Líahóna
Sannleikur lífs okkar
Ágúst 2025


„Sannleikur lífs okkar,“ Líahóna, ágúst 2025.

Mánaðarlegur boðskapur Líahóna, ágúst 2025

Sannleikur lífs okkar

Okkar kærleiksríki himneski faðir hefur opinberað sannleika um fortíð okkar, nútíð og framtíð, þar með talið hvernig við getum meðtekið æðstu gjöf allra gjafa.

N.K. Whitney & Co. store

Öldungar kirkjunnar fóru upp stiga í lítið, þröngt herbergi fyrir ofan verslun Newels K. Whitney í Kirtland, Ohio, 22. janúar 1833, með spámanninum Joseph Smith. Í desember, árið áður, hafði Joseph hlotið opinberun um að stofna skóla sem aðallega var til að búa bræðurna undir trúboð.

„Og ég gef yður boð,“ hafði Drottinn sagt, „um að fræða hvert annað um kenningu ríkisins.

Kennið af kostgæfni og náð mín verður með yður, svo að þér megið enn betur fræddir verða um fræðisetningar, reglur, kenningu og lögmál fagnaðarerindisins, um allt er lýtur að Guðs ríki og yður er gagnlegt að skilja–

Svo að þér séuð í öllu reiðubúnir, þegar ég sendi yður aftur til að efla þá köllun, sem ég hef kallað yður til, og það ætlunarverk, sem ég hef falið yður“ (Kenning og sáttmálar 88:77–78, 80).

Þessi „skóli spámannanna,“ eins og hann var kallaður, veitti dásamlega andlega úthellingu. Mörgum fyrri leiðtogum kirkjunnar var kennt þar. Í dag er heimurinn allt annar staður, en leiðsögnin sem Drottinn veitti þá á enn ótrúlega vel við. Við leitum líka að „hlutum eins og þeir eru, eins og þeir voru og eins og þeir munu verða“ (Kenning og sáttmálar 93:24).

kona ígrundar bók sem hún les

Leit okkar að sannleikanum

Á þessum tímum sem við lifum á, er meiri þekking í boði fyrir okkur en nokkru sinni fyrr. Áður, ef við vildum vita eitthvað, þurftum við að fara í bókasafnið til að fletta því upp. Í dag veita Alnetið og snjalltæki aðgang að næstum endalausum upplýsingum sem við getum fundið næstum samstundis.

Drottinn er ánægður þegar við nýtum auðlindirnar skynsamlega, en hann hefur veitt þessa sígildu leiðsögn: „Þér [skuluð] af kostgæfni leita vísdómsorða og kenna þau hver öðrum. Já, leitið að vísdómsorðum í hinum bestu bókum. Sækist eftir fræðslu með námi og einnig með trú“ (Kenning og sáttmálar 88:118). Hann hvetur okkur til að læra um heiminn umhverfis (sjá Kenning og sáttmálar 88:79; 93:53), en í leit okkar að sannleikanum verðum við að líta til Guðs, sem „skynjar allt og allt er frammi fyrir honum, … Og hann er ofar öllu, … Og allt er frá honum og af honum“ (Kenning og sáttmálar 88:41).

Einn sá sannleikur sem Guð hefur gefið okkur, er sá grunnur sem er mikilvægastur fyrir líf okkar á jörðunni, að hann er himneskur faðir okkar. Við erum ástkærir andasynir og andadætur hans. Guð þekkir og elskar okkur fullkomlega. Og sem andabörn hans eigum við okkur guðlegt eðli og örlög. Að skilja og umfaðma þennan eilífa sannleika, gefur okkur auðkenni, gildi og tilgang sem blessaði og leiddi okkur í fortilverunni og mun halda áfram að gera það nú og að eilífu.

fólk fer gegnum huluna

Við vorum með föðurnum í upphafi

Þegar við leitum sannleikans „eins og hann er,“ uppgötvum við þessi orð frelsarans, Jesú Krists: „Og sannlega segi ég yður: Í upphafi var ég hjá föðurnum og ég er frumburðurinn“ og „þér voruð einnig í upphafi hjá föðurnum“ (Kenning og sáttmálar 93:21, 23).

Áður en við lifðum á jörðinni, sóttum við þing á himnum, þar sem himneskur faðir kynnti sína miklu sæluáætlun. Spámaðurinn Joseph Smith kenndi að hvati Guðs fyrir áætlun sinni, væri að veita okkur „forréttindi til að þróast eins og hann sjálfur [og] … vera upphafin með sér sjálfum.“ Verk hans og dýrð er „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).

Við iðkuðum valfrelsi okkar og völdum að fylgja áætlun himnesks föður. Við höfum verið blessuð með því að fæðast í þetta líf, þar sem við höldum áfram að hafa sjálfræði og getum upplifað jarðlífið, lært og þróast í átt að eilífu lífi.

Í jarðneskri ferð okkar, munum við upplifa áskoranir og áföll. Við þurfum þó ekki að takast ein á við mótlæti lífsins. Joseph Smith kenndi að himneskur faðir, „hið mikla foreldri alheimsins [lítur] á allt mannkyn föðurlegum og ástúðlegum augum.“

Faðir okkar á himnum, „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar,“ mun blessa okkur, lyfta okkur og hugga „ í sérhverri þrenging [okkar] svo að [við getum] hughreyst alla aðra í þrengingum þeirra á sama hátt og hann hughreystir [okkur]“ (2. Korintubréf 1:3–4). Himneskur faðir hefur, sem nauðsynlegan hluta af áætlun sinni, séð okkur fyrir leið til að snúa aftur til sín.

Getsemanegarðurinn, Ísrael

Leiðin til föður okkar

Sannleikurinn „um hlutina eins og þeir í raun eru“ (Jakob 4:13) er skýr: Við getum ekki náð öllum möguleikum okkar sem börn himnesks föður einsömul. Jesús Kristur, frumgetinn sonur föðurins í andanum, gerði sáttmála um að verða frelsari okkar og lausnari.

Jesús Kristur, „[hinn eingetni föðurins, fullur] náðar og sannleika, já, anda sannleikans, sem kom og bjó í holdinu og dvaldi með oss“ (Kenning og sáttmálar 93:11). Hann kom til að sýnda okkur leiðina til að finna hamingju, tilgang og gleði í þessu lífi og í eilífðinni.

„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann“ (Jóhannes 3:16–17).

Jarðnesk reynsla frelsarans er mikilvæg. Hann „hlaut ekki fyllinguna í fyrstu, heldur hlaut hann náð á náð ofan“ (Kenning og sáttmálar 93:12). Hann óx þar til „hann hlaut fyllingu dýrðar föðurins“ og „allt vald, bæði á himni og á jörðu, og dýrð föðurins var með honum, því að hann bjó í honum“ (Kenning og sáttmálar 93:16–17). Frelsarinn kenndi:

„Ég gef yður þessi orð, svo að þér megið skilja og vita hvernig tilbiðja skal, og vita hvað tilbiðja skal, svo þér getið komið til föðurins í mínu nafni og tekið á móti fyllingu hans á sínum tíma.

Því að ef þér haldið boðorð mín, munuð þér taka á móti fyllingu hans og verða dýrðlegir í mér eins og ég er í föðurnum. Fyrir því segi ég yður: Þér munuð hljóta náð á náð ofan“ (Kenning og sáttmálar 93:19–20).

Í Getsemanegarðinum og á krossinum tók Jesús Kristur á sig allar syndir heimsins og mátti þola allar sorgir og „alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar“ (Alma 7:11). Þetta „varð þess valdandi, að [hann], … æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu“ (Kenning og sáttmálar 19:18). Aðeins fyrir Jesú Krist og friðþægingu hans og upprisu er sáluhjálp og upphafning möguleg.

Fyrir náð og friðþægingarfórn frelsarans, getum við vaxið þar til við hljótum fyllingu og getum dag einn orðið fullkomnuð. Ef við fylgjum fordæmi frelsarans og hlýðum boðorðum hans, mun hann leiða okkur á vegi okkar til baka til hinnar dýrðlegu návistar föður okkar á himnum.

málverk af Kristi á gangi á veginum til Jerúsalem

Kristur á veginum til Jerúsalem, eftir Michael Coleman, óheimilt að afrita

Viljið þið meðtaka gjöf hans?

Meðal þess sannleika um „[hlutina] eins og þeir í raun munu verða“ (Jakob 4:13), lærum við að reynsla okkar í eilífðinni mun ákvarðast af vali okkar að fylgja Jesú Kristi og hljóta þær gjafir sem hann býður. Ritningarnar kenna að við munum „njóta þess, sem [við erum fús] til að taka á móti.“ Því miður munu sumir ekki vera „fúsir til að njóta þess, sem þeir gætu hafa hlotið“ (Kenning og sáttmálar 88:32).

Trúboðsforseti minn, öldungur Marion D. Hanks (1921–2011), sem þjónaði sem aðalvaldhafi Sjötíu, kenndi trúboðum sínum að leið til að meta hvar við erum stödd í okkar andlega ferðalagi, er að biðja um það sem við erum fús til að hljóta og njóta. „Því að hvað gagnar það manninum, ef gjöf er honum gefin og hann veitir gjöfinni ekki viðtöku?“ Þegar við tökum á móti gjöfum frelsarans, með því að leita hans af einlægni og fylgja honum, munum við fagna í voninni um eilíft líf og „[í honum] sem gjöfina gefur“ (Kenning og sáttmálar 88:33). Þessi gjöf, gefin svo ástúðlega, „er mest allra gjafa Guðs“ (Kenning og sáttmálar 14:7).

Guð er himneskur faðir okkar. Hann þekkir og elskar okkur. Þegar við snúum okkur til hans í leit okkar að sannleikanum, getum við haldið okkur fast að vitsmunum, meðtekið visku, umfaðmað sannleikann, elskað dyggðina og haldið okkur fast að ljósinu sem kemur frá honum (sjá Kenning og sáttmálar 88:40). Við höldum síðan áfram allt okkar líf, þar til „sá dagur [mun] koma er [við munum] skynja sjálfan Guð, [lífguð] í honum og af honum“ (Kenning og sáttmálar 88:49).

Það verður hinn dýrðlegasti og gleðiríkasti dagur.