Aðalráðstefna
Áætlunin mikla
Aðalráðstefna apríl 2020


Áætlunin mikla

Okkur, sem þekkjum áætlun Guðs og höfum gert sáttmála um þátttöku, ber rík skylda til að kenna þennan sannleika.

Við erum sannlega blessuð, jafnvel mitt í sérstökum raunum og áskorunum! Þessi aðalráðstefna hefur fyllt okkur auðgi og gleði endurreisnar fagnaðarerindis Jesú Krists. Við höfum fagnað yfir birtingu föðurins og sonarins, sem markaði upphaf endurreisnarinnar. Við höfum verið minnt á hina undursamlegu fram komu Mormónsbókar, sem hefur þann megin tilgang að vitna um Jesú Krist og kenningu hans. Við höfum eflst af gleðilegum raunveruleika opinberunar – til spámanna og okkar sjálfra. Við höfum hlýtt á dýrmæta vitnisburði um hina altæku friðþægingu Jesú Krists og bókstaflega upprisu hans. Við höfum líka lært hér annan sannleika um fyllingu fagnaðarerindis hans, opinberaðan Joseph Smith, eftir að Guð faðirinn hafði staðfest hinum nýkallaða spámanni: „Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“ (Joseph Smith – History 1:17).

Við höfum styrkst í þekkingu okkar á endurreisn prestdæmisins og lyklum þess. Við höfum einsett okkur ennfrekar að rétt nafn hinnar endurreistu kirkju Drottins verði kunnugt, eða Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Okkur hefur líka verið boðið að sameinast í föstu og bæn, um að skaði þessa heimsfaraldurs, nú og um framtíð, verði sem minnstur. Í morgun vorum við innblásinn af hinum lifandi spámanni, sem kynnti sögulega yfirlýsingu um endurreisnina. Við staðfestum orð hennar, um að „þeir sem af kostgæfni ígrunda boðskap endurreisnarinnar og ganga fram í trú, mun blessaðir til að hljóta eigin vitnisburð um guðleika hennar og tilgang hennar til að búa heiminn undir síðari komu Drottins okkar, Jesú Krists.“1

Áætlunin

Allt þetta er hluti af guðlegri áætlun, sem hefur að tilgangi að gera börnum Guðs kleift að verða upphafin og eins og hann er. Í ritningunum er vísað til hennar sem „hinnar mikla sæluáætlunar,“ „endurlausnaráætlunar“ og „hinnar miklu sáluhjálparáætlunar“ (Alma 42:8, 11, 5), en sú áætlun – opinberuð í endurreisninni – hófst á þingi himins. Við þráðum, sem andar, að öðlast hið eilífa líf sem himneskir foreldrar okkar bjuggu að. Á þeim tímapunkti höfðum við náð hámarks framþróun, án jarðneskrar reynslu í efnislíkama. Guð faðirinn ráðgerði að skapa þessa jörð, til að sjá okkur fyrir þeirri reynslu. Í hinu fyrirhugaða jarðlífi yrðum við óhrein af synd, er við upplifðum andstæðu, nauðsynlega til andlegs vaxtar. Við yrðum líka háð líkamlegum dauða. Áætlun himnesks föður myndi sjá okkur fyrir frelsara, til að endurheimta okkur frá dauða og synd. Upprisa hans myndi endurleysa alla frá dauða og friðþægingarfórn hans myndi greiða hið nauðsynlega gjald til syndahreinsunar allra, bundið þeim skilyrðum sem gera okkur kleift að vaxa. Þessi friðþæging Jesú Krists er þungamiðja áætlunar föðurins.

Á þingi himins var öllum andabörnum Guðs kynnt áætlun föðurins, ásamt afleiðingum og raunum jarðlífsins, liðsinni himins og dýrðlegum örlögum. Við sáum endinn frá upphafinu. Allur aragrúi dauðlegra manna sem fæðst hefur í þennan heim, kaus áætlun föðurins og barðist fyrir henni í því himneska stríði sem á eftir fylgdi. Margir gerðu líka sáttmála við föðurinn um hvað þau myndu gera í hinu dauðlega lífi. Verk okkar í andheiminum hafa haft áhrif á aðstæður okkar í jarðlífinu á þann hátt sem enn hefur ekki verið opinberað.

Jarðlífið og andaheimurinn

Ég ætla nú að taka saman nokkra megin þætti áætlunar föðurins, eins og þeir hafa áhrif á okkur í okkar jarðneska ferðalagi og í andaheiminum sem á eftir fylgir

Jarðlífið og sá vöxtur sem getur orðið í eftirlífinu, eru til þess gerð að afsprengi Guðs geti orðið eins og hann er. Þetta er þrá himnesks föður fyrir öll börn hans. Eilíf lögmál gera kröfu um að við verðum hrein fyrir tilstilli friðþægingar Jesú Krists, til að þessi gleðilegu örlög nái fram að ganga, svo við fáum dvalið í návist föðurins og sonarins og notið blessana upphafningar. Líkt og Mormónsbók kennir, þá býður hann „öllum sem einum að koma til sín og verða gæsku sinnar aðnjótandi. Hann neitar engum að koma til sín, hvorki svörtum né hvítum, ánauðugum né frjálsum, karli né konu. Og hann minnist heiðingjanna, og allir eru jafnir fyrir Guði“ (2. Nefí 26:33; sjá einnig Alma 5:49).

Hin guðlega áætlun um að við getum orðið það sem okkur er ætlað að verða, gerir kröfu um að við veljum að hafna hinni illu andstæðu, sem freistar manna að breyta þvert á boðorð og áætlun Guðs. Hún gerir líka kröfu um að við verðum háð annarskonar jarðneskri andstæðu, svo sem vegna synda annarra eða vegna einhverra fæðingargalla. Stundum verður nauðsynlegum vexti okkar betur náð með þjáningum og mótlæti, en með þægindum og friðsæld. Engin þessara jarðnesku andstæðna næði sínum eilífa tilgangi, nema til kæmi guðleg íhlutun sem leysti okkur frá öllum skaðlegum afleiðingum jarðlífsins.

Áætlunin afhjúpar örlög okkar í eilífðinni, tilgang og skilyrði jarðneskrar ferðar okkar og hið himneska liðsinni sem við munum hljóta. Boðorð Guðs vara okkur við að villast í hættulegar aðstæður. Kenningar innblásinna leiðtoga vísa okkur veg og veita fullvissu sem eflir eilífðarferð okkar.

Áætlun Guðs veitir okkur fjórþætta dásamlega fullvissu, okkur til liðsinnis í jarðlífinu. Hver þeirra veitist með friðþægingu Jesú Krists, þungamiðju áætlunarinnar. Í fyrsta lagi erum við fullvissuð um að við getum hreinsast af þeim syndum sem við iðrumst af, sökum þjáninga hans. Hinn miskunnsami lokadómari „minnist þeirra ekki lengur,“ ef við gerum það (Kenning og sáttmálar 58:42).

Í öðru lagi að frelsarinn tók á sig allan annan vanmátt manna, sem hluta af friðþægingu sinni. Það gerir okkur kleift að hljóta guðlegt liðsinni og styrk til að bera allar óhjákvæmilegar byrðar jarðlífsins, persónulegar og almennar, svo sem stríð og farsóttir. Í Mormónsbók er skýrasta ritningarlega lýsingin á þessum nauðsynlega krafti friðþægingarinnar. Frelsarinn tók á sig „sársauka og sjúkdóma [og vanmátt] fólks síns. … Hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess“ (Alma 7:11–12).

Í þriðja lagi gerir frelsarinn dauðann endanlegan, með sinni óendanlegu friðþægingu, og veitir okkur þá gleðilegu fullvissu að við verðum öll reist upp. Mormónsbók kennir: „Þessi endurreisn skal öllum hlotnast, bæði öldnum og ungum, bæði ánauðugum og frjálsum, bæði körlum og konum, bæði ranglátum og réttlátum. Og ekki svo mikið sem eitt hár á höfði þeirra mun glatast, heldur mun sérhver hlutur endurreistur til sinnar fullkomnu umgjarðar“ (Alma 11:44).

Við minnumst raunveruleika upprisunnar á þessari páskatíð. Þetta veitir okkur skilning og styrk til að takast á við þær jarðnesku áskoranir sem hvert okkar og ástvinir okkar glíma við, svo sem líkamlegar, andlegar eða tilfinningalegar, sem við fæðumst með eða upplifum í jarðlífinu. Sökum upprisunnar, vitum við að slíkir jarðneskir vankantar eru tímabundnir!

Hið endurreista fagnaðarerindi fullvissar okkur um að með upprisunni gefist okkur kostur á að vera með fjölskyldu okkar – eiginmanni, eiginkonu, foreldrum og börnum. Þetta er okkur mikil hvatning til að framfylgja fjölskylduábyrgð okkar í jarðlífinu. Hún hjálpar okkur að lifa saman í kærleika í þessu lífi og vænta gleðifundar og sameiningar í því næsta.

Í fjórða og síðasta lagi kennir nútíma opinberun að framþróun okkar þurfi ekki að ljúka við jarðlífslok. Fátt hefur verið opinberað um þessa mikilvægu fullvissu. Okkur er sagt að lífið hér sé til að búa sig undir að mæta Guði og að við ættum ekki að fresta iðrun okkar (sjá Alma 34:32–33). Okkur er þó líka sagt að fagnaðarerindið sé prédikað í andaheiminum, jafnvel „meðal hinna ranglátu og óhlýðnu, sem hafnað höfðu sannleikanum“ (Kenning og sáttmálar 138:29) og að þeir, sem fá kennslu þar, geti iðrast áður en lokadómurinn verður (sjá vers 31–34, 57–59).

Hér eru nokkur fleiri grundvallaratriði áætlunar himnesks föður.

Hið endurreista fagnaðarerindi veitir okkur einstakan skilning á þáttum eins og skírlífi, hjónabandi og meðgöngu barna. Það kennir að hjónabandið sé nauðsynlegt til að uppfylla tilgang áætlunar Guðs, sem er guðlega tilnefnd umgjörð fyrir barnsfæðingar og undirbúning fjölskyldunnar fyrir eilíft líf. „Hjónabandið hefur Guð vígt manninum til handa,“ sagði Drottinn, „… til þess að jörðin nái tilgangi sköpunar sinnar“ (Kenning og sáttmálar 49:15). Áætlun hans er auðvitað í andstöðu við sum veraldleg lög og hefðir, hvað þetta varðar.

Krafturinn til að skapa dauðlegt líf, er háleitasti og helgasti krafturinn sem Guð hefur gefið börnum sínum. Hann var tilskipaður í fyrsta boðorðinu til Adams og Evu, en annað mikilvægt boðorð var gefið til að óheimila misnotkun á honum. Öll notkun sköpunarkraftsins utan hjónabands er að meiru eða minna leyti syndsamleg óvirðing og siðspilling á guðlegasta eiginleika karla og kvenna. Sú áhersla sem lögð er á skírlífislögmálið í hinu endurreista fagnaðarerindi, skýrist af tilgangi sköpunarkrafts okkar við að framfylgja áætlun Guðs.

Hvað er næst?

Á þessu 200 ára afmæli Fyrstu sýnarinnar, sem markaði upphaf endurreisnarinnar, þekkjum við áætlun Drottins og í tvær aldir höfum við notið hvatningar blessana hennar fyrir tilstilli hinnar endurreistu kirkju hans. Á þessu ári, 2020, sjáum við atburði fortíðar með því sem oft er kallað 20/20 sjónskerpu.

Þegar við horfum til framtíðar er sýn okkar þó mun óvissari. Við vitum að tveimur öldum eftir endurreisnina eru margir jarðlífsreyndir verkamenn nú í andaheiminum sem vinna að boðuninni sem þar á sér stað. Við vitum líka að fjöldi mustera er langtum meiri til að framkvæma helgiathafnir eilífðar, fyrir þá sem iðrast og taka á móti fagnaðarerindi Drottins, beggja vegna hulunnar. Allt er þetta til að hraða áætlun himnesks föður. Elska Guðs er svo altæk að hann hefur séð öllum börnum sínum fyrir dýrðlegum örlögum, nema þeim fáu sem af ráðnum hug verða glötunarsynir (sjá Kenning og sáttmálar 76:43).

Við vitum að frelsarinn kemur aftur og að friður mun ríkja í þúsund ár, til að ljúka jarðneskum þætti áætlunar Guðs. Við vitum líka að það verða mismunandi upprisur, réttlátra og ranglátra, með endanlegum dómi hvers og eins, sem alltaf fylgir í kjölfar upprisu hans eða hennar.

Við verðum dæmd af verkum okkar og hjartans þrám, og af því hvernig menn við höfum orðið. Af dómnum leiðir að öll börn Guðs fara áfram í dýrðarríki, er samræmist hlýðni þeirra, sem verður þeim geðfellt. Dómari alls þessa er frelsari okkar, Jesús Kristur (sjá Jóhannes 5:22; 2. Nefí 9:41). Í alvisku hans felst fullkomin þekking á öllum okkar verkum og þrám, bæði hinna iðrunarlausu, eða sem ekki hafa breyst, og hinna iðrunarfullu eða réttlátu. Eftir dóm hans, munu því allir játa „að dómar hans eru réttvísir“ (Mósía 16:1).

Að lokum miðla ég þeirri sannfæringu sem ég hef hlotið af mörgum bréfum og skoðun margra beiðna um að snúa aftur til kirkjunnar eftir fráhvarf eða fjarlægingu nafns. Margir meðlima okkar skilja ekki þessa sáluhjálparáætlun, sem svarar flestum spurningum um kenninguna og innblásnar reglur hinnar endurreistu kirkju. Okkur, sem þekkjum áætlun Guðs og höfum gert sáttmála um þátttöku, ber rík skylda til að kenna þennan sannleika og gera allt sem við getum til að efla hann fyrir aðra og í okkar eigin aðstæðum í jarðlífinu. Ég ber vitni um að Jesús Kristur, frelsari okkar og lausnari, gerir þetta allt mögulegt, í nafni Jesú Krist, amen.

Heimildir

  1. „Endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists: Tveggja alda yfirlýsing til heimsins,“ í Russell M. Nelson, „Hlýð þú á hann,“ aðalráðstefna, apríl 2020.