Kom, fylg mér 2024
5.–11. ágúst: „Hin mikla sæluáætlun.“ Alma 39–42


„5.–11. ágúst: ‚Hin mikla sæluáætlun.‘ Alma 39–42,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2023)

„5.–11. ágúst. Alma 39–42,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2023)

Ljósmynd
Jesús stígur úr gröfinni

Hann er risinn, eftir Del Parson

5.–11. ágúst: „Hin mikla sæluáætlun“

Alma 39–42

Þegar ástvinur gerir alvarleg mistök, getur reynst erfitt að vita hvernig bregðast skuli við. Hluti af því sem gerir versin í Alma 39–42 svo dýrmæt, er að þau sýna hvernig Alma – lærisveinn Krists, sem eitt sinn iðraðist sjálfur þungbærra synda – brást við í slíkum aðstæðum. Kóríanton, sonur Alma, hafði drýgt kynlífssynd og Alma treysti því, eins og hann hafði lært í þjónustu sinni, að kraftur hinnar sönnu kenningar veitti syni hans eilífa yfirsýn og leiddi hann til iðrunar (sjá Alma 4:19; 31:5). Í þessum kapítulum sjáum við einurð Alma við að fordæma synd og ljúfmennsku hans og kærleik í garð Kóríantons. Í lokin skynjum við traust Alma á að frelsarinn „komi til að bera burtu syndir [og] boða fólki sínu fagnaðarerindi um hjálpræði“ (Alma 39:15). Sú staðreynd að Kóríanton iðraðist og sneri aftur til þjónustu sinnar (sjá Alma 49:30) getur veitt okkur von um fyrirgefningu og endurlausn þegar eigin syndir eða syndir einhvers annars valda okkur „hugarangri“ (Alma 42:29).

Sjá einnig „Alma Counsels His Sons“ (myndband), Gospel Library.

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Alma 39

Ljósmynd
seminary icon
Ég get forðast kynlífssyndir.

Leiðsögn Alma til sonar síns Kóríantons í Alma 39 er tilvalin til að fræðast um hörmuleg áhrif kynlífssyndar, þar á meðal klámefnis. Mikilvægara er ef til vill að það getur líka hjálpað ykkur að skilja boð frelsarans um fyrirgefningu og lækningu fyrir þá sem iðrast. Þessar spurningar og verkefni geta hjálpað:

  • Hvaða mistök leiddu til þess að Kóríanton braut skírlífislögmálið? (sjá Alma 39:2–4, 8–9). Hverjar voru afleiðingar gjörða hans? (sjá vers 5–13). Hvaða vísbendingar höfum við um að Kóríanton hafi iðrast? (sjá Alma 42:31; 49:30; 48:18). Hvað lærum við um frelsarann af þessari upplifun?

  • Lesið síður 19–20 í Til styrktar ungmennum: Leiðarvísir að ákvarðanatökum. Skrifið síðan ykkar eigin skýringu á því hvað klámefni er, af hverju það er hættulegt og hvað þið munuð gera þegar það verður á vegi ykkar. (Sjá einnig Matteus 5:27–28 og Kenning og sáttmálar 63:16.)

  • Hvernig mynduð þið útskýra fyrir vini ástæðu þess að þið kjósið að forðast klámefni og lifa eftir skírlífislögmálinu? Hvaða skilningi getið þið miðlað í „Líkami þinn er heilagur“ í Til styrktar ungmennum: Leiðarvísir að ákvarðanatökum (síður 22–29)?

  • Íhugið að horfa á myndbandið „To Look Upon“ (Gospel Library). Gerið hlé á myndbandinu í hvert sinn sem David hefði getað tekið aðra ákvörðun. Hvernig eru ákvarðanir Davids svipaðar þeim sem þið gætuð tekið?

Gerið hlé til að íhuga. Þegar þið horfið á myndband, hvort sem þið eruð að kenna eða læra á eigin spýtur eða ekki, skulið þið af og til gera hlé á myndbandinu til að spyrja: „Hvað er ég að læra?“ Þetta getur kallað fram skilning frá heilögum anda.

Sjá einnig Bradley R. Wilcox, „Verðugleiki er ekki óaðfinnanleiki,“ aðalráðstefna, október 2021; „Pornography“ í safninu „Life Help“ í Gospel Library.

Alma 40–41

Hvað verður um mig eftir dauðann?

Kóríanton hafði nokkrar spurningar um það sem gerist eftir dauðann. Áhyggjur hans fengu Alma til að kenna reglurnar sem eru í Alma 40–41. Þegar þið lærið skuluð þið skrá þann sannleika sem þið finnið til að mynda um andaheiminn, upprisu og dóm. Íhugið að lesa þessa kapítula út frá sjónarhorni einhvers eins og Kóríantons, sem þarf að iðrast – sem vissulega á við um okkur öll.

Alma 40

Ég get leitað svara við spurningum mínum í trú á Jesú Krist.

Stundum gætum við haldið að spámennirnir kunni svör við öllum spurningum um fagnaðarerindið. En gætið að þeim ósvöruðu spurningum sem Alma hafði í kapítula 40. Hvað gerði hann til að hljóta svör? Hvað gerði hann þegar hann þekkti ekki svörin? Hvernig getur fordæmi Alma hjálpað ykkur?

Ljósmynd
biðjandi kona

Bænin er ein leið til að hljóta svör við trúarlegum spurningum okkar.

Alma 42

Friðþæging Jesú Krists gerir sáluhjálp mögulega.

Kóríanton trúði því að refsing fyrir syndir væri ósanngjörn (sjá Alma 42:1). Hvernig tókst Alma á við áhyggjuefni hans í Alma 42? Þið gætuð skipt ritningarhlutum í þessum kapítula í tvo hluta: „Guð er réttlátur“ og „Guð er miskunnsamur.“ Hvernig gerir friðþæging frelsarans bæði réttlæti og miskunn mögulega? Leitið að frekari skilningi í myndbandinu „The Mediator“ (Gospel Library).

Sjá einnig „Þá ást og visku veitti hann,“ Sálmar, nr. 69.

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Alma 39:1, 10–11

Mitt góða fordæmi getur leitt aðra til Krists.

  • Leiðsögn Alma til Kóríantons getur hjálpað börnum ykkar að skilja mikilvægi þess að sýna gott fordæmi. Íhugið að lesa saman Alma 39:1. Hvernig var Síblon, bróðir Kóríantons, gott dæmi? Börn ykkar gætu fundið fleiri svör við þessari spurningu í Alma 38:2–4.

  • Þið gætuð líka farið í leik þar sem þið og börn ykkar skiptist á um að fylgja eða herma eftir hvert öðru. Notið þennan leik til að útskýra hvernig atferli okkar getur hjálpað öðrum að taka góðar ákvarðanir. Syngið saman „Lýs þú“ (Barnasöngbókin, 96) og hjálpið börnum ykkar að íhuga hvernig þau geta sýnt gott fordæmi.

  • Þið gætuð líkt vasaljósi eða mynd af sólinni við áhrifamátt þess að sýna gott fordæmi. Þið og börn ykkar gætuð líka horft á myndir af Jesú Kristi gera góðverk og rætt fordæmið sem hann setti okkur. Myndböndin „Shine Your Light So Others May See“ og „Lessons I Learned as a Boy“ geta hjálpað börnum ykkar að ræða hvernig fordæmi þeirra getur leitt aðra til Krists.

Alma 39:9–13

Ég get iðrast þegar mér verður á vegna Jesú Krists.

  • Án þess að fara út í smáatriði um eðli syndar Kóríantons, gætuð þið útskýrt að hann hafi tekið ranga ákvörðun. Hvað myndum við segja honum til hjálpar? Íhugið að lesa Alma 39:9 fyrir börn ykkar og hjálpið þeim að skilja merkingu orðanna iðrun og láta af. Berið vitni um að iðrun sé möguleg með hjálp Jesú Krists og friðþægingar hans.

  • Hér er sýnikennsla til að útskýra gleði iðrunar: Fáið barni eitthvað þungt til að halda á meðan þið segið sögu um einhvern sem gerði eitthvað rangt og leið illa. Segið börnum ykkar að þungi hluturinn sé eins og slæmar tilfinningar sem við gætum haft þegar við gerum mistök. Takið þunga hlutinn frá barninu þegar þið berið vitni um að himneskur faðir og Jesús Kristur geti tekið burtu íþyngjandi, slæmar tilfinningar og hjálpað okkur að verða betri þegar við iðrumst.

Alma 40:6–7, 11–14, 21–23

Eftir að við deyjum fer andi okkar til andaheims fram að upprisu og dómi.

  • Það er eðlilegt að velta fyrir sér hvað um okkur verður eftir að við deyjum. Hvað getið þið gert til að hjálpa börnum ykkar að finna innblásin svör? Þið gætuð skrifað dauði, andaheimur (paradís og andafangelsi), upprisa og dómur á aðskilin blöð. Hjálpið börnum ykkar að skilja merkingu þessara orða. Þegar þið lesið saman Alma 40:6–7, 11–14, 21–23, gætu börn ykkar raðað orðunum í sömu röð og þau koma fyrir í þessum versum.

  • Eldri börn gætu haft gagn af því að finna svör við spurningum með því að leita í Alma 40:6–7, 11–14, 21–23. Íhugið að spyrja börn ykkar spurninga sem þessi vers gætu svarað, til að mynda: „Hvernig verður líkami minn þegar ég rís upp?“ Bjóðið þeim að leita svara í viðeigandi versum.

    Ljósmynd
    María og Jesús

    María og Drottinn upprisinn, eftir Harry Anderson

  • Þekktu börn ykkar einhvern sem hefur dáið? Þið gætuð ef til vill rætt stuttlega um þann einstakling. Gefið vitnisburð ykkar um að einhvern daginn muni hún eða hann – og allir aðrir – verða reist upp vegna Jesú Krists. Ef þörf er á, notið þá verkefnasíðu þessarar viku til að útskýra merkingu þess að vera reist upp.

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
Alma og Kóríanton

Þetta er sonur minn, eftir Elspeth Caitlin Young