2012
Dætur í ríki mínu
mars 2012


Boðskapur heimsóknarkennara, mars 2012

Dætur í ríki mínu

Lærið efnið og ræðið það við systurnar sem þið heimsækið, eins og við á. Nýtið spurningarnar ykkur til hjálpar við að styrkja systurnar og gera Líknarfélagið að virkum þætti í lífi ykkar.

Trú, fjölskylda, líkn

Við erum dætur okkar himneska föður. Hann þekkir og elskar okkur og hefur áætlun fyrir okkur. Hluti þeirrar áætlunar er að koma til jarðarinnar til að læra að velja hið góða en ekki hið illa. Þegar við veljum að halda boðorð Guðs, heiðrum við hann og játum að við séum dætur Guðs. Líknarfélagið hjálpar okkur að muna eftir þeirri guðlegu arfleifð.

Líknarfélagið og saga þess eflir og styrkir okkur: Julie B. Beck, aðalforseti Líknarfélagsins, sagði: „Sem dætur Guðs eruð þið að búa ykkur undir eilíft viðfangsefni og sérhver ykkar hefur kvenlega eiginleika, eðli, og ábyrgð. Árangur fjölskyldna, samfélaga, þessarar kirkju og hinnar dýrmætu sáluhjálparáætlunar veltur á trúfestu ykkar. … [Faðir okkar á himnum] ætlaði Líknarfélaginu að hjálpa til við að byggja upp fólk hans og búa það undir blessanir musterisins. Hann stofnaði þetta félag til að samstilla dætur hans verki hans og fá þær til starfa við að byggja upp ríki hans og styrkja heimili Síonar.“1

Faðir okkar á himnum ætlar okkur sérstakt hlutverk við að byggja upp ríki hans. Hann hefur líka blessað okkur með þeim andlegu gjöfum sem við þurfum til að vinna þetta sérstaka verk. Í Líknarfélaginu gefst okkur kostur á að nota gjafir okkar til að styrkja fjölskyldur, hjálpa hinum þurfandi og læra að lifa sem lærisveinar Jesú Krists.

Dieter F. Uchtdorf forseti, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði um hlutverk lærisveinsins: „Með því að ganga þolinmóð veg lærisveinsins getum við sjálf séð hver staða trúar okkar er og vilji til að lúta hans vilja frekar en okkar eigin.“2

Minnumst þess að við erum dætur Guðs og reynum að lifa líkt og lærisveinar hans. Ef við gerum það, munum við leggja okkar af mörkum við að byggja upp ríki Guðs hér á jörðu og vera verðugar þess að snúa í návist hans.

Úr ritningunum

Sakaría 2:10; Kenning og sáttmálar 25:1, 10, 16; 138:38–39, 56; „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“ (Vonarstjarnan, júní 1996)

Úr sögu okkar

Hinn 28. apríl 1842 sagði spámaðurinn Joseph Smith við Líknarfélagssystur: „Ykkur veitast nú þær aðstæður að geta starfað samkvæmt þeirri samkennd sem Guð hefur blásið [ykkur] í brjóst. … Englar munu ekki fá haldið að sér höndum við að aðstoða ykkur, ef þið lifið samkvæmt forréttindum ykkar.“3

Zina D. H. Young, þriðja aðalforseta Líknarfélagsins, var ljós geta Líknarfélagsins til að þjóna öðrum og stuðla að aukinni trú einstaklinga, en hún sagði: „Ef þið viljið leita djúpt í hjarta ykkar, munuð þið, með hjálp anda Drottins, finna hina dýrmætu perlu, vitnisburð um þetta verk.“4

Heimildir

  1. Julie B. Beck, „‚Dætur í ríki mínu‘: Saga og starf Líknarfélagsins,“ Aðalráðstefna, okt. 2010.

  2. Dieter F. Uchtdorf, „Vegur lærisveinsins,“ Aðalráðstefna, apríl 2009, 72.

  3. Joseph Smith, í History of the Church, 4:605.

  4. Zina D. H. Young, „How I Gained My Testimony of the Truth,“ Young Woman’s Journal, apríl 1893, 319.

Hvað get ég gert?

  1. Hvernig get ég hjálpað systrum mínum að þroskast sem dætur Guðs?

  2. Hvernig get ég hagnýtt mér leiðsögnina og aðvörunina til kvenna í Kenningu og sáttmálum 25?