Kom, fylg mér 2024
3.–9. júní: „Þeir voru staðfastir og óhagganlegir.“ Mósía 29–Alma 4


„3.–9. júní: ,Þeir voru staðfastir og óhagganlegir.‘ Mósía 29–Alma 4,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)

„3.–9. júní. Mósía 29–Alma 4,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)

Ljósmynd
Alma yngri prédikar

Alma yngri prédikar, eftir Gary L. Kapp

3.–9. júní: „Þeir voru staðfastir og óhagganlegir“

Mósía 29Alma 4

Sumir gætu séð tillögu Mósía konungs um að skipta konungunum út fyrir kosna dómara einungis sem skynsamlega stjórnmálalega umbót. Þessi breyting var þó líka andlega mikilvæg Nefítunum, einkum þeim sem lifað höfðu við ofríki hins rangláta Nóa konungs. Þeir höfðu séð hvernig ranglátur konungur hafði haft áhrif á fólk sitt og vildu „óþreyjufullir“ hverfa frá slíkum áhrifum. Þessi breyting myndi gera þeim kleift að bera sjálfir ábyrgð á eigin réttlæti og „svara fyrir eigin syndir“ (Mósía 29:38).

Auðvitað leysti það ekki allan vanda í samfélagi Nefítanna að konungar yrðu ekki lengur við völd. Slóttugir einstaklingar, eins og Nehor og Amlikí, kyntu undir fölskum hugmyndum, vantrúaðir ofsóttu hina heilögu og margir meðlimir kirkjunnar urðu hrokafullir og fráhverfir. „[Hinir auðmjúku fylgjendur Guðs]“ voru þó áfram „staðfastir og óhagganlegir,“ burtséð frá aðstæðum umhverfis (Alma 4:15; 1:25).

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Mósía 29:26–27; Alma 2:1–7

Ég get haft góð áhrif í samfélagi mínu.

Þegar valdatíð dómaranna hafði einungis staðið yfir í fimm ár, kom upp mál þar sem reyndi á þá staðhæfingu Mósía að rödd fólksins veldi yfirleitt hið rétta (sjá Mósía 29:26). Lærið Alma 2:1–7 til að komast að því hvert málið var og hvað Nefítarnir gerðu varðandi það. Hvað hefði getað gerst ef „fólkið í kirkjunni“ hefði ekki látið í sér heyra? Hvað fleira lærið þið af þessari frásögn um það hvernig Drottinn vill að þið takið þátt í samfélagi ykkar? (sjá einnig Mósía 29:26–27).

Hvaða mikilvægu málefni glímir samfélag ykkar við? Íhugið hvernig þið, líkt og Nefítarnir, getið tryggt að rödd ykkar fái heyrst meðal „raddar fólksins.“ Á hvaða annan hátt getið þið, sem fylgjendur Jesú Krists, haft áhrif í samfélagi ykkar til góðs?

Sjá einnig Dallin H. Oaks, „Elskið óvini ykkar,“ aðalráðstefna, október 2020.

Alma 1

Orð Guðs getur hjálpað mér að greina falskenningar.

Þótt Nehor hefði að endingu viðurkennt að kenningar hans væru rangar, þá höfðu þær áhrif á Nefítana í mörg ár. Af hverju haldið þið að fólk hafi líkað við það sem Nehor kenndi? Gætið að lygunum í kenningum Nehors í Alma 1:2–6 – og sannleikanum sem hann notaði til að dylja þessar lygar.

Gídeon stóðst Nehor „með orðum Guðs“ (Alma 1:7, 9). Hér eru nokkur ritningarvers sem hrekja lygar Nehors: Matteus 7:21–23; 2. Nefí 26:29–31; Mósía 18:24–26; og Helaman 12:25–26. Reynið að gera samantekt á hverjum ritningarhluta. Hvað hafið þið lært af lifandi spámönnum sem hrekur falskenningar okkar tíma?

Alma 1:19–31; 4:6–15

Sannir lærisveinar Jesú Krists eru „auðmjúkir fylgjendur Guðs.“

Kapítular 1 og 4 í Alma segja báðir frá tímabili þar sem kirkjan naut velsældar, en meðlimir kirkjunnar brugðust ólíkt við þeirri velsæld. Berið t.d. Alma 1:19–30 saman við Alma 4:6–15 til að sjá hvernig meðlimir kirkjunnar breyttust á aðeins fáeinum árum. Hvað finnst sönnum fylgjendum Jesú Krists um fólk sem hefur aðrar trúarskoðanir, byggt á því sem þið lásuð? Hvaða viðhorf hafa sannir fylgjendur Krists gagnvart ríkidómi og velsæld? Hvaða eigin viðhorfsbreytingar finnst ykkur þið hvött til að gera?

Tileinkið ykkur ritningarnar. Ígrundið hvernig sögur og kenningar ritninganna eiga við um líf ykkar sjálfra. Dæmi: Þið gætuð fundið að margt er líkt með vandamálum okkar tíma og þeim vandamálum sem Nefítarnir glímdu við í Alma 1–4.

Alma 4:6–20

Ljósmynd
trúarskólatákn
Fordæmi mitt og vitnisburður geta breytt hjörtum.

Þið getið ef til vill skilið sorg Alma þegar hann sá það sem var að gerast meðal fólks hans. Gætið að þeim vandamálum sem hann sá í Alma 4:6–15. Hafið þið tekið eftir einhverjum álíka vandamálum? Þið hafið ef til vill áhyggjur af ástvini sem stríðir við slík vandamál? Hafið þið velt fyrir ykkur hvað þið gætuð mögulega gert til að hjálpa?

Sumir gætu sagt að Alma, sem aðaldómari, væri sá besti til að leysa þessi vandamál. Alma fannst þó betri leið vera til. Hvað hrífur ykkur varðandi það hvernig hann liðsinnti fólki sínu, er þið lesið vers 16–20?

Alma hafði mikla trú á orði Guðs og „[falslausum vitnisburði]“ (vers 19). Hvaða dæmi hafið þið séð um áhrifamátt falslauss vitnisburðar? Þegar þið íhugið ýmsar leiðir til að miðla vitnisburði ykkar um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, gætuð þið lesið aftur Alma 4:6–14. Hvað sýna verk kirkjumeðlima í þessum versum um vitnisburð þeirra um Jesú Krist og kenningar hans? Hverju takið þið eftir varðandi áhrif verka þeirra – á þá sjálfa og aðra? Þið gætuð líka hugsað um hvernig þið hafið hlotið blessun af falslausum vitnisburði annarra, hvort sem honum var miðlað með orðum eða verkum.

Íhugið hvernig þið gætuð miðlað vitnisburði ykkar um Jesú Krist – með orðum eða verkum. Hverjir myndu hafa gagn af vitnisburði ykkar?

Sjá einnig Gary E. Stevenson, „Að næra og gefa vitnisburð ykkar,“ aðalráðstefna, október 2022; „Vitnisburður,“ Sálmar, nr. 37; „Alma the Younger Steps Down as Chief Judge“ (myndband), Gospel Library; Leiðarvísir að ritningunum, „Opinberun,“ Gospel Library.

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Alma 1:2–9

Drottinn getur hjálpað mér að greina falskenningar.

  • Ein leið til að læra Alma 1:2–4 með börnum ykkar er að hjálpa þeim að búa til sannar eða ósannar spurningar með því að nota staðhæfingar sem Nehor, sem var falskennari, kenndi. Þið gætuð síðan rætt við þau um ástæður þess að Satan blandar oft saman sannleika og lygi. Hjálpið börnum ykkar að hugsa um nokkur dæmi. Hvernig stóðst Gídeon lygar Nehors í versum 7–9? (Sjá einnig „kafla 20: Alma og Nehor,“ Sögur úr Mormónsbók, 54–55.)

Alma 1:19–25

Sem meðlimur kirkju Jesú Krists, elska ég aðra og þjóna þeim.

  • Sumir meðlimir kirkju Drottins á tíma Alma voru göfugir og gjafmildir og aðrir meðlimir voru óvinsamlegir og drambsamir. Til að hjálpa börnum ykkar að læra af þessari reynslu, gætuð þið lesið saman Alma 1:27, 30 og skráð hvers konar fólk það var sem meðlimir kirkju Drottins hjálpuðu. Hverja þekkjum við sem „[þurfa] einhvers með“ (Alma 1:30) og kærleika okkar og hjálp? Þið gætuð líka sungið saman söng um elsku og þjónustu, eins og „Góðvildin hefst hjá mér“ (Barnasöngbókin, 83) og hjálpað börnunum að hugsa um hreyfingar sem gætu fylgt söngnum.

  • Hvað eigum við að gera þegar fólk er óvingjarnlegt við okkur? Íhugið að lesa með börnum ykkar hvernig komið var fram við fylgjendur Krists í Alma 1:19–20. Ræðið um það hvernig þeir brugðust við í versum 22 og 25. Þið gætuð ef til vill æft hvernig rétt væri að bregðast við þegar aðrir eru óvinsamlegir.

Alma 4:8–20

Vitnisburður minn getur styrkt aðra.

  • Oft getur „falslaus vitnisburður“ (Alma 4:19) barns haft mikil áhrif á aðra. Til að hjálpa börnum ykkar að uppgötva þetta, gætuð þið lesið með þeim Alma 4:8–12, 15 og hjálpað þeim að bera kennsl á vandamálin sem voru að gerast í kirkjunni. Hvað gæti Alma gert til að leysa þessi vandamál? Hjálpið þeim að komast að því hvað Alma ákvað að gera í Alma 4:16–20. Þið gætuð ef til vill miðlað hvert öðru hvernig vitnisburður einhvers um Krist hefur styrkt ykkur.

  • Ef börn ykkar þurfa dæmi um það hvað vitnisburður er, íhugið þá að sýna myndskeið af ræðumanni á aðalráðstefnu sem gefur vitnisburð. Þið gætuð líka notað verkefnasíðu vikunnar eða sungið saman söng eins og „Vitnisburður“ (Sálmar, nr. 37). Hvað lærum við um vitnisburði af þessum heimildum? Látið börn ykkar æfa sig í því að gefa vitnisburði sína.

Sjá tímaritið Barnavinur fyrir fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
Nefítar berjast við Amlikíta

Alma og Amlikí, eftir Scott Snow