Kom, fylg mér 2024
8.–14. apríl: „Drottinn erfiðar með okkur.“ Jakob 5–7


„8.–14. apríl: ‚Drottinn erfiðar með okkur.‘ Jakob 5–7,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)

„8.–14. apríl. Jakob 5–7,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)

Ljósmynd
menn við vinnu í ólífutrjálundi

Líkingasagan um ólífutréð, eftir Brad Teare

8.–14. apríl: Drottinn erfiðar með okkur

Jakob 5–7

Það eru afar margir sem enn hafa ekki heyrt fagnaðarerindi Jesú Krists. Ef ykkur finnst einhvern tíma verkið að safna þeim saman í kirkju Drottins mikið og yfirþyrmandi, þá gæti það sem Jakob sagði um ólífutrén í Jakob 5 verið áminning til hughreystingar: víngarðurinn er Drottins. Hann hefur falið hverju okkar lítinn blett til aðstoðar í verki sínu – fjölskylduna okkar, vinahópinn og áhrifasvæði okkar. Stundum er fyrsta manneskjan sem við hjálpum í þessum tilgangi við sjálf. Við erum þó aldrei ein í þessu verki, því herra víngarðsins erfiðar við hlið þjóna sinna (sjá Jakob 5:72). Guð þekkir og elskar börn sín og mun búa hverju þeirra leið til að hlýða á fagnaðarerindið, jafnvel þeim sem áður höfnuðu honum (sjá Jakob 4:15–18). Þegar verkinu verður síðan lokið, munu allir þeir sem hafa „unnið af kostgæfni með [honum] … njóta gleði með [honum] yfir ávöxtum víngarðs [hans]“ (Jakob 5:75).

Sjá einnig „Jacob Teaches about the Gathering of Israel“ (myndband), Gospel Library.

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Jakob 5

Jesús Kristur er herra víngarðsins.

Jakob 5 er saga sem hefur táknræna merkingu. Hún lýsir trjám og ávöxtum og verkamönnum, en snýst í raun um samskipti Guðs við fólk sitt í mannkynssögunni. Þegar þið lesið söguna, skuluð þið því íhuga hvað sumt í sögunni gæti táknað.

Dæmi: Ef víngarðurinn táknar heiminn og hreinræktaða ólífutréð táknar Ísrael (eða þá sem hafa gert sáttmála við Guð; sjá Jakob 5:3), hvað gætu þá villtu ólífutrén táknað? Hvað gæti slæmi og góði ávöxturinn táknað? Hvaða fleiri tákn sjáið þið?

Þótt Jakob 5 kenni um þjóðir og sögu sem nær yfir aldir, þá er hún líka um ykkur og líf ykkar. Hvaða boðskap finnið þið fyrir ykkur sjálf í Jakob 5?

Mikilvægast er kannski að Jakob 5 fjallar um Jesú Krist. Gætið að honum við lesturinn. Hvað lærið þið um hann, t.d. í versum 40–41, 46–47?

Skoðið skýringarmyndina aftast í þessum lexíudrögum til að skilja betur Jakob 5.

Jakob 5:61–75

Ljósmynd
trúarskólatákn
Drottinn býður mér að starfa með sér í víngarði sínum.

Átt er við fólk eins og ykkur, þegar rætt er um „aðra þjóna“ (Jakob 5:70) sem kallaðir eru í víngarð Drottins. Hvaða sannleika finnið þið í Jakob 5, einkum í versum 61–62 og 70–75, um að erfiða í víngarði Drottins? Hvað hafið þið lært um hann er þið hafið hjálpað í verki hans?

Hvað hvetur ykkur til að þjóna Drottni „af öllum mætti,“ er þið lesið um erfiði Drottins „í síðasta sinn“ í víngarði sínum? (Jakob 5:71). Þið gætuð ef til vill sagt frá persónulegri upplifun þar sem þið funduð gleði í því að þjóna herra víngarðsins – t.d. er þið hafið miðlað fagnaðarerindinu, þjónað í musterinu eða styrkt aðra. Þið gætuð líka kannað dæmin sem öldungur Gary E. Stevenson miðlar í boðskap sínum, „Einfaldlega fallegt – fallega einfalt“ (aðalráðstefna, október 2021).

Russell M. Nelson forseti sagði: „Alltaf þegar þið gerið eitthvað til hjálpar einhverjum – hvoru megin hulunnar sem er – að taka skref í átt að því að gera sáttmála við Guð og taka á móti hinum mikilvægu helgiathöfnum skírnar og musteris, eruð þið að hjálpa við samansöfnun Ísraels. Svo einfalt er það“ („Hope of Israel“ [heimslæg trúarsamkoma fyrir ungmenni, 3. júní 2018], ChurchofJesusChrist.org). Íhugið að byrja að skrá hugmyndir um það sem þið getið gert til að hjálpa við samansöfnun Ísraels. Hvað finnst ykkur að Drottinn myndi vilja að þið gerðuð í víngarði hans, ef þið skoðið þann lista? Hvernig umbunar Drottinn okkur fyrir að þjóna í víngarði hans, samkvæmt versi 75?

Sjá einnig „Ísrael, Drottinn á þig kallar,“ Sálmar, nr. 5; „Old Testament Olive Vineyard“ (myndband), Gospel Library; Leiðarvísir að ritningunum, „Samansöfnun Ísraels“; Gospel Topics, „Inviting All to Receive the Gospel of Jesus Christ,“ „Participating in Temple and Family History Work,“ Gospel Library.

Kennið kenninguna. Gætið þess að umræður ykkar einskorðist við grundvallarkenningar í ritningunum. Þið getið gert það með því að lesa saman ritningarvers og síðan miðla hvert öðru sannleikanum sem þið finnið, sem og upplifunum af því að lifa eftir þeim sannleika.

Jakob 6:4–5

Drottinn minnist fólks síns með elsku og miskunn.

Ein merking orðanna halda fast er að gefa sig að eða halda sér fast að einhverju af ákveðni, vandvirkni og eindregni. Hvernig hefur þessi skilgreining áhrif á skilning ykkar á Jakob 6:4–5? Hvernig útrétti herra víngarðsins í sögunni um olífutréð „náðararm“ sinn? (sjá t.d. Jakob 5:47, 51, 60–61, 71–72). Hvernig hefur hann gert þetta fyrir ykkur?

Jakob 7:1–23

Ég get sýnt staðfestu þegar aðrir ögra trú minni á Jesú Krist.

Reynsla Nefítanna af Serem er oft endurtekin á okkar tíma: Fólk reynir að rífa niður trú á Jesú Krist. Hvernig brást Jakob við þegar reynt var að rífa niður trú hans? Hvað lærið þið af viðbrögðum hans? Hvað getið þið gert núna til að vera viðbúin því þegar trú ykkar á frelsarann er ögrað?

Sjá einnig Jeffrey R. Holland, „Gjald og blessanir lærisveinsins,“ aðalráðstefna, apríl 2014; „Sherem Denies Christ“ (myndband), Gospel Library.

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Jakob 5

Drottni er annt um fólk sitt.

  • Hvernig getið þið miðlað sögunni um ólífutrén á þann hátt sem börn ykkar skilja? Ein leiðin er að fara út í göngutúr til að skoða tré og fara stuttlega yfir helstu atriði sögunnar. Hvað gerði herra víngarðsins fyrir trén sín? Hvernig getum við verið eins og verkamenn sögunnar og hjálpað öðrum að finna kærleika frelsarans?

  • Jakob sagði söguna um ólífutrén til að bjóða fólki sínu að koma til Krists. Hún getur gert það sama fyrir börn ykkar. Þið gætuð ef til vill dregið söguna saman með versum eins og Jakob 5:3–4, 28–29, 47 og 70–72 (sjá einnig „Old Testament Olive Vineyard“ [myndband], Gospel Library). Þið eða börn ykkar gætuð síðan lesið Jakob 5:11, 41, 47 og 72 og leitað að því sem sýnir hve vel herra víngarðsins (Jesús Kristur) hirti um trén. Hvað gerir frelsarinn til að sýna að hann lætur sér annt um okkur?

Jakob 6:4–5

Himneskur faðir elskar mig og mun fyrirgefa mér þegar ég iðrast.

  • Jakob 6:4–5 hefur að geyma mikilvægan boðskap fyrir okkur varðandi rangar ákvarðanatökur. Þið gætuð ef til vill hjálpað börnum ykkar að finna hann. Hvaða orð í þessum versum veita okkur von um endurleysandi elsku Guðs? Saga öldungs Allens D. Haynie um að verða óhreinn í aurgryfju í boðskap hans, „Minnist þess á hvern þið hafið sett traust ykkar“ (aðalráðstefna, október 2015), gæti verið gagnleg. Hvað kennir þessi saga og Jakob 6:4–5 okkur um það sem við þurfum að gera til að frelsast í ríki Guðs?

Jakob 7:1–23

Ég get komið því til varnar sem ég veit að er sannleikur.

  • Hvernig getið þið hvatt börn ykkar til að verja sannleikann, eins og Jakob gerði? Börn ykkar gætu horft á myndbandið „Chapter 10: Jacob and Sherem“ (Gospel Library) og leikið samskipti Jakobs og Serems með því að nota Jakob 7:1–23 sem leiðarvísi. Hvernig kom Jakob því til varnar sem hann vissi að var rétt? Bjóðið börnum ykkar að segja frá upplifunum þar sem þau komu því til varnar sem rétt er eða segið frá ykkar eigin. Þau gætu ef til vill líka sungið söng sem tjáir hugrekki eins og Jakob sýndi, svo sem „Verið sönn,“ Barnasöngbókin, 81.

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.