Kenning og sáttmálar 2021
Hugmyndir til að bæta persónulegt ritningarnám


„Hugmyndir til að bæta persónulegt ritningarnám“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)

„Hugmyndir til að bæta persónulegt ritningarnám“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021

Ljósmynd
maður lærir ritningarnar

Hugmyndir til að bæta persónulegt ritningarnám

Hér eru nokkrar einfaldar aðferðir til að auðga nám ykkar á orði Guðs í ritningunum.

Biðja um innblástur

Ritningarnar eru orð Guðs, svo biðjið hann um hjálp til að skilja þær.

Gætið að sannleika um Jesú Krist

Ritningarnar kenna okkur að allir hlutir eru vitnisburður um Krist (sjá 2. Nefí 11:4; HDP Móse 6:63), svo íhugið að skrifa niður eða merkja við vers sem vitna um frelsarann, dýpka ást ykkar til hans og kenna hvernig á að fylgja honum.

Gætið að innblásnum orðum og orðtökum

Þið gætuð fundið að ákveðin orð og orðtök í ritningunum vekja áhuga ykkar, eins og þau væru rituð sérstaklega fyrir ykkur. Þau gætu vakið persónulega samsvörun og innblásið og hvatt ykkur. Íhugið að merkja við þau í ritningum ykkar eða skrá þau í minnisbók.

Leitið sannleika fagnaðarerindisins

Stundum er sannleikur fagnaðarerindisins (oft nefndur kenning eða reglur) settur beint fram og stundum er hann settur fram í dæmisögu eða frásögn. Spyrjið ykkur sjálf: „Hvaða eilífi sannleikur er kenndur í þessum versum?“

Hlustið á andann

Gætið að hugsunum ykkar og tilfinningum, jafnvel þótt þær tengist ekki beint efninu sem þið lesið. Þau hughrif gætu einmitt tengst því sem himneskur faðir ykkar vill að þið lærið.

Heimfærið ritningarnar upp á eigið líf

Hugleiðið hvernig þær sögur og kenningar sem þið lesið eiga við um líf ykkar sjálfra. Þið gætuð t.d. spurt: „Hvaða upplifanir hef ég hlotið sem gætu tengst lestrarefninu?“ eða „Hvernig get ég fylgt fordæmi þessa einstaklings í ritningunum?“

Spyrjið spurninga er þið lærið

Þegar þið lærið ritningarnar, geta spurningar komið upp í hugann. Þær spurningar gætu tengst lestrarefninu eða lífi ykkar almennt. Íhugið þessar spurningar og leitið svara er þið haldið áfram að læra ritningarnar.

Notið hjálpartæki ritningarnáms

Notið neðanmálstilvísanir til að auka skilning ykkar á þeim versum sem þið lesið, sem og Topical Guide, Bible Dictionary og Leiðarvísi að ritningunum (scriptures.ChurchofJesusChrist.org) og annað sem hjálpar við námið.

Íhugið samhengi ritningarversa

Þið getið fengið mikilvægan skilning á ritningarversi, ef þið íhugið samhengi þess, þar á meðal aðstæður eða sögusvið versins. Það getur t.d. aukið skilning ykkar á merkingu orða Guðs að vera kunnug bakgrunni og trú þess fólks sem hann átti samskipti við.

Skráið hugsanir og tilfinningar

Hægt er að skrá hughrifin sem berast við námið á marga vegu. Þið gætuð t.d. merkt við mikilvægt orð eða orðtak og skráð hugsanir ykkar sem athugasemd í ritningarnar ykkar. Þið gætuð líka haldið dagbók yfir innblásturinn, tilfinningarnar og hughrifin sem þið hljótið.

Lærið orð síðari daga spámanna og postula

Lesið það sem síðari daga spámenn og postular hafa kennt um reglurnar sem þið finnið í ritningunum (sjá t.d. conference.ChurchofJesusChrist.org og kirkjutímaritin).

Miðlið skilningi

Að ræða um það sem þið lærið í einkanámi ykkar, er ekki aðeins góð leið til að kenna öðrum, heldur eykur það líka skilning ykkar á því sem þið lásuð.

Lifið eftir því sem þið lærið

Ritningarnám ætti ekki aðeins að auka skilning okkar, heldur líka að breyta lífsmáta okkar. Hlustið á það sem andinn hvetur ykkur til að gera við lesturinn og einsetjið ykkur síðan að bregðast við þeirri hvatningu.

Ljósmynd
kona lærir ritningarnar

Öldungur David A. Bednar sagði: „Við ættum ekki að vænta þess að kirkjan, sem félagssamtök, kenni eða upplýsi okkur um allt sem við þurfum að vita og gera, til að verða sannir lærisveinar og standast trúfastlega allt til enda. Okkar persónulega ábyrgð er fremur að læra það sem við þurfum að læra, að lifa eins og við vitum að okkur ber að lifa og verða að því sem meistarinn óskar af okkur. Heimili okkar eru grundvallarumgjörð til að læra, lifa og verða” („Undir það búin að öðlast allt sem gagnlegt er,” aðalráðstefna, apríl 2019).