Gamla testamentið 2022
4.–10. júlí. 2. Konungabók 2–7: „Til er spámaður í Ísrael“


„4.–10. júlí. 2. Konungabók 2–7: ‚Til er spámaður í Ísrael,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)

„4.–10. júlí. 2. Konungabók 2–7,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022

Ljósmynd
Elísa sýnir þjóni eldvagna

Myndskreyting af Elísa að sýna þjóni eldvagna, © Review & Herald Publishing/með leyfi goodsalt.com

4.–10. júlí

2. Konungabók 2–7

„Til er spámaður í Ísrael“

Við lesturinn gæti heilagur andi vakið athygli ykkar á ákveðnum orðtökum eða setningum. Íhugið að skrá hvers vegna þær setningar eru ykkur mikilvægar.

Skráið hughrif ykkar

Helsta verkefni spámanns er að kenna og vitna um frelsarann Jesú Krist. Í frásögninni um Elísa spámann er þó ekki mikið vitnað í kennslu hans eða vitnisburð. Í frásögninni segir frá kraftaverkunum sem Elísa gerði, þar á meðal að reisa barn upp frá dauðum (sjá 2. Konungabók 4:18–37), metta mannfjölda með litlu magni matar (sjá 2. Konungabók 4:42–44) og lækna holdsveikan mann (sjá 2. Konungabók 5:1–14). Þótt við höfum ekki orð Elísa berandi vitni um Krist, þá höfum við áhrifamiklar vitranir um lífgefandi, endurnærandi og græðandi mátt Drottins út alla þjónustutíð Elísa. Slíkar vitranir eru almennari í lífi okkar en við gerum okkur oft grein fyrir. Til að bera kennsl á þær, þá þurfum við að sækjast eftir því kraftaverki sem Elísa sóttist eftir þegar hann bað fyrir óttaslegnum ungum þjóni sínum: „Drottinn, opna augu hans svo að hann sjái“ (2. Konungabók 6:17).

Til frekari upplýsingar um 2. Konungabók, sjá þá „Konungabækurnar“ í Leiðarvísi að ritningunum.

Ljósmynd
táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

2. Konungabók 2–6

Guð getur gert kraftaverk í lífi mínu.

Kraftaverk hjálpa okkur oft að sigrast á erfiðleikum jarðlífsins – á tíma Elísa þurfti regn fyrir ófrjótt land og að endurheimta týndan uxa (sjá 2. Konungabók 2:19–22; 6:4–7). Kraftaverk snúa hjörtum okkar líka til Drottins og kenna okkur andlegar lexíur. Þegar þið lesið 2. Konungabók 2–6, íhugið þá að skrá kraftaverkin sem þið finnið og ígrunda þá andlegu lexíur sem þið lærið af hverju þeirra. Hvað kenna kraftaverkin ykkur um Drottin og hvað hann megnar að gera í lífi ykkar?

Sjá einnig 2. Nefí 26:12–13; 27:23; Mormón 9:7–21; Moróní 7:35–37; Donald L. Hallstrom, „Eru dagar kraftaverka liðnir?aðalráðstefna, október 2017.

2. Konungabók 4:8–17; 7:1–16

Orð Drottins með spámönnum hans munu uppfyllast.

Líkt og skráð er í 2. Konungabók 4:8–17; 7:1–16, þá innblés Drottinn Elísa til að spá um það sem verða átti – það sem öðrum fannst ósennilegt að myndi gerast. Þegar þið lesið þessi vers, íhugið þá hvernig þið bregðist við orðum Drottins með spámanni hans á okkar tíma. Hvaða kenningar, spádóma eða loforð hafið þið heyrt frá lifandi spámönnum? Hver er ykkar trúarlega breytni varðandi þessi loforð?

Sjá einnig 3. Nefí 29:6; Kenning og sáttmálar 1:37–38.

2. Konungabók 5

Ef ég sýni auðmýkt og hlýðni, þá getur Jesús Kristur læknað mig.

Stundum er auðveldara að finna persónulega merkingu í ritningunum þegar þið berið hið líkamlega í frásögn saman við hið andlega. Við lestur 2. Konungabókar 5, gætuð þið t.d. borið holdsveiki Naamans saman við andlega áskorun sem þið takist á við. Þið, líkt og Naaman, gætuð hafa vonað að Drottinn myndi gera eitthvað undravert (sjá vers 13) ykkur til hjálpar. Hvaða lærdóm dragið þið af reynslu Naamans? Hvað gæti verið samsvarandi því að „[lauga ykkur og verða hrein]“ í ykkar lífi?

Gætið að því hvernig reynsla Naamans hafði áhrif á trú hans á Guð Ísraels (sjá vers 15). Hvaða upplifanir hafa styrkt trú ykkar á Guð?

Sjá einnig Lúkas 4:27; 1. Pétursbréf 5:5–7; Alma 37:3–7; Eter 12:27; L. Whitney Clayton, „Gjörið það, sem hann kann að segja yður,“ aðalráðstefna, apríl 2017; „Naaman and Elisha [Naaman og Elísa]“ (myndband), ChurchofJesusChrist.org.

2. Konungabók 6:8–23

„Þeir sem eru með okkur eru fleiri en hinir.“

Hafið þið einhvern tíma upplifað að vera óttaslegin og ofurliði borin og velt fyrir ykkur, eins og hinn ungi þjónn Elísa gerði: „Hvað [á ég] nú að gera?“ (sjá 2. Konungabók 6:8–23). Hvað hrífur ykkur við svar Elísa? Hvernig breytir þessi frásögn því hvernig þið hugsið og upplifið prófraunir ykkar, ábyrgð eða viðleitni til að lifa eftir fagnaðarerindinu?

Þegar þið íhugið það, hugleiðið þá þessi orð Henrys B. Eyring forseta: „Líkt og með sveininn eru fleiri með ykkur en þeir sem þið sjáið gegn ykkur. Sumir sem eru með ykkur verða ósýnilegir ykkar jarðnesku augum. Drottinn mun styðja ykkur og stundum kalla aðra til að styðja ykkur“ („Ó þér sem gangið í þjónustu,“ aðalráðstefna, október 2008).

Sjá einnig Sálmarnir 121; Kenning og sáttmálar 84:88.

Ljósmynd
táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

2. Konungabók 2:1–14.Hugsið um fólkið sem sá að Elísa „tók … upp skikkju“ Elía (eða möttul – tákn um spámannlega köllun hans). Hvernig gæti þetta haft áhrif á það hvernig það brást við þjónustu Elísa? (Sjá einnig 1. Konungabók 19:19.) Ef til vill gætu fjölskyldumeðlimir skipst á um að vera í „skikkju“ og borið vitni um hvernig þeir hafa séð Drottin styðja og styrkja þá sem hafa verið kallaðir til að þjóna í kirkju hans.

2. Konungabók 4.Þið gætuð beðið fjölskyldu ykkar að lesa um eitt kraftaverkanna í 2. Konungabók 4 (sjá vers 1–7, 14–17, 32–35, 38–41, 42–44) og skrifa vísbendingu til að hjálpa hinum í fjölskyldunni að geta sér til um hvaða kraftaverk hann eða hún er að lýsa. Hvað lærum við um Drottin og kraftaverk hans í þessum kapítula? Hvaða kraftaverk – stór sem smá – höfum við séð í lífi okkar?

2. Konungabók 5:1–15.Þegar þið lesið þessi vers og íhugið hið einfalda sem Naaman var boðið að gera, hugleiðið þá hið einfalda sem spámaður okkar hefur boðið okkur að gera. Hvernig getur fjölskylda ykkar fylgt þeirri leiðsögn af meiri kostgæfni?

Fjölskylda ykkar gæti líka horft á myndbandið „Naaman and Elisha [Naaman og Elísa]“ (ChurchofJesusChrist.org) eða lesið „Spámaðurinn Elísa“ (í Sögur úr Gamla testamentinu).

2. Konungabók 5:20–27.Hvaða gagn gæti Gehasí hafa haft af því að lesa „Heiðarleiki“ í Til styrktar æskunni? (bls. 31). Hvernig skaðar óheiðarleiki okkur? Hvernig erum við blessuð ef við erum heiðarleg?

2. Konungabók 6:13–17.Fjölskyldumeðlimir gætu notið þess að teikna myndir af reynslu Elísa og þjóni hans, sem lýst er í þessum versum. Hvernig geta þessi vers hjálpað okkur þegar okkur finnst við vera ein eða ofhlaðin?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Börnin góðu, Guð er nærri,“ nótnasett á lausum blöðum.

Bæta kennslu okkar

Hvetjið til spurninga. Spurningar barna eru vísbending um að þau séu fús til að læra. Ef þið vitið ekki svörin við spurningum þeirra, leitið þá með þeim að svörum. (Sjá Teaching in the Savior’s Way [Kenna að hætti frelsarans], 25–26.)

Ljósmynd
Naaman laugar sig í ánni

Myndskreyting af Naaman læknast af holdsveiki, eftir Paul Mann