum né rofið helsi dauðans, svo að gröfin hrósaði engum sigri og dauðinn hefði engan brodd, gæti engin upprisa hafa átt sér stað.

8 En upprisan er til, þess vegna hrósar gröfin engum sigri, og Kristur hefur innbyrt brodd dauðans.

9 Hann er ljós og líf heimsins, já, óendanlegt ljós, sem aldrei getur myrkvast, já, og einnig óendanlegt líf, svo að dauðinn verður aldrei framar til.

10 Jafnvel hið dauðlega mun íklæðast ódauðleika og það forgengilega íklæðast óforgengileika og skal leitt fram fyrir dómgrindur Guðs, og verða af honum dæmt eftir verkum sínum, hvort heldur þau eru góð eða þau eru ill —

11 Séu þau góð, til upprisu óendanlegs lífs og hamingju, en séu þau ill, til upprisu óendanlegrar fordæmingar, þeir verða framseldir djöflinum, sem hefur undirokað þá, en í því er fordæmingin fólgin —

12 Þar eð þeir hafa breytt eftir vilja og þrá síns eigin holds, en aldrei leitað til Drottins, meðan faðmur miskunnarinnar stóð þeim opinn, því að faðmur miskunnarinnar var þeim opinn, en þeir tóku ekki við honum, og þeir höfðu verið varaðir við misgjörðum sínum, en vildu samt ekki láta af þeim, og þeim var boðið að gjöra iðrun, en samt vildu þeir ekki iðrast.

13 Og ættuð þið þá ekki að skjálfa og iðrast synda ykkar og minnast þess, að einungis í Kristi og fyrir hann getið þið orðið hólpin?

14 Ef þið kennið lögmál Móse, skuluð þið þess vegna einnig kenna, að það er skuggi þess, sem koma skal —

15 Kennið þeim, að endurlausn verður fyrir Krist, Drottin vorn, sem er hinn eilífi faðir sjálfur. Amen.