2010
Leið ykkar að musterinu
október 2010


„Leið ykkar að musterinu,“ Líahóna Október 2010, 72–75

Fyrir börn

Leið ykkar að musterinu

Vitið þið hvaða musteri er næst ykkur? Teiknið mynd af því musteri og hengið hana þar sem þið getið séð hana daglega.

Musterið er hús Drottins. Það er staður þar sem við lærum um himneskan föður, gerum sáttmála (eða loforð) við hann og meðtökum stórkostlegar blessanir. Í musterinu gerum við mikilvægt verk fyrir okkur sjálf og fjölskyldumeðlimi sem hafa dáið. Verkið sem unnið er í musterinu er meðal annars skírn fyrir dána, musterisgjöf og innsiglanir. Þetta kallast helgiathafnir musterisins.

Það sem fer fram í musterinu

Skírn fyrir dána

Þegar þið eruð átta ára gömul, getið þið verið skírð og staðfest sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Margir áar ykkar hafa dáið án þess að vera skírðir og staðfestir. Þó að líkamar þeirra séu dánir, þá lifa andar þeirra enn í andaheiminum, þar sem hægt er að kenna þeim fagnaðarerindið.

Þegar þið verðið 12 ára gömul, getið þið farið í musterið og hjálpað þessu fólki með því að skírast og vera staðfest í þeirra þágu. Þau geta svo valið hvort að þau vilja meðtaka skírnina og staðfestinguna. Þið verðið í hvítum fötum þegar þið skírist fyrir hina dánu, alveg eins og þegar þið skírðust sjálf.

Biðjið foreldra ykkar að hjálpa ykkur að skrá þá fjölskyldumeðlimi sem hafa dáið án skírnar í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Komist að því hvort einhver hafi farið í musterið til að skírast fyrir þá.

Musterisgjöfin

Ein mesta blessun musterisins er musterisgjöfin. Musterisgjöf er „gjöf“: Þegar þið meðtakið musterisgjöf ykkar munið þið læra meira um sáluhjálparáætlunina og gera sáttmála. Sáttmálar eru loforð sem við gerum við himneskan föður. Þegar þið haldið þessa sáttmála, búið þið ykkur undir að dvelja hjá himneskum föður og Jesú Kristi einhvern daginn.

Inni í musterinu er fallegt, friðsælt herbergi sem kallast himneska herbergið. Í himneska herberginu skynjum við nærveru himnesks föður og Jesú Krists og fáum örlitla tilfinningu fyrir því hvernig það verður að búa með þeim í himneska ríkinu.

Innsiglun um tíma og eilífð

Þegar karl og kona ganga í hjónaband í musterinu, krjúpa þau við altari og eru innsigluð um tíma og alla eilífð. Það þýðir að þau og börn þeirra verða sameinuð sem eilíf fjölskylda. Ráðgerið að giftast í musterinu einhvern daginn. Það er mesta blessun musterisins.

Musterismeðmæli

Musterið er heilagur staður. Biskupar og greinarforsetar sjá til þess að þeir sem fara í musterið séu undirbúnir og verðugir. Áður en þið farið í musterið, munið þið eiga sérstakt viðtal við biskup ykkar eða greinarforseta. Hann mun spyrja ykkur hvort að þið eigið vitnisburð um kirkjuna, haldið boðorðin, styðjið kirkjuleiðtoga, hlýðið Vísdómsorðinu, borgið tíund og eruð heiðarleg í öllu sem þið gerið og segið. Hann mun hjálpa ykkur að vita hvað þarf að gera til að vera verðugur þess að fara í musterið.

Búið ykkur nú undir inngöngu í musterið

Himneskur faðir veitir þeim margar blessanir sem lifa réttlátlega og sækja musterið. Það er mikilvægt að undirbúa sig fyrir musterisför þegar þið eruð ung.

Himneskur faðir elskar ykkur og vill að þið meðtakið blessanir musterisins. Hann mun blessa ykkur fyrir að taka þátt í helgiathöfnum musterisins fyrir ykkur sjálf og aðra. Þótt þið getið ekki farið í musterið núna, getið þið heimsótt musterislóð, ef það er musteri nálægt ykkur og fundið andann sem er þar. Þið getið einnig haft mynd af musterinu á heimili ykkar til að minna ykkur á mikilvægi musterisins. Lifið réttlátlega svo þið verðið verðug þess að fara í musterið.

Horfið á spegilinn á myndinni. Sum innsiglunarherbergi eru með slíka spegla. Vegna innsiglanna í musterinu, geta fjölskyldur okkar haldið áfram að eilífu, eins og endurspeglunin í þessum speglum.

Skoðið himneska herbergið á þessari mynd og á myndinni á síðu 64. Hvernig líður ykkur þegar þið sjáið himneskt herbergi?

Boston-musterið, Massachusetts Vígt 1. október 2000.

Innsiglunarherbergi, Aba-musterið Nígeríu.

Himneska herbergið í Nuku´alofa-musterinu á Tonga.