2012
Ákall frelsarans um þjónustu
ágúst 2012


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, ágúst 2012

Ákall frelsarans um þjónustu

Ljósmynd
Thomas S. Monson forseti

Allir sem lært hafa stærðfræði vita hvað samnefnari er. Síðari daga heilagir eiga sér almennan samnefnara. Sá samnefnari er hið einstaklingsbundna ákall til hvers og eins okkar um að leysa af höndum verkefni í Guðs ríki hér á jörðunni.

Gerist þið sek um að mögla þegar köllun berst ykkur? Takið þið á móti hverju tækifæri til að þjóna bræðrum ykkar og systrum opnum örmum, meðvituð um að himneskur faðir mun blessa þá sem hann kallar?

Ég vona að við missum ekki sjónar á raunverulegum tilgangi kærkominna tækifæra til að þjóna. Sá tilgangur, það eilífa markmið, er sá sami og Drottinn tilgreinir og er að finna í Hinni dýrmætu perlu: „Því að sjá. Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“1

Megum við ætíð minnast þess að aðildarmöttull Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er ekki skikkja þæginda, heldur fremur skikkja ábyrgðar. Skylda okkar er að leiða aðra til himnesks ríkis Guðs, auk þess að koma okkur sjálfum til bjargar.

Ef við erum fús til að ganga veg þjónustu við Guð, munum við aldrei verða í stöðu Wolsey kardinála, í ritum Shakespeares. Sviptur völdum, eftir ævilanga þjónustu við konung sinn, sagði hann dapur:

Ef ég hefði aðeins þjónað Guði mínum af hálfum þeim ákafa,

sem ég þjónaði konungi mínum,

hefði hann ekki falið mig allslausan á vald óvinum mínum.2

Hvers konar þjónustu gerir himinninn kröfu um? „Sjá, Drottinn krefst hjartans og viljugs huga, og þeir viljugu og auðsveipu skulu neyta gæða Síonarlands á þessum síðustu dögum.“3

Ég staldra við þegar mér verður hugsað um orð Johns Taylor forseta (1808–87): „Ef þið eflið ekki kallanir ykkar, mun Guð gera ykkur ábyrga fyrir þeim sem þið gætuð hafa frelsað hefðuð þið gert skyldu ykkar.“4

Líf Jesú, er hann þjónaði meðal manna, er líkt og leiðarljós gæskunnar. „Ég [er] meðal yðar eins og þjónninn,“5 sagði Jesús er hann lífgaði útlimi hins lamaða, veitti blindum sýn, daufum heyrn og reisti upp dána.

Með dæmisögu sinni um miskunnsama Samverjann kenndi meistarinn okkur að elska náunga okkar sem sjálf okkur.6 Með svari sínu til unga ríka höfðingjans kenndi hann okkur að losa okkur við eigingirnina.7 Með því að fæða hina 5000 kenndi hann okkur að sjá fyrir þörfum annarra.8 Og með fjallræðunni kenndi hann okkur að leita fyrst Guðs ríkis.9

Í nýja heiminum sagði hinn upprisni Drottinn: „Þér vitið, hvað yður ber að gjöra í kirkju minni. Því að þau verk, sem þér hafið séð mig vinna, þau skuluð þér einnig vinna. Því að það, sem þér hafið séð mig gjöra, skuluð þér og gjöra.“10

Við blessum aðra þegar við þjónum í skugga „Jesú frá Nasaret, … [sem] gekk um, [og] gjörði gott.“11 Guð blessi okkur til að finna gleði í þjónustu himnesks föður, er við þjónum börnum hans á jörðu.

Hvernig kenna á boðskapinn

„Drottinn mun sjá til þess að við sigrum, ef við gerum okkar hluta. Hann mun efla okkur, jafnvel umfram hæfileika okkar og getu. … Það er einhver ljúfasta reynsla sem manneskjan fær upplifað“ (Ezra Taft Benson, í Teaching, No Greater Call [1999], 20). Íhugið að miðla reynslu ykkar sjálfra eða annarra sem þið þekkið, þar sem Drottinn hefur eflt hæfileika og mannlega getu. Biðjið fjölskylduna að miðla einhverri jákvæðri reynslu, er hún hefur brugðist við „ákalli frelsarans um að þjóna.“