2012
Í miðju alls
júlí 2012


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, júlí 2012

Í miðju alls

Ljósmynd
Dieter F. Uchtdorf forseti

Í flestum dagatölum er júlí miðárs mánuður. Oft fer lítið fyrir því sem á sér stað í miðju alls en upphafið og endalokin eru lofsungin og minnisstæð.

Upphafið er tími úrlausna, áætlanagerða og vinnuþreks. Endalokin eru tími hjöðnunar og þeim kann að fylgja tilfinning sigurs eða ósigurs. En ef við höfum rétt viðhorf og hugsum okkur að við séum í miðju alls, getur það ekki aðeins hjálpað okkur að skilja lífið aðeins betur, heldur líka gert það innihaldsríkara.

Í miðju trúboðsstarfi

Þegar ég ræði við okkar ungu trúboða segi ég þeim oft að þeir séu í miðju trúboðsstarfi sínu. Hvort sem þeir komu deginum áður eða fara heim deginum eftir, bið ég þá að líta svo á að þeir séu alltaf í miðju trúboði.

Nýjum trúboðum kann að líða sem óreyndum nýgræðingum, svo þeir draga á langinn að tala og starfa af tiltrú og áræðni. Reyndir trúboðar kunna að vera raunamæddir yfir að trúboð þeirra tekur brátt enda eða draga úr vinnuframlagi sínu er þeir ígrunda hvað þeir ættu að taka sér fyrir hendur að loknu trúboði.

Sannleikurinn er sá, hverjar sem aðstæður okkar eru og hvar sem við þjónum, að trúboðar Drottins sá dag hvern fjölda sáðkorna hinna góðu tíðinda. Þegar þessir trúföstu erindrekar Drottins líta alltaf svo á að þeir séu í miðju trúboðs síns, mun það glæða þá þreki og áræðni. Og það sem á við um trúboða á líka við um okkur öll.

Við erum alltaf í miðju alls

Slíkri hugarfarsbreytingu verður ekki komið á í einum hvelli. Það er háleitur sannleikur að baki hugmyndinni um að við séum alltaf í miðju alls. Ef við horfum á staðsetningu okkar á vegakorti, freistumst við til að segja að við séum á upphafsreit. En ef við köfum dýpra, þá erum við einfaldlega í miðju stórs svæðis.

Það sem á við um tíma á líka við um rúm. Við kunnum að líta svo á að við séum á upphafs- eða endareit lífs okkar, en þegar við sjáum hvar við erum í ljósi eilífðarinnar—þegar okkur verður ljóst að andi okkar hefur átt sér tilveru í lengri tíma en við fáum mælt, og að sál okkar komi til með að eiga sér tilveru um alla eilífð, vegna hinnar altæku friðþægingar Jesú Krists—mun okkur skiljast að við erum í raun í miðju alls.

Nýverið fann ég mig knúinn til að skipta um minnisvarða á gröf foreldra minna. Tíminn hafði sett mark sitt á gröfina og mér fannst að nýr minnisvarði væri betra tákn um fyrirmyndar líferni þeirra. Þegar ég las fæðingar- og dánardag þeirra á minnisvarðanum, sem aðskildir voru með litlu striki og táknuðu æviskeið þeirra, streymdu yndislegar minningarnar skyndilega í huga minn og hjarta. Allar þessar dýrmætu minningar endurspegla andartök á miðju æviskeiði foreldra minna og miðju æviskeiði mínu.

Hvert sem aldurskeið okkar kann að vera, hvar sem við kunnum að vera stödd, þá erum við alltaf í miðju alls þegar eitthvað gerist í lífi okkar. Og þegar öllu er á botninn hvolft, þá verðum við alltaf í miðju alls.

Vonin um að vera í miðju alls

Já, það verða upphafs- og lokastundir á æviskeiði okkar, en þær eru aðeins leiðarmerki á vegi hinnar miklu miðju okkar eilífu lífa. Hvort sem við erum á upphafs- eða endareit, hvort sem við erum ung eða gömul, þá getur Drottinn haft af okkur not í verki sínu, ef við einfaldlega útilokum þær hugsanir sem draga úr getu okkar til að þjóna og leyfum honum að vilja að móta líf okkar.

Sálmahöfundurinn segir: „Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum” (Sálm 118:24). Amúlek áminnti okkur: „Þetta líf er tími mannanna til að búa sig undir að mæta Guði. Já, sjá. Dagur þessa lífs er dagurinn, sem menn hafa til að leysa verk sitt af hendi“ (Alma 34:32; Skáletrað hér). Og skáldið segir af andagift: „Ævarandi framtíð — mótast af nútíð.”1

Að vera alltaf í miðju alls, merkir að leiknum er aldrei lokið, vonin er aldrei úti, ósigur er aldrei endanlegur. Engu skiptir hvar við erum eða hverjar aðstæður okkar eru, því endalausir upphafs- og endareitir eru frammi fyrir okkur.

Við erum alltaf í miðju alls.

Heimildir

  1. Emily Dickinson, „Forever—is composed of Nows,” í The Complete Poems of Emily Dickinson, ritst. af Thomas H. Johnson (1960), 624.

Hvernig kenna á boðskapinn

Íhugið að ræða við fjölskylduna hvernig hún er „alltaf í miðju alls,” jafnvel þótt hún hefji eða ljúki einhverju. Hvetjið hana til að gera sitt besta í núverandi viðfangsefnum og dvelja ekki við fortíðina eða bíða eftir næsta viðfangsefni. Þið getið lagt til að hún velji sér eitthvað eitt sem hún getur gert saman sem fjölskylda, til að fara eftir þessari leiðsögn og setja ákveðinn dag sem hún væntir að ljúka viðfangsefninu.