Jólasamkomur
Dýrð sé hans syni – og áætlun föðurins!


Dýrð sé hans syni – og áætlun föðurins!

Líkt og mörg ykkar, þá höfum ég og eiginmaður minn, Craig, unun af helgri jólatónlist. Ef við ættum að telja upp það sem er í okkar mesta uppáhaldi, þá væri sálmurinn „Guðs kristni í heimi“ vissulega ofarlega á blaði. Texti hans býr yfir „fögnuði“ og „sigri“ og hvetur okkur til að „krjúpa,“ „sjá“ og „lofa“ frelsara okkar, Jesú Krist – „konung englanna.“1 Ég er viss um að þegar við vorum í fortilverunni, að læra um sáluhjálparáætlunina, þá höfum við ekki aðeins lofað og reitt okkur á hann, heldur líka hrópað af gleði, er hann bauð sig auðmjúkur fram til að verða frelsari okkar.2 Hans fimm áhrifaríkustu og ljúfustu orð voru: „Hér er ég, send mig.“3

Pétur postuli brýndi fyrir okkur að „[vera] ætíð [reiðubúin] að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í [okkur] er.“4 Þegar ég segi ykkur frá nokkrum persónulegum jólaminningum, þá vona ég að þið skiljið hvers vegna ég set von mína á frelsarann, og „Guð [okkar eilífa föður, sem elskaði svo] heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn,“5 og hina fullkomnu og dýrðlegu sæluáætlun.

Jólaminning númer 1

Þegar ég var 14 ára, átti fjölskylda mín heima á Nýja Sjálandi. Faðir minn var ungur maður, á tvítugsaldri, þegar hann var kallaður til að þjóna sem trúboðsforseti.

Jólin komu og ég og fimm systkini mín vorum enn að laga okkur að hinu nýja heimili, fjarri hinu fyrra. Það reyndist mér erfitt – óhörnuðum unglingnum – að vera fjarri heimili, vinum og fjölskyldu. Ég var döpur, saknaði gamla umhverfisins og jólanna þar – tónlistarinnar, ljósanna, jólatrjánna, snjósins og einkum fjölskyldunnar. Ég saknaði míns ástkæra frændfólks, sem ég vissi að kæmi brátt saman í húsi afa Kjar í Salt Lake City, í hina árlegu jólaveislu Kjar-fjölskyldunnar.

Þetta var á aðfangadagskvöldi 1966. Ég hafði treglega komið saman með fjölskyldu minni og trúboðunum til að hafa fjölskyldukvöld á trúboðsheimilinu, sannfærð um að þessi viðburður yrði í besta falli léleg eftirlíking af fjölskylduboði Kjar-fjölskyldunnar, sem heimþrá mín stafaði af. Ég man ekki alveg á hvaða tímapuntki síminn hringdi, en það samtal breytti um leið mínu unglingshjarta, fyllti mig samúð til míns kæra föður og eftirsjá yfir að hafa verið svo sjálfmiðuð.

Það var frændi minn, Joe, sem hringdi og sagði okkur frá því að okkar ástkæri, óeigingjarni, vinnusamami, sáttmálstrúi Kjar afi hefði fengið alvarlegt hjartaáfall og lægi nú í dái á sjukrahúsi. Minningarnar flugu í gegnum huga minn um þennan ljósmyndaglaða, tónlistaunnanda og skemmtilega patríarka, sem okkur öllum þótti svo vænt um. Föður mínum var augljóslega brugðið, er hann kom til okkar eftir símtalið, en stillti sig og sýndi rósemd og bar innilegan vitnisburð um áætlun föðurins og trú sína á mikilvægu hlutverki frelsarans. Vitnisburður hans snerti mitt syrgjandi hjarta.

Afi náði sér því miður ekki. Hann fékk vægt andlát daginn eftir. Það var á jóladegi á Nýja-Sjálandi en á aðfangadagskvöldi í Salt Lake City, sem afa fannst besti dagur ársins. Andlát hans var mín fyrsta reynsla að missa einhvern sem var mér svo náinn og kær. Þótt ég hefði syrgt missi hans, naut ég blessunar og huggunar í þekkingu minni um hina dýrðlegu sæluáætlun. Ég var viss um að ég sæi afa aftur, ef ég hagaði lífi mínu á sama hátt og hann hafði gert. Mér fannst ég ekki skilja til fulls, á þessum tíma, hið mikilvæga hlutverk frelsarans og friðþægingar hans, í því að gera mér einhvern tíma mögulegt að sameinast ástvinum mínum. En ég vissi nóg til að fagna yfir áætluninni. Ég vissi nóg til að hrífast af honum, sem við minntumst að hefði fæðst.

Frá þessum löngu liðnu jólum, þá hefur mér lærst meira um frelsarann, Jesú Krist. Harold B. Lee forseti sagði: „Sonur Guðs … kom hingað sem hinn eingetni sonur, til að uppfylla ætlunarverk, til að vera lamb leitt til slátrunar, áður en grunnur var lagður að heiminum, til að gera hjálpræði mannkyns að veruleika. Með því að gefa líf sitt, lauk hann upp dyrum … og kenndi hvernig við getum öðlast eilíft líf. … Þannig var Jesús í öllum sínum mikilleika.“6

Jólaminning númer 2

Önnur sárljúf jólaminning er frá árinu 1984, þar sem ég varð aftur innilega þakklát fyrir frelsarann og hans dýrðlegu sáluhjálparáætlun. Ég var 32 ára, gift mínum ástkæra og trúfasta eiginmanni og móðir fjögurra yndislegra lítilla barna, á aldrinum þriggja til tíu ára. Þremur vikum fyrir jól bárust okkur tíðindi, sem umturnaði lífi okkar, er læknir greindi frá því að ég hefði greinst með krabbamein. Ég og Craig litum á hvort annað, trúðum vart eigin eyrum, börðumst gegn tárunum og hugsuðum hvað framtíðin myndi bera í skauti sér. Sú tilfinning sem við hins vegar upplifðum næst, var hinn ljúfi „friður … sem er æðri öllum skilningi,“7 sökum trúar okkar á Jesú Krist og áætlun föðurins.

Þótt Craig hefði á þessum tíma þjónað sem biskup deildar okkar, ákváðum við að segja aðeins fjölskyldu okkar þessi tíðindi, til að líf barnanna yrði eins eðlilegt og framast var unnt. Á þessum sex vikum fyrir jól, ók ég næstum daglega í snjó og hálku til meðferðar á göngudeild sjúkrahúsins – meðan ósérhlífnar mæður okkar og systur skiptust á að hjálpa með heimilið. Þetta var erfiður tími, en er ég hugsa um þessi jól, þá skortir mig orð til að lýsa mínu innilega þakklæti fyrir friðþægingu frelsara okkar, Jesú Krists, og „hina miskunnsömu áætlun skaparans mikla“8

Sæluáætlun himnesks föður varð mér enn persónulegri, er mér varð betur ljóst en áður hver lífið gat verið brothætt. Jólin voru öðruvísi þetta árið. Þótt ég elski allt við jólin, þá virtist mitt eilífa hjónaband, fjölskyldan mín vitnisburður minn og trú mín á himneskan föður og Jesú Krist, og það eina sem skipti máli.

Dag einn, þegar ég hvíldi mig heima, og hugsaði um framtíð fjögurra litlu barnanna minna, var ég að skoða tímaritið Friend og kom auga á lag sem þar var. Ég settist við píanóið og grét er ég söng það og skynjaði hinn ljúfa boðskap þess. Ég vissi að ég þyrfti að kenna þennan söng, ekki aðeins hinum mörgu börnum í Barnafélagi deildar okkar, þar sem ég þjónaði sem söngstjóri, heldur, það sem mikilvægara var, mínum fjóru dýrmætu börnum á heimili okkar voru.

Hvernig gat faðir uppfrætt oss um kærleik mildi’ og náð?

Hann sendi soninn, borið barn með blessað líknar ráð.

Hvernig gat Guð sýnt heiminum hvar lægi’ hin rétta leið?

Hann gerði soninn eitt með oss, svo gangan yrði greið.

Hvernig gat faðir frætt vorn heim um fórn, er setti’ oss frí?

Hann soninn sendi’ í dauðans djúp, í dýrð að rísa’ á ný.

Hvers væntir faðirinn af oss? Hvað segir ritningin?

Haf trú og von, lif sem hans son, sýn öðrum lífsins hnoss.

Hver er hans bón? Lif sem Guðs son. 9

Þessi innblásni söngur veitti mér aukinn skilning á því hvernig ég gæti sýnt mínum himneska föður þakklæti mitt fyrir son hans og áætlun hans. Ef ég hefði ekki átt kost á að njóta þeirra forréttinda að fá að sjá börn mín vaxa úr grasi, þá fannst mér að þau gætu orðið sannir lærisveinar Jesú Krists, ef þau gætu þekkt, skilið og heimfært hina einföldu en djúpu kenningu þessa helga söngs.

Það var sérstakur andi sem ríkti á heimili okkar þetta árið, sem blessaði okkur með friði og elsku til hvers annars, sem ég fæ seint gleymt. Mér fannst eins og börnum okkar væri á þessum jólum gefin einstakur skilningur á helgi jólanna. Aldrei áður og aldrei eftir þetta, hafa þau leikið fæðingu Jesú af slíkri lotningu, andakt og elsku, en þetta ljúfa ár. Þegar erfiðleikar koma upp, virðumst við eiga betur með að upplifa andleg áhrif, er við íhugum og færum þakkir fyrir gjöf frelsara okkar, Jesú Krists, og hina dýrðlegu áætlun himneks föður.

Ég velti oft fyrir mér hvernig fólk getur lifað án þeirrar vonar sem á rætur í skilningi á sáluhjálparáætluninni og hinu mikilvæga hlutverki sem friðþæging frelsarans gegnir í þeirri áætlun. Í þakklæti bæti ég mínum vitnisburði við máttugan vitnisburð okkar ástkæra spámanns, Thomas S. Monson forseta, sem sagði: „Ég ber vitni um hann, sem frelsaði sérhvert okkar frá óendanlegum dauða, já, Jesú Krist. Ég ber vitni um að hann er kennari sannleikans – en hann er meira en kennari. Hann er fyrirmynd að fullkomnu lífi – en hann er meira en fyrirmynd. Hann er hinn mikli læknir – en hann er meira en læknir. Sá sem bjargaði hinni ‚glötuðu baráttu‘ mannkyns, er raunverulegur frelsari heimsins, sonur Guðs, Friðarhöfðinginn, Hinn heilagi Ísrael – já, hinn upprisni Drottinn – sem sagði: ‚Ég er hinn fyrsti og hinn síðasti; ég er sá sem lifir, ég er sá sem var deyddur; ég er málsvari yðar hjá föðurnum‘ [K&S 110:4].“10

Þegar við íhugum hina óviðjafnanlegu fórn hans fyrir okkur, eru þessi fimm orð meðal þeirra dapurlegustu sem frelsarinn hefur sagt: „Ætlið þér að fara líka?“11 Þegar lífið verður erfitt, getum við kosið að snúa frá honum og takast ein á við erfiðleikana eða ákveðið að koma til hans og áætlunar föðurins, og uppgötvað að „allar þrengingar [okkar hverfa] í fögnuði Krists.“12 Bæn mín í þágu okkar allra, er sú að við tökum á móti boði hins helga jólasálms, um að „dýrð sé hans syni“ og föður okkar á himni, fyrir hans dýrðlegu og fullkomnu áætlun! Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „Guðs kristni í heimi,“ Sálmar, nr. 85.

  2. Sjá Job 38:7.

  3. Abraham 3:27.

  4. 1 Kor 3:15.

  5. Jóh 3:16.

  6. Teachings of Presidents of the Church: Harold B. Lee (2000), 18.

  7. Fil 4:7.

  8. 2 Ne 9:6.

  9. „Hann sendi soninn,“ Barnasöngbókin, 20–21; sjá einnig Friend, des. 1984.

  10. Thomas S. Monson, „Today Determines Tomorrow,“ Ensign, nóv. 1998; 51.

  11. Jóh 6:67.

  12. Alma 31:38.