„8.–14. desember: ‚Vér trúum‘: Trúaratriðin og opinberar yfirlýsingar 1 og 2,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Kenning og sáttmálar 2025 (2025)
„Trúaratriðin og opinberar yfirlýsingar 1 og 2,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2025
Hluti af Til allra verðugra karlmeðlima, eftir Emmu Allebes
8.–14. desember: „Vér trúum“
Trúaratriðin og Opinberar yfirlýsingar 1 og 2
Allt frá Fyrstu sýn Josephs Smith hefur Guð haldið áfram að leiða kirkju sína með opinberun. Í sumum tilfellum hefur sú opinberun falið í sér breytingar á reglum og starfsháttum kirkjunnar. Opinberar yfirlýsingar 1 og 2 boðuðu slíka opinberun – önnur batt enda á iðkun fjölkvænis og hin gerði blessanir prestdæmisins mögulegar fólki af öllum kynþáttum. Slíkar breytingar eru hluti af merkingu þess að hafa „[sanna] og lifandi kirkju“ (Kenning og sáttmálar 1:30) með sönnum og lifandi spámanni, leiddum af sönnum og lifandi Guði.
En eilífur sannleikur breytist ekki, þó að skilningur okkar á honum geri það. Og stundum varpar opinberun auknu ljósi á sannleika. Trúaratriðin þjóna þessum upplýsandi tilgangi. Kirkjan er örugglega grundvölluð á eilífum sannleika, en getur samt vaxið og breyst „samkvæmt vilja Drottins, og að hæfi miskunnar hans, í samræmi við ástand mannanna barna“ (Kenning og sáttmálar 46:15). Með öðrum orðum: „Vér trúum öllu, sem Guð hefur opinberað, öllu, sem hann nú opinberar, og vér trúum að hann muni enn opinbera margt stórfenglegt og mikilvægt varðandi Guðs ríki“ (Trúaratriðin 1:9).
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
Trúaratriðin eru grundvallarsannleikur um hið endurreista fagnaðarerindi.
Hugleiðið þessa nálgun að því að læra Trúaratriðin: Búið til „örlexíu“ fyrir hvert trúaratriði, til að útskýra hvað það er sem þið trúið. Örlexían gæti falið í sér efnislega tengda ritningargrein, mynd, sálm eða barnasöng eða persónulega upplifun um lifandi sannleik sem þetta trúaratriði kennir.
Hvaða áhrif hafa þessi sannindi á samband ykkar við himneskan föður og Jesú Krist? Hvernig hafa trúaratriðin bætt nám ykkar á fagnaðarerindinu eða hjálpað ykkur að miðla því öðrum?
Sjá einnig Leiðarvísir að ritningunum, „Trúaratriðin,“ Gospel Library; L. Tom Perry, „Kenningar og reglur Trúaratriðanna,“ aðalráðstefna, október 2013; „38. kafli: Wentworth-bréfið,“ í Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith, (2011) 433–44.
Trúaratriðin 1:9; Opinberar yfirlýsingar 1 og 2
Kirkja Jesú Krists nýtur leiðsagnar með opinberun.
„Vér trúum að [Guð] muni enn opinbera margt stórfenglegt og mikilvægt varðandi Guðs ríki“ (Trúaratriðin 1:9). Lesið Opinberar yfirlýsingar 1 og 2, með þessa reglu í huga, og leitið orða og orðtaka sem efla trú ykkar á viðvarandi opinberun. Hvernig hafa þessar opinberanir haft áhrif á líf ykkar? Hvernig hafa þær hjálpað framför verks ríkis himnesks föður.?
Hvaða sannanir sjáið þið fyrir því að kirkjan sé leidd „með innblæstri frá almáttugum Guði“ í dag? (Opinber yfirlýsing 1). Kannski gætuð þið lesið eina eða fleiri nýlegar ráðstefnuræður,er þið kannið hvernig Drottinn leiðir kirkju sína – og líf ykkar. Það gæti verið gott að byrja á nýjasta boðskap forseta kirkjunnar.
Hvað getið þið gert ef einhver sem þið elskið á erfitt með að skilja eða samþykkja það sem Drottinn kennir með spámönnum sínum? Af hverju eruð þið þakklát fyrir spámann?
Sjá einnig Amos 3:7; 2. Nefí 28:30; Allen D. Haynie, „Lifandi spámaður fyrir síðari daga,“ aðalráðstefna, apríl 2023; Topics and Questions, „Prophets,“ Gospel Library; „Vorn spámann vér þökkum þér, Drottinn,“ Sálmar, nr. 7.
Verki Guðs verður að miða áfram.
Hvaða ástæður gaf spámaðurinn fyrir því að Drottinn batt enda á fjölkvæni í „[Útdrætti] úr þremur ræðum Wilfords Woodruff forseta um yfirlýsinguna“ (aftarlega í Opinberri yfirlýsingu 1)? Hvað segir þetta ykkur um verk Guðs?
Til frekari upplýsingar um sögubakgrunn Opinberrar yfirlýsingar 1, sjá Heilagir, 2:602–15; „The Messenger and the Manifesto,“ í Revelations in Context, 323–31; Topics and Questions, „Plural Marriage and Families in Early Utah“ Gospel Library.
Wilford Woodruff, eftir H. E. Peterson
Ég get sett traust mitt á Drottin, jafnvel þótt ég hafi ekki fullkominn skilning.
Við vitum ekki hvers vegna helgiathafnir prestdæmisins og musterisins voru ekki í boði fyrir kirkjumeðlimi af afrískum uppruna á ákveðnu tímabili. Margir svartir Síðari daga heilagir treystu Drottni, jafnvel þegar þeir stóðu frammi fyrir ósvöruðum spurningum varðandi þessa reglu (sjá Orðskviðirnir 3:5) og voru trúfastir honum allt sitt líf. Það gæti veitt ykkur innblástur að læra um trú þeirra og reynslu. Einhverjar frásagnir um þá má finna á history.ChurchofJesusChrist.org:
-
„In My Father’s House Are Many Mansions [Í húsi föður míns eru mörg híbýli]“ (saga um Green Flake)
-
„You Have Come at Last [Þú hefur loks komið]“ (saga um Anthony Obinna)
-
„Break the Soil of Bitterness [Rjúfa jarðveg biturðar]“ (saga um Juliu Mavimbela)
-
„I Will Take It in Faith [Ég mun takast á við þetta í trú]“ (saga um George Rickford)
-
„Long-Promised Day“ (um Joseph W. B. Johnson)
Hvað lærið þið um ferli Drottins við að innleiða regluna fyrir kirkju sína, við lestur Opinberrar yfirlýsingar 2? Ígrundið hvernig ykkur hefur lærst að treysta Drottni, jafnvel þótt þið hafið ekki haft fullkominn skilning.
Sjá einnig 2. Nefí 26:33; „Witnessing the Faithfulness,“ í Revelations in Context, 332–41; Topics and Questions, „Race and the Priesthood,“ Gospel Library; Ahmad Corbitt, „A Personal Essay on Race and the Priesthood,“ hlutar 1–4, history.ChurchofJesusChrist.org; BeOne.ChurchofJesusChrist.org.
Það er í lagi að segja „ég veit það ekki.“ Þótt þið reynið ykkar besta til að hjálpa þeim sem þið kennið með svör við trúarlegum spurningum þeirra, þá væntir Drottinn þess ekki að þið vitið allt. Þegar þið vitið ekki hvernig svara skal einhverju, viðurkennið það þá. Vísið síðan nemendum á hina opinberuðu kenningu og gefið einlægan vitnisburð um það sem þið vissulega vitið.
Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.
Hugmyndir fyrir kennslu barna
Ég trúi á fagnaðarerindi Jesú Krists.
-
Hugleiðið að finna og syngja sálma eða barnasöngva sem geta hjálpað börnum ykkar að skilja eitt eða fleiri trúaratriði. Ef til vill geta þau hjálpað ykkur að velja sálmana eða lögin. Hjálpið börnum ykkar að sjá hvernig söngvarnir tengjast Trúaratriðunum.
-
Þið og börn ykkar gætuð unnið saman að því að skrifa niður spurningar sem fólk gæti verið með um fagnaðarerindi Jesú Krists eða kirkju hans. Þið gætuð síðan unnið saman að því að svara þessum spurningum með því að nota Trúaratriðin. Hvert annað getum við leitað ef við höfum spurningar um fagnaðarerindið?
Trúaratriðin 1:9; Opinberar yfirlýsingar 1 og 2
Drottinn leiðir kirkju sína með spámanni sínum.
-
Til að hjálpa börnum ykkur að skilja níunda trúaratriðið, gætuð þið kannski afhent þeim ritningar og mynd af lifandi spámanni (eða nýlegt eintak af ráðstefnuútgáfu Líahóna). Biðjið þau að halda ritningunum uppi er þið lesið orðin „öllu, sem Guð hefur opinberað“ og myndinni eða tímaritinu þegar þið lesið „öllu, sem hann nú opinberar“ (Trúaratriðin 1:9). Hvers vegna þörfnumst við bæði fornra spámanna og nútíma spámanna?
-
Börn ykkar gætu lært hvernig orð spámannanna leiða okkur með því að fylgja leiðbeiningum um að búa eitthvað til, eins og matarrétt eða leikfang. Þið gætuð borið þetta saman við þær leiðbeiningar sem Jesús Kristur gefur okkur með spámönnum sínum. Hvað er eitthvað sem Drottinn hefur kennt okkur fyrir tilstuðlan lifandi spámanns síns í dag?
Guð kallar spámenn til að leiða kirkju sína.
Opinberar yfirlýsingar 1 og 2.
Spámenn hjálpa okkur að þekkja vilja himnesks föður.
-
Ef til vill gæti það hjálpað börnum ykkar að skilja opinberu yfirlýsingarnar, ef þau sjá hvernig fornar ritningar tengjast nútíma opinberunum. Þið gætuð beðið þau að lesa Postulasöguna 10:24–25 og Jakob 2:27–30 og boðið þeim að ákvarða hvor ritning tengist Opinberri yfirlýsingu 1 (sem leiddi til loka fjölkvænis) og hvor tengist Opinberri yfirlýsingu 2 (sem lýsir yfir að helgiathafnir prestdæmis og musteris væru mögulegar fólki af öllum kynþáttum). Gefið vitnisburð ykkar um að Drottinn hafi opinberað vilja sinn fornum spámönnum og opinberi hann nútíma spámönnum.
Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.