2019
Takast á við sorgaratburði
Apríl 2019


Kenna unglingum og yngri börnum

Takast á við sorgaratburði

Ljósmynd
icons

Fyrr eða síðar upplifa börn sorgaratburði, hvort sem það snertir þau persónulega eða er fjarlægara. „Þótt uppnám ríki hvarvetna í heiminum, getum við hlotið blessun innri friðar.“1 Hér er nokkuð sem þið getið gert til að hjálpa börnum að finna þann frið.

Stöðugleiki

Þegar ógæfa dynur yfir, gæti börnum fundist heimur þeirra hafa farið úr skorðum. Verið þeim fyrirmynd um staðfestu. Talið við þau af rósemd og sjálfsöryggi. Viðhaldið venjum eins og mögulegt er. Gerið allt sem þið getið til að hafa fjölskyldukvöld, ritningalestur, bænir og viðhalda öðrum venjum fjölskyldunnar. Smám saman mun börnum lærast að fagnaðarerindið veitir yfirsýn og lífið heldur áfram, janvel þótt heimur þeirra leiki á reiðiskjálfi.

Virðing

Virðið tilfinningar barna. Hlustið á börnin og sýnið tilfinningum þeirra skilning. Látið þau finna að áhyggjur þeirra skipta ykkur máli. Gefið þeim rými, ef þau þurfa, en látið þau vita að þið séuð til staðar þegar þau eru reiðubúin til að tala við ykkur. Svarið spurningum af einlægni í samræmi við aldursþroska þeirra. Látið börn ykkar vita að þau geti alltaf rætt við ykkur um ótta og áhyggjur þeirra.

Leiðsögn

Börn ykkar gætu spurt: „Af hverju leyfir Guð að slæmir hlutir gerist?“ Útskýrið að bæði gleði- og sorgartímar séu hluti af lífinu og eilífri áætlun Guðs. Hann leyfir öllum að taka eigin ákvarðanir og stundum tekur fólk slæmar ákvarðanir, sem valda þjáningum. Í öðrum tilvikum eru sorgaratburðir ekki sök einhvers, heldur bara hluti af eðli jarðlífsins. Hvað sem öllu líður, þá er himneskur faðir til staðar fyrir okkur. Með hans hjálp getum við lært og vaxið, jafnvel af sárri reynslu. Við getum fundið frið með því að koma til hans.

Styrking

Sýnið börnunum að þau geti haft áhrif til góðs með því að benda þeim á leiðir til að hjálpa. Þau gætu til að mynda hjálpað við að safna fé til stuðnings fórnarlömbum hörmunga, heimsótt veikan eða slasaðan vin á sjúkrahúsi, hughreyst einhvern sem hefur misst ástvin eða beðið fyrir þeim sem eiga erfitt. Við getum ekki lagað allt, en við getum látið margt gott af okkur leiða og „við stuðlum að friði þegar við hjálpum við að lina þjáningar annarra.“2

Huggun

Minnið börnin á að Guð elskar þau og að þið elskið þau. Gefið ekki innantóm loforð, um að þau muni aldrei upplifa eitthvað slæmt, en fullvissið þau um að þau séu örugg einmitt núna og að þið munið gera allt til að vernda þau. Fullvissið þau um að himneskur faðir muni hjálpa þeim í gegnum alla erfiðleika sem á vegi þeirra verða.

Þegar andstreymið dregur úr ykkur kjark, hafið þá í huga að hið góða mun að lokum sigra hið illa. „Við heyjum stríð við synd, … en þurfum ekki að örvænta,“ sagði Thomas S. Monson forseti (1927–2018). Það er stríð sem við getum sigrað og munum sigra. Faðir okkar á himnum hefur gefið okkur verkfærin sem þarf til sigurs. Hann er við stjórnvölinn. Við þurfum ekki að óttast neitt.“3

Heimildir

  1. “Peace,” Gospel Topics, topics.lds.org.

  2. “Peace,” Gospel Topics.

  3. Thomas S. Monson, “Looking Back and Moving Forward,” Liahona, maí 2008, 90.