Kom, fylg mér
14.–20. desember. Moróní 10: „Komið til Krists og fullkomnist í honum“


„14.–20. desember. Moróní 10: ,Komið til Krists og fullkomnist í honum,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)

„14.–20. desember. Moróní 10,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Ljósmynd
Jesús birtist Nefítunum

Að þér megið vita, eftir Gary L. Kapp

14.–20. desember

Moróní 10

„Komið til Krists og fullkomnist í honum“

Þegar þið ljúkið lestri Mormónsbókar, íhugið þá að leita eftir endurnýjuðum vitnisburði frá heilögum anda um sannleiksgildi hennar. Skráið hughrif sem berast, þegar þið gerið það.

Skráið hughrif ykkar

Mormónsbók hefst á loforði Nefís, þar sem hann sýnir okkur fram á að „hin milda miskunn Drottins vakir yfir öllum þeim, sem hann hefur útvalið, trúar þeirra vegna“ (1. Nefí 1:20). Bókinni lýkur á álíka boðskap frá Moróní, er hann býr sig undir að „innsigla“ heimildirnar: Hann býður okkur að „[hafa] það hugfast, hve miskunnsamur Drottinn hefur verið“ (Moróní 10:2–3). Þótt við hugsum einungis um hina miklu miskunn sem skráð er í Mormónsbók, þá vekur þetta margar hugsanir. Hvaða dæmi koma í huga ykkar? Þið gætuð íhugað þá leið miskunnar að Guð leiddi Lehí og fjölskyldu hans yfir óbyggðirnar og vötnin miklu, hina mildu miskunn sem hann sýndi Enosi, þegar sál hans hungraði eftir fyrirgefningu eða miskunina sem hann sýndi Alma, hatrömmum andstæðingi kirkjunnar, sem síðar varði hana óttalaus. Hugsanir gætu líka vaknað um miskunnina sem hinn upprisni frelsari sýndi fólkinu þegar hann læknaði þeirra sjúku og blessaði börn þess. Mikilvægast alls sem þetta getur vakið ykkur til umhugsunar um, er ef til vill „hve miskunnsamur Drottinn hefur verið“ ykkur, því einn megin tilgangur Mormónsbókar er að bjóða hverju okkar að taka á móti miskunn Guðs – boð sem Moróní tjáði látlaust í kveðjuorðum sínum: „Komið til Krists og fullkomnist í honum“ (Moróní 10:32).

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Moróní 10:3–7

Ég get þekkt sannleikann fyrir kraft heilags anda.

Loforðið í Moróní 10:3–7 hefur breytt milljónum lífa um heim allan. Hvernig hefur það breytt ykkar lífi? Hvort sem þið leitist við að öðlast eða efla vitnisburð ykkar um Mormónsbók, þá er boð Morónís ætlað ykkur. Þegar þið lesið Moróní 10:3–7, hugleiðið þá að lesa vandlegar en þið hafið áður gert. Þið gætuð ígrundað hvert orðtak með því að spyrja ykkur sjálf líkt og: „Hver er merking þessa? Hvernig get ég gert þetta betur? Hvaða reynslu hef ég haft af þessu? Hvernig hefur heilagur andi staðfest sannleiksgildi Mormónsbókar fyrir mér?

Hugsið líka um einhvern sem þarfnast þess að hlýða á vitnisburð ykkar um Mormónsbók. Hvernig hjálpið þið þeirri manneskju að leita eigin vitnisburðar?

Moróní 10:8–25

„[Hafnið] ekki gjöfum Guðs.“

Menn geta á margan hátt „[hafnað] … gjöfum Guðs“ (Moróní 10:8). Sumir hafna því jafnvel að slíkar gjafir séu til. Aðrir gætu hafnað því að búa yfir andlegum gjöfum, en þó séð þær í öðrum. Enn aðrir hafna eigin gjöfum með því einfaldlega að vanrækja þær eða þróa þær ekki.

Þegar þið lesið Moróní 10:8–25, gætið þá að sannleika sem hjálpar ykkur að greina ykkar andlegu gjafir og nota þær ykkur sjálfum og öðrum til aukinnar blessunar. Leitið skilnings á þeim gjöfum Guðs sem hann hefur gefið ykkur eða vill að þið sækist eftir. Afhverju er mikilvægt að „hafa það hugfast, að sérhver góð gjöf kemur frá Kristi“? (Moróní 10:18).

Hugleiðið líka þessa leiðsögn frá öldungi John C. Pingree yngri: „Hvernig getum við svo þekkt gjafir okkar? Við getum uppgötvað þær í patríarkablessun okkar, spurt þá sem best þekkja til okkar og séð sjálf í hverju við erum góð og notið þess. Mikilvægast er að við getum spurt Guð (sjá Jakobsbréfið 1:5; Kenning og sáttmálar 112:10). Hann þekkir gjafir okkar, því hann gaf okkur þær“ („Ég ætla þér verk að vinna,“ aðalráðstefna, október 2017).

Sjá Leiðarvísi að ritningunum, „Gjafnir andans,” churchofjesuschrist.org/study/scriptures/gs/gifts-of-the-spirit?lang=isl.

Moróní 10:30–33

Ég get fullkomnast fyrir náð Jesú Krists.

Boð Morónís um að „[koma] til Krists“ felur í sér meira en að læra um hann eða hugsa oftar um hann eða jafnvel reyna að lifa betur eftir boðorðum hans, eins mikilvægt og allt þetta er. Boðið snýst fremur um að koma til Krists á fyllsta mögulegan hátt – sem er að verða eins og hann er. Þegar þið lesið Moróní 10:30–33, gætið þá að setningum sem hjálpa ykkur að skilja merkingu þess að koma heilskiptur til Krists, svo sem að „höndla hverja góða gjöf,“ „[hafna] öllu óguðlegu,“ og, auðvitað, „[verða] fullkomin í Kristi“ (skáletrað hér).

Hvernig er þetta mögulegt? Leitið svara í Moróní 10:30–33. Hvað er andinn að bjóða ykkur að gera til að vera heilskiptari í því að „[koma] til Krists og [fullkomnast] í honum“?

Sjá Omní 1:26; Leiðarvísi að ritningunum, „Fullkominn,“ churchofjesuschrist.org/study/scriptures/gs/perfect?lang=isl.

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.

Moróní 10

Lesið þennan kapítula saman og gætið að því hversu oft Moróní notar orðið hvetja í einhverri mynd. Skráið það sem Moróní hvetur til – eða hvetur okkur eindregið – að gera. Hvað getum við gert til að fara að hvatningu hans?

Moróní 10:3

Hvað höfum við lært um miskunn Drottins við lestur Mormónsbókar þetta árið? Hvernig hefur Drottinn verið fjölskyldu okkar miskunnsamur?

Moróní 10:3–5

Eftir lestur þessara versa, gætuð þið beðið fjölskyldumeðlimi að segja frá því hvernig þeir komust að því að Mormónsbók væri sönn. Íhugið að syngja saman söng um að leita sannleikans, t.d. „Rannsaka og biðja“ (Barnasöngbókin, 66). Þið gætuð líka beðið fjölskyldumeðlimi að skrá vitnisburði sína í fjölskyldudagbók.

Moróní 10:8–18

Á jólum er eðlilegt að hugsa um að fá gjafir. Ef til vill gætu fjölskyldumeðlimir pakkað inn gjöfum fyrir hver annan, sem tákna þær „[gjafir] Guðs“ sem tilgreindar eru í Moróní 10:9–16. Þessar gjafir gætu líka táknað aðrar gjafir sem koma frá Kristi og þau sjá í fari hvers annars.

Moróní 10:27–29, 34

Fjölskyldumeðlimir gætu miðlað því sem þeir vildu segja við Moróní þegar þeir „[mæta honum] frammi fyrir hinum ljúfu dómgrindum hins mikla Jehóva.“

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Bæta persónulegt nám

Leitið að Jesú Kristi. Tilgangur Mormónsbókar – og allra ritninganna – er að vitna um Jesú Krist. Hvað lærið þið um Jesú Krist í Moróní 10? Hvað finnst ykkur þið hvött að gera til að koma til hans?

Ljósmynd
Moróní grefur gulltöflurnar

Moróní grefur töflurnar, eftir Jon McNaughton