2014
Fylgið spámanninum
Apríl 2014


Fylgið spámanninum

Trúarræða flutt í Brigham Young háskólanum–Idaho 5. maí, 2013 í tengslum við Fræðsludeild kirkjunnar. Til að lesa alla ræðuna: lds.org/broadcasts.

Ljósmynd
Öldungur William R. Walker

Þegar við fylgjum Monson forseta og reynum að líkja eftir honum, munum við óhjákvæmilega verða betri lærisveinar Drottins Jesú Krists.

Fyrir nokkrum árum, stuttu fyrir aðalráðstefnu, kenndi Thomas S. Monson forseti dásamlega lexíu. Það var á samkomu aðalvaldhafa, sem höfðu komið til Salt Lake City, Utah, og margir þeirra frá stöðum víða um heim, þar sem þeir þjónuðu í svæðisforsætisráðum. Við höfðum komið saman til að hljóta kennslu frá Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni.

Þegar samkoman átti að hefjast, virtust allir mættir nema Monson forseti. Nokkrum mínútum áður en samkoman hófst, hættum við að ræða saman, sátum lotningafullir og hlustuðum á forspilið og væntum þess að spámaðurinn kæmi á hverri stundu.

Við biðum þolinmóðir þar til klukkan varð níu og fram yfir það. Einhver gekk út um hliðardyrnar — greinilega til að komast að því hvort aðstoðar þyrfti við. Þegar sá kom til baka, sagði hann: „Monson forseti kemur rétt bráðum.“

Um fimmtán mínútum síðar gekk Monson forseti inn í salinn. Við stóðum upp til að sýna honum virðingu. Við glöddumst yfir að sjá hann og hraustlegt útlit hans. Engin augljós ástæða var fyrir því að hann kom of seint.

Monson forseti gekk rakleiðis að ræðustólnum og sagði: „Bræður, mér þykir leitt að koma of seint, en eiginkona mín þurfti á mér að halda í morgun.“

Ég fann til mikillar auðmýktar og þessi orð hans hurfu ekki úr huga mínum.

Þetta var afar mikilvæg samkoma. Allir æðstu leiðtogar kirkjunnar voru þarna saman komnir og Monson forseti var okkur öllum fyrirmynd. Eiginkona hans þarfnaðist hans og hann hafði gefið sér tíma til að annast hana. Þetta var stórkostleg prédikun. Ég man ekki eftir neinu öðru sem sagt var þennan dag, nema þessum orðum: „Eiginkona mín þurfti á mér að halda.“

Fylgja fordæmi spámannsins

Ég legg til fimm leiðir sem við getum gert til að fylgja fordæmi Monsons forseta.

1. Við getum verið jákvæð og hamingjusöm.

Í Hinni dýrmætu perlu lýsir spámaðurinn Joseph Smith yfir „glaðlyndi“ sínu (Joseph Smith — Saga 1:28). „Glaðlyndi“ er líka eiginleiki Monsons forseta.

Eitt sinn sagði Monson forseti: „Við … getum valið að hafa jákvætt viðhorf. Við getum ekki stýrt vindinum en við getum aðlagað seglin. Við getum með öðrum orðum valið að vera hamingjusöm og jákvæð, hvað sem á vegi okkar verður.“1

Eitt sinn beið ég fyrir utan nefndarherbergi Æðsta forsætisráðsins. Mér hafði verið boðið þangað á fund til að ræða málefni tengd musterunum. Ég sat einn og hljóður fyrir utan herbergið. Ég hélt að Æðsta forsætisráðið væri þegar að funda og að mér yrði boðið inn að fáeinum mínútum liðnum.

Þar sem ég sat heyrði ég einhvern koma blístrandi eftir ganginum. Mér varð hugsað: „Einhver skilur ekki réttar siðareglur. Maður gengur ekki um blístrandi fyrir utan skrifstofu forseta kirkjunnar.“

Andartaki síðar kom sá sem flautaði gangandi fyrir hornið — það reyndist vera Monson forseti. Hann var glaður og jákvæður. Hann heilsaði mér innilega og sagði: „Ég býst við að við hefjum fundinn innan nokkurra mínútna.“

Þótt hann hafi þunga allrar kirkjunnar á baki sínu, er hann glaður og ætíð jákvæður. Þannig ættum við að vera.

2. Við getum verið ljúf og ástúðleg við börnin.

Jesús ræddi oft um börnin. Spámaður hans, Monson forseti, ræðir líka oft um börnin. Ég hef einkum séð við vígslur mustera hvernig hann sýnir börnum elsku og kennir okkur með eigin fordæmi hvernig okkur ber að koma fram við þau. Í hverri musterisvígslu beinir hann athygli sinni að börnunum. Hann hefur unun af því að hafa þau með í hornsteinsathöfninni og býður ætíð nokkrum þeirra að setja múrblöndu á hornsteininn til að þau geti tekið þátt í hinni táknrænu lúkningu musteris. Hann gerir það þeim ánægjulegt. Hann gerir það þeim minnisstætt. Hann brosir ætíð breitt fyrir þau. Hann hvetur þau og hrósar. Það er dásamlegt að horfa á það.

Ljúfar kveðjur hans fela oft í sér handasmell, eyrnablökun og hvatningu til að þjóna í trúboði og giftast í musterinu.

Fyrir nokkrum árum átti Monson forseti að vígja Oquirrh Mountain-musterið í Utah á afmælisdegi sínum. Þegar hann kom að musterinu og nálgaðist aðaldyr þess, hafði hópur ungs fólks komið þar saman. Unga fólkið vissi augljóslega að Monson forseti átti afmæli, því það tók að syngja „Hann á afmæli í dag“ fyrir hann. Hann staldraði við og horfði á þau skælbrosandi. Hann veifaði meira að segja höndunum, líkt og hann væri að stjórna söng þeirra. Eftir það bættu þau við stefinu „Hann lengi lifi.“ Hann sagði við mig: „Þetta er besti hlutinn.“

Börnin og æskufólk kirkjunnar elska hann og þau efast ekki um elsku hans til þeirra.

3. Við getum fylgt innblæstri andans.

Monson forseti lýsti fagurlega hollustu sinni við Drottin og staðfestu sinni að fylgja innblæstri andans með þessum orðum: „Ljúfasta reynslan sem ég þekki í þessu lífi er að finna innblástur andans og fylgja honum og komast síðar að því að hann var til að uppfylla bæn einhvers í neyð.“ Ég vil ætíð að Drottinn viti, að Tom Monson muni reka erindi hans, ef hann hefur þörf á erindreka.2

Þetta er fyrirmynd sem hvert okkar ætti að sækjast eftir að lifa eftir.

4. Við getum elskað musterið.

Saga kirkjunnar mun sýna að Monson forseti verður einn þeirra sem staðið hefur fyrir því að mörg musteri hafa verið reist. Frá því að hann varð forseti í febrúar 2008, hefur hann viðhaldið hinu mikla starfi að byggja musteri. Á þeim sex árum sem Monson forseti hefur verið spámaður hefur hann tilkynnt um byggingaráætlun 33 mustera.

Monson forseti sagði: „Megi sérhvert okkar lifa verðuglega, með hreinar hendur og flekklaust hjarta, svo musterið hafi áhrif á líf okkar og fjölskyldu.“3

Hann hefur líka gefið þetta dásamlega loforð: „Þegar við snertum, elskum og förum í musterið, mun líf okkar endurspegla trú okkar. Þegar við förum í hið helga hús, og minnumst sáttmálanna sem við gerðum þar, munum við standast hverja raun og freistingu.4

Við skulum fylgja fyrirmyndinni sem spámaðurinn hefur gefið okkur um að elska musterið.

5. Við getum verið ljúf, tillitsöm og ástúðleg.

Monson forseti er dásamlegt fordæmi um að elska aðra. Þrátt fyrir miklar annir, hefur öll hans þjónusta verið helguð því að vitja heimila; leggja hendur yfir höfuð til að blessa; hringja óvænt símtöl til að hugga og hvetja; senda bréf til hvatningar, ábendingar og þakklætisvotts; fara á sjúkrahús og umönnunarheimili; og gefa sér tíma til að fara í útfarir og kistulagningar.

Líkt og frelsarinn gerði, þá hefur Thomas S. Monson forseti gengið um, gjört gott (sjá Post 10:38) og blessað og elskað aðra; það hefur verið drifkraftur hans í lífinu.

Undravert fordæmi um ljúfmennsku Monsons forseta gerðist árið 2012. Þegar hið fallega Brigham City musteri í Utah var næstum fullgert, hitti ég Æðsta forsætisráðið til að ræða áætlun um vígslu þess. Þar sem Brigham City var aðeins í einnar klukkustundar akstursfjarlægð norður af Salt Lake City, hefði Monson forseta reynst afar auðvelt að fara þangað til vígslunnar.

En Monson forseti sagði: „Þetta er heimabær Boyds K. Packer forseta, þessa mikla postula sem setið hefur mér við hlið meðal hinna Tólf í svo mörg ár. Ég vill að hann njóti þess heiðurs og blessunar að vígja musterið í heimabæ sínum. Ég mun halda mig fjarri og fela Packer forseta að vígja Brigham City musterið. Ég vil að þetta verði hans dagur.

Dagurinn varð dásamlegur fyrir Packer forseta og systur Packer, sem hafði líka alist upp í Brigham City. Ég var afar hrærður af ljúfmennsku Monsons forseta og göfuglyndi hans í garð sampostula síns. Við getum öll verið þannig. Við getum deild með öðrum og verið ljúf og hugsað meira um þá sem umhverfis eru.

Fyrirmynd spámanns

Monson forseti hefur kennt okkur hvernig okkur ber að haga lífi okkar, með sínum dásamlega og innblásna boðskap á aðalráðstefnum. Hann hefur kennt okkur hvernig fylgja á Jesú Kristi með sínu dásamlega og undursamlega fordæmi. Drottinn hefur vissulega gefið okkur fyrirmynd í öllu og ein sú fyrirmynd sem við ættum að keppa að er að fylgja okkar ástkæra spámanni.

Ég ber vitni um að það er Guð á himnum sem þekkir og elskar okkur. Hann hefur gefið okkur spámann — til að kenna okkur og leiða á þessum síðari dögum. Ég trúi að Drottinn væntir þess að við elskum og styðjum spámanninn og fylgjum fordæmi hans.

Ég tel það mikla blessun að vera uppi á þeim tíma er Thomas S. Monson forseti er spámaður Drottins. Þegar við fylgjum honum og reynum að líkja eftir honum, munum við óhjákvæmilega verða betri lærisveinar Drottins Jesú Krists.

Heimildir

  1. „Messages of Inspiration from President Monson,“ Church News, 2. sept. 2012, 2.

  2. On the Lord’s Errand (DVD, 2008).

  3. Thomas S. Monson, „Blessings of the Temple,“ Líahóna, okt. 2010, 19.

  4. Thomas S. Monson, Be Your Best Self (1979), 56; Skáletrað hér.