„Vinur ykkar Kom, fylg mér,“ Líahóna, jan. 2026.
Vinur ykkar Kom, fylg mér
Nýjum listaverkum og hugvekjandi atriðum hefur verið bætt við námsefni þessa árs við lærdóm í Gamla testamentinu.
Ég mun vissulega bjarga þér, eftir Evu Timothy, óheimilt að afrita
Væri ekki indælt ef þið hefðuð alltaf vin við hlið ykkur, er þið lesið ritningarnar ykkar, sem hvetti ykkur áfram? Ef til vill einhvern sem elskar ritningarnar og er svo spenntur yfir lestri ykkar að hann fær vart hamið sig. Stundum segir vinur ykkar eitthvað eins og: „Er þessi hluti ekki ótrúlegur?“ „Hvað finnst þér um þessi vers?“ „Hamingjan sanna, þetta er alveg eins og okkar líf, finnst þér það ekki?“ Ef þið festist einhvern tíma eða ruglist á erfiðum ritningarversum, gæti vinur ykkar sagt eitthvað eins og: „Sko, það mætti leggja þennan skilning í þetta. Hjálpar það?“ – en hann myndi samt gæta þess að upplýsa ekkert um neitt sem gæti skemmt fyrir. Hann er jú góður vinur.
Kom, fylg mér er svolítið eins og þessi vinur. Tilgangur ritsins er að hjálpa ykkur að upplifa lestur á ritningunum. Það getur vísað ykkur á ritningarvers sem styrkja trú ykkar á himneskan föður og Jesú Krist – og síðan hjálpað ykkur að tengja þau vers við það sem er að gerast í lífi ykkar. Það getur hjálpað þegar þið hafið spurningar, en oftast spyr Kom, fylg mér spurninga í stað þess að svara þeim – því virkilega góður vinur myndi aldrei ræna ykkur ánægjunni af því að uppgötva andlegan sannleika fyrir ykkur sjálf.
Kom, fylg mér getur gert alla þessa vinalegu hluti í hvert sinn sem þið lesið ritningarnar. Já, meira að segja þegar þið lesið Gamla testamentið þetta árið.
Auk umhugsunarverðra spurninga og athafnahugmynda, getið þið fundið aðra gagnlega þætti í Kom, fylg mér. Hér eru nokkrir þeirra:
Yfirlit Gamla testamentisins
Á fyrstu síðum Kom, fylg mér fyrir árið 2026, finnið þið sjónrænt yfirlit yfir Gamla testamentið. Það er einskonar tímalína með nöfnum spámanna, konunga og annarra lykilpersóna. Þetta er gagnlegt, því bækur Gamla testamentisins eru ekki allar í tímaröð. Yfirlitið getur til að mynda sýnt hvernig skrif spámanna eins og Jesaja og Jeremía passa inn í sögu Júdaríkis. Þið getið séð hvernig sögurnar um Daníel og Ester passa inn í stærra samhengi Gamla testamentisins. Ef ykkur finnst þið einhvern tíma hafa týnst í Gamla testamentinu, leitið þá að „Yfirliti Gamla testamentisins“ til að átta ykkur.
Ný listaverk
Tólf ný málverk voru sett í Kom, fylg mér fyrir þetta ár. Nokkur dæmi um þau eru:
-
Enok sér hádegisbaug tímans, eftir Jennifer Paget, táknræn fyrir sýn Enoks um fórn frelsarans (sjá HDP Móse 7).
-
Standa sem vitni, eftir Kwani Povi Winder, með áherslu á „litlu stúlkuna“ en einfaldur vitnisburður hennar leiddi til mikils kraftaverks (sjá 2. Konungabók 5).
-
Ég á mikið verk óunnið, eftir Tyson Snow, sem lýsir ákvörðun Nehemía um að endurreisa múra Jerúsalem, þrátt fyrir andstöðu óvina sinna (sjá Nehemíabók 4).
-
Ég mun vissulega bjarga þér, eftir Evu Timothy, mynd af Jeremía sem bjargað var úr forugri gryfju af Eþíópíubúanum Ebed Melek (sjá Jeremía 38–39).
„Ábendingar til að hafa hugfastar“
Endrum og eins er gert hlé á vikulegum námsvísum í Kom, fylg mér fyrir „Ábendingar til að hafa hugfastar“. Þetta eru smágreinar um efni eins og sáttmála, fórn, samansöfnun Ísraels og ljóð Gamla testamentisins. „Ábendingar til að hafa hugfastar“ býður upp á sögulegt samhengi, síðari daga yfirsýn og einfaldan skilning sem gæti auðveldað ykkur að öðlast trúarstyrkjandi upplifanir við nám á Gamla testamentinu.
Eins og undanfarin ár, þá er Kom, fylg mér ekki viðfangsefni náms ykkar. Ritið er aðeins hjálplegur félagi við að læra orð Guðs í ritningunum. Til þess eru vinir.