2017
Miða á miðpunktinn
January 2017


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, janúar 2017

Miða á miðpunktinn

Nýlega horfði ég á hóp fólks æfa bogfimi. Við það varð mér ljóst að til þess að ná góðum tökum á boga og örvum, þarf tíma og æfingar.

Ég held að ekki sé hægt að öðlast frægð og frama í bogfimi með því að skjóta á vegg og teikna síðan markið umhverfis örina. Læra þarf þá list að finna skotmarkið og skjóta í miðju marksins.

Teikna markið

Það kann að virðast fráleitt að teikna markið eftir á í þessu sambandi, en við gerum það einmitt stundum við aðrar aðstæður í lífinu.

Við, sem meðlimir kirkjunnar, höfum tilhneigingu til þess að festa okkur í trúarstarfi, málefnum og jafnvel kenningum, sem höfða til okkar, virðast mikilvæg eða ánægjuleg. Við freistumst til þess að teikna mark umhverfis þau og teljum okkur trú um að við séum að einblína á kjarna fagnaðarerindisins.

Þetta er auðvelt að gera.

Í aldanna rás hefur okkur borist framúrskarandi leiðsögn og andríki frá spámönnum Guðs. Við fáum líka leiðsögn og útskýringar í hinum ýmsu útgáfuritum, handbókum og kennslubókum kirkjunnar. Við gætum auðveldlega valið okkar eftirlætis trúarefni, teiknað mark umhverfis það og talið okkur trú um að við höfum auðkennt kjarna fagnaðarerindisins.

Frelsarinn útskýrir

Þessi árátta einskorðast ekki við okkar tíma. Trúarleiðtogar til forna vörðu heilmiklum tíma í að skrá, flokka og rökræða um hvert hinna ótal boðorða væri mikilvægast.

Dag einn reyndi hópur trúarfræðinga að draga frelsarann inn í missættið. Þeir báðu hann að leggja mat á málefni sem fáir virtust sammála um.

„Meistari,“ spurðu þeir hann, „hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“

Við þekkjum öll svar Jesú: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.

Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.

Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“1

Ígrundið síðustu setninguna: „Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“

Frelsarinn sýndi okkur ekki aðeins markið, heldur auðkenndi hann líka miðpunkt þess.

Hitta í mark

Við, sem meðlimir kirkjunnar, gerum sáttmála um að taka á okkur nafn Jesú Krists. Í þeim sáttmála er sá skilningur sjálfgefinn að við kappkostum að læra um Guð, elska hann, auka trú okkar á hann, heiðra hann, ganga á hans vegum og vera óhagganlegt vitni um hann.

Því meira sem við lærum um Guð og upplifum elsku hans til okkar, því meira verður okkur ljóst að hin óendanlega fórn Jesú Krists er gjöf Guðs. Elska Guðs innblæs okkur til að tileinka okkur einlæga iðrun, sem leiðir til undurs fyrirgefningar. Það ferli vekur með okkur aukna elsku og samúð með þeim sem umhverfis eru. Okkur lærist að sjá handan merkimiðanna. Við munum standast þá freistingu að ásaka eða dæma aðra af syndum þeirra, veikleikum, brestum, stjórnmálaafstöðu, trúarsannfæringu, þjóðerni eða litarhætti.

Við munum sjá alla sem við kynnumst sem barn okkar himneska föður – bróður okkar eða systur.

Við munum eiga samskipti við aðra af skilningi og elsku – jafnvel þá sem gæti reynst erfitt að elska. Við syrgjum með syrgjendum og huggum þá sem huggunar þarfnast.2

Okkur mun og skiljast að engin þörf er á að brjóta höfuðið yfir því hvert sé hið rétta mark fagnaðarerindisins.

Æðstu boðorðin tvö eru markið. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.3 Ef við sættumst á það, mun allt annað falla í réttar skorður.

Ef hugsanir okkar og verk snúast aðallega um að auka elsku okkar til almáttugs Guðs og samferðamanna okkar, þá getum við verið viss um að við höfum fundið rétta markið og erum að miða á miðpunktinn – að við séum sannir lærisveinar Jesú Krists.