2019
Boðskort fyrir Ricardo
Apríl 2019


Boðskort fyrir Ricardo

Martin Apolo Cordova

Paraná, Brasilíu

Ljósmynd
stack of invitations

Myndskreyting eftir Katy Dockrill

Þegar ég frétti af kirkjuviðburði, býð ég alltaf tíu manns á hann sem ekki eru í kirkjunni. Þetta hef ég gert í mörg ár. Ég bý til boðskort og set hvert í hvítt umslag og bið þess að andinn leiði mig. Síðan dreifi ég boðskortunum. Sjaldan mæta allir tíu, en jafnvel þótt aðeins einn mæti, finnst mér ég hafa náð árangri.

Fyrir nokkrum árum bjó ég til tíu boðskort fyrir hjónakvöldvöku. Ég afhendi samstarfsfólki níu þeirra og átti eitt eftir. Ég vissi ekki hverjum ég ætti að afhenda það. Nokkrum mínútum síðar gekk Ricardo, sölumaður, framhjá skrifborðinu mínu. Mér fannst ég fá hugboð um að bjóða honum, jafnvel þótt hann hefði hafnað boði frá samstarfsfélaga um að koma á viðburð í hans kirkju. Ég taldi Ricardo ekki hafa áhuga.

Þegar Ricardo hinsvegar gekk framhjá skrifborðinu mínu enn eina ferðina, fann ég hugboðið aftur. Hann fór þó í burtu svo fljótt að mér gafst ekki tækifæri til að tala við hann. Ég bað þess að Ricardo myndi koma til baka, ef mér var ætlað að afhenda honum boðskortið.

Eftir að ég hafði lokið bæninni, kom Ricardo aftur til að spyrja mig að einhverju. Þar á eftir sagði ég: „Ricardo, það er viðburður í kirkjunni minni fyrir gift hjón. Við ætlum að miðla hvert öðru reynslu um hvernig lifa má dag hvern í gleði. Á eftir verður dansleikur. Viltu koma, ef ég býð þér?“

„Auðvitað!“ sagði Ricardo, en ég lét ekki sannfærast af svarinu.

„Ég gerði allavega mitt besta,“ hugsaði ég með mér.

Ég og eiginkona mín mættum snemma á viðburðinn til að heilsa þeim sem komu. Allt í einu sá ég Ricardo með eiginkonu sinni, Reginu. Ég kynnti þau fyrir eiginkonu minni og öðrum sem þar voru. Ricardo og Regina virtust skemmta sér allt kvöldið. Ég undraðist þegar þau sögðust ætla að koma í kirkju á sunnudaginn til að læra meira.

Ricardo og Regina og börnin þeirra tvö lærðu vissulega meira. Svo fór að lokum að þau gengu í kirkjuna. Síðar voru þau innsigluð í musterinu. Ricardo sagði mér eitt sinn að hann og eiginkona hans hefðu rætt um skilnað, en þá sendi Drottinn Ricardo til mín í skrifstofuna.

Ég hef beðið Guð um að fyrirgefa mér þá hugsun að Ricardo tæki ekki boði mínu. Mér hefur lærst mikilvægi þess að bjóða öllum. Við vitum aldrei hver mun taka boðinu.