2010
Hið heilaga musteri
október 2010


Boðskapur heimsóknarkennara, október 2010

Hið heilaga musteri

Í musterunum geta verðugir kirkjuþegnar tekið þátt í hinum háleitustu endurlausnarathöfnum sem opinberaðar hafa verið mannkyni.

Í musterunum getum við tekið þátt í hinum háleitustu helgiathöfnum upphafningar og endurlausnar.

Löngun til musterisfarar vaknar af mörgum ástæðum. Sjálft útlit musterisins gefur til kynna djúpan, andlegan tilgang þess. Sá andlegi tilgangur er þó enn greinilegri innan veggja þess. Yfir dyrum musterisins er þessi lofgjörð: „Helgað Drottni.“ Þegar við göngum inn í vígt musteri erum við í húsi Drottins.

Í musterunum geta verðugir kirkjuþegnar tekið þátt í hinum háleitustu endurlausnarathöfnum sem opinberaðar hafa verið mannkyni. Þar getum við, hvert og eitt, fengið laugun, smurningu, leiðsögn, musterisgjöf og innsiglun með heilagri athöfn. Og eftir að við höfum sjálf hlotið þessar blessanir, getum við meðtekið þær fyrir þá sem dáið hafa án þess að hafa gefist þetta tækifæri. Í musterunum eru þessar helgiathafnir framkvæmdar jafnt fyrir lifendur og látna.

Helgiathafnir musterisins eru einfaldar, fagrar og heilagar

Vandlegur lestur á ritningunum sýnir, að Drottinn hefur ekki sagt öllum allt. Nokkur ákveðin skilyrði voru forsenda þess að meðtaka heilaga fræðslu. Helgiathafnir musterisins eru í þeim flokki.

Við ræðum ekki helgiathafnir musterisins utan musteranna. Það var þó aldrei ætlunin að vitneskjan um þessar musterisathafnir takmarkaðist við fáeina útvalda, sem bæri sú skylda að tryggja, að aðrir væru ófróðir um þær. Þessu er í raun algerlega öfugt farið. Af miklum krafti hvetjum við hverja sál að reynast verðug musterisins og búa sig undir það. Þeir sem í musterin hafa farið hafa lært þetta: Einhvern tíma mun hver lifandi sál og hver sál sem lifað hefur fá tækifæri til að heyra fagnaðarerindið, og taka á móti eða hafna því sem musterið hefur fram að færa. Sé því tækifæri hafnað, er það einstaklingurinn sjálfur sem það gerir.

Helgiathafnir musterisins eru einfaldar. Þær eru fagrar. Þær eru heilagar. Þær eru trúnaðarmál, svo að þær veitist ekki þeim sem ekki eru undir þær búnir. Forvitni er ekki undirbúningur. Einlægur áhugi er í sjálfu sér ekki undirbúningur. Undirbúningur fyrir þessar helgiathafnir felur í sér ákveðin frumskref: Trú, iðrun, skírn, staðfestingu, verðugleika, þroska og virðuleika er hæfir þeim sem boðið er að koma sem gestur í hús Drottins.

Þeir sem verðugir eru geta farið í musterið

Allir sem verðugir eru og uppfylla sett skilyrði á allan hátt geta farið í musterið og kynnst þar hinum helgu siðum og athöfnum.

Þegar þið hafið öðlast skilning á gildi musterisblessananna og helgi þeirra athafna sem framkvæmdar eru í musterinu, munuð þið tæplega bera brigður á þau skilyrði sem Drottinn hefur sett fyrir inngöngu í hið heilaga musteri.

Þið verðið að hafa gild musterismeðmæli. Réttmætir embættismenn kirkjunnar verða að undirrita meðmælin. Aðeins þeir sem verðugir eru geta farið í musterið. Biskup eða greinarforseti á svæði ykkar hefur þá ábyrgð að kanna verðugleika ykkar, áður en þið getið tekið á móti helgiathöfnum musterisins. Slíkt viðtal er afar mikilvægt, því að það veitir okkur tækifæri til að kanna með vígðum þjóni Drottins þá stefnu sem líf okkar hefur tekið. Sé eitthvað í ólagi, getur biskupinn hjálpað okkur að lagfæra það. Í ferli þessu getið þið reynst verðug eða fengið hjálp til að verða verðug þess að fara í musterið með samþykki Drottins.

Viðtal vegna musterismeðmæla fer fram í einrúmi milli biskupsins og viðkomandi kirkjuþegns. Þar er umsækjandinn spurður nærgöngullra spurninga varðandi breytni sína og verðugleika og tryggð sína við kirkjuna og embættismenn hennar. Umsækjandinn verður að staðfesta, að hann sé siðferðilega hreinn og haldi Vísdómsorðið, greiði fulla tíund, lifi í samræmi við kenningar kirkjunnar og hafi ekki sameinast eða sýnt samstöðu með fráhvarfshópum. Biskupnum er gert að gæta fulls trúnaðar í meðferð þessara mála gagnvart hverjum einstökum viðmælanda.

Fullnægjandi svör við spurningum biskupsins staðfesta oftast verðugleika einstaklings til musterismeðmæla. Ef umsækjandi hefur ekki haldið boðorðin, eða eitthvað þarfnast leiðréttingar í lífi hans, er nauðsynlegt að hann sýni sanna iðrun áður en musterismeðmæli eru veitt.

Eftir að biskup hefur lokið viðtalinu verður stikuforseti einnig að eiga viðtal við ykkur áður en þið getið hlotið helgiathafnir musterisins.

Kennslan í musterinu er táknræn

Áður en farið er í musterið í fyrsta sinn, eða jafnvel eftir margar ferðir, er gagnlegt að gera sér ljóst, að kennslan í musterunum er táknræn. Drottinn, meistari kennaranna, gaf mikið af leiðbeiningum sínum á þann hátt.

Musterið er mikill skóli. Það er hús fræðslu. Í musterunum er andrúmsloftið slíkt, að kjörið er til fræðslu á mjög andlegum málum. Hinn látni öldungur John A. Widtsoe, í sveit postulanna tólf, var virtur háskólarektor og heimsþekktur fræðimaður. Hann bar mikla lotningu fyrir musterisverkum og sagði eitt sinn:

„Helgiathafnir musterisins spanna alla sáluhjálparáætlunina, eins og leiðtogar kirkjunnar hafa kennt hana gegnum árin, og skýra ýmsa hluti sem erfitt er að skilja. Það er engum erfiðleikum bundið að fella kenningar musterisins inn í hina miklu sáluhjálparáætlun. Heimspekileg fullkomnun musterisgjafarinnar er ein megin rökin fyrir áreiðanleika musterisverkanna. Auk þess gerir þetta nákvæma yfirlit og þessi fullkomna skýring á áætlun fagnaðarerindisins musterisþjónustuna eina áhrifaríkustu leiðina til að skerpa minni okkar á allri uppbyggingu fagnaðarerindisins“ („Temple Worship,“ Utah Genealogical and Historical Magazine, apríl 1921, 58).

Ef þið farið í musterið og hafið í huga, að kennslan er táknræn, og ef þið farið þangað með réttu hugarfari, þá munuð þið aldrei koma þaðan út án þess að hafa fengið aukna sýn og fundið til aukinnar upphafningar og án þess að andleg þekking ykkar hafi aukist. Kennslan er framúrskarandi vel fram sett. Hún er innblásin. Drottinn sjálfur, meistari kennaranna, kenndi lærisveinum sínum stöðugt með dæmisögum — sem eru táknmál um það, er annars væri erfitt að skilja.

Musterið sjálft verður táknrænt. Ef þið hafið séð eitthvert musterið uppljómað að kvöldi, vitið þið hve áhrifarík sjón það getur verið. Hús Drottins, baðað ljósi, ljómandi í myrkrinu, verður tákn kraftar og innblásturs fagnaðarerindis Jesú Krists og stendur sem leiðarljós í heimi, er sífellt sekkur dýpra í andlegt myrkur.

Þegar þið komið til musterisins farið þið úr venjulegum fötum í hvítan musterisfatnað. Þau fataskipti eiga sér stað í búningsherbergi, þar sem hver og einn fær skáp og klefa algerlega út af fyrir sig. Í musterinu er hæverska vandlega í heiðri höfð. Um leið og þið setjið föt ykkar í skápinn skiljið þið þar eftir veraldleg mál ykkar og áhyggjur og annað sem glapið getur hugann. Þið stígið út úr þessum litla einkabúningsklefa hvítklædd og finnið fyrir einingu og jöfnuði, því allir eru þar líkt klæddir.

Musterishjónaband er loka helgiathöfn musterisins

Þau ykkar sem hyggist gifta ykkur í musterinu gætuð viljað vita hvað á sér stað. Við vitnum ekki í innsiglunarorð (hjónavígsluorð) helgiathafnar utan musterisins, en við getum greint frá því að innsiglunarherbergið er fagurt, kyrrlátt og hátíðlegt og helgað af því heilaga verki sem þar er framkvæmt.

Áður en hjónaefnin ganga að altarinu eru það forréttindi embættismannsins sem framkvæmir innsiglunina að gefa, og brúðhjónanna að meðtaka, nokkrar ráðleggingar. Við það tækifæri gætu ungu hjónin meðal annars hlýtt á orð sem þessi:

„Í dag er giftingardagur ykkar. Hugur ykkar er bundinn þessari hjónavígslu. Musterið var reist sem helgidómur fyrir afhafnir sem þessa. Við erum ekki í heiminum. Hið veraldlega á ekki heima hér og ætti engin áhrif að hafa á það sem hér fer fram. Við komum úr heiminum inn í musteri Drottins. Þetta verður þýðingarmesti dagur ævi ykkar.

Þið fæddust inn í þetta líf af foreldrum, sem bjuggu öndum ykkar dauðlegt musteri til að búa í. Þið hafið bæði verið skírð. Skírnin, hin helga athöfn, táknar hreinsun, táknar dauða og upprisu, táknar endurnýjun lífsins. Hún felur í sér iðrun og fyrirgefningu syndanna. Sakramentið er endurnýjun skírnarsáttmálans, og við getum með réttu líferni hlotið fyrirgefningu syndanna.

Þú, brúðguminn, varst vígður til prestdæmisins. Þú fékkst fyrst Aronsprestdæmið og hefur sennilega gegnt öllum embættum þess — djákna, kennara og prests. Þá kom sú stund, er þú reyndist verðugur þess að meðtaka Melkísedeksprestdæmið. Þetta prestdæmi, hið æðra prestdæmi, er skilgreint sem prestdæmið eftir hinni helgustu reglu Guðs, eða hið heilaga prestdæmi eftir reglu Guðssonarins (sjá Alma 13:18; Helaman 8:18; Kenningu og sáttmála 107:2–4). Þú hlaust embætti í prestdæminu. Þú ert nú öldungur.

Bæði hafið þið fengið musterisgjöf ykkar. Í henni fenguð þið innsýn í eilífa möguleika ykkar. Allt var það þó að nokkru inngangur og undirbúningur að komu ykkar að þessu altari, þar sem þið verðið innsigluð sem eiginmaður og eiginkona um alla eilífð. Þið verðið nú fjölskylda, ykkur er frjálst að taka þátt í sköpun lífsins, þið fáið tækifæri með hollustu og fórnfýsi að leiða börn inn í heiminn, ala þau upp og styðja þau heilu og höldnu í dauðlegri tilveru þeirra; sjá þau koma, eins og þið hafið komið, til að taka þátt í þessum helgu musterisverkum.

Þið komið af fúsum vilja og hafið reynst verðug. Að taka á móti hvort öðru í hjónabandssáttmálanum er mikil ábyrgð, ábyrgð sem felur í sér ótakmarkaðar blessanir.“

Innsiglunarvaldið bindur á jörðu og á himni

Ef við eigum að skilja bæði sögu og kenningu musterisverka, verðum við að skilja hvað innsiglunarvaldið er. Við þurfum að sjá, a.m.k. að einhverju leyti, hvers vegna lyklavöldin að framkvæmd innsiglunar hafa úrslitaþýðingu.

„Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: Hvern segja menn Mannssoninn vera? …

Símon Pétur svarar: Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.

Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum.

Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.

Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum“ (Matt 16:13, 16–19). 16:13).

Pétur átti að hafa lyklana. Pétur átti að hafa innsiglunarvaldið, valdið sem hefur kraft til að binda eða innsigla á jörðu eða leysa á jörðu, og þannig yrði það einnig á himnum. Þessir lyklar tilheyra forseta kirkjunnar — spámanninum, sjáandanum og opinberaranum. Hið heilaga innsiglunarvald er í kirkjunni nú. Þeim sem þekkja þýðingu þess valds er ekkert eins heilagt. Ekki er farið eins varlega með neitt annað. Það eru tiltölulega fáir menn sem hafa innsiglunarvald á jörðu á hverjum tíma — í hverju musteri eru prestdæmishafar sem hafa fengið innsiglunarvaldið. Spámaðurinn, sjáandi, opinberari og forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, er sá eini sem getur veitt það.

Spámaðurinn Joseph Smith sagðist oft hafa verið spurður þessarar spurningar: „‚Getum við ekki orðið hólpin án allra þessara helgiathafna, o.s.frv.?‘ Ég svaraði þá: Nei, við getum ekki hlotið fyllingu sáluhjálparinnar. Jesús sagði: ‚Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?‘ [Sjá Jóh 14:2.] Í stað orðsins vistarverur, sem hér er notað, ætti að standa ríki, og hver sá sem upphafinn er til hins æðsta ríkis verður að lifa samkvæmt himnesku lögmáli, samkvæmt öllu lögmálinu“ (í History of the Church, 6:184).

Musterisverk er uppspretta andlegs kraftar

Musterin eru sjálfur kjarni andlegs styrks kirkjunnar. Við ættum að vera við því búin, að andstæðingurinn láti okkur ekki afskiptalaus, hvorki kirkjuna sem heild né okkur sem einstaklinga, þegar við leitumst við að taka þátt í þessu heilaga og innblásna verki. Musterisverk mæta mikilli andstöðu vegna þess að þau veita Síðari daga heilögum og allri kirkjunni mikinn andlegan kraft.

Þegar hornsteinninn var lagður að Logan-musterinu mælti George Q. Cannon forseti, þá í Æðsta forsætisráðinu, þessi orð:

„Sérhver grundvallarsteinn sem lagður er að musteri, og hvert fullgert musteri, byggt samkvæmt þeirri reglu sem Drottinn hefur opinberað heilögu prestdæmi sínu, slævir kraft Satans á jörðu, og eykur kraft Guðs og guðleikans, hrærir himnana með máttugum krafti í okkar þágu, kallar yfir okkur blessanir hinna eilífu guða, og þeirra sem dvelja í návist þeirra“ (í „The Logan Temple,“ Millennial Star, 12. nóv., 1877, 743).

Þegar kirkjuþegnar eru áhyggjufullir, eða þegar afgerandi ákvarðanir hvíla þungt á huga þeirra, er algengt að þeir fari til musterisins. Gott er að fara þangað með áhyggjur sínar. Í musterinu getum við hlotið andlega innsýn. Þar, meðan á musterisþjónustunni stendur, erum við komin „út úr heiminum.“

Stundum er hugur okkar svo fullur af vandamálum og svo margt sem krefst athygli okkar samtímis, að við getum einfaldlega ekki hugsað eða séð skýrt. Í musterinu virðist athyglisgáfan skerpast, þokunni og mistrinu léttir, og við „sjáum“ það sem við gátum ekki séð áður, og finnum áður óþekkta leið út úr erfiðleikunum.

Drottinn mun blessa okkur þegar við vinnum hin helgu verk, sem framkvæmd eru í musterunum. Blessanirnar þar takmarkast ekki við musterisþjónustu okkar. Við munum blessuð í öllu er okkur varðar.

Verk okkar í musterinu verða okkur skjöldur og vernd

Ekkert verndar kirkjuna betur en musterisverk og ættfræðirannsóknir, sem styðja þau. Ekkert verk veitir meiri andlega siðfágun. Ekkert verk sem við vinnum veitir okkur meiri kraft. Ekkert verk gerir meiri kröfur til réttlætiskenndar.

Verk okkar í musterinu verða okkur skjöldur og vernd, bæði sem einstaklingum og heild.

Komið því til musterisins — farið og sækið blessanir ykkar. Þetta er heilagt verk.