2013
Orðsending til hins hikandi trúboða
febrúar 2013


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, febrúar 2013

Orðsending til hins hikandi trúboða

Ljósmynd
Dieter F. Uchtdorf forseti

Á lærisveinum Jesú Krists hefur ávallt hvílt sú ábyrgð að færa heiminum fagnaðarerindi hans (sjá Mark 16:15–16). Engu að síður reynist stundum erfitt að ljúka upp munni okkar til að ræða um trú okkar við þá sem umhverfis eru. Sumir meðlimir kirkjunnar eru gæddir eðlislægri gjöf til að ræða við aðra um trúmál, en aðrir eru svolítið hikandi og geta fundið það skrítið, vandræðalegt og jafnvel kvíðvænlegt.

Í því ljósi ætla ég að leggja til fernt sem allir geta gert til að fylgja boði frelsarans um að boða „hverri skepnu fagnaðarerindið“ (K&S 58:64).

Vera ljós

Orð sem eru mér kær og oft eru eignuð heilögum Francis frá Assisi segja: „Boðið fagnaðarerindið öllum stundum og, ef nauðsynlegt er, notið orð.“1 Í orðum þessum felst sú hugmynd að oft eru máttugustu prédikanirnar án orða.

Þegar við erum ráðvönd og lifum stöðugt eftir lífsstaðli okkar, mun fólk veita því athygli. Þegar gleði og hamingja skína af okkur, tekur það jafnvel meira eftir því.

Allir vilja vera hamingjusamir. Þegar ljós fagnaðarerindisins skín af meðlimum kirkjunnar, fær fólk skynjað hamingju okkar og að elska Guðs er ríkuleg í lífi okkar. Það vill fá að vita ástæðuna. Það vill fá að vita leyndarmál okkar.

Það fær fólk til að spyrja spurninga líkt og: „Hvers vegna eruð þið svo hamingjusöm?“ eða „Hvers vegna er viðhorf ykkar alltaf svona jákvætt?“ Svarið við þessum spurningum leiðir auðvitað rakleiðis til samtals um hið endurreista fagnaðarerindi.

Vera ræðinn

Að ræða um trúarbrögð—einkum við vini okkar og ástvini—kann að virðast óvænlegt. En svo þarf ekki að vera. Að segja frá andlegri reynslu eða ræða eðlilega um atburði eða starf kirkjunnar getur reynst auðvelt og ánægjulegt, ef við tileinkum okkur örlítið hugrekki og almenna skynsemi.

Eiginkona mín, Harriet, er dásamlegt fordæmi um þetta. Þegar við áttum heima í Þýskalandi, fann hún út hvernig hægt var að koma kirkjutengdu efni inn í samræður hennar við vini og kunningja. Þegar hún var til að mynda spurð að því hvernig helgin hefði verið, sagði hún: „Við áttum afar góðan tíma í kirkjunni okkar síðasta sunnudag! Sextán ára gamall ungur maður hélt dásamlega ræðu yfir 200 safnaðarmeðlimum um hreint líferni.“ Hún gæti líka sagt: „Ég heyrði sagt frá 90 ára gamalli konu sem prjónaði yfir 500 ábreiður og gaf þær til mannúðarstarfs kirkjunnar, svo senda mætti þær til nauðstaddra víðsvegar um heim.“

Oftar en ekki vildi fólkið sem á hana hlustaði vita meira um málið. Það spurði spurninga. Og það leiddi til þess að hægt var að ræða eðlilega og frjálst um fagnaðarerindið, án nokkurrar ýtni.

Með tilkomu Alnetsins og hinna ýmsu félagsmiðla, reynist auðveldar að ræða um slíka hluti en áður hefur þekkst. Við þurfum einfaldlega aðeins að auka þor okkur til þess.

Sýna ljúfleika

Því miður er svo auðvelt að vera fráhrindandi. Það gerist of oft að við þráttum, gerum lítið úr og fordæmum. Þegar við verðum reið, höstug eða særandi, vill fólk síst af öllu kynnast okkur betur. Ómögulegt er að segja hve margir hafa annaðhvort yfirgefið kirkjuna eða hætt við að ganga í hana, vegna þess að einhver sagði eitthvað særandi eða ósæmilegt við þá.

Það er svo mikið af ókurteisi í heiminum í dag. Auðveldara er nú en áður að láta frá sér fara eitthvað niðrandi og andstyggilegt á Alnetinu og fela sig á bak við nafnleynd. Ættum við ekki, sem vongóðir lærisveinar hins ljúfa Krists, að hafa æðri og kærleiksríkari staðal? Ritningarnar kenna: „Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni“ (Kol 4:6).

Mér finnst að við ættum að vera ljúf og skýr og skorinorð í máli. Getið þið gert ykkur í hugarlund hvernig fjölskyldur okkar, deildir, þjóðir og jafnvel heimurinn allur yrðu, ef við tileinkuðum okkur þessa einföldu reglu?

Eiga ríkulega trú

Stundum eignum við okkur of mikinn heiður þegar aðrir taka á móti fagnaðarerindinu eða áfellum okkur sjálf hafni þeir því. Mikilvægt er fyrir okkur að vita að Drottinn ætlast ekki til þess að við snúum öðrum til trúar.

Trúarumbreyting á sér ekki stað fyrir orð okkar, heldur guðlega þjónustu heilags anda. Stundum megna aðeins fáein orð vitnisburðar okkar eða reynslu, að stuðla að því að hjörtu mildist eða dyr ljúkist upp fyrir öðrum til að upplifa háleitan sannleika fyrir innblástur andans.

Brigham Young forseti (1801–77) sagðist hafa hlotið vitneskju um að fagnaðarerindið væri sannleikur þegar hann hafi „séð mann án málsnilldar, eða hæfileika til að tala yfir almenningi, sem aðeins hefði sagt: ‚Ég veit fyrir kraft heilags anda, að Mormónsbók er sönn, að Joseph Smith er spámaður Guðs.‘“ Young forseti sagði, þegar hann heyrði þann auðmjúka vitnisburð: „Heilagur andi starfaði í gegnum þennan einstakling og upplýsti skilning minn og ég upplifði ljós, dýrð og ódauðleika.“2

Bræður og systur, hafið trú. Drottinn megnar að efla orðin sem þið mælið og glæða þau mætti. Guð býður ykkur ekki að snúa öðrum til trúar, heldur að ljúka upp munni ykkar. Ykkar verkefni er ekki að snúa öðrum til trúar—það er verkefni þess sem á hlýðir og heilags anda.

Sérhver meðlimur trúboði

Kæru vinir, við getum nú lokið upp munni okkar á fleiri vegu en áður hefur tíðkast og miðlað öðrum gleðitíðindum fagnaðarerindis Jesú Krists. Það er til leið fyrir alla—jafnvel hinn hikandi trúboða—til að taka þátt í þessu mikla verki. Við getum öll fundið hvernig okkur hentar best að nota hæfileika okkar og áhugamál til að efla hið mikla verk, að fylla heiminn ljósi og sannleika. Þegar við gerum það, munum við kynnast gleðinni sem þeir upplifa sem eru trúfastir og nægilega hugrakkir til að „standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar“ (Mósía 18:9).

Heimildir

  1. Heilagur Francis frá Assisi, í riti Williams Fay og Lindu Evans Shepherd, Share Jesus without Fear (1999), 22.

  2. Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young (1997), 67.

Hvernig kenna á boðskapinn

Ein áhrifarík leið til að kenna, er að „hvetja þá sem þið kennið til að setja sér … markmið sem gerir þeim kleift að lifa eftir reglunni sem þið kennið“ (Teaching, No Greater Call [1999], 159). Íhugið að bjóða þeim sem þið kennið að setja sér markmið í bænaranda um að miðla einum eða fleiri einstaklingum fagnaðarerindinu í þessum mánuði. Foreldrar geta rætt hvernig yngri börnin geta lagt sitt af mörkum. Þið getið líka hjálpað fjölskyldunni að skiptast á hugmyndum eða sýna leikrænt hvernig færa má fagnaðarerindið í tal í venjulegum umræðum og hugsa um væntanlega kirkjuviðburði sem þau gætu boðið vinum að koma á.