Nýja testamentið 2023
6.–12. mars. Matteus 9–10; Markús 5; Lúkas 9: „Þessa tólf sendi Jesús út“


„6.–12. mars. Matteus 9–10; Markús 5; Lúkas 9: ‚Þessa tólf sendi Jesús út,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023 (2022)

„6.–12. mars. Matteus 9–10; Markús 5; Lúkas 9,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023

Ljósmynd
Jesús vígir Pétur

6.–12. mars

Mattheus 9–10; Markús 5; Lúkas 9

„Þessa tólf sendi Jesús út“

Námshugmyndunum í þessum lexíudrögum er ætlað að hjálpa ykkur að finna persónulegar merkingar í ritningunum. Þær ættu þó ekki að koma í stað persónulegrar opinberunar sem þið gætuð hlotið um hvaða ritningarvers skuli læra eða hvernig skuli læra þau.

Skráið hughrif ykkar

Orð barst skjótt um læknandi kraftaverk Jesú. Mannfjöldinn fylgdi honum í þeirri von að læknast af sjúkdómum sínum. Þegar frelsarinn leit yfir mannfjöldann sá hann meira en líkamlega krankleika fólksins. Fullur samúðar, sá hann „[sauði] er engan hirði hafa“ (Matteus 9:36). „Uppskeran er mikil,“ sagði hann, „en verkamenn fáir.“ (Matteus 9:37). Hann kallaði því tólf postula, „gaf þeim vald“ og sendi þá til að kenna og þjóna „[týndum sauðum] af Ísraelsætt“ (Matteus 10:1, 6). Á okkar tíma er þörfin fyrir verkamenn til að þjóna börnum himnesks föður engu síðri. Það eru enn tólf postular, en lærisveinar Jesú Krists hafa aldrei verið fleiri – fólk sem getur boðað heiminum: „Himnaríki er í nánd“ (Matteus 10:7).

Ljósmynd
táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Matteus 9:18–26; Markús 5:22–43

„Óttast ekki, trú þú aðeins.“

Þegar Jaírus bað Jesú fyrst að lækna dóttur sína, sem var „að dauða komin,“ mælti hann sárlega en vongóður: „Kom og legg hendur yfir hana að hún … lifi“ (Markús 5:23). Þegar þeir héldu af stað, sagði sendiboði Jaírusar að það væri um seinan: „Dóttir þín er látin, hví ómakar þú meistarann lengur?“ (vers 35). Á sama hátt hefði svo getað virst sem það væri um seinan fyrir konuna sem sagt er frá í Markús 5:25–34, sem í tólf ár hafði þjáðst af krankleika.

Þegar þið lesið þessar frásagnir, gætuð þið hugsað um það sem þarfnast lækningar hjá ykkur sjálfum eða fjölskyldu ykkar – einnig það sem virðist „að dauða [komið],“ eða of seint er að lækna. Hvað vekur áhuga ykkar varðandi trúartjáningarnar í þessum frásögnum? Gætið líka að því sem Jesús segir við konuna og Jaírus. Hvað finnst ykkur hann vera að segja við ykkur?

Sjá einnig Lúkas 8:41–56; Russell M. Nelson, „Að færa kraft Jesú Krists inn í líf okkar,“ aðalráðstefna, apríl 2017; Teachings of Presidents of the Church: Gordon B. Hinckley (2016), 333–42.

Ljósmynd
kona snertir klæði Jesú

Treystið Drottni, eftir Liz Lemon Swindle

Matteus 10; Lúkas 9:1–6

Drottinn veitir þjónum sínum mátt til að vinna verk sitt.

Þau fyrirmæli sem Jesús gaf postulum sínum í Matteus 10 geta líka átt við um okkur, því höfum öll hlutverk í verki Drottins. Hvaða vald veitti Kristur postulum sínum, til að hjálpa þeim að framfylgja hlutverki sínu? Hvernig getið þið notað þennan mátt í því verki sem þið hafið verið kölluð til að gera? (sjá 2. Korintubréf 6:1–10; Kenning og sáttmálar 121:34–46).

Þegar þið lesið boðið sem Kristur gaf postulum sínum, gætuð þið hlotið innblástur um verkið sem Drottinn vill að þið gerið. Eftirfarandi tafla getur verið gagnleg til að koma skipan á hugsanir ykkar:

Matteus 10

Innblástur sem ég hlýt

Frelsarinn veitti lærisveinum sínum mátt.

Guð veitir mér þann mátt sem ég þarf fyrir verkið mitt.

Sjá einnig Markús 6:7–13; Trúaratriðin 1:6; Leiðarvísi að ritningunum, „Postuli“; „Jesus Calls Twelve Apostles to Preach and Bless Others [Jesús kallar tólf postula til að prédika og blessa aðra]“ (myndband), ChurchofJesusChrist.org.

Matteus 10:17–20

Þegar ég er í þjónustu Drottins, mun hann veita mér innblásin orð til að mæla.

Drottinn sá fyrir að lærisveinar hans yrðu ofsóttir og trú þeirra dregin í efa – svipað og það sem lærisveinar okkar tíma gætu upplifað. Hann lofaði þó lærisveinum sínum að þeir myndu vita hvað segja skyldi fyrir mátt andans. Hafið þið upplifað þetta guðlega loforð uppfyllast í lífi ykkar, ef til vill þegar þið gáfuð vitnisburð ykkar, veittuð blessun eða áttuð viðræður við einhvern? Íhugið að segja ástvini frá upplifun ykkar eða skrá hana í dagbók. Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera, svo þið gætuð upplifað slíkt oftar?

Sjá einnig Lúkas 12:11–12; Kenning og sáttmálar 84:85.

Matteus 10:34–39

Hvað átti Jesús við með orðunum: „Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu.“

D. Todd Christofferson kenndi: „Ég er viss um að mörgum ykkar hefur verið hafnað og þið útskúfuð af föður og móður, bræðrum og systrum, þegar þið meðtókuð fagnaðarerindi Jesú Krists og gerðuð sáttmála við hann. Á einn eða annan hátt, hefur hin mikla elska ykkar til Krists krafist fórna kærra sambanda og þið fellt mörg tár yfir því. Þið haldið ykkur þó stöðugt undir krossinum, með elsku ykkar óskerta, og sýnið að þið fyrirverðið ykkur ekki fyrir son Guðs“ („Finding Your Life,“ Ensign,mars 2016, 28).

Slíkum fúsleika til að glata kærum samböndum til að fylgja frelsaranum, fylgir loforð um að „sá sem týnir lífi sínu mín vegna finnur það“ (Matteus 10:39).

Ljósmynd
táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Markús 5:22–43.Þegar fjölskylda ykkar les þessa frásögn saman, gætuð þið gert hlé og spurt fjölskyldumeðlimi að því hvernig þeim hefði liðið í sporum Jaírusar, konunnar eða annarra í frásögninni. Þið gætuð líka sýnt myndir af frásögninni, t.d. þeim sem eru í lexíudrögunum. Hvernig sýna þessar myndir trú fólksins í frásögnunum? (Sjá einnig myndböndin „Jesus Raises the Daughter of Jairus [Jesús reisir upp dóttur Jaírusar]“ og „Jesus Heals a Woman of Faith [Jesús læknar trúaða konu]“ á ChurchofJesusChrist.org.) Þið gætuð líka hugleitt einhverjar áskoranir sem fjölskylda ykkar stendur frammi fyrir. Hvernig getum við farið að þessum orðum hans: „Óttast ekki, trú þú aðeins“? (Markús 5:36).

Matteus 10:39; Lúkas 9:23–26.Hver gæti merking þess verið að „týna“ lífi okkar og „finna“ það? (Matteus 10:39). Ef til vill gætu fjölskyldumeðlimir sagt frá upplifunum sem útskýra kenningar Jesú í þessum versum.

Matteus 10:40.Hvernig gengur ykkur og fjölskyldu ykkar að meðtaka og fylgja leiðsögn nútíma postula? Hvernig færir hlýðni við leiðsögn þeirra okkur nær Jesú Kristi?

Lúkas 9:61–62.Hver er merking þess að horfa til baka eftir að hafa lagt hönd á plóginn? Af hverju gerir það okkur ekki hæf fyrir Guðs ríki?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Trú mín er á Krist,“ Sálmar, nr. 34.

Bæta persónulegt nám

Hlustið á andann. Gætið að hugsunum ykkar og tilfinningum í náminu (sjá Kenning og sáttmálar 8:2–3), jafnvel þótt þær tengist ekki beint efninu sem þið lesið. Þau hughrif gætu einmitt tengst því sem Guð vill að þið vitið og gerið.

Ljósmynd
Jesús reisir stúlku upp úr rúmi

Talitha Cumi, eftir Eva Koleva Timothy