Aðalráðstefna
Hann fer fyrir okkur
Aðalráðstefna apríl 2020


Hann fer fyrir okkur

Drottinn er að leiða endurreisn fagnaðarerindis síns og kirkju sinnar. Hann þekkir framtíðina fullkomlega. Hann býður ykkur til verksins.

Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir að vera meðal ykkar á þessari aðalráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Í boði sínu um að ígrunda hvernig endurreisn Drottins á kirkju sinni í þessari síðustu ráðstöfun hefur blessað okkur og ástvini okkar, lofaði Russell M. Nelson forseti að reynsla okkar yrði ekki aðeins eftirminnileg heldur ógleymanleg.

Upplifun mín hefur verið eftirminnileg, líkt og ég er viss um að ykkar hafi líka verið. Hvort hún verður ógleymanleg, er undir hverju okkar komið. Það er mér mikilvægt, því hin eftirminnilega upplifun við að búa mig undir þessa ráðstefnu, hefur breytt mér á þann hátt sem ég vil að verði varanlegur. Leyfið mér að útskýra.

Undirbúningur minn fólst með frásögn um atburð sem tengist endurreisninni. Ég hafði oft lesið um þann atburð, en hann hafði alltaf verið mér aðeins frásögn um mikilvægan fund sem tengdist Joseph Smith, spámanni endurreisnarinnar. Í þetta sinn skynjaði ég í frásögninni hvernig Drottinn leiðir okkur, lærisveina sína, í kirkju sinni. Ég skynjaði merkingu þess fyrir okkur jarðarbúa að vera leidd af frelsara heimsins, skaparanum – sem þekkir allt, fortíð, nútíð og framtíð. Hann kennir okkur, skref fyrir skref, leiðir og þvingar aldrei.

Fundurinn sem ég lýsi var mikilvæg stund í endurreisninni. Það var hvíldardagssamkoma 3. apríl 1836, í Kirtland-musterinu í Ohio, sjö dögum eftir vígslu þess. Joseph Smith lýsti þessari stórkostlegu stund í sögu heimsins á einfaldan hátt. Megnið af frásögn hans er skráð í 110. kafla Kenningar og sáttmála:

„Um miðjan dag aðstoðaði ég aðra forseta við að deila út kvöldmáltíð Drottins til safnaðarins, en við henni tókum við af hinum tólf, sem nutu þeirra forréttinda þann dag að þjóna við hið heilaga borð. Eftir að hafa veitt bræðrum mínum þessa þjónustu fór ég aftur að ræðustólnum, fyrir luktum tjöldum, og laut ásamt Oliver Cowdery í helgri og hljóðri bæn. Eftir að við risum upp frá bæninni, birtist eftirfarandi sýn okkur báðum.“1

„Hulunni var svipt frá hugum okkar og augu skilnings okkar lukust upp.

Við sáum Drottin standa á brjósthlíf prédikunarstólsins, frammi fyrir okkur, og undir fótum hans var stétt úr skíru gulli, rauðgullin á lit.

Augu hans voru sem eldslogi, hárið á höfði hans var hvítt sem nýfallin mjöll, ljóminn frá svip hans bar af ljóma sólarinnar og rödd hans var sem dynur mikilla vatnsfalla, já, rödd Jehóva, sem sagði:

„Ég er hinn fyrsti og hinn síðasti. Ég er sá, sem lifir. Ég er sá, sem deyddur var. Ég er málsvari yðar hjá föðurnum.

Sjá, syndir yðar eru yður fyrirgefnar. Þér eruð hreinir fyrir mér, lyftið því höfði og fagnið.

Lát hjörtu bræðra yðar fagna og lát hjörtu alls míns fólks fagna, sem af mætti sínum hafa reist nafni mínu þetta hús.

Því að sjá, ég hef veitt þessu húsi viðtöku og nafn mitt skal vera hér. Og af miskunn mun ég opinbera mig fólki mínu í þessu húsi.

Já, ég mun birtast þjónum mínum og mæla til þeirra eigin röddu, ef fólk mitt heldur boðorð mín og vanhelgar ekki þetta heilaga hús.

Já, hjörtu þúsunda og tugþúsunda skulu fagna ákaft yfir þeim blessunum, sem úthellt verður, og þeirri gjöf, sem þjónum mínum hefur verið veitt í þessu húsi.

Og frægð þessa húss mun breiðast til annarra landa, og þetta er upphaf þeirra blessana, sem úthellt verður yfir fólk mitt. Já, vissulega. Amen.

Eftir að sýn þessari lauk, lukust himnarnir enn upp fyrir okkur og Móse birtist okkur og fól okkur lyklana að samansöfnun Ísraels frá hinum fjórum heimshlutum og að leiða ættkvíslirnar tíu úr landinu í norðri.

Eftir það birtist Elías og fól okkur ráðstöfun fagnaðarboðskapar Abrahams, sagði að með okkur og niðjum okkar verði allar kynslóðir eftir okkur blessaðar.

Eftir að þeirri sýn lauk, birtist okkur önnur mikil og dýrðleg sýn, því að spámaðurinn Elía, sem hrifinn var til himins án þess að smakka dauðann, stóð frammi fyrir okkur og sagði:

Sjá, sá tími er nú að fullu kominn, sem talað var um fyrir munn Malakís – er vitnaði að hann [Elía] yrði sendur, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kæmi –

Til að snúa hjörtum feðranna til barnanna og barnanna til feðranna, til þess að öll jörðin verði ekki lostin banni –

Þess vegna eru lyklar þessara ráðstafana seldir yður í hendur, og með því skuluð þér vita, að hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins er í nánd, já, fyrir dyrum.“2

Ég hafði lesið þessa frásögn ótal sinnum áður. Heilagur andi hafði staðfest fyrir mér að frásögnin væri sönn. Þegar ég hins vegar ígrundaði og bjó mig undir þessa ráðstefnu, fór ég að sjá betur mátt Drottins til að leiða lærisveina sína nákvæmlega í þessu verki.

Sjö árum áður en Móse veitti Joseph lykla samansöfnunar Ísraels í Kirtland-musterinu, „uppgötvaði Joseph frá titilsíðu Mormónsbókar að tilgangur hennar væri að ,sýna leifum Ísraelsættar, … að þeir fái þekkt sáttmála Drottins og viti, að þeim er ekki að eilífu vísað frá.‘ Árið 1831 sagði Drottinn við Joseph að samansöfnun Ísraels myndi hefjast í Kirtland og ,þaðan [frá Kirtland] skal hver sem ég óska fara út á meðal allra þjóða, … og ég mun leiða þá hvert sem ég vil.‘“3

Þótt trúboðsstarf væri nauðsynlegt til samansöfnunar Ísraels, þá innblés Drottinn leiðtoga sína til að kenna hinum Tólf, sem sumir urðu meðal fyrri trúboða okkar: „Hafið í huga að þið eigið ekki að fara til annarra þjóða, fyrr en þið hafið hlotið musterisgjöf ykkar.“4

Svo virðist sem Kirtland-musterið hafi verið mikilvægt í aðgerðaáætlun Drottins, af hið minnsta tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi beið Móse þess að lokið yrði við musterið til að endurreisa lyklana að samansöfnun Ísraels. Í öðru lagi þá kenndi Joseph Fielding Smith: „Drottinn bauð hinum heilögu að byggja musteri [Kirtland-musterið], þar sem hann hugðist opinbera lykla valds og hægt væri að veita postulunum musterisgjöf sína og búa þá undir að sniðla víngarðinn í síðasta sinn.“5 Þótt musterisgjöfin, eins og við þekkjum hana á okkar tíma, hafi ekki verið þjónustuð í Kirtland-musterinu, þá voru helgiathafnir undirbúnings fyrst kynntar þar, ásamt úthellingu andlegra vitrana, sem veitti þeim sem kallaðir voru í trúboð „[kraft] frá upphæðum,“ sem leiddi til mikillar samansöfnunar fyrir tilverknað trúboðs.6

Eftir að lyklar samansöfnunar voru veittir Joseph, hvatti Drottinn spámanninn til að senda meðlimi hinna Tólf í trúboð. Við námið varð mér ljóst að Drottinn hafði nákvæmlega fyrirbúið að hinir Tólf færu í trúboð erlendis, þar sem fólk hafði verið búið undir að trúa og styðja þá. Í tímans rás yrðu þúsundir leiddir í hina endurreistu kirkju Drottins fyrir þeirra tilverknað.

Samkvæmt okkar skýrslum er áætlað að milli 7.500 til 8.000 manns hefðu látið skírast í tveimur trúboðsferðum hinna Tólf til Bretlands. Það lagði grunn að trúboðsstarfi í Evrópu. Í lok 19. aldar höfðu um 90.000 komið til Ameríku og flestir þeirra frá Bretlandi og Skandinavíu.7 Drottinn hafði innblásið Joseph og þessa dyggu trúboða, sem tóku til starfa við að yrkja akur sem hlýtur að hafa virst umfram þeirra eigin getu. Drottinn gerði það mögulegt af fullkominni framsýni og fyrirsjá.

Þið munið eftir hinu einfalda og næstum ljóðræna máli í 110. kafla Kenningar og sáttmála:

Sjá, sá tími er nú að fullu kominn, sem talað var um fyrir munn Malakís – er vitnaði að hann [Elía] yrði sendur, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kæmi –

Til að snúa hjörtum feðranna til barnanna og barnanna til feðranna, til þess að öll jörðin verði ekki lostin banni –

Þess vegna eru lyklar [þessarar ráðstöfunar] seldir yður í hendur, og með því skuluð þér vita, að hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins er í nánd, já, fyrir dyrum.“8

Ég ber vitni um að Drottinn sá langt inn í framtíðina og hvernig hann hugðist leiða okkur, sér til hjálpar við að koma tilgangi sínum til leiðar á síðustu dögum.

Þegar ég þjónaði í Yfirbiskupsráðinu fyrir mörgum árum, var mér boðið að hafa umsjá með hópi sem sá um hönnun og þróun þess sem við nefndum FamilySearch. Af varkárni segi ég að ég hafi haft „umsjá“ með sköpuninni, fremur en að „stjórna“ henni. Margt snjallt fólk hætti í öðrum störfum til að þróa það sem Drottinn æskti.

Æðsta forsætisráðið hafði sett markmið um að minnka tvítekningar helgiathafna. Megin áhyggjuefni okkar var að geta ekki vitað hvort helgiathöfn einstaklings hefði þegar verið framkvæmd. Í mörg ár – eða það sem virtist mörg ár – spurði Æðsta forsætisráðið mig: „Hvenær verður þetta tilbúið hjá þér?“

Fyrir bænir, kostgæfni og persónulegar fórnir mikilhæfs fólks, var verkinu lokið. Það gerðist skref fyrir skref. Fyrsta viðfangsefnið var að gera FamilySearch notendavænt fyrir þá sem ekki voru vanir tölvum. Fleiri breytingar urðu, og ég veit að þær munu halda áfram að verða, því þegar við vinnum að því að leysa eitt innblásið vandamál, opnum við dyr fyrir frekari opinberanir að framförum, sem hið minnsta eru jafn mikilvægar, en enn ófyrirséðar. Í dag er FamilySearch að verða það sem Drottinn þarfnast fyrir hluta endurreisnar sinnar – og ekki bara til að forðast tvíverknað helgiathafna.

Drottinn gerir framfarir mögulegar, til að gera fólki kleift að hljóta tilfinningu um kunnugleika og jafnvel elsku til áa sinna og til að vinna fyrir þá helgiathafnir musterisins. Nú, eins og Drottinn vissi vissulega að myndi gerast, er ungt fólk að verða tölvukennarar fyrir foreldra sína og deildarmeðlimi. Allir hafa fundið mikla gleði í þessari þjónustu.

Andi Elía er að breyta hjörtum ungra og aldinna, barna og foreldra, barnabarna og afa og amma. Musteri munu brátt aftur af gleði skipuleggja tækifæri til skírnar og annarra helgiathafna. Þráin til að þjóna forfeðrum okkar og tenging foreldra og barna fer vaxandi.

Drottinn sá þetta allt fyrir. Hann ráðgerði það, skref fyrir skref, eins og hann hefur gert með aðrar breytingar í kirkju sinni. Hann hefur reist upp og undirbúið trúfast fólk, sem kýs að gera erfiða hluti af natni. Hann hefur alltaf sýnt okkur kærleika og þolinmæði við að læra „orð á orð ofan og setning á setning ofan, örlítið hér, örlítið það.“9 Hann stendur fast við tímasetningu og atburðarás áætlana sinna, en gætir þess þó að fórnin leiði oft til stöðugra blessana, sem við sáum ekki fyrir.

Ég lýk með því að tjá þakklæti mitt til Drottins – þess sem innblés Nelson forseta til að bjóða mér að færa þá fórn að búa mig undir þessa ráðstefnu. Sérhver stund og sérhver bæn í undirbúningi mínum leiddi til blessunar.

Ég býð öllum sem heyra þennan boðskap eða lesa hann að hafa trú á að Drottinn er að leiða endurreisn fagnaðarerindis síns og kirkju sinnar. Hann fer fyrir okkur. Hann þekkir framtíðina fullkomlega. Hann býður ykkur til verksins. Hann gengur til liðs við ykkur í því. Hann hefur áætlun til staðar fyrir þjónustu ykkar. Þið munuð finna gleði, jafnvel er þið fórnið, þegar þið hjálpið öðrum að rísa og búa sig undir komu hans.

Ég ber ykkur vitni um að Guð faðirinn lifir. Jesús er Kristur. Þetta er kirkjan hans. Hann þekkir og elskar ykkur. Hann leiðir ykkur. Hann hefur búið ykkur leið. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.