2021
Hlý tilfinning
Mars 2021


Hlý tilfinning

Höfundur býr í Gvatemala, Gvatemala.

„Ég mun umlykja þig elskuríkum örmum mínum“ (Kenning og sáttmálar 6:20).

Ljósmynd
A young Guatemalan boy in the font after being baptized hugging his father. Boy in bed with stomach pains Boy in hospital bed with his parents at his side.

Það var fallegur og heiðskír morgunn í San José Pinula, litlum bæ nálægt Gvatemala-borg. „Ég get ekki beðið!“ sagði Joshua við litlu systur sína. Í dag var skírnardagurinn hans!

Joshua og Papá klæddu sig í hvít föt þegar fjölskyldan var komin í kirkjuna. Í fyrstu var Joshua svolítið óstyrkur. Papá hélt þó í hönd hans þegar þeir gengu niður tröppurnar í skírnarfontinn og þá var hann ekki jafn óstyrkur. Þegar Joshua kom upp úr vatninu brosti hann sínu breiðasta.

Joshua og Papá skiptu í þurr föt. Síðan lögðu frændur og afi Joshua og Papá hendur sínar á höfuð Joshua. Þeir staðfestu hann sem meðlim Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Joshua heyrði Papá segja: „Meðtak hinn heilaga anda.“

„Ég er svo glaður!“ sagði hann þegar hann gaf Papá stórt faðmlag.

„Mundu loforðin sem þú gafst í dag,“ sagði Papá. „Ef þú gerir það, getur heilagur andi alltaf verið hjá þér. Þú verður í raun aldrei aleinn.“

Nokkrum mánuðum síðar vaknaði Joshua grátandi einn morguninn. Hann var með svo mikla magapínu. „Mamá!“ hrópaði Joshua úr rúminu. „Mér er rosalega illt í maganum!“

Honum leið verr og verr í maganum. Hann gat ekki einu sinni gengið. Papá veitti Joshua prestdæmisblessun, svo fóru hann og Mamá með Joshua til læknis.

Læknirinn sagði að Joshua þyrfti að fara í uppskurð undireins. Það var ógnvekjandi.

„Við förum með þig í sérstakt herbergi fyrir skurðaðgerðina,“ sagði læknirinn. „Þú munt ekki finna neitt fyrir því, af því að þú verður sofandi. Foreldrar þínir bíða eftir þér rétt fyrir utan.“

Joshua varð enn hræddari. Hvers vegna gátu foreldrar hans ekki komið inn í herbergið með honum? Hann gat ekki hætt að gráta.

Mamá talaði blítt til hans. „Hvað getum við gert til að hjálpa þér að líða betur?“ spurði hún.

„Ég veit hvað við getum gert,“ sagði hann. „Verið svo væn að syngja ‚Guðs barnið eitt ég er‘ með mér. Síðan skulum við segja aðra bæn.“

Þegar þau sungu hljóðlega, þá mundi Joshua eftir því að hafa sungið þetta lag í skírninni sinni. Þegar þau báðu, þá hugsaði hann til þess sem Papá sagði á skírnardaginn: „Heilagur andi getur alltaf verið hjá þér. Þú verður í raun aldrei aleinn.“

Joshua var enn hræddur þegar hjúkrunarfræðingarnir fóru með hann inn í skurðstofuna. Hann gat ekki séð andlit læknisins og hjúkrunarfræðinganna, þar sem þau voru með andlitsgrímur. En þegar hann horfði í augu þeirra vissi hann að þau voru vinir hans og myndu sjá vel um hann.

Eftir skurðaðgerðina sögðu læknarnir að Joshua þyrfti að hvílast. Hann var enn þreyttur og aumur, en sársaukinn í maganum var farinn. Hann þurfti ekki að gráta lengur. Hann vissi að allt yrði í lagi.

„Ég fann eitthvað í hjartanu,“ sagði Joshua við Mamá og Papá. „Það var hlý tilfinning.“

„Það er ein leið sem við finnum fyrir heilögum anda,“ sagði Mamá.

Joshua kinkaði kolli. Hann var glaður með að hafa fengið gjöf heilags anda. Vegna heilags anda myndi hann aldrei vera aleinn.